Fréttir

Matís með kynningu á Landsmóti hestamanna

Frábært Landsmót Hestamanna var haldið á Vindheimamelum í blíðskapar veðri vikuna 26. júní – 3. júlí sl. Er það mál manna að vel hafi tekist til með alla umgjörð og hestakosturinn verið góður. Matís var með kynningu á Landsmótinu þar sem Guðbjörg Ólafsdóttir kynnti m.a. erfðagreiningar hesta og hunda.

Erfðagreiningar á dýrum eru ekki algengar á Íslandi og er Matís eina fyrirtækið sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum hér á landi. Til að mynda þá erfðagreinir Matís alla hesta fyrir WorldFengur, upprunabók íslenska hestsins, en WorldFengur safnar saman upplýsingum um íslenska hesta innan landa FEIF (alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins) og eru þær aðgengilegar á vefnum.

Landsmót 2011

WorldFengur er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF um að þróa einn og viðurkenndan miðlægan gagnagrunn um íslenska hestinn hvar sem er í heiminum. Í WorldFeng er að finna viðamiklar upplýsingar um á þriðja hundrað þúsund íslenskra hesta og eykst fjöldi þeirra á hverjum degi. Mætti t.d. finna upplýsingar um ættartölu, afkvæmi, kynbótadóma, eigendur, ræktendur, kynbótamat, liti, örmerki og fleira. Einnig hefur WorldFengur að geyma um 5.000 myndir af kynbótahrossum.

Markmið Matís er að nýta erfðatækni til DNA greininga af ýmsu tagi, t.d. hestagreiningar eins og greint er frá hér á undan. Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Nánari upplýsingar veitir Anna K. Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfi og erfða.

Fréttir

Fyrsta ráðstefnan um umhverfismengun á Íslandi

Fyrsta ráðstefnan um umhverfismengun á Íslandi var haldin í Reykjavík sl. vetur. Markmiðið með ráðstefnunni var að kynna vinnu og niðurstöður helstu aðila sem vinna við að meta mengun á Íslandi.  Áhersla var lögð á að allir vöktunar- og rannsóknaaðilar kæmu með framlag á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni var skipt í tvo hluta.  Fyrir hádegi var lögð áhersla á vöktun umhverfismengunar í íslenskri náttúru.  Að loknum hádegisverði voru kynningar á rannsóknum á mengun í lofti, legi, jarðvegi, mönnum og dýrum.  Fyrirkomulag ráðstefnunnar var sú að í hverjum hluta voru valin nokkur erindi frá innsendum ágripum þar sem áhersla var á vöktun annars vegar og rannsóknir hins vegar. Þessi erindi veittu yfirsýn yfir stöðu máli á Íslandi í dag. Einnig var rík áhersla lögð á veggspjöld þar sem rannsóknaaðilum gafst kostur á að kynna sín verkefni.  Ráðstefnugestum gáfust færi á að kynna sér þau fjölbreyttu vöktunar- og rannsóknaverkefni á þessum veggspjöldum og ræða persónulega við rannsakendur um þau verkefni í kaffihléum og veggspjaldakynningum.

Mjög öflugt og áhugavert ráðstefnurit var gefið út vegna þessa viðburðar og má finna ritið hér.
Í skipulagsnefnd fyrstu ráðstefnunnar um umhverfismengun á Íslandi voru eftirfarandi einstaklingar:

Gunnar Steinn Jónsson Umhverfisstofnun, gunnar@ust.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Matís, hronn.o.jorundsdottir@matis.is
Taru Lehtinen HÍ, tmk2@hi.is

Í vísindanefnd sátu: Hrund Ólöf Andradóttir, HÍ, Taru Lehtinen, HÍ, Kristín Ólafsdóttir, HÍ, Gunnar Steinn Jónsson, UST, Hermann Sveinbjörnsson, umhverfisráðuneyti, Anna Kristín Daníelsdóttir, Matís, Helga Gunnlaugsdóttir, Matís, Hrönn Jörundsdóttir, Matís.

Fréttir

Fiskifagkeppni 2011

Þú gætir verið á leið á Norðurlandamót þar sem heildarverðmæti vinninga er hartnær 400 þús. ISK.

Stefnt er að því að halda í fyrsta skipti á Íslandi, fagkeppni í vinnslu og framsetningu á fiskafurðum í söluborðum fisbúða og stórverslana. Matís mun halda utan um keppnina sem er einstaklingskeppni. Ef næg þátttaka næst, verður haldin forkeppni í lok ágúst í höfuðstöðvum Matís, Vínlandsleið 12 Reykjavík og úrslitakeppni um miðjan september. Stefnt er að því að vinningshafinn ásamt þeim sem lendir í öðru sæti munu svo halda áfram og keppa fyrir Íslands hönd í norrænni fagkeppni sem heitir „Nordisk Mesterskap í Sjömat“. Vinningshafi í þeirri keppni mun fá titilinn Norðurlandameistari og fá farandbikar sem hann skilar að ári liðnu. Þrír efstu verðlaunahafarnir fá peningaverðlaun upp á 10.000 NOK, 5.000 NOK og 3.000 NOK ásamt viðurkenningarskírteinum.

Fiskbúðirnar í skjalinu hér að neðan munu fá þetta bréf sent. Ef þú veist um líklegan þátttakanda sem ekki er á þessum lista þá vinsamlegast komið upplýsingum áleiðis.

Öllum þeim sem telja sig búa yfir nægjanlegri færni og þekkingu á viðfangsefninu er heimil þátttaka. Áhugasamir vinsamlegast setjið ykkur í samband við Gunnþórunni Einarsdóttur, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is eða Óla Þór Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is.

Nánari útlistun á reglum keppninnar má finna í skjalinu hér.

Fréttir

Breytileiki á eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum

Makríll hefur á síðustu árum gengið í vaxandi mæli inn í íslenskra lögsögu en hingað kemur fiskurinn í ætisleit yfir sumarið.

Eiginleikar makríls eftir árstíma
Á þeim tíma sem makríllinn veiðist hér við land frá byrjun júní og fram á haust eiga sér stað umtalsverðar breytingar á efnasamsetningu og eiginleikum makríls. Við upphaf vertíðar er fituinnihald í vöðva um 7-10% en um miðjan ágúst er hlutfall nálægt 30%. Á sama tíma fer vatnsinnihald lækkandi á meðan próteininnihald er tiltölulega stöðugt.  Eftir miðjan ágúst fer fituinnihald að lækka aftur.  Breytileiki í hráefnisgæðum og afurðum er því mikill á þeim tíma sem fiskurinn veiðist hér við land sem aftur hefur áhrif á inn á hvaða markaði afurðir fara.

Til að byrja með var makríll nýttur í miklum mæli til mjöl- og lýsisvinnslu en hlutur þess afla sem frystur er til manneldis hefur farið vaxandi.  Því er mikilvægt að þekkja vel þær breytur sem áhrif hafa á hráefnisgæði og vinnslueiginleika aflans.  Á síðasta ári hófst verkefni þar sem aflað er upplýsinga um breytileika í makrílafla sem veiddur er í íslenskri lögsögu.  Sýnum var safnað í samvinnu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og mælingar gerðar á efnasamsetningu og gæðum makrílsins eftir árstíma og veiðisvæðum.  Fiskurinn er viðkvæmt hráefni yfir sumartímann, einkum í júlí þegar áta er mikil í fiskinum.  Hröð kæling á aflanum eftir veiði og lágt hitastig (0 til -2°C) við geymslu aflans er forsenda þess að hægja á þeim skemmdarferlum sem hefjast strax eftir dauða fisksins.  Þær breytingar sem verða á efnainnihaldi fisksins eru líklegar til að hafa áhrif á vinnslueiginleika hans og auka los.

Á komandi vertíð verður ráðist í frekar mælingar til að fá heilstæðari mynd af sveiflum í eiginleikum aflans.  Árstíðabundnar sveiflur er nokkuð auðvelt að meta en öðru máli gegnir um áhrif mismunandi veiðisvæða þar sem fiskurinn færir sig ört úr stað vegna fæðuleitar.  Auk þess sem veðurfar og aðrir þættir geta haft valdið breytileika á milli ára. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, HB Grandi hf, Vinnslustöðin hf, Eskja hf, Skinney–Þinganes hf, Samherji hf, Gjögur hf, Loðnuvinnslan hf, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs. Nánari upplýsingar veita Sigurjón ArasonÁsbjörn Jónsson og Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Nýr bæklingur frá Matís um öryggi íslensks sjávarfangs

Bæklingurinn “Valuable facts about Icelandic seafood” er kominn út en þar er að finna mikilvægar upplýsingar um 10 verðmætustu fiskitegundirnar sem Íslendingar veiða.

Bæklinginn ætti enginn sem selur íslenskt sjávarfang að láta fram hjá sér fara enda sýna tölurnar í bæklingnum svo um munar að íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað.

Bæklinginn “Valuable facts about Icelandic seafood” má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.

Fréttir

Matís tekur stórt skref í átt til vistvænna og heilsusamlegra samgöngumáta

Á vormánuðum gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning sem ætlunin er að stuðli að því að starfsfólk Matís noti vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.

Matís  hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvæna og heilsusamlega samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnustað.  Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabílum, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.

Starfsfólk Matís, sem ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti að jafnaði í 60% tilvika (þrjá daga í viku), á rétt á samgöngustuðningi frá Matís frá undirritun samningsins. Matís greiðir fyrir kort í strætisvagna fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar strætó í og úr vinnu.   Matís greiðir mánaðarlegt andvirði strætisvagnakorts  til starfsfólks í lok hvers mánaðar, sem að jafnaði hjólar eða gengur í og úr vinnu.  Þess má geta að Matís greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna, fyrir starfsmenn sem að jafnaði nota vistvænan samgöngumáta.

Matís leggur mikinn metnað í heilsueflingu starfsmanna með margvíslegum hætti, t.d. geta starfsmenn sótt um s.k. heilsuræktarstyrk tvisvar á ári til starfsmannafélags Matís, líkamsræktarherbergi er í höfuðstöðvum Matís og auk þess býður starfsmannafélagið upp á margvíslegar heilsutengdar uppákomur á hverju ári. Starfsmenn eru vel upplýstir um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega og í átakinu Hjólað í vinnuna 2011 lenti Matís í 3ja sæti í fjölda km.

Nýverið var auk þess gengið til samstarfs við Örninn um að hjólaverslunin verði starfsmönnum innan handar þegar kemur að því að velja hjól sem henta, hvort sem það er fyrir starfsmann Matís eða meðlimi úr fjölskyldu hans. Auk þess mun Örninn ávalt sjá til þess að starfsmenn geti keypt reiðhjól og hluti tengda hjólreiðum á besta verðinu.

Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

Fréttir

Sjómenn hvattir til að bæta kælingu

Matvælastofnun og Fiskistofa fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla og láta sjómenn fá leiðbeiningar frá Matís um góða kælingu og rétta aflameðferð.

Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofa hafa nú hafið átak í að fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla. Fyrsta skrefið í að tryggja að íslenskar sjávarafurðir komist til neytenda sem hágæðavara er að sá afli sem komið er með að landi sé meðhöndlaður eins vel og kostur er. Þar gegnir góð og hröð kæling lykilhlutverki.

Af fyrstu mælingum virðist kæling vera betri en hún var í fyrra, meðalhiti allra mælinga er 2,4 gráður en í fyrra var meðalhitinn í júlí 5,3 gráður.

Eftirlitsmenn fiskistofu og MAST munu dreifa leiðbeiningum um kælingu og aflameðferð sem Matís ohf. hefur unnið. MAST vill hvetja alla sjómenn til að kynna sér þessar leiðbeiningar.

Eftirliti með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla mun halda áfram að fullum krafti í sumar og eru sjómenn hvattir til að byggja á þessari góðu byrjun og bæta kælingu og aflameðferð frekar.

Bæklingar og einblöðungar um þetta efni og aðra bæklinga og einblöðunga sem Matís hefur gefið út má finna hér.

Sjá nánar um átak MAST og Fiskistofu á vef Matvælastofnunar.

Fréttir

Búa til fiskisósu úr roði

Á Seyðisfirði eru nú gerðar tilraunir með að búa til fisksósu úr roði sem annars er urðað. Sósan er mikilvægur próteingjafi fólks í Suðaustur-Asíu. Eftirfarandi frétt birtist í Sjónvarpinu nú fyrir stuttu.

Í fiskivinnslu Brimbergs á Seyðisfriði er verið að flaka Ufsa. Roðið sem inniheldur mikla næringu og prótein rennur í burt og nýtist ekki. En það kann að breytast. Matís og Brimberg að gera tilraunir. Þeir eru búnir að saxa roð og hita það upp. Svo er hvarfefnum bætt út í. Það er í raun ekkert annað en hrísgrjón og bygg. Þetta kemur af stað gerjun og markmiðið er að búa til afurð sem mikið er notuð í asískri matargerð; fisksósu. Tegundirnar eru nokkrar allt eftir því hvað er notað, makríll, síld eða roð af ufsa, þorski og ýsu. Fyrsta gerjunin frá því í vetur hefur verið smökkuð og lofar góðu. 

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís segir að fisksósa sé mikilvæg próteinuppspretta einkum í suðaustur-Asíu. ,,Það er metið að fisksósumarkaðurinn í heiminum hafi verið eitthvað í kringum milljón tonn; einn milljarður lítra af fisksósu var framleiddur í heiminum árið 2005. Það má segja að það sé töluverður markaður og vonandi getum við Íslendingar gert okkur mat úr því,“ segir Arnljótur Bjarki.

Fréttin á RÚV má finna hér.

Fréttir

Stjórn Matís í Skagafirði

Matís er með mikla starfsemi í Matarkistu Skagafjarðar, nánar tiltekið á Sauðárkróki.

Fyrir stuttu var stjórnarfundur Matís haldinn í Skagafirði enda ekki úr vegi að halda stjórnarfund þar sem mikilvæg starfsemi fyrirtækisins fer fram. Auk þess fóru stjórn og starfsmenn Matís um svæðið en Matís er einmitt með starfstöð sína í Verinu á Sauðárkróki. Jón Eðvald framkvæmdastjóri FISK situr í stjórn Matís og hann  smellti mynd af félögum sínum þar sem þau voru stödd á Reykjum á Reykjaströnd ásamt Jóni Drangeyjarjarli og hans mönnum.

Matís Skagafjörður 5.2011
Stjórn Matís og starfsmenn með góðu fólki í Skagafirði. Frá vinstri: Helgi Rafn Viggósson,
Dr. Sveinn Margerisson, Dr. Ágústa Guðmundsdóttir, Friðrik Friðriksson, Einar Matthíasson,
Laufey Haraldsdóttir, Arnljótur B. Bergsson, Jón Eiríksson “Drangeyjarjarl”, Kristinn Kolbeinsson og
Gísli Svan Einarsson.

Líftæknismiðja Matís er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína.   Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra protein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.

Fréttir

Viltu starfa hjá framsæknu og skemmtilegu fyrirtæki?

Matís óskar eftir að ráða drífandi og duglegan sérfræðing til starfa hjá fyrirtækinu í Reykjavík

Starfssvið

Starfið felst í umsjón með rannsóknum og efnagreiningum í matvælum og ýmsum öðrum efnarannsóknum sem gerðar eru hjá fyrirtækinu.

Hæfniskröfur

  • M.Sc. eða Ph.D. í efnafræði eða skyldum greinum.
  • Æskilegt er að umsækjendur hafi starfsreynslu við rannsóknir með gas-massagreini eða vökvamassagreini
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, skal senda til Matís ohf., Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík eða á netfangið atvinna@matis.is, merkt “Sérfræðingur – efnagreiningar”.

Umsóknarfrestur er til og með 27. júní nk.

Æskilegt er að viðkomandi geti hað störf sem fyrst.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, helga.gunnlaugsdottir(at)matis.is, og í síma 422-5000.

Nánari upplýsingar um Matís má finna hér.

IS