Fréttir

Matís með á Sjávarútvegssýningunni í Brussel

Sjávarútvegssýningin fer fram 3.-5. maí næstkomandi. Fjöldi íslenskra fyrirtækja verða á sýningunni þar á meðal DIS, Maritech, 3X, HB-Grandi, Marel, Promens og Matís svo fáein séu nafngreind.

Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og er þessi vettvangur mikilvægur mörgum íslenskum fyrirtækjum til að færa út kvíarnar og auka samstarf.

Matís verður í sameiginlegum bás með Íslandsstofu og er básinn nr. 839 í Hall 6.

Starfsmenn Matís sem verða í Brussel þessa daga eru Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís, Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Gæðakröfur fyrir bygg til matvælaframleiðslu

Notkun á innlendu korni til manneldis hefur aukist verulega á síðustu árum. Þessi þróun kallar á stöðug gæði kornsins og bæði kaupendur og seljendur hafi lýsingar á gæðakröfum til að styðjast við.

Hjá Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið unnin verkefni til að auðvelda nýtingu á innlenda korninu til manneldis og hefur Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkt þessi verkefni. Teknar hafa verið saman gæðakröfur fyrir matbygg og bygg til ölgerðar. Í þeim er lýst lágmarkskröfum til þroska byggsins, þurrkunar, hreinsunar, efnainnihalds og örvera. Gæðakröfunum er ætlað að vera viðmiðun í viðskiptum með bygg til matvælaframleiðslu. Mismunandi kröfur eru settar fram um matbygg og bygg til ölgerðar.

Gæðakröfurnar í heild sinni má finna hér (pdf-skjal).

Íslenskt bygg - fjölbreytt vöruúrval
Fjölbreytt úrval er af byggvörum á Íslandi sem framleiddar eru úr íslensku  byggi.

Fréttir

Rannsóknir og atvinnusköpun í erfðatækni – Málstofa 27. apríl

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og Samtök iðnaðarins efna til málstofu um erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar.

Grand Hótel Reykjavík 27. apríl kl. 9.00 – 12.00

Fundurinn er opinn og aðgangur ókeypis. Skráning á www.si.is

Dagskrá:
Upphaf erfðatækninnar –
 Guðmundur Eggertsson, Háskóla Íslands
Plöntukynbætur í fortíð, nútíð og framtíð- Áslaug Helgadóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands
Erfðatækni í matvælaframleiðslu – Helga M. Pálsdóttir, Matvælastofnun
Erfðatækni í lyfjaframleiðslu – Einar Mäntylä, ORF Líftækni
Erfðatækni sem rannsóknatæki – Ólafur S. Andrésson, Háskóla Íslands
Erfðatækni og umhverfi – Arnar Pálsson, Háskóla Íslands

Pallborð

FundarstjóriÞorsteinn G. Gunnarsson, KOM almannatengsl

Fréttir

Innlend fóðurhráefni til notkunar í fiskeldi

Fyrir stuttu lauk ráðstefnu um innlend hráefni til notkunar í fiskeldi. Margt merkilegt kom fram á þessari ráðstefnu og eigum við Íslendingar mikil tækifæri í að stórauka fiskeldi með áherslu á notkun staðbundinna hráefna til fóðurgerðar. Fyrirlestrarnir eru nú aðgengilegir á www.matis.is.

Fiskeldi hefur verið að eflast hérlendis og er fyrirsjáanleg mikil aukning á komandi misserum, bæði hjá núverandi framleiðendum og nýjum fyrirtækjum sem eru að hasla sér völl á þessu sviði. Þá eru nokkur stór nýsköpunarverkefni í vinnslu þar sem hugað er að tækifærum fyrir nýjar tegundir og nýjar framleiðsluaðferðir.

Fóður er stærsti rekstrarkostnaðarliðurinn í fiskeldi eða almennt um 50-70% og er mikill hluti af hráefni í fóður innflutt. Til að gera fiskeldi sjálfbært er mikilvægt að efla innlenda framleiðslu á fóðurhráefnum og styrkja þannig stoðir undir rekstur fiskeldisstöðva og tengdra greina. Matís ohf. hefur í samstarfi við fyrirtækið Íslensk matorka ehf. tekið saman upplýsingar um möguleika á að nýta í fiskeldisfóður innlent hráefni sem fellur til í landbúnaði og sjávarútvegi og er illa nýtt eða jafnvel urðað. Auk þess er stefnt að því að efla þverfaglegt samstarf atvinnugreina og rannsóknastofnana sem getur leitt til þess að hægt sé að stórauka fiskeldi með áherslu á notkun staðbundinna hráefna til fóðurgerðar. Við það mun verðmætasköpun í landbúnaði aukast með bættri nýtingu á ræktunarlandi og atvinnusköpun í sveitum landsins. Lögð er áhersla á að greina næringarefnainnihald í ýmsum aukaafurðum sem falla til í landbúnaði og sjávarútvegi og möguleika á nýtingu þeirra til fóðurgerðar fyrir fiskeldi.  Einnig er horft til möguleika á að rækta hráefni sérstaklega fyrir fóður og þannig nýta land og vinnuafl til sveita á Íslandi. Horft er til þess að hráefnin nýtist almennt til fiskeldis og er samantektin ekki bundin við einstakar tegundir.

Ragnheiður Þórarinsdóttir
Ragnheiður Þórarinsdóttir, Íslensk Matorka, í púlti

Smelltu á heiti fyrirlesturins til að skoða
13:00 -13:10 Setning – Jón Bjarnason, sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra
13:10 -13:35 Miljø – effektiv fiskeproduktion – Alfred Jochumsen, DTU-Akva Danmörku
13:35 -13:50 Þróun nýrra fiskifóðurhráefna í Svíþjóð: kræklinga- og oksveppamjöl
                     – Björn Þrándur Björnsson, Háskólinn í Gautaborg
13:50 -14:05 Grænn lífrænn úrgangur – Ásbjörn Jónsson, Matís
14:05 -14:20 Framleiðsla hryggleysingja – Jón S. Ólafsson, Veiðimálastofnun
14:20 -14:35 Örverur – Arnþór Ævarsson, Prokatin / Jakob Kristjánsson, Prokazyme
14:35 -15:10 Kaffi
15:10 -15:25 Repja – Jón Bernódusson, Siglingastofnun / Ólafur Eggertsson, Þorvaldseyri
15:25 -15:40 Margt smátt gerir eitt stórt: eru svifþörungar orkuboltar aldarinnar?
                     – Erla Björk Örnólfsdóttir, Vör Sjávarrannsóknasetur
15:40 -15:55 Aðrir möguleikar – Ólafur I. Sigurgeirsson, Háskólinn á Hólum
15:55 -16:10 Virði hráefna – Jón Árnason, Matís
16:10 -16:50 Umræður/pallborð – Rannveig Björnsdóttir (Matís) stýrir.
Fulltrúar fóðurframleiðenda, Björn Þrándur Björnsson (Háskólinn í Gautaborg), Alfred Jochumsen (DTU-Akva), Sveinbjörn Oddsson (Íslensk Matorka), Björn Björnsson (Hafró), Helgi Thorarensen (Háskólinn á Hólum).
16:50 -17:00 Samantekt og fundarslit

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason hjá Matís.

Fréttir

Mikilvægur fundur um framtíð líftækniiðnaðarins og tækifæri í líftækni og tengdum greinum

Nú rétt í þessu lauk fundi um líftækniiðnaðinn en fundurinn fór fram í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík. Alls sóttu fundinn vel á annað hundrað manns og komu fram mikilvægar um allt sem tengist þessum arðbæra en þó ögrandi iðnaði.

Mikill uppgangur er í líftækni og tengdum greinum á Íslandi og vilja margir meina að vaxtarbroddar framtíðarinnar liggi þar. Matís er í góðum tengslum við líftækniiðnaðinn og eru t.a.m. mörg verkefna Matís unnin í samstarfi við fyrirtæki þar.

Nú þótti okkur góður tími til að kynna stöðu mála, framtíðarsýn og afrakstur síðustu ára. Á fundinum voru erindi frá fyrirtækjum ásamt erindum frá Matís og HÍ.

Í kjölfar fundarins var gestum boðið að skoða húsnæði að Vínlandsleið 14 en þar hafa nokkur fyrirtæki, sem eru í nánu samstarfi við Matís, komið sér fyrir og var um formlega opnun að ræða á þeim hluta hússins.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig dagskrá fundarins leit út og ef smellt er á heiti flestra fyrirlestrana opnast pdf skjal með fyrirlestrinum.

Dagskrá
08:30   Setning – Orri Hauksson, Samtök Iðnaðarins
08:40   Er líftækniiðnaðurinn vaxtabroddur Íslendinga? – Hörður G. Kristinsson, Matís
08:45   Ensím og orka úr hveraörverum – Jakob Kristjánsson, Prokazyme
09:00   Orka og efnasmíði með hjálp hitakærra örvera – Guðmundur Óli Hreggviðsson, Matís
09:10   Hvers vegna fá fiskar ekki fótasár? – Guðmundur Guðmundsson, Kerecis
09:25   Ensím úr þorski í náttúruvörur, snyrtivörur og lyf – Bjarki Stefánsson, Ensímtækni
09:40   Sameindaræktun og afurðir hennar – Júlíus B. Kristinsson, ORF Genetics
09:55   Efnaauðlegð íslenskrar náttúru – Sesselja Ómarsdóttir, Lyfjafræði Háskóla Íslands
10:10   Kítósan – Nýsköpun og vaxtamöguleikar til framtíðar – Einar Matthíasson, Primex
10:20   Ævintýramarkaðssetning: ull, fiskur og fæðubótarefni – Þráinn Þorvaldsson, Saga Medica
10:35   Umræður
10:45   Fundarslit og formleg opnun Vínlandsleiðar 14 – Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís

IMG_5581
 Klipp á borða! F.v: Eydís Arnviðarsdóttir, Friðrik Friðriksson, Hörður G. Kristinsson,
Sveinn Margeirsson, Guðlaug Þ. Marinósdóttir

Fundarstjóri var Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís og sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs.
Þórir Bergsson, meistarakokkur Matís, bauð fundargestum upp á girnilegan morgunverð.

Auglýsingu um fundinn má finna hér.

Fréttir

Mun líftækniþekking Íslendinga gera okkur að Kúvæt norðursins?

Morgunverðarfundur hjá Matís fim. 14. apríl kl. 08:30 um líftækni og tengdar greinar og framtíðarmöguleika okkar í þessum arðbæra iðnaði.

Mikill uppgangur er í líftækni og tengdum greinum á Íslandi og vilja margir meina að vaxtarbroddar framtíðarinnar liggi þar. Matís er í góðum tengslum við líftækniiðnaðinn og eru t.a.m. mörg verkefna Matís unnin í samstarfi við fyrirtæki þar.

Nú er góður tími til að kynna stöðu mála, framtíðarsýn og afrakstur síðustu ára. Á fundinum verða erindi frá fyrirtækjum ásamt erindum frá Matís og HÍ. Fyrirtæki munu einnig kynna starfsemi sína þennan morgun.

Í kjölfar fundarins verður gestum boðið að skoða húsnæði að Vínlandsleið 14 en þar hafa nokkur fyrirtæki, sem eru í nánu samstarfi við Matís, komið sér fyrir og verður um formlega opnun að ræða á þeim hluta hússins þennan dag.

Dagskrá
08:30   Setning – Orri Hauksson, Samtök Iðnaðarins
08:40   Er líftækniiðnaðurinn vaxtabroddur Íslendinga? – Hörður G. Kristinsson, Matís
08:45   Ensím og orka úr hveraörverum – Jakob Kristjánsson, Prokazyme
09:00   Orka og efnasmíði með hjálp hitakærra örvera – Guðmundur Óli Hreggviðsson, Matís
09:10   Hvers vegna fá fiskar ekki fótasár?  – Guðmundur Guðmundsson, Kerecis
09:25   Ensím úr þorski í náttúruvörur, snyrtivörur og lyf – Bjarki Stefánsson, Ensímtækni
09:40   Sameindaræktun og afurðir hennar – Júlíus B. Kristinsson, ORF Genetics
09:55   Efnaauðlegð íslenskrar náttúru – Sesselja Ómarsdóttir, Lyfjafræði Háskóla Íslands
10:10   Kítósan – Nýsköpun og vaxtamöguleikar til framtíðar – Einar Matthíasson, Primex
10:20  Ævintýramarkaðssetning: ull, fiskur og fæðubótarefni – Þráinn Þorvaldsson, Saga Medica
10:35  Umræður
10:45  Fundarslit og formleg opnun Vínlandsleiðar 14 – Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís

Fundarstjóri: Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís.

Þórir Bergsson, meistarakokkur Matís, býður fundargestum upp á frábæran morgunmat kl. 08:15.

Fundurinn er öllum opinn en vinsamlegast láttu okkur vita hvort þú mætir með því senda okkur línu á liftaeknifundur@matis.is

Auglýsingu um fundinn má finna hér.

Fréttir

Matís og Landssamband smábátaeigenda halda námskeið um aflameðferð fyrir smábátasjómenn

Landssamband smábátaeigenda og Matís efna á næstu dögum til námskeiða um bætta aflameðferð.  Þar munu sérfræðingar Matís halda fyrirlestra og kynna nýjustu vísindin í meðferð afla, hvernig skal umgangast hann þannig að hæsta verð fáist við sölu hans og neytendur verði ánægðir með gæðin.

Afli smábáta er ferskasta hráefni sem völ er á, en til að tryggja enn betur að fiskvinnslan og neytendur fái sem bestan fisk í hendurnar er mikilvægt að smábátasjómenn þekki vel hvaða þættir hafa helst áhrif á gæðin.

Afli smábáta vegur þungt í heildaraflamagni og aflaverðmæti landsmanna.  Bátar í þessum útgerðaflokki veiddu til dæmis rúmlega 75 þúsund tonn á kvótaárinu 2009/10 að verðmæti 19,1 milljarðar króna og er áætlað að þessi afli hafi skilað um 38 milljörðum króna til þjóðarbúsins í útflutningsverðmætum.

Sökum þess að útgerðamunstur og aðstaða um borð í smábátum er öðruvísi en hjá stærri bátum þá eru helstu áhersluatriði er snúa að aflameðferð sértæk fyrir smábátaflotann.  Af þeim sökum mun Matís ásamt Landssambandi smábátaeigenda standa fyrir námskeiðum víðsvegar um landið þar sem kennd verða ýmiss grundvallaratiði er snúa að aflameðferð.  Námskeiðin verða á eftirtöldum stöðum:

  • Reykjavik miðvikudaginn 13. april kl 20:00 að Vínlandsleið 12 (Matís) 
  • Siglufjörður fimmtudaginn 14. april kl 17:00 í Allanum
  • Hellissandur fimmtudaginn 14. april kl 20:00 á Hótel Hellissandi (mynd)
  • Bolungarvík þriðjudaginn 19. apríl kl 20:00 í Félagsheimilinu
  • Djúpivogur  miðvikudag 20. apríl kl 20:00 í Hótel Framtíð
  •  Önnur námskeið auglýst síðar 

Námskeiðin eru opin öllum og er þátttaka gjaldfrjáls.

Á síðunni, www.alltummat.is/fiskur/smabatar, verða birtar ýmsar upplýsingar um aflameðferð sem eiga sérstak erindi til smábátasjómanna, ásamt því sem birtur verður listi yfir þá sem setið hafa námskeiðin.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Miklu máli skiptir að vara haldi ferskleika sínum sem lengst eftir afhendingu

Endurbætt Matís skýrsla um endurhannaða frauðkassa og samanburð hitastýringar í flug- og sjóflutningi ferskra fiskafurða

Skýrsla Matís 29-10, Effect of improved design of wholesale EPS fish boxes on thermal insulation and storage life of cod loins – simulation of air and sea transport hefur verið endurútgefin með nokkrum lagfæringum. Ástæðan er einkum sú að ekki þótti nógu skýrt koma fram í skýrslunni að sá umhverfishitaferill, sem líkja átti eftir sjóflutningi, miðaðist í raun við nokkurn veginn bestu mögulegu aðstæður í sjóflutningskeðjum ferskra fiskafurða frá Íslandi. Hitamælingar í kæliverkefnunum Hermun kæliferla og Chill on hafa sýnt fram á að forflutningi innanlands fylgir oft óæskilegt hitaálag í nokkrar klst. hvort sem um er að ræða flug- eða sjóflutningskeðjur. Til þessa hitaálags var tekið tillit í tilfelli flugkeðjunnar en ekki sjóflutningskeðjunnar og er það dregið fram í nýrri útgáfu skýrslunnar. Dæmigerð flugflutningskeðja í skýrslunni miðast við flutning frá Norðurlandi en ljóst er að ekki er jafn mikils hitaálags að vænta í forflutningi frá svæðum nær Keflavíkurflugvelli.

Mest áhersla var á lengd geymsluþols í fyrri útgáfu skýrslunnar en fyrir kaupendur hágæðavöru skiptir líka mjög miklu máli að sá tími sem varan heldur enn ferskleika (e. freshness period) sínum eftir afhendingu sé sem lengstur. Að þessu leyti hefur flugflutningurinn vinninginn umfram sjóflutninginn að því gefnu að nýju frauðkassarnir séu notaðir.

Þess má loks geta að hjá Matís er í burðarliðnum verkefni sem hefur það megin markmið að bæta hitastýringuna í flugflutningi ferskra sjávarafurða, tryggja betur geymsluþol afurðanna og hámarka um leið gæði og verðmæti þeirra. Ferskar afurðir fluttar með flugi eru dýrustu ferskfiskafurðirnar, sem fara inn á hágæðamarkaði og því má segja að mjög nákvæm hitastýring sé mikilvægust í flugflutningsferlum ferskra fiskafurða.

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Matís, bjornm@matis.is.

Fréttir

Doktor í líftækni: Gæðabreytingar sjávarafurða við vinnslu mældar með NMR og NIR spektroskópíu

Síðastliðinn föstudag 1. apríl varði María Guðjónsdóttir doktorsritgerð sína „Gæðabreytingar sjávarafurða við vinnslu mældar með NMR og NIR spektróskópíu“ (e. Quality changes during seafood processing as studied with NMR and NIR spectroscopy)

við líftæknideild Norska tækniháskólann í Þrándheimi (Norwegian University of Science and Technology, NTNU, Department of Biotechnology) í samstarfi við Matís.

Aðalleiðbeinandi var Prófessor Turid Rustad (NTNU) en í doktorsnefndinni sátu einnig Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og dócent hjá Háskóla Íslands, og Dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Andmælendur voru Prof. Anders Karlsson frá Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Kristin Lauritzsen frá Háskólanum í Tromsø. Formaður doktorsmatsnefndar, Oleksandr Dykyy dócent við NTNU stýrði athöfninni.

Verkefnið var unnið sem hluti verkefnanna Fljótlegar mæliaðferðir við matvælavinnslu í samstarfi við Marel (styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís nr. 071320008), Chill-on (styrk af 6. rammaáætlun Evrópusambandisins nr FP6-016333-2), Kælibót (styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís nr. 061358008 og AVS nr. R 061-06), Vinnsla og gæðastýring á eldisþorski (styrkt af AVS nr. R026-06), Bestun á þíðingar- og ílagnarferli rækju til pillunar (styrkt af AVS nr. R086-09), Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks (styrkt af AVS nr. R042-05) og Maximum resourse utilization – Value added by fish by-products, (styrkt af Nordic Innovation Center – NICe nr. 04252).

Ritgerðin byggist á fimm ritrýndum vísindagreinum. Þrjár þeirra hafa nú þegar verið birtar og hinar tvær hafa verið samþykktar til birtingar.

Samantekt
Framleiðsla sjávarafurða er flókið ferli sem í felast fjöldi þrepa þar sem gæði geta tapast við vinnslu og geymslu.  Markmið verkefnisins var að öðlast dýpri skilning á þeim breytingum sem eiga sér stað innan vöðva sjávarafurða við vinnslu og geymslu og hvernig þessar breytingar hafa áhrif á gæði lokaafurðarinnar. Ferlarnir sem skoðaðir voru í verkefninu voru mismunandi vinnslueiginleikar villts þorsks og eldisþorsks (Gadus morhua) við framleiðslu léttsaltaðra afurða, áhrif söltunaraðferðar,  ofurkælingar og loftskiptra umbúða á geymslu þorskhnakkastykkja, áhrif mismunandi forsöltunaraðferða við framleiðslu saltfisks, áhrif próteinsprautunar á gæði og stöðugleika ufsaflaka (Pollachius virens) í frystingu og kælingu og áhrif polyfosfatstyrks við forlageringu og lengd lageringar við vinnslu kaldhafsrækju (Pandalus borealis).

Lágsviðs kjarnaspunamælitækni (Low field nuclear magnetic resonance, LF-NMR) var notað til að mæla vatnsdreifingu og til að meta vatnseiginleika vöðvans. Slökunarmælingar (relaxation time measurements) bentu til þess að finna mætti 1-3 vatnshópa í vöðvanum eftir því hvernig sýnin höfðu verið meðhöndluð. Fjölþáttagreining (multivariate analysis) var framkvæmd til að bera saman niðurstöður spektróskópískra aðferða við niðurstöður hefðbundinna mæliaðferða og til að auðvelda túlkun niðurstaða. Höfuðþáttagreining (Principal Component Analysis) var notuð til að finna hvaða mælibreytur áttu samleið og línuleg aðhvarfsgreining (Partial Linear Square models) var þá notuð til að finna hvaða breytur sýndu tölfræðilega sterka fylgni. Sterk fylgni fannst á milli NMR mælinganna og mælibreyta sem lýsa vatnseiginleikum vöðvans, svo sem vatnsinnihaldi, vatnsheldni, vatnsvirkni, dripi og suðunýtingu við vinnslu en einnig við aðrar mikilvægar breytur er lýsa efna- og eðliseiginleikum vöðvans, svo sem sýrustigi vöðvans og myndun rokgjarna sundrunarefna (TVB-N og TMA) til að nefna nokkrar breytur. Verkefnið benti þá til þes að nota megi lágsviðs NMR til að meta áhrif afmyndunar- og niðurbrotsferla á vöðva sjávarafurða þar sem ferlarnir hafa áhrif á vatnseiginleika vöðvans.

Notkun einhliða lágsviðssegla (unilateral low field NMR magnets) var prófuð við rækjuvinnslu. Tæknin reyndist efnileg til notkunar við rauntímamælingar á gæðaþáttum rækju og annarra sjávarafurða, þó svo að vinna þurfi frekar að bestun mælistillinga tækisins.

Nærinnrauðar rauntímamælingar (NIR) með trefjapróbu á rækju voru einnig prófaðar í verkefninu. Sterk fylgni fannst við vatnsinnihald og vatnsheldni rækjunnar m.v. hefðbundnar efnamælingar. Kalíbreringar tilbúnar til notkunar í vinnslulínum rækju, voru búnar til fyrir þessar breytur.

Verkefnið sýnir að LF-NMR og NIR eru mjög nothæfar aðferðir til rauntímamælinga á ýmslum efna- og eðliseiginleikum sjávarafurða við vinnslu og geymslu. Hins vegar þarf að besta þessar aðferðir og aðlaga þær fyrir hvern feril um sig með tilliti til eiginleika hráefnis, val á vinnsluaðferð, val á íbótar- og hjálparefnum og styrkur þeirra, hver lokaafurðin á að vera og meta út frá því hvaða gæðabreytur eru mikilvægastar í hverjum ferli fyrir sig.

Lykilorð: Lágsviðs kjarnaspunamælingar (Low field Nuclear Magnetic Resonance, LF-NMR), sjávarafurðir, vöðvaeiginleikar, ferlastýring, nærinnrauðar mælingar (Near infrared spectroscopy, NIR), efna- og eðliseiginleikar.

María er fædd 25. ágúst árið 1980 í Reykjavík. Hún lauk B.Sc. gráðu í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands í samstarfi við University of California, Santa Barbara 2004 og M.Sc. gráðu í efnaverkfræði með eðlisfræðiáherslu frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg 2006. María hefur starfað hjá Matís sem verkefnastjóri á vinnslu- og virðiskeðjusviði síðan 2007. Rannsóknir hennar hafa beinst að þróun og notkun fljótlegra mæliaðferða til að meta efna- og eðliseiginleika matvæla við vinnslu og geymslu og hvernig megi nota slíkar aðferðir til að bæta vinnsluferla matvæla. Foreldrar Maríu eru Dr. Guðjón Haraldsson, þvarfæraskurðlæknir og Sigríður Siemsen, lyfjafræðingur. Kærasti Maríu er Edmond Eric Alexandrenne, vélstjóri og eiga þau soninn Oliver Alexandrenne.

Fyrirspurnum má beina til Maríu Guðjónsdóttur í síma 422-5091 eða um tölvupóstfang mariag@matis.is.

Listi yfir greinar úr verkefninu
  I.Gudjonsdottir M, Gunnlaugsson VN, Finnbogadottir GA, Sveinsdottir K, Magnusson H, Arason S, Rustad T. 2010. Process control of lightly salted wild and farmed Atlantic cod (Gadus morhua) by brine injection, brining and freezing–A low field NMR study. Journal of Food Science 75 (8), E527-536.

  II. Gudjónsdóttir M, Lauzon HL, Magnússon H, Sveinsdóttir K, Arason S, Martinsdóttir E, Rustad T. 2011. Low field Nuclear Magnetic Resonance study on the effect of salt and modified atmosphere packaging on cod (Gadus morhua) during superchilled storage. Food Research International 44, 241-249.

  III. Gudjónsdóttir M, Arason S, Rustad T. 2011. The effects of pre salting methods on water distribution and protein denaturation of dry salted and rehydrated cod – A low field NMR study. Journal of Food Engineering 104, 23-29.

  IV. Gudjónsdóttir M, Karlsdóttir MG, Arason S, Rustad T. 2010. Injection of fish protein solutions to fresh saithe (Pollachius virens) fillets studied by low field Nuclear Magnetic Resonance and physicochemical measurements. Accepted for publication in Journal of Food Science and Technology.

  V. Gudjónsdóttir M, Jónsson Á, Bergsson AB, Arason S, Margeirsson S, Rustad T. 2010. Shrimp processing assessed by low field Nuclear Magnetic Resonance, Near Infrared spectroscopy and physicochemical measurements – The effect of polyphosphate content and length of pre-brining on shrimp muscle. Accepted for publication in Journal of Food Science.

Fréttir

Ný skýrsla um skólamáltíðir – Matís einn þátttakenda

Út er komin skýrsla um skólamáltíðir á Norðurlöndum á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, NICe. Skýrslan er afrakstur verkefnis sem unnið var í samstarfi allra Norðurlandanna og var stýrt af Samtökum iðnaðarins.

Að verkefninu stóðu svokallaðir þróunarvettvangar á sviði matvæla í löndunum og er m.a. gerð grein fyrir starfsemi þeirra.

Í skýrslunni er ítarleg samantekt  um framboð og framkvæmd máltíða í skólum á Norðurlöndunum. Lagt var mat á helstu kosti og galla núverandi kerfa, þekkingu og fræðslu fyrir starfsfólk sem starfar við framleiðslu skólamáltíða og gerðar tillögur um úrbætur.

Niðurstaða verkefnisins er að fjölmargir þættir hafa áhrif á það hvort börnin borða matinn í skólanum og mikilvægt að þeir vinni saman að því markmiði að öll börn fái þá næringu sem þau þurfa í skólanum. Í skýrslunni eru ábendingar til sveitarfélaga, skólastjórnenda, matvælaiðnaðar, eldhúsa, foreldra og lýðheilsuyfirvalda um hvernig standa má að málum til að ná sem bestum árangri.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef Samtaka iðnaðarins á slóðinni: https://www.si.is/frettasafn/nr/9128

Frétt birt á vefsíðu Samtaka Iðnaðarins, www.si.is.

IS