Fréttir

Gæði strandveiðiafla 2011

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sumarið 2011 var þriðja sumarið sem frjálsar handfæraveiðar með takmörkunum á heildarmagni, svokallaðar strandveiðar, voru heimilaðar. Í pottinum voru 8.500 tonn og í heildina tóku 685 bátar þátt í veiðunum.

Gæði strandveiðiafla hafa nokkuð verið til umræðu á síðustu misserum og því óskaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir því við Matís, Matvælastofnun og Fiskistofu að gerð yrði úttekt á gæðum strandveiðiaflans. Margvíslegum gögnum var safnað við framkvæmd úttektarinnar og má þar meðal annars nefna:

  • Mælingar á hitastigi í afla við löndun víðsvegar um land, alls um 2.500 mælingar.
  • Mælingar fiskmarkaðanna á hitastigi afla í sumar, alls um 10.000 mælingar.
  • Vettvangskannanir þ.s. farið var um borð í 405 strandveiðibáta til að kanna ýmis atriði er snúa að meðferð afla.
  • Viðtöl við þá aðila sem höndla mest með afla strandveiðibáta þ.e. kaupendur, seljendur, fiskmarkaðir, slægingarþjónustur, flutningsaðilar, fiskverkendur o.fl. alls um 30 manns.
  • Heimsóknir í fiskmarkaði víðsvegar um land til að kanna verklag, auk þess sem rætt var við fulltrúa fiskmarkaða.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að strandveiðifiskur er mjög misjafn að gæðum. Strandveiðibátar stunda sínar veiðar yfir heitasta árstímann þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum orsökum, þeir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira er um orm og liturinn á roðinu er dekkri (svokallaðir þaraþyrsklingar); þeir landa jafnan óslægðum afla og stærðardreifing er mikil. Aðgengi að ís er takmarkað í sumum höfnum, slægingarþjónusta er almennt ekki lengur fyrir hendi og flutningur á óslægðum afla milli landshluta á þessum árstíma getur farið illa með hráefnið ef aflameðferð hefur ekki verið fullnægjandi. Það er því ýmsum vandkvæðum bundið fyrir strandveiðiflotann að tryggja gæði aflans og sérstaklega mikilvægt að aflameðferð sé til fyrirmyndar.

Í úttektinni er farið yfir þau atriði sem helst hafa áhrif á gæði afla, kannað er hvernig strandveiðiaflinn kom út í sumar varðandi þau atriði í samanburði við aðra dagróðrabáta og loks eru settar fram tillögur um hvernig stuðla megi að úrbótum.

Sá áhrifaþáttur sem hefur hvað mest að segja um gæði strandveiðiafla er kæling. Almennt má segja að strandveiðiflotinn komi vel út í samanburði við hina hefðbundnu dagróðrabáta hvað kælingu varðar og er ekki hægt að greina marktækan mun á milli þessara útgerðaflokka. Einnig benda niðurstöður úttektarinnar til að kæling strandveiðiafla hafi batnað mikið frá fyrra ári. Þess ber þó að gæta að þörf er á að bæta kælingu enn frekar, bæði hjá strandveiðibátum og öðrum dagróðrabátum, til að fullnægja kröfum sem settar eru fram í reglugerðum þ.e. að hitastig í afla sé komið undir 4°C innan 6 klst. eftir veiði.

Aðstaða til blóðgunar er takmörkuð um borð í strandveiðibátum þ.e. aflanum er yfirleitt látið blæða út í ís eða krapa í þeim kerum sem hann berst í land í. En þar sem handfærafiskur er jafnan mjög sprækur þegar hann er dregin um borð gengur blóðtæming betur en ella og því eru kaupendur yfirleitt sáttir við blóðgun aflans. Forsvarsmenn fiskmarkaðanna segjast aldrei hafa fengið kvörtun vegna slælegrar blóðgunar og því má draga þá ályktun að blóðgun sé ekki teljandi vandamál hjá strandveiðiflotanum.

Flokkun og slæging eru einnig atriði sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla. Mikilvægt er að fiskmarkaðir og viðskiptavinir þeirra finni ásættanlegar leiðir til að tryggja að kaupendur fái afhenta þá stærð af fiski sem þeir telja sig vera að kaupa, en talsvert hefur borið á því í sumar að kaupendur hafi verið ósáttir við stærðarflokkun. Þetta er hins vegar vandi sem tengist sérstaklega fjarsölunum, enda getur verið erfitt að upplýsa um flokkun afla sem ekki hefur enn verið landað. Slæging á afla dagróðrabáta hefur einnig verið nokkuð til vandræða í sumar og er mælst til að yfirvöld hugi að breytingum á reglugerðum um slægingu fyrir upphaf næsta strandveiðitímabils.

Hvað varðar aðra þætti sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla þá er eðlilegast að markaðslögmál fái að ráða þ.e. að verð og gæði fari saman, en til að svo megi fara þarf að auka sýnileika gæðaþátta hjá fiskmörkuðunum og auka kynningu. Fyrirkomulag strandveiðanna, þ.e. ólympískar veiðar, getur stuðlað að því að sótt sé í afla af lakari gæðum og því er mikilvægt að haldið sé á lofti fræðslu til sjómanna, jafnt sem annarra í virðiskeðjunni. Átak var gert í fræðslu, mælingum og eftirliti hjá dagróðrabátum sumarið 2011 og er ljóst að það hefur borið nokkurn árangur. Því er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að haldið verði áfram á þeirri braut næsta ár.

Við erum á réttri leið, en betur má ef duga skal!

Skýrslu um gæði strandveiðiafla 2011 má nálgast hér.

Fræðsluvefur fyrir smábátasjómenn: www.alltummat.is/fiskur/smabatar/

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.