Fréttir

Fagur fiskur tilnefndur til verðlauna á Edduhátíðinni

Hugmyndina að þáttunum átti Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís og Brynhildur Pálsdóttir.

Þættirnir „Fagur fiskur“ eru tilnefndir til verðlauna á Eddunni. Matís framleiddu þættina ásamt Sagafilm. Hugmyndin að þáttunum kviknaði hjá Gunnþórunni Einarsdóttur matvælafræðingi hjá Matís og Brynhildi Pálsdóttur vöruhönnuði. Þær fengu Sagafilm, Sveinn Kjartansson matreiðslumaður, Áslaug Snorradóttir ljósmyndara, Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstjóri í lið með sér til þess að láta hugmyndina verða að veruleika.

Gerð þáttana var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Hægt er að nálgast uppskriftir, fróðleik og horfa á þættina á heimasíðunni www.fagurfiskur.is, einnig er hægt að kíkja á Facebook síðu þáttanna.

Nánar um Edduna og tilnefningar 2011 hér.

Fréttir

Skiptir máli „hvers lenskur“ fiskurinn er þegar menn deila um veiðiréttindi?

Matís gefur út bækling um DNA rannsóknir á sjávardýrum.

Hjá Matís hafa verið þróaðar yfir 30 aðferðir til erfðagreininga á dýrum. Mikil þróunarvinna liggur að baki hverri greiningaraðferð þar sem reynt er að koma saman eins mörgum erfðamörkum og hægt er í eitt hvarf (multiplex). Þetta sparar bæði tíma og kostnað þegar mörg sýni eru greind. Í sumum tilfellum eru ekki til erfðamörk fyrir tegundina. Í þeim tilfellum þarf að byrja á því að þróa ný erfðamörk. Hjá Matís hafa verið þróuð ný erfðamörk fyrir margar tegundir sjávardýra (þorsk, síld, leturhumar, krækling og lax) og í öðrum tegundum hefur erfðamörkum sem þekkt eru verið breytt til að gera vinnuna hagkvæmari. Nokkrum þessara aðferða hefur verið lýst í ritrýndum vísindagreinum.

Í stofngreiningarannsóknum er skoðaður breytileiki í arfgerðum dýra frá mismunandi svæðum sbr. dæmið um þorskinn hér að framan. Alþjóðasamfélagið (t.d. Alþjóðahafrannsóknaráðið; ICES) kallar eftir upplýsingum um erfðabreytileika í stofnum. Þegar hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir byggðar á erfðafræðigögnum eins og dæmið hér á eftir um karfann sýnir (sjá kaflann Erfðafræðin sannar gildi sitt).

Í fiskveiðistjórnun er afar mikilvægt að vita hvort um breytilega stofna eða stofneiningar af ákveðinni tegund er að ræða þegar verið er að úthluta veiðileyfum. Á þessu sviði getur erfðagreining verið lykiltæki. Það er Íslendingum mjög mikilvægt að geta skilgreint þá stofna sem tilheyra Íslandi og má því flokka sem auðlind Íslendinga. Ef Ísland gengur í  Evrópusambandið er þetta enn mikilvægara en nokkru sinni. Það ætti því að vera forgangsatriði í hafrannsóknum Íslendinga að skilgreina þá erfðaauðlind sem tilheyrir landinu. Það er einnig í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland hefur skrifað undir að ábyrgjast varðveislu erfðaauðlinda sinna.

Bæklinginn má finna hér.

Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfis og erfða, veitir nánari upplýsingar. Einnig má finna viðbótar upplýsingar hér.

Fréttir

Matís er með starfsemi um allt land

Frá upphafi hefur Matís byggst á neti starfsstöðva um allt land. Starfsstöðvar eru nú 9 talsins, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum og eru starfsmenn þeirra tengdir öllum fagsviðum fyrirtækisins. Nýjasta starfsstöðin er á Flúðum en hún var sett á fót í árslok 2010.

Áherslur starfsstöðvanna eru fjölbreyttar, endurspegla vítt starfssvið Matís og faglega þekkingu innan fyrirtækisins. Að sama skapi taka starfsstöðvarnar einnig mið af nærsamfélaginu á hverjum stað og þeim þörfum sem þar eru. Þannig eru starfsstöðvar Matís á Ísafirði og í Vestmanneyjum í tveimur af stærri sjávarútvegsstöðum landsins, hjá Matís á Höfn í Hornafirði hefur mikið starf verið unnið með humarframleiðendum og á Sauðárkróki er líftækni lykillinn að samstarfi við heimaaðila í matælavinnslu. Mælingaþjónustan í Neskaupstað er mikilsverð fyrir bæði framleiðslufyrirtæki og opinbera eftirlitsaðila á heilbrigðissviði á Austurlandi og hjá Matís á Akureyri hefur hefur byggst upp mikil rannsóknarþekking í fiskeldi. Loks er að geta matarsmiðjanna þriggja sem Matís hefur síðustu ár byggt upp á Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum og nú á Flúðum. Þar eru opnaðir möguleikar margra áhugasamra matvælaframleiðenda heima í héraði og þeim hjálpað til að láta draum um framleiðsluvörur og atvinnunýsköpun verða að veruleika.

Með starfi út um landið undirstrikar Matís vilja fyrirtækisins til að vinna með aðilum heima í héröðunum að fjölbreyttum verkefnum sem treyst geta atvinnulíf, aukið nýsköpun og fjölgað störfum. Stefna Matís er að á komandi árum efli fyrirtækið þessa áherslu enn frekar um allt land.

Nánari upplýsingar um starfsstöðvar Matís má finna hér.

Fréttir

Fræðslufundur MAST: Innra eftirlit matvælafyrirtækja – Matís býður upp á mjög öflug námskeið tengd þessu efni

Matvælastofnun heldur fræðslufund um innra eftirlit matvælafyrirtækja þriðjudaginn 25. janúar kl. 15-16. Á fundinum verður fjallað um góða starfshætti og þær kröfur sem gerðar eru til innra eftirlits matvælafyrirtækja.

Hin nýja matvælalöggjöf leggur aukna áhersla á ábyrgð matvælaframleiðenda á eigin framleiðslu. Matvælafyrirtækjum ber að tryggja að matvæli séu framleidd við aðstæður sem uppfylla kröfur um góða starfshætti og að matvæli séu örugg til neyslu. Með innra eftirliti sýna matvælafyrirtæki fram á ábyrgð og er innra eftirlit ein af forsendum starfleyfis. Eftirlitsaðilum eins og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og Matvælastofnun ber að skoða virkni innra eftirlits í eftirlitsheimsóknum. Virkni innra eftirlits er einn af þeim þáttum sem tekinn er til skoðunar þegar tíðni eftirlitsheimsókna er ákveðin. Matvælafyrirtæki geta því haft áhrif á eftirlitskostnað með virku innra eftirliti sem tekur á allri starfsemi fyrirtækisins.

Á fræðslufundinum verður farið yfir þær kröfur og þá góðu starfshætti sem viðhafa skal við framleiðslu matvæla. Dæmi um góða starfshætti og skilvirkt innra eftirlit verða kynnt, ásamt kynningu á nýjum bæklingi um innra eftirlit.

Þess má geta að Matís býður upp á námskeið fyrir fyrirtæki vegna innra eftirlits. Upplýsingar um námskeið Matís má finna hér en einnig veitir Margeir Gissurarson nánari upplýsingar.

Fyrirlesarar:

  • Dóra S. Gunnarsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun
  • Guðjón Gunnarsson, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun
  • Sigrún Guðmundsdóttir, heilbrigðistfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa – Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin).
Allir velkomnir!

Fréttir

Ný upplýsingaveita hjá Matís – Kæligátt

Til að tryggja betri gæði og verðmætari vörur þarf að gæta að verklagi og umgengni um hráefni og vanda til við meðhöndlun, vinnslu og flutning fiskafurða. Kæling allt frá því að fiskur er dreginn úr sjó og á öllum stigum virðiskeðjunnar er lykilatriði til að viðhalda hámarksgæðum eins lengi og unnt er.

Kæligátt er ný upplýsingaveita Matís með hagnýtum leiðbeiningum og umfjöllun um kælingu og meðhöndlun á fiski á öllum stigum virðiskeðjunnar frá miðum á markað. Leiðbeiningarnar eru settar fram á notendavænan hátt og eiga vonandi eftir að nýtast sjómönnum, framleiðendum og flutningsaðilum og einnig koma að gagni við fræðslu og námskeiðahald á þessu sviði.

Leiðbeiningarnar byggja á rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið innan kæliverkefnanna Chill on (www.chill-on.com/), Hermunar kæliferla (www.matis.is/verkefni//nr/2801) og Kælibótar sem styrkt voru af AVS, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og einnig á reglugerðum frá Matvælastofnun. Fjórir doktorsnemar og þrír meistaraprófsnemar unnu í verkefnunum og starfsfólk Matís er fyrsti eða annar höfundur í 10 vísindagreinum og fleiri eru væntanlegar. Einnig hafa niðurstöður margra tilrauna verið birtar sem Matís skýrslur og er aðgengi að þeim mjög auðvelt á www.kaeligatt.is.

Meðal annars hafa rannsóknir Matís sýnt fram á að sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur. Þetta byggir þó á því að hitastýring í gámum sé eins og best verður á kosið. Tölvuvædd varma- og straumfræði hefur verið hagnýtt til þróunar á nýjum endurbættum frauðplastkössum sem geta lengt bæði ferskleikatímabil og geymsluþol ferskra afurða í flugflutningskeðjum um tvo daga. Veruleg þróun hefur orðið í hraðvirkum örverugreiningum og nú er svo komið að unnt er að greina ýmsa sýkla og skemmdarörverur á mun skemmri tíma en áður var mögulegt sem ætti að geta komið að góðum notum í matvælaiðnaðinum. Þessi þróun gefur möguleika á notkun spálíkana sem voru þróuð í Chill-on verkefninu í samvinnu við Wessex Institute of Technology (WIT, UK). Mögulegt er að spá fyrir um geymsluþol fyrir ferskar þorskafurðir á hitastigsbilinu frá -1°C til +11°C út frá fjölda skemmdarörvera og þekktrar hitasögu. Einnig voru þróuð líkön sem spá vexti helstu sjúkdómsvaldandi baktería við svipaðar aðstæður.

Nánari upplýsingar veitir Emílía Martinsdóttir.

Fréttir

Matís sér um skyldleikagreiningar á sandhverfu í Suður-Kína

„Samstarf okkar hefur aðallega gengið út á að Matís hefur greint fyrir okkur skyldleika í hrygningarstofni af sandhverfu sem við erum með hér“ segir Jóhannes Hermannsson sem stýrir fyrirtæki í Suður-Kína sem sérhæfir sig í sandhverfueldi.

„Árangurinn af því fer að koma í ljós á næstu tveimur árum,“ segir Jóhannes.

Fyrirtækið hefur starfað í núverandi mynd í þrjú ár og er í eigu aðila í Hong Kong og Íslendings sem þar er búsettur. Eldið er staðsett í Kína, skammt norðan Hong Kong. „Við ölum fiskinn í lokuðum hringrásarkerfum innanhúss og getum framleitt um 300 tonn af sandhverfu á ári. Umhverfisaðstæður hér eru nokkuð langt frá náttúrulegum aðstæðum sandhverfunnar því hún þrífst vel í hita frá 12 upp í 17 gráður. Sjávarhiti hér við suður Kína fer mögulega niður í 16 gráður þegar kaldast er á  veturna og vel yfir 30 gráður á sumrin. Við erum því að ala fiskinn í umhverfi sem er fjarri náttúrulegu umhverfi hans. Eldi á  sandhverfu í tönkum uppi á landi er þekkt, t.d. á Spáni, í Frakklandi, Suður- Ameríku og víðar en sandhverfan er þekkt sem gæðahráefni í betri fiskrétti,“ segir Jóhannes en fyrirtæki hans selur nánast allan fiskinn úr eldinu lifandi til veitingahúsa, hótela og verslana. „Hér er samasemmerki milli þess að fiskur sé lifandi og líti vel út og að hann sé ferskur.“

Matís hefur sérhæft sig í tækni til að greina skyldleika í fiskeldi og þá þekkingu nýtir fyrirtæki Jóhannesar sér. „Mögulega hefðum við getað sótt okkur þessa þekkingu annars staðar en á vissan hátt eigum við greiðari aðgang að þjónustu hjá Matís þar sem það fyrirtæki er hvorki mjög stórt né flókið. Við getum sagt að í þessu tilfelli njóti báðir þess að vera  Íslendingar. Við vitum hvert við ætlum og hvað við getum fengið. Það skiptir okkur mestu að hafa aðgang að þekkingu sem er umtalsverð innan veggja Matís,” segir Jóhannes Hermannsson sem væntir þess að í framtíðinni muni sýni verða  reglulega send frá fyrirtæki hans í Suður-Kína til greiningar hjá Matís.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson hjá Matís.

Fréttir

Umhverfismengun á Íslandi – vöktun og rannsóknir

Fyrsta ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi verður haldin í Reykjavík föstudaginn 25. febrúar 2011.

Markmiðið með ráðstefnunni er að kynna vinnu og niðurstöður helstu aðila sem vinna við að meta mengun á Íslandi.  Áhersla verður lögð á að allir vöktunar- og rannsóknaraðilar komi með framlag á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni er skipt í tvo hluta.  Fyrir hádegi verður lögð áhersla á vöktun umhverfismengunar í íslenskri náttúru.  Síðan að loknum hádegisverði verða kynningar á rannsóknum á mengun í lofti, legi, jarðvegi, mönnum og dýrum.  Fyrirkomulag ráðstefnunnar er sú að í hverjum hluta verða valin nokkur erindi frá innsendum ágripum þar sem höfðu áhersla verður vöktun annars vegar og rannsóknir hins vegar. Þessi erindi veita yfirsýn yfir stöðu máli á Íslandi í dag. Einnig verður rík áhersla á veggspjöld þar sem rannsóknaraðilum gefst kostur á að kynna sín verkefni.  Ráðstefnugestum gefst færi á að kynna sér þau fjölbreyttu vöktunar- og rannsóknaverkefnum á þessum veggspjöldum og ræða persónulega við rannsakendur um þau verkefni í kaffihléum og veggspjaldakynningum.

Dagskrána má finna hér.

Lokafrestur til skila á ágripum var 1. desember 2010 á umhverfi@matis.is

Skráning án kynningar er send á sama netfang.

Skipulagsnefnd svarar fyrirspurnum
Gunnar Steinn Jónsson Umhverfisstofnun, gunnar@ust.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir Matís, hronn.o.jorundsdottir@matis.is
Taru Lehtinen HÍ, tmk2@hi.is

Vísindanefnd: Hrund Ólöf Andradóttir HÍ, Taru Lehtinen HÍ, Kristín Ólafsdóttir HÍ, Gunnar Steinn Jónsson UST, Hermann Sveinbjörnsson Umhverfisráðuneytið, Anna Kristín Daníelsdóttir Matís, Helga Gunnlaugsdóttir Matís, Hrönn Jörundsdóttir Matís.

Fréttir

Nákvæmari leiðbeiningar með vefforritinu www.hvaderimatnum.is

Þróun á vefforritinu „Hvað er í matnum – www.hvaderimatnum.is“ er ekki lokið en vegna óska fjölmargra aðila er það nú þegar gert aðgengilegt á vefnum.

Hægt er að nota forritið til að skoða efnainnihald matvæla og gera ýmsa útreikninga. Þessar leiðbeiningar eiga að auðvelda fólki að hagnýta forritið.

Almenn atriði

  1. Nauðsynlegt er að Java forritið sé á tölvu notenda.
  2. Til vinstri á skjánum er listi fyrir fæðutegundir úr ÍSGEM-gagnagrunninum í stafrófsröð. Hægt er að velja einstaka fæðuflokka úr listanum með því að smella á fellilista yfir honum.
  3. Neðst á skjánum birtast eftirtaldir valmöguleikar: (1) Fæða. (2) Næringarefni. (3) Samsetning. (4) Uppskriftir. Síðustu tveir möguleikarnir hafa enn sem komið er takmarkaða virkni: (5) Ég og vinir. (6) Máltíðir.  
  4. Leitin efst á skjánum er ekki virk.


Þarftu að finna efnainnihald matvæla?

  1. Smelltu á FÆÐA neðst á skjánum. Þá færðu hægra megin á skjánum töflu sem sýnir efnainnihald matvæla. Innihaldið er gefið upp fyrir 100g af ætum hluta matvælis. Aftur á móti ef þú reiknar næringarefni í uppskrift eða máltíð þá bætast niðurstöðurnar neðst í töfluna og þær gilda fyrir heildarmagn uppskriftar eða máltíðar.
  2. Athugaðu að þú þarft að nota listann til vinstri til að velja (smella á) þá fæðutegund sem þú ætlar að skoða. Listarnir vinstra og hægra megin eiga saman þó þeir séu aðskildir með línu og blá yfirstrikunin er bara í listanum til vinstri.
  3. Hægt er að raða öllum fæðutegundum eftir vaxandi eða minnkandi magni eins efnis. Þá er smellt á reitinn undir heiti efnis til hægri.
  4. Ef þú velur NÆRINGAREFNI neðst á skjánum færðu lista yfir næringarefni í einni fæðutegund. Mundu að hafa rétta fæðutegund valda í listanum til vinstri. Hér er boðið upp á að forritið sæki mynd af viðkomandi matvæli en þessi möguleiki er ekki fullþróaður. Í dálki til hægri er gefið upp æskilegt magn en hafðu í huga að þær upplýsingar geta verið rangar ef þú ert ekki skilgreindur í réttan hóp eftir aldri og kyni.
  5. Ef þú velur SAMSETNING neðst á skjánum getur þú skoðað grafíska framsetningu fyrir næringarefnin. Notið þó ekki myndina sem sýnir orkudreifingu því útreikningar eru rangir.

Þarftu að reikna magn næringarefna í uppskrift?

  1. Með því að ýta á + í miðreitnum býrðu til nýja uppskrift. Smelltu á línuna fyrir nýju uppskriftina til að gefa henni nafn.
  2. Veldu hráefni í uppskriftinni úr listanum til vinstri og dragðu hana yfir á reitinn yst til hægri.
  3. Þú breytir magni hráefnisins með því að smella á viðeigandi línu undir MAGN. Í sumum tilfellum er hægt að velja skammtastærð undir EINING.
  4. Útreikningarnir gerast um leið og þú bætir við nýjum hráefnum og gefur upp magn þeirra. Nýja uppskriftin bætist neðst í listann til vinstri. Ef þú raðar listanum fylgja uppskriftirnar með. Þú þarft að velja FÆÐA eða NÆRINGAREFNI til að skoða niðurstöðurnar. Þú skoðar þær eins og lýst er hér að framan. Niðurstöðurnar eru magn næringarefna í allri uppskriftinni eða máltíðinni en ekki 100g eins og gildir um fæðutegundirnar (hráefnin) í listanum.
  5. Þú getur afritað niðurstöðurnar í Excel skjal. Veldu þá NÆRINGAREFNI. Merktu alla reitina sem þú ætlar að afrita. Hægt er að afrita með Ctrl-C og setja inn í Excel skjal með Ctrl-V.


Þarftu að reikna magn næringarefna í máltíð eða máltíðum eins dags eða fleiri daga?

  1. Meðal forritið er ekki fullþróað er auðveldast að nota valmöguleikann UPPSKRIFTIR til að reikna út magn næringarefna í máltíð eða dagsneyslu.


Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal.

Fréttir

Líftæknirannsóknir á Sauðárkróki

Á Sauðárkróki starfrækir Matís líftæknismiðju sem opnaði í lok árs 2008. Hún starfar í nánu samstarfi við matvælafyrirtækin í Skagafirði um aukna verðmætasköpun og nýtingu aukaafurða.

Líftæknismiðja Matís ohf. er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína.   Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.

Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra protein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.

Fréttir

Matís með HACCP námskeið á Sauðárkróki

Nú fyrir stuttu hélt Matís námskeið hjá Fisk Seafood um innra eftirlit (HACCP, GÁMES).

HACCP („haccap“) er skammstöfun á Hazard Analysis and Critical Control Points er hefur verið útlögð sem Greining hættuþátta mikilvægra stýrirstaða.

Megin markmið innra eftirlits er að tryggja öryggi, gæði og hollustu matvæla. Innra eftirlit er nauðsynlegur hluti af stjórnkerfi hvers fyrirtækis er annast framleiðslu eða dreifingu matvæla. Með því er kerfisbundið verið að einfalda alla vinnuferla og fyrirbyggja óhöpp sem rýrt geta gæð, öryggi og hollustu matvæla, hvort sem er í dreifingar eða framleiðsluferlinum. Með virku HACCP eftirlitskerfi eru þeir staðir sem mestu máli skipta varðandi framleiðslu eða dreifingu skilgreindir auk þess sem nauðsynlegt eftirlit og rétt viðbrögð við frávikum eru skilgreind. Segja má að innra eftirlitskerfi sé nokkurskonar framlenging á góðum framleiðsluháttum (GFH eða GMP good manufacturing practice), sem er á ábyrgð hvers framleiðanda að sé fylgt. Það er að segja, kerfið byggir á skráningu ýmissa mælanlegra breyta sem koma fyrir í framleiðsluferlinum (sbr. hitastig o.fl.). Skráningar veita upplýsingar sem síðan nýtast við ferilstýringu.

Námskeiðið tókst mjög vel og þakkar Matís Fisk Seafood fyrir áhugann.

Námskeið Sauðárkrókur
Jón Eðvald Friðriksson framkv.stjóri FISK Seafood hf. og stjórnarmaður Matís ohf. tekur við viðurkenningarskjali úr Franklíns Georgssonar og Margeirs Gissurarsonar frá Matís.

Nánari upplýsingar um námskeiðið og önnur námskeið í boði hjá Matís má finna hér og með því að hafa samband við Margeir Gissurarson.

IS