Fréttir

Allt skiptir máli, ekki hvað síst bragðið

Doktorsvörn starfsmanns Matís í matvælafræði frá Matvæla- og næringafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.

Bætt skynræn gæði sjávarfangs fyrir neytandann

Skynrænir gæðaeiginleikar mismunandi þorskafurða og smekkur neytenda

Doktorsvörn í matvælafræði frá Matvæla- og næringafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Föstudaginn 25. september n.k. fer fram doktorsvörn frá Matvæla- og næringafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Kolbrún Sveinsdóttir matvælafræðingur doktorsritgerð sína „Improved seafood sensory quality for the consumer – Sensory characteristics of different cod products and consumer acceptance“ (Bætt skynræn gæði sjávarfangs fyrir neytandann – Skynrænir gæðaeiginleikar mismunandi þorskafurða og smekkur neytenda). Andmælendur eru Dr. Margrethe Hersleth frá Nofima Mat og Lífvísindaháskóla Noregs og Dr. Wender Bredie prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Leiðbeinendur Kolbrúnar og í doktorsnefnd voru eftirtaldir Emilía Martinsdóttir MSc, fagstjóri hjá Matís, Dr. Grethe Hyldig Aqua, National Institute of Aquatic Resources við Tækniháskóla Danmerkur (DTU), Dr. Conor Delahunty hjá Matvæla og næringarvísindastofnun Ástralíu (CSIRO), Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís og Dr. Inga Þórsdóttir prófessor við Háskóla Íslands.

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskólans í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00.

Matís veitti Kolbrúnu og rannsókn hennar aðstöðu, en rannsóknin tilheyrði stóru verkefni eða áætlun, SEAFOODplus. Matís og Háskóli Íslands voru þátttakendur í SEAFOODplus sem var styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins. Rannsókn Kolbrúnar var einnig styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi.

Ágrip úr rannsókn
Jákvæð áhrif fiskneyslu á heilsu fólks eru vel þekkt. Þrátt fyrir það er fiskneysla minni í Evrópu en ráðlagt er af heilbrigðisyfirvöldum. Skynræn gæði s.s. útlit, lykt, bragð og áferð, hafa mikil áhrif á neytendur, auk margra annarra þátta sem móta reynslu, smekk o.fl. Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina skynræna gæðaeiginleika mismunandi þorskafurða. Markmiðið var einnig að kanna smekk neytenda fyrir þorskafurðum með hliðsjón af viðhorfum, lýðfræðilegum þáttum og staðsetningu neytendaprófa.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa ítarlegar upplýsingar um gæðaeiginleika þorskafurða. Skynmat á þorskafurðum sýndi m.a. hvernig meðhöndlun hafði áhrif á gæðaeiginleika. Einkunnaskalar sem þróaðir voru í verkefni Kolbrúnar geta nýst sem grunnur í geymsluþolsrannsóknum, vöruþróun eða fyrir gæðaeftirlit í fiskiðnaði.. Með því að tengja saman upplýsingar um skynræna gæðaþætti, smekk neytenda, viðhorf og venjur fást mikilvægar upplýsingar fyrir markaðssetningu sjávarafurða og fyrir heilbrigðisyfirvöld til að stuðla að því að ráðleggingum um fiskneyslu verði betur fylgt víða í heiminum. Doktorsritgerðin byggir á fimm vísindagreinum, sem birtar eru eða samþykktar til birtingar, í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.

Um doktorsefnið
Kolbrún Sveinsdóttir er fædd þann 6. október 1974 í Reykjavík. Kolbrún lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðibraut Menntaskólans í Kópavogi árið 1994 og BSc námi í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 1997. Hún lauk svo meistaranámi frá Háskóla Íslands árið 2000. Meistaraverkefnið fjallaði um gæðaþætti og þróun skynmatsaðferðar til að meta eldislax með tilliti til ferskleika. Kolbrún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2004. Hún hefur starfað hjá Matís sem matvælafræðingur frá árinu 2000 á sviði skynmats. Kolbrún er dóttir Sveins Kristjánssonar, kennara og Aðalheiðar Edilonsdóttur húsmóður. Hún er gift Guðmundi B. Friðrikssyni umhverfisverkfræðingi og eiga þau þrjú börn, Kristján Leó, Ísak Mána og Heiðrúnu Maríu.

Nánari upplýsingar veita
Kolbrún Sveinsdóttir, 422-5079, netfang: kolbrun.sveinsdottir@matis.is
Emilía Martinsdóttir, 422-5032, netfang: emilia.martinsdottir@matis.is

Fréttir

Háþrýstingur til góðs?

Á næstunni verður birt vísindagrein í blaðinu LWT-Food Science and Technology, sem ber titilinn; Áhrif háþrýstings á vöxt Listeríu og áferðar- og smásæja eiginleika reykts lax.

Höfundar eru Ásbjörn Jónsson, starfsmaður Matís auk Birnu Guðbjörnsdóttur, Hannesi Hafsteinssyni og Volker Heinz.

Vísindagreinin er afrakstur verkefnis sem var unnið á árunum 2005-2006.

Meginmarkmið verkefnisins var að rannsaka áhrif háþrýstings (400-900 MPa) á vöxt bakteríunnar Listeria innocua og gæðaþætti (myndbyggingu, áferð og lit) í kaldreyktum laxi eftir meðhöndlun í 10, 20,30 og 60 sekúndur. Áhrif á heildarfjölda loftháðra baktería, mjólkursýrugerla og Bacillus gróa voru einnig rannsökuð.

Rannsóknin sýndi að meðhöndlun með háþrýsting í stuttan tíma væri árangursrík til að bæta gæði og öryggi kaldreykta afurða. Vegna lítilsháttar breytinga í útliti og áferð afurðanna er þörf á frekari rannsóknum. Þessi nýja aðferð lofar góðu til að mæta kröfum um lengra geymsluþol á reyktum laxi.

Rannsóknin hefur mikið gildi fyrir iðnaðinn, vegna þeirra nýjungar að nota háþrýsting í stuttan tíma (sekúndur) til að eyða bakteríunni Listeríu í reyktum laxi og auka þannig geymsluþol þessarar verðmætu afurðar.

Greinina má finna hér.

Verkefnið var styrkt af Rannsóknarsjóði Rannsóknarmiðstöðvar Íslands.

Nánari upplýsingar veitir Ásbjörn Jónsson, asbjorn.jonsson@matis.is.

Fréttir

Matís og HR bjóða upp á einstakt nám fyrir stjórnendur í matvælaframleiðslu

Rekstrarstjórnun og vöruþróun í matvælaframleiðslu

Markmið námsins er að efla almenna rekstrarkunnáttu nemenda og kynna þeim hagnýtar og sannreyndar aðferðir og vinnubrögð sem ýta undir rekstrarlegan árangur m.a. með betri stjórnun virðiskeðjunnar og markvissari samningum við birgja. Auk þess verður fjallað um vöruþróun og nýsköpun frá hráefni til neytenda. Farið verður yfir það hvar og hvernig má koma auga á tækifæri, hvernig tækifæri er flutt af hugmyndastiginu á þróunarstigið, stjórnun nýrrar þróunar, og loks hvernig nýrri þróun er komið á framfæri í formi nýs vöru‐ eða þjónustuframboðs.

  • Fjármál og rekstrarstjórnun ‐ Birgir Hrafn Hafsteinsson, Capacent
  • Stjórnun virðiskeðjunnar ‐ Hlynur Stefánsson, HR og Sveinn Margeirsson, Matís
  • Samningatækni og ákvörðunartaka ‐ Aðalsteinn Leifsson, HR
  • Frammistaða, starfsmanna‐ og launaviðtöl ‐ Elfa Hrönn Guðmundsdóttir, HR
  • Stefnumótandi markaðssetning ‐ Valdimar Sigurðsson, HR
  • Vöruþróun og nýsköpun ‐ Marina Candi, HR, Sjöfn Sigurgísladóttir og Guðmundur Gunnarsson, Matís
  • Hráefnisnýting og leiðir til virðisaukningar og breytingar á matvælalöggjöfinni ‐ Franklín Georgsson og Margeir Gissurarson, Matís
  • Sjálfbærni í matvælaiðnaði ‐ Sveinn Margeirsson, Hörður Kristinsson og Guðmundur Gunnarsson, Matís

Námið stendur frá 2. október til 22. janúar 2010. Hvert námskeið er 8 klst.
Nánari upplýsingar um námið veitir starfsfólk Opna háskólans í síma 599 6360 eða á stjórnmennt@opnihaskolinn.is

Verð kr. 229.000.‐

SKRÁNING ER HAFIN

Tenglar:
Auglýsing á pdf formi
www.opnihaskolinn.is

Fréttir

Langstærstur hluti arsens í fiskimjöli er með öllu hættulaus

Arsen í matvælum og fóðri getur verið hættulegt. Nýleg rannsókn unnin af Matís sýnir að 50-90% af arseni í fiskimjöli er hættulaust. Hjá Matís hefur undanfarið verið unnið að rannsóknarverkefni sem er styrkt  af AVS og miðar að því að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint á milli eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli. 

Rannsóknin hefur nú staðið yfir í eitt ár og  hefur  ný efnagreiningaraðferð verið þróuð sem mælir magn vatnsleysanlegra og óvatnsleysanlegra arsenefnasambanda. Niðurstöður sýna  að nánast allt arsen í fiskimjöli  sem er á vatnsleysanlegu formi er bundið í arsenóbetaníði, sem er hættulaust. Leiða má því líkur að því að allt að 90% af heildarstyrk arsens sé hættulaust.

Arsen, sem er vel þekkt bæði sem eiturefni og krabbameinsvaldandi efni, finnst frá náttúrunnar hendi í háum styrk í sjávarfangi. Arsen er aftur á móti bundið í mismunandi efnaformum (e. species), þar sem sum efnaformanna eru eitruð og skaðleg heilsu manna á meðan önnur eru hættulaus. Núverandi reglugerðir á hámarksgildi arsens í matvælum og fóðri í Evrópu taka eingöngu tillit til heildarstyrks arsens í fóðri, jafnvel þó allt að 50-90% af arseni í sjávarfangi sé hættulaust.

Í þessu rannsóknarverkefni hefur  heildarstyrkur arsens í mismunandi tegundum af fiskimjöli á mismunandi árstíðum verið mældur. Niðurtöður sýna að heildarstyrkurinn  er breytilegur milli tegunda og einnig hefur komið í ljós viss árstíðamunur í fiskimjöli af sömu tegund t.d. fyrir fiskimjöl sem framleitt er úr kolmunna. Frekari mælingar eru nauðsynlegar til að staðfesta  hvort einnig er munur á milli árstíða á síldar- og loðnumjöli.  Kolmunninn sker sig einnig frá loðnunni og síldinni að því leyti að heildarstyrkur hans reynist oft á mörkum leyfilegra hámarksgilda. Þar myndi endurskoðun reglugerða þar sem tekið væri tillit til styrks eitraðra og hættulausra efnaforma í stað heildarstyrks hafa mikið að segja þar sem stærstur hluti arsens í kolmunna hefur reynst vera á hættulausu efnaformi. Há gildi á heildararseni getur haft þau áhrif að kaupendur á fiskimjöli vilji rifta kaupsamningum eða semja um lækkað verð. Þróun efnagreiningaraðferða til að greina bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli í stað heildarmagns líkt og gert er í dag er því mikilvægur þáttur í að verja hagsmuni einnar af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar og tryggja verðmæti íslensks fiskimjöls.

Rannsóknin er unnin í samstarfi  við Síldarvinnsluna hf. og Vinnslustöðina hf. og hlaut styrk frá AVS árið 2008.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.

Fréttir

Bakteríuland!

Mánudaginn 7. sept. er þátturinn Bakteríuland á dagskrá í sjónvarpinu (RUV). Starfsmaður Matís, Viggó Marteinsson, kemur talsvert við sögu í þættinum.

Franskir þáttagerðamenn gerðu mynd um bakteríur og menn þ.e. áhrif og notagildi örvera á menn. Vinkill þáttagerðamannanna er góða hliðin á örverurum fyrir menn en í > 99.9% tilfella eru þær okkur lífsnauðsynlegar. En við heyrum sjaldnast af þessu heldur fáum við iðurlega umfjöllun um þessi < en 1% þar sem þær geta valdið mannfólkinu skaða.

Matís stendur mjög framalega í rannsóknum, uppgvötunum og þróun nýrra ensíma til nota í rannsókna-, matvæla-, lyfja-og orkuiðnaði. Unnið er að notkun þörunga sem framleiðslukerfa og notkun lífveruverkfræði (metabolic engieering) við hönnun framleiðslulífvera til efnasmíða. Einnig er unnið að einangrun, framleiðslu, umbreytingu og þróun lífvirkra efna og matvæla og eiginleikar þeirra (t.d. blóðþrýstingslækkandi- og andoxandieiginleikar) ákvarðaðir með mismunandi rannsóknaraðferðum. Stærstur hluti þessara rannsókna og verkefna fer fram á sviði Líftækni og lífefna hjá Matís.

Mikið af starfi sviðsins byggir á áralöngum rannsóknum á ensímum sem einangruð hafa verið úr hitakærum örverum og stór þáttur í starfseminni felst í skimun og könnun á nýjum ensímum úr lífverum sem lifa við jaðarskilyrði lífs, háan hita, mikinn kulda lágt sýrustig og svo framvegis til nota í iðnaði.

Á sviðinu er unnið að verkefnum á sviði örverufræði, t.d. umhverfismati og greiningum á tegundasamsetningu í blönduðum sýnum, t.d. úr hverum, sjó, seti og frárennsli. Hér er vistfræðileg nálgun byggð á erfðafæðilegum grunni, þ.e. raðgreiningum á tegundagreinandi geni þar sem ræktun örvera er ekki lengur nauðsynleg.

Matís hefur í töluverðan tíma verið í góðu samstarfi við Bláa Lónið m.a. varðandi rannsóknir á vaxtarskilyrðum þörunga og blágrænna baktería, einangrun þeirra og hreinsun.

Nánari upplýsingar um þáttinn sem verður á dagskrá kl. 20:20, má finna á http://dagskra.ruv.is/nanar/4577/

Frekari upplýsingar veitir Viggó Marteinsson, viggo.marteinsson@matis.is.

Fréttir

Brjósksykrur eru hollari en brjóstsykur

Úr sæbjúgum og brjóskvef hákarla má framleiða brjósksykrur, sem geta haft jákvæð áhrif á ýmsa kvilla sem hrjá mannfólkið. Matís ohf, Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, IceProtein ehf og Reykofninn Grundarfirði ehf vinna nú saman að rannsóknum á chondroitin sulfat brjósksykrum og þróun á framleiðslu þeirra.

Rannsóknir hafa sýnt að chondroitin sulfat fásykrur, sem eru uppistaðan í byggingarefni brjóskvefs, hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, ónæmiskerfi, meltingu, oxunarferla, bólguferla og gigt. Ennfremur hefur verið sýnt fram á hemjandi virkni brjóskefna á æxlisvöxt. Því má nota chondroitin sulfat brjósksykrur sem lyf, heilsu- eða fæðubótaefni. Sýnt hefur verið fram á mismunandi lífvirkni chondroitin sulfat fásykra eftir gerð þeirra og uppruna. AVS og Tækniþróunarsjóður styðja verkefnið.

Á rannsóknarstofu Matís hefur ýmsum aðferðum verið beitt við einangrun og hreinsun á chondroitin sulfati og tekist hefur að hanna framleiðsluferil á slíkum fjölsykrum úr sæbjúgum og hákarlabrjóski. Framundan er að skala upp ferilinn.

Sérvirkir lífhvatar verða svo notaðir til þess að klippa chondroitin sulfat fjölsykrur niður í verðmætar lífvirkar fásykrur. Einangrun og framleiðsla slíkra lífhvata er einmitt annað markmið verkefnisins.

Nýlega tókst að einangra örverur sem innihalda lífhvata sem brjóta niður chondroitin fjölsykrur í fásykrur. Til þess að einangra og framleiða viðkomandi lífhvata á hagkvæman hátt þarf að finna gen þeirra í erfðamengi örveranna og koma genunum fyrir í framleiðslulífverum. Leitin að genunum fór fram á nýstárlegan hátt.

Erfðamengi tveggja valinna örverustofna voru raðgreind í heilu lagi með nýju raðgreiningartæki í eigu Matís og Háskóla Íslands. Annað erfðamengið samanstóð af 6,7 milljónum basapara, hitt af 4,8 milljónum basapara. Kjarnsýruraðir erfðamengjanna voru svo skimaðar fyrir meintum chondroitin sulfat niðurbrots genum.

Nú er unnið að því að flytja genin yfir í framleiðslulífverur og framleiða genaafurðirnar, lífhvatana, með aðferðum líftækninnar. Lyfjafræðideild Háskóla Íslands mun svo sjá um rannsóknir á lífvirkni efnanna. Erlend lyfjafyrirtæki hafa sýnt verkefninu áhuga og ljóst er að eftirspurn er eftir lífvirkum chondroitin sykrum á markaði. Það er því þrýstingur á þátttakendur verkefnisins að þróa framleiðsluferla og útbúa vöru á markað sem fyrst.

Nánari upplýsingar á heimasíðu AVS, www.avs.is.

Fréttir

TAFT ráðstefna í Kaupmannahöfn

Dagana 15.-18. september n.k. verður haldin í Kaupmannahöfn ráðstefnan TAFT 2009 (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess munu koma saman og bera saman bækur sínar.

Um er að ræða þriðju sameiginlegu ráðstefnu þessara aðila.

Að ráðstefnunni standa WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Anna Kristín Daníelsdóttiranna.k.danielsdottir@matis.is, sviðstjóri Öryggis og umhverfis hjá Matís situr í vísindanefnd ráðstefnunnar og veitir hún nánari upplýsingar um ráðstefnuna.

Nokkrir starfsmenn frá Matís sækja ráðstefnuna og kynna efni frá fyrirtækinu m.a. á veggspjaldasýningu ráðstefnunnar.

Heimasíða ráðstefnunnar: http://taft2009.org/

Fréttir

Enn ferskari fiskur!

Endurbættar varmaeinangrandi pakkningar fyrir ferskar fiskafurðir. Reynslan hefur kennt útflytjendum ferskra fiskafurða að full ástæða er til að leita allra leiða til að verja vöruna fyrir því hitaálagi, sem hún verður fyrir í flugflutningi á leið til markaðar. 

Rannsóknir hafa sýnt að góð forkæling fyrir pökkun og vel einangraðar pakkningar geta skipt sköpum fyrir hitastýringu og þar með hámörkun afurðagæða. Matís, Háskóli Íslands og Promens Tempra, hafa tekið höndum saman um rannsóknir á þessu sviði innan verkefnanna Chill on og Hermun kæliferla, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóði, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. 

Óumflýjanlegt er að varan verði fyrir einhverju hitaálagi í flugflutningi. Til að meta hækkun vöruhita hefur verið stuðst við tilraunir og tölvuvædd varmaflutningslíkön (CFD líkön).  Mynd 1 sýnir hversu mikillar vöruhitahækkunar er að vænta í stökum 5 kg frauðplastkassa (án ísmottu), sem verður fyrir 5 – 20 °C hitaálagi. Af myndinni má t.d. sjá að standi kassinn í 10 klst. í 15 °C hita hækkar vöruhitinn úr 1 °C í 6.6 °C. Mikilvægi forkælingar fyrir pökkun sést vel á því að hafi þessi sömu 5 kg verið forkæld niður í -1 °C fyrir pökkun í þennan sama frauðplastkassa má áætla að það taki hita flakanna einmitt u.þ.b. 10 klst. að hækka í 0 °C.

Hermun_kaeliferla-1
Mynd 1.  Meðalhiti 5 kg hvítfiskflaka í 5 kg hefðbundnum frauðplastkassa,
sem látinn er standa stakur í 5 – 20 °C hita.  Upphafsvöruhitinn er 1 °C og
gert er ráð fyrir varmaburðarstuðlinum 5 W/m2/K fyrir utan kassann, þ.e.
að ekki leiki vindur um kassann. 

Þá hafa bæði tilraunir og varmaflutningslíkön staðfest að hitadreifingin í slíkum kössum getur verið mjög misleit eins og sést á mynd 2.  Einsleitari hitadreifing er ákjósanleg því þannig getur kaupandinn verið enn öruggari um jafnari gæði vörunnar. Unnið er að endurbótum á frauðplastkössum Promens Tempra þar sem stuðst er við niðurstöður úr rannsóknarverkefninu.

Hermun_kaeliferla-2
Mynd 2.  Hitadreifing (°C) í lóðréttu langskurðarsniði frauðplastkassa,
sem hefur staðið stakur í 19.4 °C hita í 1 klst. með upphafsvöruhita 1 °C. 

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, bjorn.margeirsson@matis.is.

Fréttir

Íslandsmið: lítið menguð auðlind!

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (AMSUM 2008).

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hærri en í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu og að hluta til af Matís. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríki hafsins í kringum Ísland við ástand í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2007 – 2008) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2007 og 2008. Í rannsókninni eru mældir þungmálmarnir blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík. Þrávirk lífræn efni eru lág í kræklingi og þorski við Íslandi. CB-153 eru það efni sem eru í hæstum styrk í kræklingi meðan DDE er í hæstum styrk í þorski.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.

Fréttir

Matís sækir ársfund Norrænu Matvælarannsóknarnefndarinnar (NMKL)

Ársfundur NMKL (norrænu matvælarannsóknanefndarinnar) stendur nú yfir á Selfossi dagana 21. – 25. september.

Matís heldur að stærstum hluta utan um skipulagningu ársfundarins en auk þess er Franklín Georgsson, sviðsstjóri hjá Matís, í stjórn nefndarinnar. Hann er jafnframt tengiliður Íslands við NMKL.

Nánari upplýsingar má finna á vef NMKL, www.nmkl.org/

IS