Fréttir

Ný leið fyrir prótein úr fiski í önnur matvæli – doktorsvörn starfsmanns Matís við HÍ

Miðvikudaginn 24. júní n.k. fer fram doktorsvörn við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Tom Brenner efnafræðingur doktorsritgerð sína „Aggregation behaviour of cod muscle proteins“ (Klösun vöðvapróteina úr þorski).

Andmælendur eru dr. E. Allen Foegeding, prófessor við North Carolina State University og dr. Erik van der Linden, prófessor við Wageningen University. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Ragnar Jóhannsson, sérfræðingur hjá Matís ásamt Taco Nicolai frá CNRS, Université Du Maine í Frakklandi. Umsjónarmaður var dr. Ágúst Kvaran prófessor við HÍ.

Dr. Guðmundur G. Haraldsson, forseti raunvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu og hefst klukkan 10:00.

Ágrip af rannsókn
Klösun vöðvapróteina úr þorski var rannsökuð. Aðallega var stuðst við ljósdreifingu og viskoelastískar mælingar í rannsóknunum. Í fyrri hluta rannsóknarinnar var aðalvöðvapróteinið, mýosin, einangrað og rannsakað. Í seinni hluta rannsóknarinnar er fjallað um hegðun vöðvapróteinlausna sem fást við  uppleysingu við pH ~11. Slíkri uppleysingu er beitt á iðnaðarskala hér á landi til að ná vöðvapróteinum úr þorskafskurði sem og öðrum fiskafskurði. Allar rannsóknir voru framkvæmdar hjá Matís ohf. og var ætlað að styrkja fræðilega grunn undir fyrrnefnd vinnsluferli sem þróuð hafa verið hjá Matís.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru m.a. að afturkræf klösun vöðvapróteina sem og einangraðs mýosins er mjög svipuð og þekkist hjá gelatíni. Vinnsluferlar fyrir próteinlausnirnar þurfa því að taka mið af þessari hegðun próteinanna.

Síðan var sýnt fram á brotvíddarbyggingu mýosinklasa. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem þessi bygging, sem þekkt er fyrir hnattlaga próteingel og klasa, er staðfest fyrir vöðvaprótein. Viskoelastískir eiginleikar gelja unna úr próteinlausnum voru kannaðir í þaula. Í ljós kom að brotin gel endurmynduðust undir skerspennu sé hún lægri en skerspenna sem skilgreina megi sem eiginlega brotspennu. Síðan var sýnt fram á myndun próteinsnauðra svæða í geljunum, en þessi mesóskopíska fasaskiljun er talin vera fyrsta skrefið í makróskopískri fasaskiljun.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Université Du Maine í Frakklandi og Matís ohf. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Ragnar Jóhannsson, sviðstjóri hjá Matís ohf., ásamt Taco Nicolai frá CNRS, Université Du Maine í Frakklandi.

Ásamt þeim situr í doktorsnefnd dr. Ágúst Kvaran, prófessor við HÍ.Um doktorsefnið

Tom Brenner er fæddur árið 1982. Hann lauk B.Sc. prófi í efnafræði við Háskóla Íslands árið 2004. Í dag starfar hann hjá Matís ohf.

Nánari upplýsingar
Tom Brenner, 4225131, netfang: tom.brenner@matis.is
Ragnar Jóhannsson, 4225106, netfang: ragnar.johannsson@matis.is

Fréttir

Rannsóknir Matís kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu í Bandaríkjunum

Árleg ráðstefna Institute of Food Technologists (IFT) var haldin í fyrstu viku júnímánaðar. Þar voru rannsóknir Matís kynntar og var fyrirtækið með hvorki fleiri né færri en 15 veggspjöld

Matís var með 15 veggspjöld/erindi á IFT ráðstefnunni sem var haldin í Anaheim, Kalíforníu. IFT ráðstefnan er stærsta matvælavísindaráðstefna sem haldin er í heiminum og er sótt af fleiri þúsund manns árlega.  Matís kynnti rannsóknir sínar á lífvirkum peptíðum og fjölfenólum úr sjávarfangi, vinnslueiginleikum fiskipeptíða og einnig rannsóknarvinnu tengt bragðgæðum saltfisks.  Rannsóknirnar vöktu mikla athygli og var mikið um fyrirspurnir um samstarf á þessu sviði.  Ljóst er frá þessarri ráðstefnu að mikil vakning er tengt lífvirkum afurðum úr hafinu og er Matís í fararbroddi á þessu sviði.  Næsta IFT ráðstefna er í Chicago 2010 og stefnir Matís á aðra sterka innkomu þá.  Rannsóknir Matís á þessu sviði fara fram bæði í Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki og rannsóknastofu Matís í Gylfaflöt í Reykjavík, í nánu samstarfi við Háskólann í Flórída.

IFTa

Frekari upplýsingar um þessar rannsóknir og ráðstefnuna veitir Dr. Hörður G. Kristinsson, sviðstjóri líftækni- og lífefnasviðs, hordur.g.kristinsson@matis.is.

Fréttir

TAFT ráðstefna í Kaupmannahöfn – Matís í vísindanefnd

Dagana 15.-18. september n.k. verður haldin í Kaupmannahöfn ráðstefnan TAFT 2009 (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess munu koma saman og bera saman bækur sínar.

Um er að ræða þriðju sameiginlegu ráðstefnu þessara aðila.

Að ráðstefnunni standa WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Anna Kristín Daníelsdóttiranna.k.danielsdottir@matis.is, sviðstjóri Öryggis og umhverfis hjá Matís situr í vísindanefnd ráðstefnunnar og veitir hún nánari upplýsingar um ráðstefnuna.

Fréttir

Matís skipuleggur ásamt fleirum ráðstefnu um þurrkun

Dagana 17.-19. júni fer fram ráðstefna í Reykjavík um þurrkun. Ráðstefnan er norræn og er hún haldin í 4. sinn.

Þema ráðstefnunnar í ár er tækni, ferlar og afurðir sem eru mikilvægar fyrir samfélög og fyrirtæki, þ.m.t. þær áskoranir sem taka þarf tillit til þegar kemur að gæðum, þróun, lausn vandamála, orkunýtingu og áhrif á umhverfið, áhrif á loftslag og lífkerfið í heild sinni.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason hjá Matís, sigurjon.arason@matis.is.

Fréttir

Makrílvinnsla á Íslandsmiðum

Sumarið 2008 var makrílsýnum safnað austur af landinu innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu og mat lagt á flokkunareiginleika makrílsins.

Sýnunum var safnað af þremur skipum, þau voru tekin úr skiljara uppá dekki um leið og aflanum var dælt um borð. 30 fiskar af hverju skipi voru mældir á viku.  Eftirfarandi þættir voru mældir; heildarlengd, staðallengd, hauslengd, bollengd, stirtla, breidd, hæð, ummál og þyngd auk þess var kyn fiska greint.  Fiskurinn var hausaður og slógdreginn um borð í frystiskipunum áður en hann var frystur.

Makrill_mynd1

Minnstu makrílarnir voru 29 cm en þeir náðu þó ekki 1% af heildarfjöldanum. Langmest var af makríl sem var 35-39 cm. Makríll sem var 40 cm eða lengri var 20% af heildarfjölda sýna, stærstu sýnin voru 44 cm að lengd og voru 1% af heildarfjöldanum. Makríll verður mest 60 cm langur.

Minnstu makrílarnir voru um 250 grömm en makrílar sem voru undir 300 grömmum voru 4% af heildarsýnafjöldanum. Langflest sýni voru á bilinu 300 – 599 grömm eða 80% af heildinni, þó voru hlutfallslega flest sýni 400-499 grömm eða 31%. Þyngstu sýnin voru yfir 700 grömm og var það þyngsta 790 grömm, hlutfall sýna yfir 700 grömm var 3%.  Þegar kynskiptingin er skoðuð  sést að 65% af sýnunum var hængur og 35% hrygna. 

Fyrstu athuganir á flokkun makríls frá síld hafa verið framkvæmdar með Style-flokkurum. Á Style-flokkurunum flytja flokkunarrásir hráefnið niður á færibönd og er vídd bandanna stillanleg, þannig dettur minnsti fiskurinn fyrstur niður á færibönd en stærri fiskurinn heldur áfram og dettur seinna niður á færibönd sem flytja hann áfram í vinnsluna. Þegar flokkarinn var stilltur eingöngu m.t.t. til að flokka makríl datt síldin strax niður á færiband sem flutti síld og smámakríl í lest, sem síðan var  landað til bræðslu.  Þegar flokkarinn var stilltur til að flokka bæði síld og makríl var vídd bandanna minni á fremri helmingi flokkarans en mun meiri á aftari helmingi hans, þannig tókst að flokka síldina frá makrílnum en það útilokar þó þann kost að stærðarflokka fiskinn. Gallinn við þessa aðferð er þó að smámakríll slæðist með síldinni og þá þarf að týna hann úr síldaraflanum.

Stærstu útflutningsríkin af frosnum makríl, ásamt hrognum og lifur, eru Noregur og Bretland, þau hafa samanlagt yfir 50% af útflutningsverðmæti í heiminum. Önnur lönd sem flytja út makríl í einhverjum mæli eru Holland, Írland, Máritanía, Kanada, Þýskaland, Bandaríkin og Kína. Kaupendur að þessum afurðum eru að stærstum hluta Japanir, Rússar og Kínverjar.

Stærsti markaðurinn fyrir frosinn makríl er í Japan en 26% af heildarverðmæti markaðarins eru þar. Hins vegar kaupa Japanir ekki makríl af Íslendingum, ástæðan er sú að makríllinn sem leitar inn í íslenska lögsögu er í æti og fitnar mjög hratt eftir hrygninguna en það veldur losi í fiskvöðvanum. Japanir kaupa því haust og vetrarveiddan makríl að mestu leyti af Norðmönnum og Bretum, sem er af meiri og jafnari gæðum.

Þegar markaðir fyrir makrílafurðir eru skoðaðir þykir ljóst að markaðir í Japan og Austur-Evrópu séu fengsælustu markaðirnir bæði hvað varðar magn og verð.  Á meðan makríll veiðist einungis á sumrin í íslenskri lögsögu er ekki hægt að selja makríl á Japans-markað en markaðir í Austur-Evrópu sýna sumarveiddum makríl áhuga og voru kaupendur tilbúnir að borga yfir 2500 usd/tonn sumarið 2008.

Verkefnið var styrkt af AVS.

Fréttir

Samstarf um tengingu vísindastarfs og rannsókna við atvinnulífið

Opni háskólinn í HR hefur gert samstarfssamning við Matís og Reykjavíkur Akademíuna um þróun námskeiða og námslína auk kennslu, til að efla menntun í íslensku atvinnulífi.

Framsækin þjálfun og menntun stjórnenda, sérfræðinga og starfsfólks fyrirtækja gerir þeim kleift að skara fram úr í samkeppni og vera skapandi á tímum breytinga.

Matis_HR

Skrifað var undir samstarfssamninga Opna háskólans, Reykjavíkur Akademíunnar og Matís kl. 12:30 í dag í Háskólanum í Reykjavík.

„Opni háskólinn leggur metnað sinn í að bjóða íslensku atvinnulífi aðgang að öflugu fagfólki og fagnar því að geta bætt fagsviðum við núverandi framboð Opna háskólans með samstarfssamningum við Matís og Reykjavíkur Akademíuna,“ segir Guðrún Högnadóttur, framkvæmdastjóri Opna háskólans um samstarfið.

„Í starfi Reykjavíkur Akademíunnar er mikilvægt að finna leiðir til að miðla þekkingu þeirra fræðimanna sem þar starfa og hagnýta hana með fjölbreyttum hætti. Í þeirri kreppu sem nú herðir að samfélaginu fer víða fram endurskoðun á grundvallarhugmyndum atvinnulífs og samfélags. Með samstarfi við Opna háskólann tekur Reykjavíkur Akademían í fyrsta sinn þátt í fræðslu fyrir atvinnulífið og ekki þarf að efast um að þar munu gagnkvæm kynni auðga alla sem þátt taka,“ segir Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri Reykjavíkur Akademíunar.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfssamningur þessi falli mjög vel að starfsemi Matís enda er eitt markmiða Matís að koma að öflugri kennslu og endurmenntun, m.a. í gegnum samstarf við háskóla á Íslandi sem og aðrar menntastofnanir. „Á þann hátt er búin til öflug tenging á milli vísindastarfs og rannsókna annars vegar og atvinnulífs hins vegar.“

Með samstarfinu vill Opni háskólinn auðga íslenskt samfélag með miðlun og virkjun þekkingar utan hefðbundinna námslína á háskólastigi. Með markvissri þjálfun og menntun starfsmanna geta íslensk fyrirtæki mætt breyttu viðskiptaumhverfi með kraftmeiri hætti en áður.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra Guðrún Hinriksdóttir, forstöðumaður við Opna háskólann, í síma 864 0073.

Fréttir

Mikill áhugi meðal útgerða á tilraunum Matís með dagmerki

Matís hefur á undanförnum misserum staðið fyrir tilraunum með dagmerki um borð í fiskiskipum til að auka rekjanleika og upplýsingastreymi innan virðiskeðju sjávarafurða. 

Nokkrar tegundir merkja hafa verið reynd, ásamt því sem magn þeirra upplýsinga sem fram koma á merkjunum og nýting þeirra eftir að aflinn kemur í land hafa verið könnuð.  Vaxandi áhugi er á meðal útgerða á að nýta sér gögn sem þessi, enda eru allir aðilar í virðiskeðjunni að verða mun meðvitaðri en áður um þau verðmæti sem felast í upplýsingum og rekjanleika.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonas.r.vidarsson@matis.is.

Fréttir

Niðurstöður og tillögur kræklinganefndar – skýrslan á ensku

Þann 7. desember 2007 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi. Í skipunarbréfi til nefndarinnar kom eftirfarandi fram:

Þann 7. desember 2007 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi. Í skipunarbréfi til nefndarinnar kom eftirfarandi fram:

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að kanna stöðu og möguleika til kræklingaræktar á Íslandi með tilliti til bæði líffræðilegra og rekstrarlegra forsendna greinarinnar og umhverfisþátta. Nefndinni er ætlað að skila greinargerð til ráðherra og koma jafnframt með tillögur að þeim aðgerðum sem hægt væri að grípa til hjá hinu opinbera til að treysta almennar vaxtarforsendur greinarinnar“.

Nefndina skipuðu: Haukur Oddsson verkfræðingur, framkvæmdastjóri Borgunar hf. (formaður), Ásta Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Matís ohf., Guðrún Þórarinsdóttir sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, Jón Páll Baldvinsson frá Skelrækt – samtökum kræklingaræktenda og Kristinn Hugason deildarstjóri, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Skýrsla þessi er nú fáanlegu á ensku og hægt er að sækja eintak hér.

Fréttir

Matís og Landsmennt skrifa undir viljayfirlýsingu

Matís og Landsmennt, fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni, skrifuðu nýlega undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf sín á milli.

Matís hefur mikilli reynslu og þekkingu er vex með degi hverjum og er það markmið fyrirtækisins að miðla þeirri þekkingu til iðnaðarins með námskeiðahaldi og endurmenntun starfsmanna matvælafyrirtækja.  Þannig hyggst Matís stuðla að aukinni þekkingaruppbyggingu innan atvinnulífsins sem aukið getur arðsemi fyrirtækjanna og ánægju starfsmanna í starfi.

Landsmennt er fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni. Aðildarfélögin eru 21 og er þar um að ræða stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands.  Helstu verkefni Landsmenntar eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar- og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og fyrirtækjum beina styrki vegna sí- og endurmenntunar.

Með það að markmiði að tryggja framboð á faglegum námskeiðum og almennri endurmenntun starfsmanna mun Landsmennt styrkja námskeið á vegum Matís kostnaði gagnvart almennum starfsmönnum matvælafyrirtækja. 

Undirritaðir lýsa því yfir að þeir hyggjast auka samstarfs sitt og kappkosta að bjóða fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra uppá þekkingaröflun er hentar þörfum hvers og eins.

Meðfylgjandi eru mynd frá undirskriftinni.

Landsmennt2

Fréttir

Starfsmaður Matís ver meistararitgerð sína í dag

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, meistaranemi í umhverfisfræði við Háskóla Íslands mun í dag, klukkan kl. 15:15 í stofu V-157 í VR2, verja meistararitgerð sína í umhverfis-og auðlindafræði.  Meistararitgerðin ber nafnið Life Cycle Assessment on Icelandic cod product based on two different fishing methods.

Verkefni Aðalbjargar er unnið í samvinnu Matís, Verkfræðideildar Háskóla Íslands og sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf og Fisk Seafood hf.  Í útdrættinum úr ritgerðinni kemur m.a. fram:

Vistferilgreining (LCA) gerir okkur kleift að fá heilstæða mynd af lífsferli vöru eða þjónustu. Í þessu MS verkefni er tekið fyrir og borið saman 1 kg af léttsöltuðu lausfrystu þorskflaki með roði og beini veiddu með botnvörpu annars vegar og á línu hins vegar. Upplýsingum var safnað frá tveimur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum FISK Seafood sem átti og rak ístogarann Hegranes SK og Vísi hf sem á og rekur línubátinn Kristínu ÞH. Gögnum var safnað frá vinnslustöðum beggja fyrirtækja, FISK Seafood á Sauðárkrók og Vísis hf á Þingeyri. Vörunni var svo fylgt frá vinnslu í gegnum flutninga til Sevilla á Spáni þar sem varan er seld. Helstu niðurstöður eru þær að þorskur veiddur í botnvörpu hefur umtalsvert meiri umhverfisáhrif innan allra þeirra umhverfisþátta sem tekið var tillit til. Mestu umhverfisáhrifin eru að finna innan fiskveiðanna sjálfra sem kemur til vegna olíunotkunar skipanna. Til að veiða 1 kg af því er samsvarar fullunninni afurð þá brennir fiskveiðiskipið með botnvörpuna 1,1 líter af olíu á meðan línuskip notar 0,36 lítra. Umtalsverð umhverfisáhrif er einnig að finna innan frystihúsanna þar sem að vinnslan fer fram sér í lagi vegna kælimiðla sem þar eru notaðir. Flutningur á afurðinni er einnig stór þáttur í umhverfisáhrifunum þar sem að afurðinni er keyrt kældri langar leiðir og flutt sjóleiðis í kældum gámum til Evrópu með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Reiknuð voru út svokölluð sótspor sem segja til um útblástur gróðurhúsategunda umreiknuð yfir í koltvísýringsígildi. Sótspor 1 kg þorsks sem veiddur er með botnvörpu eru 5,14 kg koltvísýringsígildi á meðan sótspor sama magns af línuþorski er 1,58 kg koltvísýringsígildi.

IS