Fréttir

Brjósksykrur eru hollari en brjóstsykur

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Úr sæbjúgum og brjóskvef hákarla má framleiða brjósksykrur, sem geta haft jákvæð áhrif á ýmsa kvilla sem hrjá mannfólkið. Matís ohf, Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, IceProtein ehf og Reykofninn Grundarfirði ehf vinna nú saman að rannsóknum á chondroitin sulfat brjósksykrum og þróun á framleiðslu þeirra.

Rannsóknir hafa sýnt að chondroitin sulfat fásykrur, sem eru uppistaðan í byggingarefni brjóskvefs, hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, ónæmiskerfi, meltingu, oxunarferla, bólguferla og gigt. Ennfremur hefur verið sýnt fram á hemjandi virkni brjóskefna á æxlisvöxt. Því má nota chondroitin sulfat brjósksykrur sem lyf, heilsu- eða fæðubótaefni. Sýnt hefur verið fram á mismunandi lífvirkni chondroitin sulfat fásykra eftir gerð þeirra og uppruna. AVS og Tækniþróunarsjóður styðja verkefnið.

Á rannsóknarstofu Matís hefur ýmsum aðferðum verið beitt við einangrun og hreinsun á chondroitin sulfati og tekist hefur að hanna framleiðsluferil á slíkum fjölsykrum úr sæbjúgum og hákarlabrjóski. Framundan er að skala upp ferilinn.

Sérvirkir lífhvatar verða svo notaðir til þess að klippa chondroitin sulfat fjölsykrur niður í verðmætar lífvirkar fásykrur. Einangrun og framleiðsla slíkra lífhvata er einmitt annað markmið verkefnisins.

Nýlega tókst að einangra örverur sem innihalda lífhvata sem brjóta niður chondroitin fjölsykrur í fásykrur. Til þess að einangra og framleiða viðkomandi lífhvata á hagkvæman hátt þarf að finna gen þeirra í erfðamengi örveranna og koma genunum fyrir í framleiðslulífverum. Leitin að genunum fór fram á nýstárlegan hátt.

Erfðamengi tveggja valinna örverustofna voru raðgreind í heilu lagi með nýju raðgreiningartæki í eigu Matís og Háskóla Íslands. Annað erfðamengið samanstóð af 6,7 milljónum basapara, hitt af 4,8 milljónum basapara. Kjarnsýruraðir erfðamengjanna voru svo skimaðar fyrir meintum chondroitin sulfat niðurbrots genum.

Nú er unnið að því að flytja genin yfir í framleiðslulífverur og framleiða genaafurðirnar, lífhvatana, með aðferðum líftækninnar. Lyfjafræðideild Háskóla Íslands mun svo sjá um rannsóknir á lífvirkni efnanna. Erlend lyfjafyrirtæki hafa sýnt verkefninu áhuga og ljóst er að eftirspurn er eftir lífvirkum chondroitin sykrum á markaði. Það er því þrýstingur á þátttakendur verkefnisins að þróa framleiðsluferla og útbúa vöru á markað sem fyrst.

Nánari upplýsingar á heimasíðu AVS, www.avs.is.