Fréttir

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs í matvælafræði við matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands verður haldinn mánudaginn 6. október kl. 12:00 í Árnagarði, stofa Á-201, við Háskóla Íslands.

Rannsóknarverkefnið var unnið á Matís ohf í samstarfi við Rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala – háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands ásamt Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Kl. 12:00 Gunnþórunn Einarsdóttir

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks:

Bætt ímynd sjávarafurða

Young consumer attitudes and fish consumption:

Improved image of seafood

Gunnþórunn Einarsdóttir útskrifaðist með BS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Árið 2005 hóf hún nám til meistaraprófs í matvælafræði við HÍ. 

Markmið verkefnisins var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks. Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð.  

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.  

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Dr. Ingu Þórsdóttur prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands og Emilíu Martinsdóttur (M.Sc) deildarstjóra hjá Matís ohf. Prófdómari var Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Fréttir

Matís þróar nýja aðferð til að fylgjast með mengun skemmdarbaktería í fiski

Nú nýverið birtist grein í Journal of Environmental Monitoring þar sem fjallað er um niðurstöður rannsóknar vísindamanna hjá Matís. Tilgangur rannsóknarinnar var að þróa aðferð sem gæti komið að liði við innra gæðaeftirlit í fiskvinnslu og tól til ákvörðunartöku við vinnslu hráefnis af mismunandi gæðum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á möguleikann á því að greina á hraðvirkan hátt skemmdarbakteríuna Pseudomonas í fiski á fljótlegan og öruggan hátt.

Hér er því komið tæki til að fylgjast með mengun skemmdarbaktería í fiski. Rannsóknir á notkun þessarar aðferðar í öðrum matvælum stendur einnig yfir.

Fréttir

Landgengar eldiskvíar gætu aukið þekkingu

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Matís ohf. sátu fund með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í síðustu viku um áframhaldandi uppbyggingu á rannsóknaraðstöðu fyrir þorskeldi á Vestfjörðum. Kynnt var fyrir nefndinni vilji fyrir því að sveitarfélög og aðilar kæmu meira að uppbyggingu á rannsóknaraðstöðu til þorskeldis.

Verkefnið sem tengist þessari uppbyggingu felst í því að fá landfestar þorskeldiskvíar sem myndu auðvelda aðgengi rannsóknaraðila að rannsóknarefninu og hugsanlega væri hægt að tengja það við ferðaþjónustu þegar það væri komið lengra að stað.

Neil Shiran Þórisson segir að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða leiti nú að fjármagni til að hrinda verkefninu af stað. „Þetta yrðu landgengar kvíar sem myndi auðvelda alla rannsóknarvinnu vísindamanna á eldisfiski og auka þar með þekkingu á honum sem gæti leitt til meiri framleiðni og betri nýtingu á fisknum. Verkefnið er í bið núna á meðan við leitum að aðilum sem gætu hugsanlega séð sér hag með að koma með peninga inn í verkefnið.

Frétt birt á www.bb.is.

Fréttir

Mastersvörn í matvælafræði við HÍ

Mastersvörn í matvælafræði verður haldin í dag, föstudaginn 26. september, við Háskóla Íslands í stofu 158, í VR II og hefst kl 15.30. Kristberg Kristbergsson prófessor mun kynna og stjórna vörninni.

Gholam Reza Shaviklo mun verja mastersritgerð sína sem fjallar um: Evaluation and Utilisation of Fish Protein Isolate Products.

Leiðbeinendur voru: Sigurjón Arason, Guðjón Þorkelsson og Ragnar Jóhannsson.

Smellið hér til að lesa nánar um verkefnið og meistaravörnina.

Fréttir

Lífvirk bragðefni unnin úr íslensku sjávarfangi

Á Matís er að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: “Lífvirk bragðefni unnin úr íslensku sjávarfangi”. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi til þriggja ára og verður unnið með fyrirtækinu Norðurbragði ehf. sem er stærsti framleiðandi bragðefna úr sjávarfangi á Íslandi.

Framleiðsla ýmissa bragðefna er mjög umfangsmikil á heimsvísu. Tiltölulega fá fyrirtæki framleiða hinsvegar bragðefni úr sjávarfangi í einhverju verulegu magni. Eitt fyrirtæki á Íslandi, Norðurbragð ehf., hefur skapað sér sérstöðu á þessum markaði með því að framleiða náttúruleg bragðefni úr íslensku sjávarfangi, þar sem engum aukaefnum er bætt út í. Eftirspurn eftir náttúrulegum bragðefnum hefur aukist mikið og er talið að hún muni aukast enn meir á næstu árum.

Bragðefni úr sjávarfangi hafa eingöngu verið seld í þeim tilgangi að gefa af sér gott bragð og bragðaukandi áhrif í ýmsum matvælum.  Bragðefni unnin með ensímum á þann hátt sem Norðurbragð framleiðir, eru í raun hýdrólýsöt, eða niðurbrotin fiskprótein.  Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að hýdrólýsöt úr hinum ýmsu fisk, krabba og lindýrategundum geta borið með sér mikla lífvirkni og geta verið mjög heilsusamleg.  Hin hefðbundna skýring á heilnæmi sjávarfangs hefur nær alltaf snúið að omega-3 fitusýrum, en nýlegar rannsóknir benda til þess að það er gnægð annarra efna sem leggja af mörkum við heilnæmi sjávarfangs, þar á meðal prótein og peptíð þeirra.  Það er því góðar líkur á að bragðefni unnin úr sjávarfangi hafi svipuð áhrif og hýdrólýsöt, en þetta er ókannað.  Slíkar niðurstöður myndu gefa algjörlega nýja sýn á bragðefni unnin úr sjávarfangi, og gæti haft mjög jákvæð áhrif á sölu og framleiðslu þeirra sem myndi skila sér í betri nýtingu aukaafurða og vannýttra tegunda og auknum virðisauka til sjávarútvegsins.

Markmið verkefnisins er að rannsaka og skima fyrir margskonar lífvirkni bragðefna sem unnin eru úr íslensku sjávarfangi.  Skimað verður fyrir andoxunarvirkni, blóðþrýstingslækkandi áhrifum, kólesteróllækkandi áhrifum, krabbameinslækkandi áhrifum og ónæmisstýrandi áhrifum. Þessar rannsóknir verða gerðar í náinni samvinnu við Matvæla- og Næringarfræðideild University of Florida og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. 

Niðurstöður þessa verkefnis er ætlað að efla fyrirliggjandi markað fyrir íslensk náttúruleg bragðefni úr sjávarfangi og þróa nýjan og mun arðbærari markað fyrir þær.  Stjórnandi verkefnisins er Dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri Lífefnadeildar Líftæknisviðs Matís-Prokaria.

Fréttir

Matís tekur þátt í Vísindavöku 2008

Má bjóða þér sláturtertu og rabarbarakaramellu?

Stefnumót hönnuða og bænda.
Nemendur og kennarar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands hafa unnið í samstarfi við Matís ohf og landsliðskokkanna Gunnar Karl Grétarsson og Örvar Birgisson unnið að þróun nýrra afurða fyrir íslenska bændur.

Markmið verkefnisins er að auka virði afurðanna og stuðla að nýsköpun í íslenskum landbúnaði.

Verkefnið hófst sem fimm vikna námskeið fyrir nemendur á öðru ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Nemendur heimsóttu bónda og kynntu sér framleiðslu hans, aðstöðu og þekkingu. Í framhaldinu voru gerðar tillögur að nýrri framleiðsluvöru fyrir bóndann. Á þessu stigi var um samstarf við fjóra bændur að ræða. Mikil ánægja og áhugi almennings varð til þess að ákveðið var að halda áfram með verkefnið og velja tvær afurðir árlega til að fullþróa og koma á markað. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði Landbúnaðarins. 

Fyrsta uppskera verkefnisins leit dagsins ljós nú í haust, sláturtertan sem fáanleg verður næsta sumar á veitingastaðnum Fjalladýrð í Möðrudal á Fjöllum, og rababarakaramellan sem fáanleg verður í sérverslunum og beint frá bænum Löngumýri á Skeiðum. 

Í dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem byggjast á góðri hönnun, gæðum og rekjanleika. Með því að tefla saman einni elstu starfstétt landsins, bændum og einni yngstu starfstétt landsins, hönnuðum, skapast spennandi möguleikar  og ný tækifæri. Hvað dettur ungum hönnuði í hug þegar hann fær hakkaða lifur í hendurnar?  Hvernig taka bændur hugmyndum hönnuðanna og hvert er innlegg matvælasérfræðinganna? 

Samstarfsbændur verkefnisins árið 2008 eru þau Elísabet Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Vernharðsson á Möðrudal á fjöllum og Dorothee Lubecki og Kjartan Ágústsson á Löngumýri á Skeiðum.

Þeir sem taka þátt í spjallinu eru:

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands

Brynhildur Pálsdóttir, vöruhönnuður

Guðmundur H. Gunnarsson, deildarstjóri hjá Matís

Irek Klonowski, landbúnaðarverkfræðingur hjá Matís

Fréttir

Klasaverkefnið “Næring í nýsköpun”: Matís tekur þátt í opnum kynningarfundi

Markáætlunarumsókn til RANNÍS, um rannsóknaklasann Næring í nýsköpun, er núna í undirbúningi. Kynning á undirbúningsvinnunni fer fram þriðjudaginn 16. september kl. 15–16 í Grand Hótel, fundarsal Gullteig B, þar sem fundargestir geta kynnt sér verkefnið og rætt tækifæri og samstarf. Meðal þeirra sem kynna viðfangsefni er Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri vinnslu- og vöruþróunarsviðs Matís.

Á fundinum verða kynnt nokkur viðfangsefni klasans:
• Inngangur – Kristinn Andersen, Marel
• Rannsóknir og vinnsla matvæla – Guðjón Þorkelsson, Matís
• Tækifæri í næringarfræði – Inga Þórsdóttir, LSH-HÍ
• Frumkvöðlar, nýsköpun og atvinnuþróun – Sigríður Ingvarsdóttir, NMÍ
• Umræður og kaffiveitingar

Fréttir

Matís stendur fyrir ráðstefnu: Kjarn- og rafeindaspunarannsóknir í matvælaiðnaði

Ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science verður haldin í Norræna húsinu í Reykjavík dagana 15.-17 september næstkomandi á vegum Matís ohf.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (e. Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag saman ásamt þátttakendum frá iðnaðinum og víðar. Að þessu sinni er lögð áhersla á notkun tækninnar í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna mikla möguleika og kosti þessarar tækni fyrir íslenskum rannsóknamönnum og iðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þær breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnu verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi.  Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma +354 422 5091 (María Guðjónsdóttir). 

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.

Fréttir

Dregur mjög úr magni trans-fitusýra – nákvæmum fitusýrugreiningum lokið á Matís

Hjá Matís ohf hefur verið lokið við nákvæmar fitusýrugreiningar á 30 sýnum af matvælum á íslenskum markaði til samanburðar við eldri niðurstöður, en stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995.

Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var, en þó greindist talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af ákveðnum vörum. Í næringarráðleggingum er mælt með því að fólk borði eins lítið af trans-fitusýrum úr iðnaðarhráefni og hægt er. Einnig er mælt með því að takmarka neyslu á mettuðum fitusýrum. Með þessu móti er hægt að draga úr líkum á hjartasjúkdómum.

Greiningarnar voru að þessu sinni framkvæmdar með nýjum gasgreini Matís en hann býður upp á mjög nákvæmar greiningar. Greindar voru 46 fitusýrur og voru þar á meðal trans-fitusýrur en þær voru nú í fyrsta skipti greindar hjá Matís. Áður hefur þurft að senda sýni erlendis til greininga á trans-fitusýrum.

Fitusýrugreiningar voru gerðar á smjörlíki, bökunarvörum, kexi, ís, snakki, sælgæti og mat frá skyndibitastöðum. Sýnin voru tekin í júní 2008. Athugunin náði ekki til mjólkurvara og nautgripa- og lambaafurða sem innihalda lítið eitt af trans-fitusýrum frá náttúrunnar hendi. Ekki voru heldur tekin með ýmis matvæli sem innihalda jurtaolíur og því engar trans-fitusýrur en meðal þessara matvæla eru ýmis brauð og kökur.

Fyrir alla flokka framangreindra matvæla greindust a.m.k. sum sýnanna með litlu sem engu af trans-fitusýrum og er það mikil breyting frá því sem verið hefur. Til dæmis var nær ekkert af trans-fitusýrum í þeim tegundum af kexi sem teknar voru til skoðunar. Þetta sýnir að matvælaiðnaðurinn hefur fundið leiðir til að framleiða afurðir án trans-fitusýra. Það greindist þó talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af smjörlíki, bökunarvörum og ís. Ljóst er að framleiðendur geta endurbætt þessar vörur og losað þær við trans-fitusýrur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það að víða erlendis hefur náðst góður árangur við að draga úr trans-fitusýrum í matvælum.

Stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995. Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var. Í sumum tilfellum er breytingin mjög mikil, svo sem fyrir kex, Ljóma smjörlíki og franskar kartöflur.

Í meðfylgjandi töflu eru niðurstöður teknar saman fyrir flokka fitusýra. Taflan sýnir hlutföll fitusýra en ekki magn þeirra. Hlutfall trans fitusýra er í flestum tilfellum mjög lágt. Í Danmörku er hámarksgildi fyrir trans-fitusýrur úr iðnaðarhráefni 2% af öllum fitusýrum. Hlutfallið er undir þessum mörkum fyrir 17 sýni af 30. Önnur 7 sýni eru með trans-fitusýrur á bilinu 2-4,2%. Talsvert af trans fitusýrum greindist í 6 sýnum, um er að ræða smjörlíki, bökunarvörur og ís.

Ljóst er af niðurstöðunum að matvælaiðnaðurinn er í auknum mæli farinn að nota fullherta fitu án trans-fitusýra og fljótandi jurtaolíur í stað hálfhertrar fitu sem leiddi til þess að trans-fitusýrur voru í afurðunum. Á seinustu árum hafa orðið framfarir í herslu á fitu þannig að leitast er við að herða sem mest af ómettuðum fitusýrum (þar með töldum trans-fitusýrum) í mettaðar fitusýrur. Það er því ekki lengur hægt að draga þá ályktun að trans-fitusýrur séu í matvælum þegar hert fita er tilgreind í innihaldslýsingunni. Aftur á móti er ljóst að trans fitusýrur er að finna þegar merkt er hálfhert fita eða fita hert að hluta (partially hydrogenated). Það er galli við notkun á fullhertri fitu að hún leggur til mettaðar fitusýrur en það er ótvíræður kostur að trans-fitusýrurnar eru ekki lengur til staðar. Notkun á jurtaolíum er að því leyti heppilegri að þær innihalda mikið af einómettuðum og fjölómettuðum fitusýrum.

Niðurstöðurnar sýna að jurtaolíur eru notaðar í sumar bökunarvörur, borðsmjörlíki, kartöflusnakk og mat frá skyndibitastöðum. Af innihaldslýsingum er einnig ljóst að mikið er farið að nota jurtaolíur í brauð og kökur. Það á þó ekki við um allar bökunarvörur, af öllum sýnum mældist mest af trans fitusýrum í kleinum. Úr þessu er hægt að bæta með því að velja steikingarfitu án trans fitusýra.

Smellið hér til að skoða töflu með niðurstöðum fitusýrugreininga á matvælum á íslenskum markaði í júní 2008.

Fréttir

Ferskleikamat á fiski á nokkrum sekúndum – kynning hjá Matís á nýjum tækjabúnaði

Kynning verður á nýjum tækjabúnaði sem framkvæmir ferskleikamat á fiski, í húsakynnum Matís að Borgartúni 21 kl. 10:00, föstudaginn 12. september. Sequid nefnist tækið en með því má mæla hvort fiskurinn hafi verið frystur einu sinni eða tvisvar, og eins hvort hann er í raun ferskur eða þiðinn, og fá hlutlaust mat á gæðum hráefnisins á fáeinum sekúndum.

Þróun búnaðarins var framkvæmd af hópi vísindamanna frá Wefta löndum Evrópu og var Sequid búnaðurinn nýlega settur á markað. Nú býðst íslenskum áhugamönnum um gæðamat á fiski tækifæri á að sjá kynningu á nýjustu tækni í þessum efnum.

IS