Fréttir

Þekktur vísindamaður gengur til liðs við Rf

Eins og greint var frá í frétt á vef Rf nýlega í tengslum við fiskeldisráðstefnu á Ísafirði, þá hefur Dr. Björn Þrándur Björnsson, prófessor við háskólann í Gautaborg, verið ráðinn í hlutastarf á Rf. Björn Þrándur er einn helsti sérfræðingur í Evrópu á sviði fiskalífeðlisfræði og og mun hann taka þátt í stefnumótun Rf á þessu sviði.

Björn Þrándur lauk B.S.prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1974 og Ph.D. prófi í dýralífeðlisfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1985. Hann stundaði rannsóknir og kennslu vð Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands á árunum 1974-78 og rannsóknir við University of California at Berkeley á árunum 1985-87. Björn hefur verið dósent við Gautaborgarháskóla frá árinu 1988.

Fréttir

Doktorsmenntuðu starfsfólki á Rf fjölgar

Í síðustu viku fjölgaði í hópi þeirra starfsmanna Rf sem lokið hafa doktorsprófi, en þá varðiSigrún Guðmundsdóttir, líffræðingur á Rf, doktorsritgerð sína “Listeria monocytogenes, from humans, food and food processing plants in Iceland – Molecular typing, adhesion and virulence testing.”

Doktorsvörnin fór fram 16. júní í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Marie-Louise Danielsson-Tham, prófessor við Sveriges lantbruksuniversitet, SLU.

Ritgerð Sigrúnar fjallar um rannsóknir á bakteríunni Listeria monocytogenes í mönnum, matvælum og matvælavinnslum á Íslandi. Gerðar voru úttektir á vinnsluhúsum sem framleiða reyktan lax og soðna rækju og bakterían einangruð. L. monocytogenes – stofnarnir sem einangruðust voru týpugreindir með sameindafræðilegri aðferð sem nefnist pulsed-field gel electrophoresis (PFGE) og þeir bornir saman. Allir L. monocytogenes stofnar sem voru einangraðir úr fólki á árunum 1978-2000 voru einnig týpugreindir og bornir saman stofnana sem einangruðust úr matvælavinnslunum. Auk þess var skoðuð viðloðun og smithæfni valinna stofna.

Rannsóknirnar fóru fram á Rf. Leiðbeinendur Sigrúnar voru Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og Dr. Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd voru Dr. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, Dr. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri og Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.

Sigrún Guðmundsdóttir fæddist árið 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1986, BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1991 og MS-prófi frá Heriott-Watt University, Edinborg, Skotlandi árið 1992. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á Rf frá árinu 1995 og hóf doktorsnám samhliða starfi sínu þar árið 2000.

Fréttir

Rf stofnar fyrirtæki á sviði erfðagreininga og ensímtækni

Í morgun sendu Rf og Arkea hf, sem er móðurfélag líftæknifyrirtækisins Prokaria, út sameiginlega fréttatilkynningu þar sem fram kemur að þau hafi undirritað samning um að sérstakt fyrirtæki í eigu Rf muni taka yfir erfðagreininga- og ensímsvið Prokaria.

Nýja fyrirtækið, sem heldur nafni Prokaria, mun taka yfir núverandi verkefni, aðstöðu og tækjabúnað Prokaria og ráða til sín starfsmenn þessara sviða. Dr. Jakob K. Kristjánsson, sem verið hefur forstjóri Prokaria mun taka þátt í þessum breytingunum og taka sæti í stjórn hins nýja félags.

Prokaria hefur á undanförnum árum byggt upp öflugar rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar á sviði erfðagreininga og ensímþróunar. Fyrirtækið er með þróunarsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki í matvælaiðnaði eins og Nestlé og Roquette. Einnig þjónar fyrirtækið fjölmörgum innlendum og erlendum viðskiptavinum í erfðagreiningum á fiski, dýrum og umhverfi. Prokaria hefur verið brautryðjandi hérlendis í þróun og notkun erfðagreininga í fiskeldi og fleiri sviðum.

Arkea hf. verður áfram með rekstur í öðrum dótturfélögum sínum um verkefni á sviði DNA ensíma og próteinframleiðslu úr útblæstri jarðhitaorkuvera. Stefnt er að áframhaldandi góðu samstarfi um þessi og önnur verkefni milli þessara aðila.

Starfsemi Rf hefur þróast mikið á undanförnum árum og framundan eru frekari breytingar á starfseminni. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um stofnun Matvælarannsókna hf, og verður Rf stór hluti af starfsemi hins nýja fyrirtækis. Í Matvælarannsóknum hf sameinast Rf, Matra, sem er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Með sameiningunni skapast möguleikar á að byggja upp öfluga rannsóknareiningu á sviði nýsköpunar í matvælaiðnaði, sem mun jafnframt leggja áherslu á að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla með rannsókum á því sviði.  Innkoma erfðagreininga- og ensímþrónarsviða Prokaria inn í þetta ferli veitir enn frekari möguleika til uppbyggingar og sóknar fyrir Matvælarannsóknir hf.

Nánari upplýsingar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir

Sími 893 8251

Fréttir

Þorskeldisrannsóknir komnar á fulla ferð

Á Ísafirði er mikill uppgangur í rannsóknum tengdum þorskeldi og hefur verið ákveðið að halda fund um ný og umfangsmikil verkefni sem hlotið hafa styrki að undanförnu. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra mun setja fundinn en hann hefst miðvikudaginn 21. júní nk. kl. 9:30

Á Ísafirði eru áherslur í fiskeldi á lífeðlisfræði þorsks og þá fyrst og fremst á kynþorska og áhrif ljósastýringar á vöxt, kynþroska og gæði eldisþorsks. Sjónum er einnig beint að erfðaþáttum sem tengja má lífeðlisfræðilegum þáttum á borð við vöxt og gæði afurða.

Fjögur ný rannsóknaverkefni tengd þróun iðnaðarvædds þorskeldis í tilraunaeldiskvíum í Ísafjarðardjúpi, hafa nýverið hlotið styrk úr innlendum og erlendum sjóðum.

Í verkefnunum verða m.a. rannsökuð áhrif ljósastýringar og er megin markmið þessara rannsókna að seinka eða koma í veg fyrir ótímabæran kynþroska sem er mikið vandamál við eldi á þorski. Heildarvelta þessara verkefna að meðtöldu framlagi þátttakenda í verkefnunum er rúmlega 300 m.kr og er velta (umfang) fyrir vestan alls um 103 m.kr. Styrkir frá rannsóknasjóðum til verkefnanna nema alls um 155 m.kr og þar af fara um 50 m.kr beint til reksturs verkefnanna á Ísafirði. Í vestfirsku þorskeldiskörfunni munar mikið um styrk frá Evrópusambandinu sem er í heild um 93 m.kr. Hlutur íslensku þátttakendanna í styrkveitingunni er umtalsverður, eða um 34 m.kr. Tveir þorskeldis-framleiðendur með eldiskvíar í Álftafirði taka þátt í því verkefni, þ.e. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Álfsfell ehf.

Sýnataka úr kvíTekin blóðsýni úr þorski
Unnið við sýnartökur úr eldiskvíum á ÁlftafirðiDr. Þorleifur Ágústsson tekur blóðsýni úr lifandi eldisþorski

Vegna þessara miklu uppbyggingar á þorskeldisrannsóknum þá hefur Jón Gunnar Schram, MS í sjávarútvegsfræði verið ráðinn til starfa hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á Ísafirði. Jón Gunnar tekur til starfa 1. júlí, en auk hans starfar Dr. Þorleifur Ágústsson hjá fiskeldisdeild Rf á Ísafirði.

Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf og lektor við Háskólann á Akureyri er ásamt Þorleifi leiðbeinandi nemanda í rannsóknartengdu meistaranámi sem kemur að þorskeldisrannsóknum í Ísafjarðardjúpi. Hlutverk nemanda er þróun aðferða og mælingar á áhrifum ljósastýringar á vöxt þorsks í samvinnu við Dr. Björn Þránd Björnsson prófessor við háskólann í Gautaborg. Björn Þrándur, er einn helsti sérfræðingur í Evrópu á sviði fiskalífeðlisfræði og hefur hann jafnframt verið ráðinn í hlutastöðu hjá Rf, og mun hann taka þátt í stefnumótun Rf á þessu sviði.

Sjá dagskrá fundarins

Fréttir

Meistaraverkefni um bætta afkomu í lúðueldi lokið

Föstudaginn 9.júní 2006 varði Hildigunnur Rut Jónsdóttir rannsóknarverkefni sitt til meistaraprófs í fiskeldisfræðum frá auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Verkefni Rutar bar heitið „Notkun bætibaktería til stýringar örveruflóru fyrir og eftir klak lúðulirfa“

Verkefnið var unnið í samstarfi Fiskey ehf., Rf og Háskólans á Akureyri og rannsakaði Rut möguleika á notkun bætibaktería til notkunar á fyrstu stigum lúðueldis. Framleiðsla á lúðuseiðum er viðkvæmt ferli og verða jafnan mikil afföll á fyrstu stigum eldisins. Oft á tíðum gerist þetta án augljósra skýringa en rannsóknir benda til að samsetning bakteríuflóru geti haft afgerandi áhrif á afkomu lúðulirfa í startfóðrun.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að afkoma hrogna og lirfa sé betri þegar fjölbreytni bakteríuflóru er meiri. Niðurstöður benda einnig til að sú blanda bætibaktería sem notuð var, hafi jákvæð áhrif á hlutfall svokallaðra gapara en það er vansköpun sem kemur fram á kviðpokastigi lirfa. Meðhöndlun fóðurdýra lúðulirfa (artemíu) með bætibakteríum virtist hafa jákvæð áhrif á gæði fóðurdýra með því að auka fjölbreytni í tegundasamsetningu bakteríuflóru. Niðurstöður tilrauna með mismunandi styrk sótthreinsiefna við meðhöndlun lúðulirfa gáfu vísbendingar um að minni styrkur sótthreinsiefnis gæfi jafnvel betri árangur með tilliti til afkomu lirfa.

Leiðbeinandi Rutar var Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf og lektor við Háskólann á Akureyri.

Andmælandi var Dr. Gunnsteinn Haraldsson kennslustjóri rannsóknatengds náms við Læknadeild Háskóla Íslands.

Fréttir

Nýtt Evrópuverkefni á Rf: QALIBRA-Heilsuvogin

Nýlega var haldinn í Hollandi fyrsti fundur í nýju ESB-verkefni sem heitir á ensku “Quality of Life – Integarted Benefit and Risk Analysis. Web-based tool for assessing food safety and health benefits” skammstafað QALIBRA en hefur fengið nafnið Heilsuvogin á íslensku.

Um að ræða þriggja og hálfs árs verkefni sem ESB styrkir. Rf stýrir verkefninu og verkefnistjóri er Eva Yngvadóttir, efnavekfræðingur á Rannssóknarsviði Rf. Þátttakendur í verkefninu eru, auk Íslendinga,frá Bretlandi, Hollandi, Grikklandi, Portúgal og Ungverjalandi.

Makmið QALIBRA- verkefnsins er að þróa magnbundar aðferðir til að meta bæði jákvæð og neikvæð áhrif innihaldsefna í matvæum á heilsu manna. Þessar aðferðir munu verða settar fram í  tölfuforriti sem verður opið og aðgengilegt öllum hagsmunaaðilum á veraldarvefnum.

Þegar er byrjað að kynna verkefnið og var það m.a. kynnt á SEAFOODplus ráðstefnu sem nýlokið er í Tromsö í Noregi og einnig verður það kynnt á stórri ráðstefnu um öryggi matvæla sem haldin verður  í Búdapest í Ungverjalandi 11-14 júní.  Fljótlega verður síðan opnuð heimasíða verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Eva Yngvadóttir, s. 530 8600 eða eva@rf.is

Fréttir

Stýring á kælikeðjunni til umræðu í Bonn

Tveggja daga ráðstefna um stýringu á kælikeðju matvæla var nýlega haldin í Bonn í Þýskalandi og var dr. Guðrúnu Ólafsdóttur, matvælafræðingur á Rf á meðal fyrirlesara. Nýjungar um merkingar og mælingar fyrir viðkvæm matvæli sem segja til um hitastig og tímaálag vöru voru meðal annars kynntar.

Hugmyndin að baki Stýringar á kælikeðjunni (Cold Chain Management) er ekki er alveg ný af nálinni. Matvæli, lyf og fleiri vörur sem þarf að geyma kældar eða frosnar innan mjög strangra hitamarka falla t.d. undir þennan vettvang.

Stjórnun á hitastigi og tíma eru þeir þættir sem mestu máli skipta til að tryggja gæði og geymsluþol á viðkvæmri vöru eins og fiski. Með auknum flutningum og lengri dreifileiðlum er í síauknum mæli lögð áhersla á að hægt sé að tryggja lágt hitastig vöru.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um þróun á örveruspálíkönum og “Smart label” merkingum til að segja fyrir um geymsluþol og öryggi matvæla. Fyrir neytandann eru komnar á markað merkingar svokallaðir TTI (time temperature indicators) sem geta gefið upplýsingar um hita og tímaálag vöru og RFID (Radio Frequency Identification) merkingar eru að ryðja sér til rúms.

Guðrún kynnti rannsóknir sem tengjast Ph.D. – verkefni hennar á ráðstefnunni í Bonn um notkun rafnefs sem fljótvirkrar mæliaðferðar til að meta gæði fisks. Ráðstefnurit var gefið út með þeim erindum sem flutt voru.

Nánari upplýsingar: Guðrún Ólafsdóttir, s: 530 8647 gudrun@rf.is

Fréttir

Hópur frá Whole Foods Market heimsækir Rf

Fjórir fulltrúar frá verslunarkeðjunni Whole Foods Market heimsóttu Sjávarútvegshúsið í morgun, til að fræðast um íslenskan fisk, rannsóknir á sjávarafurðum og hvernig Íslendingar stjórna fiskveiðum sínum.

Nokkuð gestkvæmt hefur verið í Sjávarútvegshúsinu að undanförnu, en aðeins eru nokkrir dagar síðan hér voru á ferð aðilar frá Marks & Spencer verslunarkeðjunni í Bretlandi. Vonandi er þetta til marks um vaxandi áhuga erlendis á íslenskum fiski og sjávarafurðum og þeirri staðreynd að fiskur er ekki bara góður og hollur, heldur sýna rannsóknir, m.a. sem Rf hefur gert, að óvenju lítið er að finna af óæskilegum efnum í þeim fiski sem veiddur er hér við land.

Whole Foods Market verslunarkeðjan er trúlega stærsta sinnar tegundar, en á vefsíðu WFM segir að keðjan reki 155 verslanir í Bandaríkjunum og í Bretlandi.  Verslunarkeðjan sérhæfir sig í sölu á „náttúrulegum“ og lífrænt ræktuðum matvælum.

Það er Baldvin Jónsson, markaðssérfræðingur og verkefnisstjóri Áforms, sem annaðist Íslandsför hópsins frá WFM, en Baldvin hefur starfað að markaðssetningu Íslands og íslenskum afurðum um langt skeið.  Hann á m.a. stóran þátt í velgengni Fun and Food- hátíðarinnar sem nú er haldin hér árlega með eftirtektarverðum árangri .

Fréttir

Markaðs- og tæknimenn frá Marks Spencer og Coldwater í kynningu í Sjávarútvegshúsinu

Í vikunni voru fjórir starfsmenn fyrirtækjanna Marks & Spencer og Coldwater í Bretlandi á ferð hér á landi til að kynna sér sjávarútveg, fiskvinnslu, fyrirtæki og rannsóknir er lúta a sjávarafurðum á Íslandi. Fjórmenningarnir voru ánægðir eftir heimsókn í Sjávarútvegshúsið í morgun.

Nokkrir sérfræðingar frá Rf fluttu stutta kynningu á þeim rannsóknum sem hér eru gerðar. Sjöfn Sigurgísladóttir byrjaði á því að bjóða gestina velkomna og sagði þeim síðan frá starfsemi Rf og hvernig unnið væri að því jafnt og þétt að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Helga Gunnlaugsdóttir ræddi síðan m.a. um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum og kynnti nýlega skýrslu um það efni sem Rf vann fyrir tilstuðlan sjávarútvegsráðuneytisins. Vakti það töluverða athygli þeirra hversu lítið mælist af óæskilegum efnum í íslenskum fiski, eins og fram kemur í áðurnefndri skýrslu.

Kolbrún Sveinsdóttir, fjallaði því næst um verkefni sem nefnist  Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.  Ræddi Kolbrún m.a. að kannanir sýni að fiskneysla virðist vera að minnka, sérstaklega á meðal ungs fólks og að þetta væri áhyggjuefni.  Tóku gestirnir undir þetta og höfðu svipaða sögu að segja frá Bretlandi.  Loks greindi Sigurjón Arason frá verkefnum um vinnsluspá og ræddi um nauðsyn rekjanleika.

Loks má geta að fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneytinu útskýrðu hvernig fiskveiðistjónarkerfið virkar hér á landi og einnig bar fleiri atriði á góma s.s. eco-labelling, en að sögn gestanna spyrja neytendur í Bretlandi margvíslegra spurninga um uppruna og bakgrunn þeirra matvæla sem þar eru í boði og því nauðsynlegt fyrir söluaðila að hafa haldbærar upplýsingar á reiðum höndum.  Það hefði enda verið tilgangur ferðar þeirra hingað til lands, að afla sér gagna.

Þeir sem heimsótti Sjávarútvegshúsið í morgun voru Andrew Mallison tæknistjóri M&S, Andrew Richy tæknimaður NPD M&S,  Cris Barker tæknistjóri Coldwater í Grimsby og Andy Beeken Sölufulltrúi M&S hjá Coldwater.

Fréttir

Hugvitssamleg notkun loðnulýsis – Grein frá Rf í nýjasta tbl. Ægis

Í nýjasta tbl. tímaritsins Ægis er m.a. að finna forvitnilega grein eftir Margréti Bragadóttur, matvælafræðing á Rf, um hugsanlegar leiðir til að nýta loðnulýsi í auknum mæli til manneldis, t.d. í majónes, salatsósur o.fl.

Í grein sinni bendir Margrét m.a. á að loðna sé sú fisktegund sem veiðst hefur í lang mestu magni hér við land, en verðmæti þessa magns hefur hingað til verið lítið miðað við magnið sem veitt er. Loðnan er einkum nýtt til bræðslu í fiskimjölsverksverksmiðjum til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi, sem einkum hefur verið notað í dýrafóður.

Þetta hefur verið mörgum þyrnir í augum, því ljóst er að ef hægt er að auka hlutfall loðnuafurða sem færi beint til manneldis, myndi það stórauka verðmæti þess loðnuafla sem veiddur er.

Lesa grein

Nánari upplýsingar:

sími: 8612661 / netfang: margret@rf.is

IS