Íslendingar eru á meðal mestu fiskneysluþjóða í heimi og tengja það oft langlífi og góðu heilsufari þjóðarinnar almennt, en nú eru vissar blikur á lofti í þeim efnum, enda hefur fiskneysla, sérstaklega ungs fólks dregist verulega saman á undanförnum árum.
Á fundi á Rf í dag var rætt um leiðir til að halda í horfinu, helst að auka fiskneyslu, sérstaklega hvað yngra fólk varðar, enda er það fólkið sem mun erfa landið og jafnframt kaupendur næstu áratuga. Samkvæmt landskönnun Manneldisráðs á mataræði fullorðinna Íslendinga hefur fiskneysla minnkað mikið á fáum árum eða um a.m.k. 30% og mest meðal ungs fólks (Laufey Steingrímsdóttir o.fl. 2003) og veldur það mörgum áhyggjum, bæði heilbrigðisyfirvöldum jafnt sem framleiðendum og sölumönnum sjávarafurða.
Minnkandi fiskneysla, sérstaklega hjá yngra fólki, er m.a. rakin til breytts neyslumynsturs almennt, með auknu framboði á ýmsum kjötvörum og tilbúnum réttum eins og kjúklingum og svínakjöti, pizzum og pastaréttum. Þá sýna kannanir að matarvenjur og fjölskylduhagir hafa breyst verulega síðustu áratugina og það hefur áhrif á neysluvenjur.
Á fundinum sem haldinn var á Rf í morgun var kynnt íslenskt verkefni, sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða, sérstaklega með ungt fólk í huga. Tilgangur verkefnisins, sem AVS-sjóðurinn styrkir, er heilsuefling og bætt ímynd sjávarafurða.
Hingað til hefur verið unnið að því að koma á fót rýnihópum með þátttöku ungs fólks og hefur það verið unnið í samstarfi Rf og Félagsstofnunar H.Í. Þá hefur einnig verið rætt við fisksala og veitingamenn og lögð drög að spurningum fyrir neytendakönnun sem fram fer á næstu mánuðum.
Smekkur er e-ð sem er áunnið og því mikilvægt að börn hafi aðgang að góðu hráefni frá upphafi. Með tilkomu mötuneyta í leik- og grunnskólum er líklegt að börn borði flestar fiskmáltíðir á slíkum stöðum og því óskandi að þar séu gæði í hávegum höfð.
Aðgangur að ferskum fiski er einnig mismunandi, það kom t.d. fram í máli Emilíu Martinsdóttur, sem stýrir verkefninu af hálfu Rf, að um helmingur allra fiskbúða á höfuðborgarsvæðinu eru í Mið- og Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi. Á móti eru innan við 10% fiskbúða fyrir allan Grafarvoginn, Grafarholtið og Árbæinn, þar sem mikið af börnum og unglingum búa. Þetta segir að vísu ekki alla söguna þar sem fiskur (yfirleitt frosinn) er seldur í flestum lágvöruverslunum.
Þátttakendur í verkefninu eru Félagsvísindastofnun H.Í., Rannsóknarstofu í næringarfræði á LSH og SH-þjónusta, auk Rf.