Fréttir

Loðnan klippt og skorin á Rf

Markaður fyrir tilbúin fersk matvæli hefur vaxið ört á undanförnum árum, sérstaklega í Evrópu og margir hafa séð í þeirri þróun möguleika á að auka verðmæti sjávarfangs. Það kann þó að vera snúið þar sem torvelt er að nota sjávarfang í tilbúin matvæli. Það sem helst hefur komið í veg fyrir að hægt sé að nýta sjávarfang í tilbúna rétti er að fiskur er mjög viðkvæmt hráefni vegna hás hlutfalls af fjölómettuðum fitusýrum sem geta oxast og valdið óbragði.

Til þess að fiskvinnslufyrirtæki eigi auðveldara með að mæta kröfum markaðarins er ljóst að afla þarf meiri þekkingar á stöðugleika tilbúinna fiskrétta og áhrif suðu á gæði afurða. Neytendur gera síauknar kröfur um framboð á tilbúnum matvælum, en vilja jafnframt að varan haldi mikilvægum eiginleikum, s.s. næringarinnihaldi og bragðgæðum. Jafnframt því eru auknar kröfur gerðar um ferskleika og aukið geymsluþol.

Á síðasta ári hófst verkefni á Rf sem hefur það markmið að rannsaka áhrif oxunar á himnubundin fosfólípíð, prótein og þráahindra/þráahvata í fiskvöðva sem áhrif hafa á bragðgæði og næringargildi fisks. Einnig á að skoða áhrif suðu og upphitunar sem þráahvetjandi þátta við myndun bragðgalla í soðnum þorski. Niðurstöður verkefnisins munu auka skilning á oxun í soðnum fiski sem veldur bragðgöllum og um leið gefa hugmyndir um leiðir til að koma í veg fyrir myndun þessara bragðgalla í afurðum.

Við úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís, í dag kom í ljós að fyrrnefnt verkefni hafði hlotið framhaldsstyrk upp á rúmar 4 milljónir króna, þannig að ljóst er að haldið verður áfram að rannsaka oxun í fiski af fullum krafti á Rf á næstu misserum.

Í dag var verkhópur verkefnisins að rannsaka loðnu á Rf m.t.t. til áðurnefndra eiginleika og var meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni. Verkefnisstjóri verkefnisins er dr. Guðrún Ólafsdóttir, en aðrir sem vinna að því á Rf eru Margrét Bragadóttir og Rósa Jónsdóttir. Sem fyrr segir styrkir Rannís verkefnið, en áætlað er að því ljúki árið 2008.

Fréttir

Forvarnir í fiskeldi: Ný skýrsla á Rf

Nýlega kom út skýrslan Forvarnir í fiskeldi, sem er framvinduskýrsla í samnefndu verkefni er hófst árið 2004 og lýkur árið 2007. Í verkefninu er m.a. rannsakað hvernig þróa megi aðferðir til að greina og bæta umhverfisþætti í lúðu- og þorskeldi á frumstigi eldisins, þ.e. frá klaki til lirfuskeiðs, en á því tímabili eru afföllin í eldinu hvað mest.

Verkefnið, eins og skýrslan, skiptist í tvo, aðskilda hluta: Hluti A, nefnist Forvarnir í þorskeldi og er það Hélène Lauzon, matvælafræðingur á Rf, sem er verkefnisstjóri þess hluta. Hluti B kallast aftur á móti Flokkun örvera: Probiotika tilraunir og verkefnisstjóri þess hluta er Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri Fiskeldissviðs Rf og lektor við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið er fjármagnað af AVS og Rf en að því kemur vísindafólk frá ýmsum öðrum stofnunum, auk Rf, svo sem Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar að Stað, Grindavík, fiskeldisfyrirtækið Fiskey ehf, Náttúrufræðistofnun Íslands (Akureyrarsetur), Raunvísindadeild H.Í. og Hólaskóli.

Lesa skýrslu

Fréttir

Sjávarútvegsráðuneytið: Loðnukvótinn aukinn í 210 þús tonn

Á vef Mbl.is er sagt frá því að Sjávarútvegsráðuneytið hafi, að tillögu Hafrannsóknarstofnunar, ákveðið að auka loðnukvótann á vetrarvertíðinni 2006 í 210 þúsund lestir eða um 110 þúsund lestir. Þar af koma 103 þúsund lestir í hlut íslenskra skipa. Útibússtjóri Rf í Neskaupstað er ánægður með gæði loðnunar.

Loðnusjómenn, útgerðarmenn o.fl. munu ugglaust kætast við þessar fregnir, enda voru líklega margir orðnir vondaufir yfir að úr vertíðinn myndi ræstast að þessu sinni.

Á vef Mbl.is í dag er einnig stutt viðtal við Þorstein Yngvarsson, útibússtjóra Rf í Neskaupstað, en hann er ánægður með loðnuna sem loðnuskipið Beitir NK kom með til löndunar, segir hana stóra og feita. Þess má geta að á starfssvæði útibús Rf á Austurlandi eru flestar fiskimjölsverksmiðjur landsins staðsettar og því vertíðarstemming hjá Rf í Neskaupstað þegar loðnuvertíðin fer á stað af fullum krafti. 

Hjá Rf í Neskaupstað starfa þrír starfsmenn.

Fréttir

Starfsmaður Rf á leið til Ástralíu

Katrín Ásta Stefánsdóttir, starfsmaður Vinnslu – og þróunardeildar Rannsóknarsviðs Rf hyggur á framhaldsnám í meistaranám í matvælafræði. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að Katrín fer ekki stystu leið að markmiði sínu heldur fer Jörðina á enda.

Katrín hóf störf á Rf árið 2004, eftir að hún lauk B.S. – námi í matvælafræði við Háskóla Íslands. Reyndar má segja að hún hafi verið komin með annan fótinn á Rf nokkru fyrr því hún vann hluta af stóru verkefni í matvælaverkfræði II á Rf undir handleiðslu sérfræðinga Rf.

Katrín hefur áður farið ótroðnar slóðir í vali sínu á starfsvettvangi, árið 2003 baust henni t.d. að starfa sem rannsókarmaður við matvælaefnagreiningar við Vysoká Škola Chemicko-Technologická (VSCHT, Institute of Chemical Technology), í Prag, sem hún segir að hafi verið mjög fróðleg og skemmtileg reynsla.

Áhuga Katrínar á að fara í framhaldsnám í matvælafræði til Ástralíu má rekja til þess að árið 2005 fór hún í heimsreisu, m.a. með viðkomu í Ástralíu og leist henni, að sögn vel á land og þjóð.  Ekki spillir svo fyrir að  Royal Melbourne Institute of Technology, þar sem Katrín hyggst nema býður upp á spennandi nám á hennar áhugasviði, vinnslu og nýsköpun matvæla úr sjávarfangi. 

Í dag er síðasti dagur Katrínar á Rf (a.m.k. í bili) og er henni óskað góðs gengis í leik og starfi á framandi slóðum.

Fréttir

Kynning á fiskneyslu í nútíð (og framtíð?)

Íslendingar eru á meðal mestu fiskneysluþjóða í heimi og tengja það oft langlífi og góðu heilsufari þjóðarinnar almennt, en nú eru vissar blikur á lofti í þeim efnum, enda hefur fiskneysla, sérstaklega ungs fólks dregist verulega saman á undanförnum árum.

Á fundi á Rf í dag var rætt um leiðir til að halda í horfinu, helst að auka fiskneyslu, sérstaklega hvað yngra fólk varðar, enda er það fólkið sem mun erfa landið og jafnframt kaupendur næstu áratuga. Samkvæmt landskönnun Manneldisráðs á mataræði fullorðinna Íslendinga hefur fiskneysla minnkað mikið á fáum árum eða um a.m.k. 30% og mest meðal ungs fólks (Laufey Steingrímsdóttir o.fl. 2003) og veldur það mörgum áhyggjum, bæði heilbrigðisyfirvöldum jafnt sem framleiðendum og sölumönnum sjávarafurða.

Minnkandi fiskneysla, sérstaklega hjá yngra fólki, er m.a. rakin til breytts neyslumynsturs almennt, með auknu framboði á ýmsum kjötvörum og tilbúnum réttum eins og kjúklingum og svínakjöti, pizzum og pastaréttum. Þá sýna kannanir að matarvenjur og fjölskylduhagir hafa breyst verulega síðustu áratugina og það hefur áhrif á neysluvenjur.

Á fundinum sem haldinn var á Rf í morgun var kynnt íslenskt verkefni, sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða, sérstaklega með ungt fólk í huga. Tilgangur verkefnisins, sem AVS-sjóðurinn styrkir, er heilsuefling og bætt ímynd sjávarafurða.

Hingað til hefur verið unnið að því að koma á fót rýnihópum með þátttöku ungs fólks og hefur það verið unnið í samstarfi Rf og Félagsstofnunar H.Í. Þá hefur einnig verið rætt við fisksala og veitingamenn og lögð drög að spurningum fyrir neytendakönnun sem fram fer á næstu mánuðum. 

Smekkur er e-ð sem er áunnið og því mikilvægt að börn hafi aðgang að góðu hráefni frá upphafi.  Með tilkomu mötuneyta í leik- og grunnskólum er líklegt að börn borði flestar fiskmáltíðir á slíkum stöðum og því óskandi að þar séu gæði í hávegum höfð. 

Aðgangur að ferskum fiski er einnig mismunandi, það kom t.d. fram í máli Emilíu Martinsdóttur, sem stýrir verkefninu af hálfu Rf, að um helmingur allra fiskbúða á höfuðborgarsvæðinu eru í Mið- og Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.  Á móti eru innan við 10% fiskbúða fyrir allan Grafarvoginn, Grafarholtið og Árbæinn, þar sem mikið af börnum og unglingum búa.  Þetta segir að vísu ekki alla söguna þar sem fiskur (yfirleitt frosinn) er seldur í flestum lágvöruverslunum.

Þátttakendur í verkefninu eru Félagsvísindastofnun H.Í., Rannsóknarstofu í næringarfræði á LSH og SH-þjónusta, auk Rf. 

Fréttir

Fjallað um omega-3 fitusýrur í The Economist

Hið virta vikurit The Economist birtir í nýjast tbl. sínu tvær greinar um omega-3 fitusýrur, þar sem í annarri er m.a. fjallað um rannsókn sem gerð var í Bretlandi á áhrifum neyslu omega-3 fitusýra barnshafandi kvenna á þroska barnanna. Í stuttu máli virðist rannsóknin sýna enn og aftur fram á að jákvæðu hliðar fiskneyslu séu margfalt fleiri en þeir neikvæðu.   

Rannsóknin sem The Economist gerir að umfjöllunarefni stóð yfir í 15 ár og náði til 14 þúsund kvenna og barna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem kölluð er Avon-rannsóknin, voru kynntar á vísindaráðstefnu í London nýlega. Fjöldi rannsókna á áhrifum omega-3 fitusýra hafa verið gerðar á undanförnum áratugum og margar greinar hafa birst í virtum vísindaritum um gagnleg áhrif þeirra, m.a. fyrir hjarta og heila.   Búast má við að greinar um þetta efni í jafn víðlesnu tímariti og The Economist hafi víðtækari áhrif á skoðanir fólks en margar aðrar.

Að mati greinarhöfundar The Economist ættu niðurstöður Avon-rannsóknarinnar að vera sérstaklega athyglisverðar fyrir yfirvöld í Bandaríkjunum, en þar hafa menn goldið vara við fiskneyslu barnshafandi kvenna, m.a. vegna ótta við skaðsemi vissrar tegundar kvikasilfurs.  Dr. Joseph Hibbeln frá National Institutes of Health í BNA segir þó að rannsóknin sýni ótvírætt fram á að kostir fiskneyslu séu margfaldir á við þá hættu sem stafað geti frá kvikasilfri í fiski.

Greinarhöfundur The Economist bendir að vísu á að varast skuli að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðum Avon-rannsóknarinnar að svo stöddu, en er þó greinilega sannærður um ágæti omega-3.

Þeim sem enn efast um heilnæmi fisksins, má benda á að rannsóknir sýna að magn óæskilegra efna sem finna má í fiski af Íslandsmiðum er langt undir viðmiðunarmörkum.

Grein The Economist

Fréttir

Sjávarútvegsbókasafnið tekur breytingum

Tómlegt er nú um að litast á bókasafninu sem er til húsa í Sjávarútvegshúsinu. Miklar breytingar hafa staðið þar yfir síðan um mitt síðasta ár og sem stendur eru flest rit safnsins niðurpökkuð í kassa.

Eitt best varðveitta leyndarmál í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, er Sjávarútvegsbókasafnið sem þar er til húsa á þriðju hæð. Safnið er eign Hafrannsóknastofnunnar og Rf og er sérfræðisafn á sviði haf- og fiskifræða auk matvælafræði, með sérstaka áherslu á fisk. Margir vísindamenn og nemendur hafa notfært sér safnið á liðnum árum og einnig er safnið opið almenningi, þó bækur séu þar ekki til útláns.

Breytingarnar fela m.a. í sér að hluti af húsnæði safnsins var tekinn undir starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem starfræktur hefur verið í Sjávarútvegshúsinu frá stofnun skólans árið 1998.  Hefur fjöldi nemenda skólans aukist jafnt og þétt frá stofnun og því þótti nauðsynlegt að bæta við þá aðstöðu sem nemendur skólans hafa haft til umráða.

Að sögn Eiríks Einarssonar, bókasafnsfræðings, er tímafrekt að pakka heilu bókasafni saman og koma því upp aftur, en stefnt sé að því að starf safnsins verði komið í eðlilegt horf í byrjun mars n.k..

Fréttir

Óskað eftir fyrirtækjum sem framleiða markfæði

Rf hefur borist fréttatilkynning frá Danmörku þar sem auglýst er eftir litlum og meðalstórum fyrirtækjum (SME´s) til að taka þátt í evrópsku netverkefni fyrirtækja sem framleiða markfæði (functional food). 

Verkefnið nær til fyrirtækja í um 20 Evrópulöndum og hefur það m.a. að markmiði að miðla þekkingu og nýjungum á þessu sviði.  Segir í fréttatilkynningunni að meira en 100 fyrirtæki hafi þegar tilkynnt þátttöku en að pláss sé fyrir um 20 til viðbótar.

Lesa fréttatilkynningu

Fréttir

Fundur á Sauðárkróki: Glærur komnar á vefinn

Fimmtudaginn 5. janúar var haldinn fjölmennur fundur í Verinu, nýju Þróunarsetri Hólaskóla, sem staðsett er á Háeyri 1 við höfnina á Sauðárkróki. Tilefni fundarins var að kynna 6 milljón króna styrk sem sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytin hafa veitt til að styrkja rannsóknir á sviði fiskeldis, vinnslu sjávarafla og matvælavinnslu á Sauðárkróki og við Hólaskóla.

Í frétt í Morgunblaðinu s.l. laugardag er haft eftir Einari Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra að „framtíðin sé björt í Skagafirði og Þróunarsetrið á örugglega eftir að geta af sér merkar rannsóknar og uppgötvanir íslenskum sjávarútvegi til hagsbóta.“

Rf starfrækti um langt skeið fjögur útbú á landsbyggðinni og hefur því lengi lagt áherslu á að efla rannsóknir sínar á landsbyggðinni. Þá hefur Rf í seinni tíð lagt aukna áherslu á að efla samstarf við æðri menntastofnanir hvar sem er á landinu.

Í gildi er samstarfssamningur milli Rf og Hólaskóla um rannsóknir og er starfsmaður Rf t.a.m. í hlutastarfi við kennslu í skólanum.  Ljóst er að fjárstyrkur ráðuneytanna mun styðja verulega við uppbyggingu Rf í Skagafirði.  Í frétt Mbl. segir að fyrirhugað sé að styrkja samstarfið enn frekar með sérstökum samstarfssamningi um rannsóknir og þróun á sviði fiskeldis, náttúruvísinda og matvælavinnslu, þar sem gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eigi aðild að samningi þessum auk, Auk Rf, Hólaskóla og FISK Seafood.  

Hér má nálgast nokkrar glærur sem fyrirlesarar á fundinum studdust við, en dagskrá fundarins var eftirfarandi:

1. Ávarp – Einar K. Guðfinnsson, Sjávarútvegsráðherra

2.  AVS Rannsóknasjóðurinn – Friðrik Friðriksson

3.  Rf á Norðurlandi – Sjöfn Sigurgísladóttir Rf

4.  Samstarf  FISK hf. við skóla og rannsóknastofnanir – Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri

5.  Fiskeldi og rannsóknir hjá Hólaskóla – Helgi Thorarensen, Hólaskóla

6.  Fóður og eldi – Rannveig Björnsdóttir Rf og Háskólinn á Akureyri

7.  Prótein úr sjávarfangi og endurnýting vatns í fiskeldi – Ragnar Jóhannsson, Rf og Hólaskóla

8.  Samstarf og uppbygging á Sauðárkróki, Skúli Skúlason – rektor Hólaskóla

Fréttir

Vinnsla próteina á Rf umfjöllunarefni í Innovate

Norræna nýsköpunarmiðstöðin gefur m.a. út fréttabréfið Innovate á ensku og í síðasta tbl. ársins 2005 er að finna viðtöl við þær Sjöfn Sigurgísladóttur forstjóra og Margréti Geirsdóttur, matvælafræðing á Rf. Umræðuefnið er þeir möguleikar sem felast í vinnslu hágæðapróteina úr fiski.

Hlutverk Norrænu nýsköpunarmiðstöðivarinnar (Nordisk InnovationsCenter) er m.a. „að vinna að því að Norðurlönd verði virkur innri markaður án landamæra þar sem ekkert kemur í veg fyrir frjálsan flutning hæfni, hugmynda, fjármagns, fólks eða afurða,“ eins og segir í kynningu á vefsíðu stofnunarinnar.

Stofnunin hefur aðsetur í Osló og þar starfar fólk frá öllum Norðurlöndunum. Stofnunin gefur m.a. út skýrslur og fréttabréf, m.a. Innovate, sem fyrr segir.

Viðtalið við Sjöfn ber yfirskriftina One fish, two fish (bls 10) og yfirskrift viðtalsins við Margréti er Something fishy (bls. 9).

Lesa Innovate

IS