Nú í byrjun júní hófst nýtt og spennandi fræðsluverkefni hjá Matís sem gengur undir nafninu Grænir Frumkvöðlar Framtíðar. Verkefnið, sem hlaut styrk frá Loftslagssjóði, hefur það að meginmarkmiði að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst, möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Verkefnið mun einnig miða að því að valdefla grunnskólanemendur á landsbyggðinni með því að fræða þá um mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, ekki aðeins sem tól í baráttunni gegn loftslagsvandanum, heldur einnig fyrir þau sjálf og þeirra nærsamfélag.
Þessa dagana dynja á okkur fréttir um hamfarir um allan heim þar sem talið er að breytingum í loftslaginu sé um að kenna. Myndir af skógareldum, skriðuföllum og flóðum sjást nánast daglega á sjónvarpsskjám landsmanna auk þess sem við heyrum fréttir af nýjustu skýrslu IPCC, sem felur í sér skýra viðvörun um þær hættur sem felist í yfirvofandi loftslagsbreytingum. Ungt fólk í dag horfir upp á þennan fréttaflutning nánast daglega og svokallaður loftslagskvíði er orðið þekkt fyrirbæri. Um þennan raunverulega og rökrétta kvíða, og allar tilfinningar sem honum fylgja, þarf að ræða, bæði heimavið og í skólum.
Loftslagsbreytingar eru ein helsta áskorun sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og yngstu kynslóðirnar munu ekki fara varhluta af þeirri baráttu sem framundan er. Eitt áhrifaríkasta tólið í baráttunni við loftslagsbreytingar er að fræða og valdefla unga fólkið okkar og því er nauðsynlegt að virkja það og vekja áhuga þess á málefninu á fyrstu skólastigum. Einnig er gífurlega mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að ræða tilfinningar sínar og kvíða þessu tengdu. Nemendur ættu ekki að þurfa að burðast einir með tilfinningar sínar heldur þarf að gefa þeim rými til að ræða þær við jafnaldra sína og um leið, beita aðferðum til að valdefla þau. Verkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar miðar að því að færa íslenskum grunnskólanemendum þá þekkingu, hæfni og hvatningu sem þarf til að finna lausnir við loftslagstengdum áskorunum framtíðar og hrinda þeim í framkvæmd, með sérstakri áherslu á hafið, lífríki hafsins og haftengda nýsköpun. Verkefnið mun einnig færa íslenskum grunnskólakennurum aðgengilegt kennsluefni, þekkingu og færni til að færa þetta mikilvæga málefni inn skólastofuna, þar sem áhersla verður lögð að fræðslu og valdeflingu.
Þrír grunnskólar eru þátttakendur í verkefninu, Árskóli á Sauðárkróki, Grunnskóli Bolungarvíkur og Nesskóli í Neskaupsstað og er verkefnið miðað að elstu bekkjum. Að fræðslu og verkefnavinnu í fjórum þematengdum vinnustofum lokinni, munu nemendur heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki í sinni heimabyggð og kynnast þar starfseminni, þeim umhverfisáskorunum sem fyrirtækin standa frammi fyrir og þeirri nýsköpun sem hefur átt sér stað.
Loks munu nemendur hefja svokallað MAKEathon í samstarfi við Fab Lab smiðjur í sinni heimabyggð. Þar verður lögð áhersla á frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun og nemendum kennt að beita rökhugsun og nýtilkominni þekkingu til að koma auga á mögulegar lausnir á umhverfisáskorunum innan sjávarútvegsins og færa hugmynd í framkvæmd. N4 sjónvarpsstöð mun loks gera sitt til að bera út boðskapinn og gera þátt um verkefnið sem sýndur verður um mitt næsta ár.
Mikilvægi sjálfbærrar nýsköpunar í heimabyggð
Sjálfbær nýsköpun í heimbyggð er gífurlega mikilvæg fyrir stöðu og viðnámsþrótt (e. resilience) smærri byggðalaga sem reiða sig að miklu leyti á sjávarútveg. Sterkt nýsköpunarumhverfi, staðbundin þekking og góðir innviðir geta haft gífurlega jákvæð áhrif á atvinnulífið, samfélögin sjálf og byggðarþróun. Að virkja ungt fólk á landsbyggðinni til nýsköpunar og frumkvöðlahugsunar með sjálfbærni og umhverfismál að leiðarljós, mun því ekki aðeins kalla fram það hugvit sem þarf til að búa til nýja þekkingu og lausnir í baráttunni við loftslagsvandann, heldur getur það einnig haft mikið að segja varðandi styrkingu atvinnulífs, efnahags og samfélaga smærri sveitarfélaga á landsbyggðinni.
Markmið verkefnisins eru því eftirfarandi:
Að veita nemendum efstu bekkja grunnskóla öðruvísi og spennandi fræðslu um eðli og áhrif loftslagsbreytinga, með sérstakri áherslu á hafið, lífríki þess og sjávarútveg
Að auka skilning nemenda á þeim áhrifum sem loftslagsbreytingar geta haft á þeirra nærumhverfi, hvort heldur sem er á umhverfið, efnahag eða samfélagið
Að fræða nemendur um mikilvægi mótvægis- og aðlögunaraðgerða sem og áhrif og mikilvægi nýsköpunar- og tæknilausna í því sambandi
Að gefa nemendum reynslu og innsýn inn í heim íslenskra frumkvöðla og nýsköpunar
Að leggja grunn að frjóu og öflugu nýsköpunarstarfi á landsbyggðinni þar sem umhverfis- og loftslagsmál eru höfð í forgangi
Að veita grunnskólakennurunum nýja þekkingu, tól og tækni til að fræða nemendur um loftslags- og umhverfismál, með beinni tengingu í nærumhverfi þeirra
Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast hjá Ragnhildi Friðriksdóttur, verkefnastjóra Matís, en heimasíða verkefnisins verður sett á laggirnar innan nokkurra vikna þar sem hægt verður að nálgast fréttir, námsefni og myndbandsupptökur.
Verkefnið Matarlandslagið felur í sér að gerður verður heildstæður, aðgengilegur og sjálfbær gagnagrunnur, vefsíða og app, sem inniheldur skrá yfir alla frumframleiðslu á Íslandi. Verkefnið er byggt á ófullgerðri frumgerð sem Matís hefur þróað síðastliðin og finna má á vefslóðunum www.matarlandslagid.is og www.eaticeland.is
Í Matvælastefnu Íslands til ársins 2030 er, í takt við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og Parísarsamkomulagið frá 2015, lögð rík áhersla á að auka sjálfbærni á öllum sviðum matvælaframleiðslu frá auðlind til neyslu en í stefnunni segir m.a. að:
Öll virðiskeðja matvæla skiptir máli, allt frá framleiðsluaðferðum til ánægju neytenda. Það skiptir máli hvernig matvæli eru framleidd, þeim dreift, þau keypt og þeirra neytt, en jafnframt að þau séu örugg og að nýting við framleiðslu og neyslu sé sem best. Sjálfbærni er undirstaða góðra lífskjara til framtíðar (bls. 6).
Framleiðsla matvæla beint úr fæðuauðlindum Íslands, eða frumframleiðsla þar sem til að mynda bóndi ræktar landið eða elur dýr eða útvegsmaðurinn veiðir fisk úr sjó, er grunnur allra íslenskra matvæla og forsenda fæðuöryggis Íslands. Yfirsýn yfir frumframleiðslu matvæla í landinu og þekking á aðstæðum er grunnur upplýstra ákvarðana og markvissrar, áhrifaríkrar stefnumótunar og skrefa til framfara en ekkert slíkt heildstætt yfirlit er aðgengilegt í dag. Slíkt yfirlit, byggt á upplýsingum sem eru uppfærðar reglulega, myndi auðvelda stjórnvöldum á öllum stjórnsýslustigum að stíga áhrifarík skref í átt að aukinni sjálfbærni og framþróun. Þá getur yfirsýn og þekking frumframleiðendanna sjálfra verið lykill að framþróun, nýsköpun og atvinnutækifærum, með samtali og samvinnu frumframleiðsluaðila og frumframleiðslugreina. En slík þekking getur einnig greitt fyrir beinum, milliliðalausum viðskiptum neytenda við frumframleiðendur og þannig ýtt undir sjálfbær viðskipti og aukinn fjölbreytileika framboðs og nýsköpun.
Með verkefninu Matarlandslagið, verður til heildstæður, aðgengilegur og sjálfbær gagnagrunnur, vefsíða og app, sem inniheldur skrá yfir alla frumframleiðslu á Íslandi. Byggt er á ófullgerðri frumgerð sem Matís hefur þróað sl. ár (sjá www.matarlandslagid.is eða www.eaticeland.is ). Landakort með staðsetningarpunktum allra frumframleiðenda er grunnurinn og er um að ræða nokkra frumframleiðsluflokka sem hver hefur sinn einkennislit (td. nautgripir, sauðfé, hestar, svín, matjurtir, fiskeldi, alifuglar, skelfiskur, geitur, þörungar, afli úr sjó … , sem smella má á fyrir þrengra sjónarhorn og upplýsingasíðu viðkomandi frumframleiðanda. Upplýsingasíða frumframleiðanda getur innihaldið allar þær upplýsingar sem hann kýs að koma á framfæri, t.d. um framleiðsluafurðir, framleiðsluaðferðir, sölu afurða, staðsetningu, símanúmer, netföng, heimasíðu, aðildarfélög sem frumframleiðandinn er aðili að, þjónustu sem frumframleiðandinn býður upp á (svo sem bændagisting, verslun á staðnum, dýragarður, afþreying, hestaferðir, markaður og svo framvegis), viðburði/ bændamarkaði/ rekomarkaði/ hátíðir/ sýningar sem framleiðandinn tekur þátt í, myndir af afurðum og aðstæðum, rafrænt pöntunareyðublað fyrir bein netviðskipti, o.s.frv. Tryggt er að upplýsingar um frumframleiðendur eru ávallt réttar þar sem frumframleiðandi hefur sjálfur sérstakan aðgang að eigin upplýsingasíðu og uppfærir hana með einföldum hætti sjálfur með innskráningu með sérstöku lykilorði sem hann einn hefur aðgang að. Síða frumframleiðenda gefur kost á ítarupplýsingum með myndum. Stefnt er að því að skipuleggjendur viðburða sem frumframleiðendur taka þátt í um landið geti einnig sótt um sérstaka upplýsingasíðu innan Matarlandslagsins sem þeir uppfæra sjálfir með innskráningu, þar sem fram koma nákvæmar upplýsingar um viðburðinn og dagsetningu. Matarlandslagið mun svo innihalda og birta sífellt uppfært viðburðadagatal með upplýsingum um viðburði/ bændamarkaði/rekomarkaði/ hátíðir /sýningar osfrv. um landið þar sem allir þeir viðburðir sem skráir eru af skipuleggjendum birtast. Hægt yrði einnig að sjá viðburðadreifingu yfir landið yfir ákveðið tímabil (t.d. viðburðir í júlí sjást á landakorti sem staðsetningarpunktur með dagsetningu og tegund viðburðar og þegar smellt er á staðsetningarpunktinn kemur upplýsingasíða um viðeigandi viðburð upp).
Verkefnið verður unnið í samstarfi við regnhlífarsamtök ýmissa sambanda og félaga frumframleiðenda sem vinna afurðir úr auðlindum landsins. Gildi slíks samstarfs er ótvírætt með tilliti til þekkingar beinnar tengingar slíkra samtaka við frumframleiðendurna sjálfa í gegnum aðildarsambönd og -félög, en Matís býr yfir mikilli og góðri reynslu samstarfs við frumframleiðendur um allt land, sem nýtast mun í verkefninu.
Matarlandslaginu er ætlað að gefa skýra heildarsýn m.a. með tilliti til sjálfbærrar framþróunar og uppbyggingar í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið. Þá mun Matarlandslagið einnig nýtast til upplýsingaöflunar og fræðslu um matvælaframleiðslu og matarmenningararf Íslands og þróun þessa. Frumframleiðendur, ferðamannaiðnaðurinn og veitingageirinn munu geta nýtt Matarlandslagið til að kynna matareinkenni hvers svæðis og hvar og hvernig nálgast megi innlendar afurðir sem einkenna ólík svæði og Ísland í heild. Afurðir verkefnisins eru því eftirfarandi:
Aðgengilegurvettvangur opinn öllum: Vefurinn veitir aðgang að uppfærðum raunupplýsingum um framboð, aðgengi og eðli frumframleiðsluafurða á Íslandi og þau samfélög sem skapa þessar afurðir.
Aukinn skilningur og þekking neytenda á frumframleiðslu íslenskra matvæla: Yfirsýn og skilningur gerir neytendum kleift að miða neyslu sína að því að minnka neikvæð neyslutengd umhverfisáhrif og þannig taka smáskref gegn hlýnun jarðar og stuðla að vistvænna samfélagi.
Tæki fyrir stjórnvöld á öllum stigum til víðrar yfirsýnar yfir aðstæður: Skráin og myndræn framsetning hennar á Íslandkorti veita stjórnvöldum á öllum stigum nákvæma yfirsýn yfir íslenska frumframleiðslu, til upplýstrar stefnumótunar, ákvarðanatöku, nýsköpunar og uppbyggingar í takt við sjálfbærni- og þróunarmarkmið.
Tæki fyrir ferðaþjónustuaðila og fyrirtæki til markvissrar markaðssetningar: Skýrari sýn á framboði afurða, þjónustu og afþreyingar, eðli þess framboðs, þróun þess, sögu og sérkennum er tæki fyrir ferðaþjónustuaðila til markvissrar markaðssetningar og skýrari áætlanagerðar.
Aukið samstarf frumframleiðenda matvæla við aðra geira: Bætt yfirsýn yfir greinina getur leitt í ljós vannýtt tækifæri til frekari nýsköpunar og hvatt til samstarfs frumframleiðenda á nýjum sviðum. Í þessu samhengi má t.a.m. nefna samstarf frumframleiðenda við ferðaþjónustufyrirtæki, líftæknifyrirtæki og ólíka menningarstarfsemi en einnig aðra matvælaframleiðendur.
Bætt fæðuöryggi og sjálfstæði í matvælaframleiðslu: Innlend matvælaframleiðsla er grundvöllur fæðuöryggis. Samfélag sem af of stórum hluta þarf að treysta á utanaðkomandi fæðuframleiðslu til að geta brauðfætt þegna sína getur búið við öryggisleysi ef ófyrirsjáanlegar aðstæður, náttúrulegar eða manngerðar, koma upp. Þetta á ekki síst við um eyríki. Þrátt fyrir trú manna á óbrigðugleika vöruflutninga nútímans hefur Covidfaraldurinum sýnt fram á mikilvægi styttri svæðisbundinna aðfangakeðja til að bregðast við óvæntum atvikum sem geta ógnað fæðuöryggi landsins.
Með Matarlandslaginu verður unnt að taka mikilvæg, greinanleg og áhrifarík skref í átt að sjálfbærni, framþróun og nýsköpun í takt við aðgerðaáætlun Matvælastefnu Íslands til ársins 2030, en í stefnunni segir um framtíðarsýn á bls. 2:
Orðspor íslenskrar matvælaframleiðslu er gott og einkennist af hreinleika þar sem gæði og öryggi eru í fyrirrúmi.
Heilsa, nýsköpun og tækni eru lykilþættir í íslenskri matvælaframleiðslu.
Náttúra, menning, saga og sjálfbærni gera Ísland að spennandi áfangastað fyrir matarunnendur.
Aðgengi íslenskra neytenda að upplýsingum er gott, þeir eru meðvitaðir um umhverfisáhrif framleiðslunnar, gæði hennar og næringu og þekkja rétt sinn sem neytendur.
Sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur eru tryggð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Einnig nægir að vísa til kaflaheita stefnunnar til marks um víðtæka möguleika Matarlandslagsins sem gagn til að ná markmiðum stefnunnar en heiti kaflanna og umfjöllunarefni eru „Framleiðni og nýsköpun auka hagsæld“, „Sterk staða eykur frelsi og val“, „Samvinna tryggir velferð,“ „Bætt lífsgæði er hagur allra“ og „Sjálfbærni er grundvallaratriði.“
Með Matarlandslaginu verður stuðlað að varðveislu þess menningararfs sem matarmenning okkar er og er oft grunnur sérkenna samfélaga um landið. Einnig verður stuðlað að framþróun matarmenningar, atvinnutækifærum og virðisauka í heimabyggð með því að styðja við frumframleiðendur sem nýta gamlar aðferðir og framleiða mat á hefðbundinn hátt, sem og þá sem þróa hefðir og vinna mat á nýjan hátt og stuðla að nýsköpun. Menningararfur, menning og sérkenni samfélaga um landið byggja að stóru leyti á þeirri fæðu sem matarauðlindir svæðisins gefa. Menningarleg sérkenni samfélaga eru grunnur til að byggja framþróun þeirra, sem og viðurværi á, svo sem í formi menningar- og matarmenningarferðaþjónustu og framleiðslu.
Óteljandi tækifæri eru fyrir frumframleiðendur og byggð um landið til markvissrar og sjálfbærrar þróunar blómstrandi byggða þar sem áhersla á menningarsérkenni og hefðir í matreiðslu og framþróun og útfærslur þessa á hverjum stað eru í forgrunni. Matarlandslagið veitir þannig íslenskum neytendum jafnt sem erlendum gestum tækifæri til að kynnast íslenskum mat og tengingu hans við íslenska menningu á markvissari hátt. Þetta gæti jafnframt ýtt undir frekari þróun frumframleiðslu og fært samfélögum um land allt aukna afkomumöguleika og möguleika á sjálfbærri uppbyggingu með skýrari sýn á styrkleika eigin samfélags og sérkenni fæðuauðlinda hvers svæðis. Bændur og aðrir frumframleiðendur geta einnig nýtt vefinn til að skoða hvað starfssystkin þeirra um landið eru að gera og fengið hugmyndir og eldmóð til framþróunar, nýsköpunar og samvinnu.
Niðurstaðan er að samfélög um landið fengju skýrari sýn á „hver erum við, hvað höfum við að bjóða og hvernig gerum við það á árangursríkan og sjálfbæran hátt til uppbyggingar samfélagsins“.
Þá myndu neytendur einnig deila þessari sýn á hver sérstaða okkar tengd hverjum stað er og hvað er eftirsóknarvert á hverjum stað, og stjórnvöld á öllum stigum munu jafnframt deila þessari sýn og geta byggt á henni í stefnumótun og ákvarðanatöku um sjálfbæra framþróun, nýsköpun og uppbyggingu. Um væri að ræða eflda og skýrari sýn á því hvernig hefðir og menning okkar hefur skapað og þróað samfélög um landið.
Einnig verður erlendum aðilum , m.a. ferðamönnum, veitingaþjónustuaðilum, fyrirtækjum, mennta- og menningarstofnunum, auðveldað aðgengi að upplýsingum um einkenni og hefðir íslensks matar, hvers landshluta og staðar og matartegunda, hvað varðar matarmenningu og framþróun hennar, sem og til að auka aðgengi að íslenskum mat og þekkingu á honum.
Að lokum mun Matarlandslagið vekja athygli á því mikilvæga starfi sem íslenskir frumframleiðendur vinna, sem stuðlar að sjálfbærni samfélags okkar og vera hvati til frekari framfara og aðgerða í þessa átt.
Í heild má sjá fyrir sér öflugt tæki til uppbyggingar frumframleiðslu um landið þar sem bændur og aðrir frumframleiðendur munu geta nýtt sér þau tækifæri sem felast í virku, markvissu og öflugu upplýsingaflæði til markvissrar framleiðslu og framþróunar.
Til að sjálfbærni Matarlandslagsins, gagnagrunnsins og vefsíðunnar sé tryggt er mikilvægt að umsjón og viðhald verði í höndum aðila sem eru í forsvari fyrir frumframleiðendur. Sjá má fyrir sér að til framtíðar verði árangursríkast að burðug regnhlífasamtök félaga frumframleiðenda fái það hlutverk, jafnvel fleiri en ein regnhlífasamtök (til að mynda bæði regnhlífasamtök landafurða og sjávarafurða þegar fram í sækir, og sinni hvort þeirra sínu sérsviði). Umsjónin feli í sér lágmarksaðgerðir, sem fælust aðallega í samþykkt á skráningu nýrra frumframleiðenda og viðburða sem sækja um innskráningarsíðu, almennt viðhald og uppfærslur hugbúnaðar, auk reglulegrar kynningar og markaðssetningar upplýsingagrunnsins/vefsíðunnar til að viðhalda virkni og gagnsemi hans.
Sjónvarpstökulið frá Frakklandi slóst í för með starfsfólki Matís upp að eldgosinu við Fagradalsfjall. Leiðangurinn var hluti af verkefninu AirMicrome þar sem verið er að kanna örlög loftborinna örvera sem fyrstu landnema í jarðnesk samfélög.
Sjónvarptökuliðið frá France TV náði stórkostlegum myndskeiðum af eldgosinu og ræddi við Pauline Vannier hjá Matís sem leiddi tökuliðið um svæðið og útskýrði verkefnið í grófum dráttum.
Myndskeiðið má finna hér. Umfjöllunin um AirMicrome hefst á mín. 7:30.
North Atlantic Seafood Forum (NASF) ráðstefnan fór fram dagana 8.-10. júní sl. en á ráðstefnunni voru fluttir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum um hin ýmsu málefni er snúa að sjávarútvegi og fiskeldi.
Umræðuefni á ráðstefnunni voru fjölbreytt en sem dæmi um efnistök voru haldnar málstofur um:
Áhrif laxalúsar á fiskeldi
Fiskeldisfóður og þróun þess
Framboð og eftirspurn í fiskeldi
Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
Konur í sjávarútvegi
Framboð og eftirspurn í rækju
Fjárfestingar í sjávarútvegi
Framboð og markaðir uppsjávartegunda
Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir
Sjálfbærni og sjávarafurðir
Íslensk fyrirtæki og fyrirlesarar voru nokkuð áberandi á ráðstefnunni. Þar má meðal annars nefna ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sjálfbærni og sjávarútveg, fyrirlestur Jóns Birgis Gunnarssonar frá Völku um flökun fyrir dauðastirðnun, fyrirlestur Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur frá Marel um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis og fyrirlestur Þórs Sigfússonar frá Sjávarklasanum um nýtingu aukahráefna.
Ráðstefnan fór fram á netinu og er nú möguleiki fyrir þá sem misstu af ráðstefnunni að kaupa aðgang að fyrirlestrunum. Gjaldið fyrir þann aðgang er 100 EUR.
Þau sem hafa áhuga á að kaupa slíkan aðgang geta haft samband við Jónas R. Viðarsson í gegnum netfangið jonas@matis.is
Athyglisverð ráðstefna um sjálfbærni þegar kemur að matvælapakkningum, stöðu hennar í dag og framtíðarhorfur fer fram 5. júlí næstkomandi.
Matís er þátttakandi í COST (European Cooperation in Science and Technology) verkefninu CIRCUL-A-BILITY sem hefur að markmiði að þróa og fræða hagaðila um sjálfbærar matvælaumbúðir. Alls taka 160 fyrirtæki og stofnanir frá 34 löndum þátt í verkefninu, með bakgrunn á ýmsum sviðum, allt frá frumframleiðslu og matvælafræði til hönnunar og markaðssetningar. Verkefninu er ætlað að stuðla að samstarfi innan Evrópu til að þróa matvælaumbúðir framtíðarinnar sem tryggja aukin gæði og geymsluþol, sem og minni matarsóun og umhverfisáhrif.
Verkefnið mun standa fyrir 90 mínútna netfundi (webinar) þann 5. júlí næstkomandi þar sem fjallað verður um sjálfbærni og matvælaumbúðir. Þátttaka í fundinum ókeypis, en upplýsingar um skráningu og dagskrá má nálgast hér: Sustainability communication on food packages status quo and future needs.
Einnig verður haldin ráðstefna í haust, dagana 26.-29. september og er hægt að nálgast upplýsingar um hana hér. Hún verður nánar auglýst síðar.
Tilgangur Inspire sumarskólanna á vegum EIT Food er að þjálfa nemendur og ungt fólk á vinnumarkaði í nýsköpun og að verða frumkvöðlar. Nemendur verða þjálfaðir í vöruþróun og gerð viðskiptaáætlana um nýja hugmyndir og ný tækifæri sem tengjast atriðum sem eru efst á baugi í tengslum við matvæli í heiminum í dag. Þannig eru þeir undirbúnir til að takast á við þær áskoranir og breytingar sem fram undan eru í matvælaframleiðslu á næstu áratugum. Árið 2021 er boðið upp á 6 sumarskóla en hver þeirra tekur um 3 vikur. Matís mun taka þátt í sumarskólum um fiskeldi og nýja próteingjafa í matvælum sem fara fram síðla sumars.
Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir í sumarskóla um nýja próteingjafa framtíðarinnar!
Hvetjum meistara- og doktorsnema til að kynna sér sumarskóla eit og vekjum athygli á því að flestir háskólar meta þessi námskeið inn sem 4 ECTS einingar.
Do you want to develop new ideas on the future proteins in our diet to counteract some of the causes of climate change through entrepreneurial capacity training in a 3 week summer school starting August 16th and ending September 3rd?
You will be taught how new and alternative proteins, like plant, cell and insect based proteins, can be integrated in our food systems. You will work and be coached in teams. You will end up in new business ideas that will be pitched in front of professional jury. Critical questions on how to develop a sustainable future food system will be addressed. How can new and alternative food proteins be integrated in our food systems? What are the technological obstacles, and what are the regulatory and consumer/market related barriers? How do we design and develop alternative proteins and how can we develop and formulate alternative protein based food products.
Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brugðu sér ásamt fylgdarliði austur á land þann 16. Júní síðastliðinn. Tilefni ferðarinnar var heimsókn í Múlann í Neskaupstað. Ákveðið var að nýta ferðina vel og heimsækja nokkra af helstu vinnustöðum Austfjarða.
Fyrsti staðurinn sem flokkurinn heimsótti var ný og glæsileg uppsjávarvinnsla Eskju á Eskifirði. Þorstein Kristjánsson, forstjóri Eskju, leiddi fróðlega skoðunarferð ásamt fleirum um húsnæðið sem er gríðarstórt og hátæknilegt. Næst var haldið í húsakynni Egersund á Íslandi sem einnig er staðsett á Eskifirði. Egersund er leiðandi fyrirtæki á sviði sölu, veiðarfæragerðar og viðgerða á flottrollum og nótum og fékk hópurinn að kynnast fólki við hin ýmsu störf.
Því næst var fyrirtækið Laxar fiskeldi heimsótt og haldið var út í eldiskvíar þeirra sem staðsettar eru í Reyðarfirði. Kvíarnar voru skoðaðar og Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri, ásamt fleira starfsfólki bauð að auki upp á kaffibolla úti í pramma sem var kærkominn í slyddunni sem passaði ekki vel við dagsetninguna á dagatalinu. Heimsóknin til Eskifjarðar var svo kórónuð með hádegisverði á Randulffssjóhúsi.
Eftir hádegið var haldið á Norðfjörð og Múlinn, samvinnuhús í Neskaupstað, heimsóttur. Margt starfsfólk var samankomið í Múlanum og fékk hópurinn að sunnan leiðsögn um húsið sem er allt hið glæsilegasta. Ráðherra ávarpaði samkomuna í upphafi og Oddur Már og Þorsteinn Sigurðsson gerðu það einnig. Stefán Þór Eysteinsson sagði að lokum frá uppbyggingu og innviðum nýs lífmassavers sem Matís er er að setja upp á staðnum í samvinnu við Síldarvinnsluna.
Eftir athöfnina í Múlanum var Börkur, nýtt skip Síldarvinnslunnar, skoðaður. Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar leiðsagði hópnum um skipið og sagði frá innviðum sem eru með því fullkomnasta sem gerist.
Ferðin var öll hin ánægjulegasta og ljóst að möguleikar til samstarfs við fyrirtæki á Austfjörðum eru margir og fjölbreytilegir.
Þann 10. júní síðastliðinn fór fram veffundur á vegum Eldrimner og var umfjöllunarefnið matarhandverk í Svíþjóð og ýmiss konar fróðleikur því tengdur.
Eldrimner er landsmiðstöð fyrir matarhandverk og þekkingarmiðstöð fyrir smáframleiðendur í Svíþjóð. Eldrimner heldur námskeið um fjölbreytt matarhandverk, svo sem pylsugerð, súrdeigsgerð og ostagerð. Þá heldur Eldrimner einnig árlega matarhandverkskeppni þar sem framleiðendur fá faglegt mat á vörur sínar og þeir sem skara fram úr frá viðurkenningu sem þeir geta notað í markaðsstarf sitt. Eldrimner hefur náð miklum árangri í að auka fagþekkingu smáframleiðenda í Svíþjóð og auka veg og virðingu matarhandverks. Það er margt sem við á Íslandi getum lært af Eldrimner og fróðlegt að heyra fólk segja frá reynslu sinni af starfinu.
Fundurinn fór fram á ensku og í spilaranum hér að neðan má horfa á upptöku af fundinum í heild sinni.
Að fundinum stóðu Slow Food á Íslandi, Matís, Samtök smáframleiðenda matvæla og Vörusmiðja Biopol.
Víðtækur stuðningur er við umbreytingu matvælakerfis og norrænt samstarf til að takast á við áskoranirnar.
Nýlega birtust niðurstöður úr verkefni sem bar yfirskriftina: Í átt að sjálfbærum norrænum matvælakerfum, þar sem kannað var hvaða skref þurfi að taka til að þróa sjálfbær matvælakerfi. Verkefnið var unnið gegnum samtal við breiðan hóp hagaðila frá Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku. Þátttaka íslenskra hagaðila í verkefninu var sérlega góð og kom Matís að því að skipuleggja vinnustofu verkefnisins á Íslandi. Verkefnið var leitt af Stockholm Resilience Centre.
Helstu niðurstöður:
Tæplega 90% þátttakenda voru sammála um að norræn matvælakerfi þurfi að breytast til að hægt sé að ná settum markmiðum um sjálfbærni
Helmingi þátttakenda fannst leiðin að sjálfbærni óljós og jafnframt umdeild
88% þátttakenda töldu best að Norðurlöndin vinni saman að því að takast á við sameiginlegar áskoranir í matvælakerfinu
Norðlenska sjónvarpsstöðin N4 sýnir vikulega umræðuþætti um byggðamál á Landsbyggðunum sem heita einfaldlega Landsbyggðir. Í þætti vikunnar var rætt við Odd Má Gunnarsson, forstjóra Matís.
Í sjónvarpsþættinum ræddi Karl Eskil Pálsson, þáttarstjórnandi, við Odd Má um starfsemi Matís á landsbyggðunum en reknar eru starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupsstað. Þeir létu þó ekki þar við sitja í umræðunum heldur fóru um víðan völl og ræddu verkefnin, rekstrargrundvöllinn, þekkinguna sem hefur myndast við rannsóknarstörf í gegnum árin og þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í matvælaframleiðslu og -iðnaði á Íslandi í framtíðinni.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar N4 hér: Spilari – N4
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.