Fréttir

Saltfiskmáltíð á Selfossi varð að ferð til Barcelona

Fjölmargir Íslendingar, um allt land, nýttu tækifærið í Saltfiskvikunni, sem blásið var til fyrr í haust, og smökkuðu þessa einstöku afurða sem á sér svo marga aðdáendur víðsvegar um heim. Viðskiptavinir sem pöntuðu sér saltfiskrétt á einhverjum þeirra veitingastaða sem þátt tóku í átakinu voru sérstaklega hvattir til að birta mynd á Instagram, merkta myllumerkinu #saltfiskvika, en með því komust þeir í verðlaunapott sem dregið yrði úr.

Einn heppinn þátttakandi var dreginn út að vikunni aflokinni en í verðlaun var ferð fyrir tvo til Barcelona. Sú heppna varð Jóna Dóra Jónsdóttir á Selfossi en hún hafði snætt saltfisk á veitingastaðnum Riverside á Hótel Selfossi. Auk ferðar til Barcelona fyrir tvo fær hún einnig saltfiskveislu fyrir tvo á veitingastaðnum La Gourmanda þar í borg en það er einmitt veitingastaður Carlotu Claver sem var ein erlendu gestakokkanna á Saltfiskvikunni.

Meistarakokkurinn Carlota Claver

Heilt yfir tókst Saltfiskvikan afar vel og nú þegar eru upp áform um að endurtaka leikinn næsta haust. Þegar spurt var sögðust langflestir forsvarsmanna þeirra ríflega 20 veitingastaða og mötuneyta sem þátt tóku í ár ánægðir með framtakið, sögðu m.a. að það skemmtileg tilbreyting auk þess að hafa góð áhrif á fjölbreytni og sköpunargleði á vinnustaðnum. Þá var einnig nefnt hve mikilvægt væri að kynna hráefnið ekta saltfisk fyrir bæði Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum.

Ljóst er að saltfiskurinn á enn mikinn hljómgrunn hjá landanum sem og gestum hans – þótt mögulega hafi þessi dýrmæta útflutningsvara látið helst til of lítið fyrir sér fara á heimaslóð undanfarin ár. Verður að teljast fullt tilefni til að blása aftur til Saltfiskviku honum til heiðurs að ári.

Að Saltfiskvikunni stóðu Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.

Fréttir

Aukum matarvitund næstu kynslóðar

Matís tekur þátt í Evrópsku samstarfsverkefninu „WeValueFood“ sem hefur það markmið að styðja við fæðuhagkerfi Evrópu með því að fræða og efla næstu kynslóð neytenda með aukinni þekkingu, áhuga og þátttöku í matartengdum málefnum. 

Nú í byrjun Desember verður haldin ráðstefna á vegum „WeValueFood“ í Warsaw í Póllandi. Þar verður fjallað um hvernig hægt er að efla þátttöku, áhuga og þekkingu næstu kynslóðar í matarvitund, þar sem áhersla verður meðal annars lögð á nýjustu rannsóknir á þessu sviði, hlutverk samfélagsmiðla og bætt samskipti matvælaiðnaðar við næstu kynslóð neytenda.
Nánari upplýsingar smá sjá í meðfylgjandi auglýsingu og skráning á ráðstefnuna fer fram hér fyrir 7 nóvember 2019.

WeValueFood er hluti af og styrkt af EIT Food, stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið.

Auglýsingin í PDF

Fréttir

Ráðstefna um neyslubreytingar og matvælaframleiðslu

þriðjudaginn 5. nóvember kl. 13.00-16.00 á Hótel Sögu.

Matvælalandið Ísland og Landbúnaðarklasinn standa fyrir ráðstefnu á Hótel Sögu um neyslubreytingar og áhrif þeirra á matvælaframleiðslu þriðjudaginn 5. nóvember næstkomandi. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum en munu allir fjalla um það hvernig breytingar á neysluhegðun almennings og tæknibreytingar munu snerta matvælageirann í nánustu framtíð.

Dagskrá kl. 13.00:

  • Hvað segja kannanir um neysluhegðun Íslendinga?
    Friðrik Björnsson, viðskiptastjóri hjá Gallup
  • Sjálfbærnivæðing matvælakerfisins og tækifæri Íslands
    Sigurður H. Markússon, Landsvirkjun/University of Cambridge
  • Challenges and Opportunities in the AgriFood Sector
    Marit Sommerfelt Valseth, ráðgjafi hjá frá Innovasjon Norge
  • Hvað er handan við hornið?
    Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

Hlé

  • Hvað vilja viðskiptavinir á morgun?
    Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar
  • Matarvitund og þekking: hinn upplýsti neytandi eða áhrifavaldar sem ráða för?
    Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands
  • Matarsporið – kolefnisreiknir fyrir máltíðir
    Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu verkfræðistofu
  • Landnýting og breytt framtíð
    Árni Bragason, forstjóri Landgræðslunnar
  • Má bjóða þér kakkalakkamjólk?
    Elín M. Stefánsdóttir, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar

Fundarstjóri: Finnbogi Magnússon, formaður Landbúnaðarklasans

Staður: Katla, Hótel Sögu, þriðjudagur 5. nóv. kl. 13.00-16.00

Landbúnaðarklasinn er samstarfsnet þeirra sem starfa í landbúnaði og tengdum greinum.

Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur aðila sem starfa í matvælageiranum. Innan þess eru Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Háskóli Íslands og Matarauður Íslands.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og skráning fer fram hér.

Fréttir

Viggó Þór Marteinsson hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við Matvæla- og næringarfræðideild

Af því tilefni bjóðum við til viðburðar þar sem fjallað verður um feril Viggós Þórs en rannsóknir hans hafa einkum beinst að mismunandi búsvæðum örvera; hvaða örverur eru til staðar, hvaðan þær koma, hvað þær eru að gera og hvernig.

Þessi búsvæði spanna allt frá umhverfi í tengslum við matvæli eins og t.d. við eldi fiska og dýra, vinnsluumhverfi þeirra, áhrif örvera á matvæli og matvælaöryggi, til jaðarumhverfis (extreme environment), þar sem ekkert líf þrífst nema örverur. Dæmi um slík jaðarbúsvæði eru til dæmis sjávar- og landhverir, neðanjarðarlífríki og vötn undir íshellum jökla. Rannsóknir Viggós hafa snúist um bæði grunn- og hagnýtar rannsóknir.

Prófessorsfyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 6. nóvember kl. 15 í Læknagarði í stofu 201. Eftir fyrirlesturinn verður boðið upp á veitingar á 4. hæð Læknagarðs. Allir velkomnir. 

Fréttir

Málþing um örplast og lyfjaleifar í íslensku umhverfi

Plastrusl mengar höfin allt frá strandsjó til dýpstu hafdjúpa og er þessi mengun vaxandi vandamál. Á síðustu árum hefur sjónum einnig verið beint að umhverfisáhrifum lyfjanotkunar – hvernig lyfjaleifar berast út í umhverfið og dreifast, hvert magn þeirra er og áhrif.

Í því skyni að fá greinargóðar upplýsingar um uppsprettur og losun örplasts og lyfjaleifa hér á landi óskaði umhverfis- og auðlindaráðherra eftir tveimur samantektum þess efnis. Sjávarlíftæknisetrið Biopol á Skagaströnd hefur nú tekið saman upplýsingar um helstu uppsprettur örplasts á Íslandi og farvegi þess til sjávar og Matís hefur tekið saman upplýsingar um lyfjaleifar í íslensku umhverfi, losun út í umhverfið og væntanlegt magn og áhættu.

Niðurstöður þessara skýrslna verða kynntar á fundi á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fram fer í fundarsal á jarðhæð Skúlagötu 4, fimmtudaginn 31. október kl. 12:00-12:50. Verið öll velkomin.

Fréttir

Gengið hefur verið frá ráðningu forstjóra Matís ohf.

Oddur M. Gunnarsson hefur verið ráðinn í stöðu forstjóra Matís ohf.

Tilkynnt var um ráðninguna í dag, en Oddur hefur verið starfandi forstjóri Matís frá því í ársbyrjun. Eins og áður hefur verið greint frá sóttu alls 9 um stöðu forstjóra.

Fréttir

Hvert stefnir sjávarútvegur á heimsvísu? – þróun og væntingar

Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís, hélt fróðlegt erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja sem bar yfirskriftina Hvert stefnir sjávarútvegur á heimsvísu? – þróun og væntingar.

Jónas fjallaði um sjávarútveginn á heimsvísu, hvaða straumar og stefnur eru í gangi. Jónas kom við í mörgum löndum í erindi sínu m.a. Noregi, Færeyjum, Íslandi, Rússar og Evrópusambandið. Sjávarútvegur og fiskeldi blandaðist inn í alla umræðu.

Farið var yfir mikilvægi fæðuöryggis, umhverfismál, brottkast, matarheilindi, sjálfbærni og fjölmargt annað áhugavert.

Fjölmargar spurningar komu úr sal og góðar umræður sköpuðust í kringum þær.

Starfsmenn Matís hafa verið í Eyjum s.l. daga til að eiga samtal við sjávarútveginn í Eyjum og aðra haghafa varðandi nýráðningu á starfsmanni á starfsstöð í Eyjum.

Nánari upplýsingar og glærur frá fyrirlestrinum má nálgast á vefsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Upptöku af fyrirlestrinum má finna hér.

Ljósmynd: Eyjafréttir

Fréttir

Áhrifaþættir á gæði lambakjöts

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hafa á síðustu árum unnið saman að verkefnum um gæði íslensks lambakjöts. Rit LbhÍ nr. 120 Áhrifaþættir á gæði lambakjöts eftir þau Guðjón Þorkelsson, Emmu Eyþórsdóttur og Eyþór Einarsson, er komið út. Ritið fjallar um niðurstöður rannsóknaverkefnis um áhrif meðferðar og kynbóta á gæði íslensks lambakjöt en verkefni var unnið í samvinnu Matís, LbhÍ og RML.

Tekin voru sýni af tæplega 800 kjötskrokkum í fjórum sláturhúsum og gerðar margvíslegar mælingar bæði í sláturhúsunum og á kjötsýnunum. Markmiðið var að meta stöðu íslensks lambakjöts út frá gæðamælingum og gera tillögur um áherslur í kynbótum fyrir kjötgæðum og um rétta meðferð fyrir og eftir slátrun. Jafnframt var safnað vefjasýnum til greininga á erfðaefni í mögulegum framhaldsrannsóknum.

Í ritinu er einnig yfirlit um gæðamælingar á lambakjöti niðurstöður þeirra rannsóknum bæði hérlendis og erlendis.

  • Helstu niðurstöður voru m.a. eftirfarandi:
  • Hlutfall kjötskrokka með sýrustig yfir mörkum fyrir svokallað streitukjöt var um 10% sem er of hátt. Úr þessu má bæta með ráðgjöf og eftirliti um meðferð sláturlamba.
  • Raförvun sem beitt er til að flýta dauðastirðnun eftir slátrun virkar misvel og þarf að stilla tæki og þjálfa vinnubrögð við notkun raförvunar.
  • Hlutfall fitu í hryggvöðva var mjög lágt eða um 1,8 % að meðaltali. Lagt er til að kannað verði hvort auka megi innanvöðvafitu með kynbótum án þess að yfirborðsfita á skrokkum aukist.
  • Skurðkraftur, sem er mælikvarði á seigju mældist hærri en í fyrri rannsóknum. Of mörg sýni mældust með há gildi sem gefa til kynna seigt kjöt. Orsaka er að leita í meðferð skrokka í sláturhúsum en ræktun fyrir auknum vöðva er einnig mögulegur áhrifaþáttur.
  • Bráðabirgðamat á arfgengi bendir til þess að kjötgæðaeiginleika megi bæta með kynbótum. Með tilkomu erfðamengjaúrvals sem byggir á greiningum erfðaefnisins skapast nýir möguleikar á þessu sviði.

Ritið má nálgast hér.

Bæklingurinn „Frá fjalli að gæðamatvöru – um meðferð sláturlamba og lambakjöts“ sem kom út hjá Matís fyrr á þessu ári byggir m.a. á niðurstöðum verkefnisins.

Fréttir

Ráðstefna um vöktun líffræðilegs fjölbreytileika með umhverfis DNA

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Ráðstefnan MOBeDNA (monitoring biodiversity using eDNA) var haldin í sal Hafrannsóknastofnunar 2.-3. október sl.

Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um nýja aðferðafræði í verndunarlíffræði og rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika fiska, smáþörunga og annara lífvera í sjó og fersku vatni. 

Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um nýja aðferðafræði í verndunarlíffræði og rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika fiska, smáþörunga og annara lífvera í sjó og fersku vatni. Umhverfis DNA (environmental DNA, eDNA) er erfðaefni lífvera sem finnst í umhverfinu en flestar lífverur skilja eftir sig erfðaefni í umhverfinu sem kemur frá dauðum húðfrumum, slími fiska og saur. Með því að taka sjósýni og sía í gengnum fína síu má safna því DNA sem er að finna í sjónum. Erfðaefnið er síðan einangrað úr síunni, magnað upp og raðgreint. Raðgreind er tiltekin svæði á hvatberalitningi, en röðin er mjög breytileg milli tegunda. Röðin er borin saman við þekktar DNA raðir tegunda í gagnabanka til að ákvarða fjölda tegunda í sýninu. Með þessu er hægt að fá mat á líffræðilegum fjölbreytileika vistkerfis án þess að lífverurnar séu truflaðar eða drepnar.

Á ráðstefnunni kynntu 13 vísindamenn frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Færeyjum og Kanada eDNA rannsóknir og voru haldin 16 erindi. Erindin fjölluðu öll um notkun þessarar nýju tækni við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, stöðu þekkingar, samanburð við aðrar aðferðir, aðferðir við söfnun, sjálfvirknivæðingu mælinga og frekari tækifæri við notkun aðferðarinnar. Annar tilgangur ráðstefnunnar er að mynda hóp vísindamanna frá Norðurlöndunum, Evrópu og Kanada sem vinna við eDNA rannsóknir sem geta unnið saman í framtíðinni að framgangi slíkra rannsókna.

Ráðstefnan var opin og skráðu sig um 50 manns. Ráðstefnan ályktaði að tækni og aðferðafræði í eDNA rannsóknum séu langt á veg komnar. Það sem stendur helst í vegi fyrir framþróun aðferðarinnar er að viðmiðunar gagnabankar fyrir tegundir eru margir og upplýsingar í þeim ekki staðlaðar. Enn fremur eru upplýsingar sem þar er að finna oft á tíðum ekki sannreyndar. Ályktað var nauðsyn þess að koma á fót nýjum alþjóðlegum viðmiðunar gagnabanka eða styrkja núverand gagnasöfn svo upplýsingar um allar tegundir væru nákvæmari og altíð réttar.

Ráðstefnan var styrkt af undirhóp Norrænu Ráðherra nefndarinnar AG-FISK sem fjallar um fiskveiðar og fiskeldi. Davíð Gíslason sérfræðingur á Matís og Christophe Pampoulie erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun skipulögðu fundinn.

Fréttir

Matís hannar reykaðstöðu fyrir fisk í Síerra Leóne

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Utanríkisráðherra Guðlaugur Þórðarson, sem staddur er í Síerra Leóne, vígði í dag reykaðstöðu í Tombo, sem Matís hefur hannað fyrir Sjávarútvegsskóla sameinuðu þjóðanna og þróunarskrifstofu Utanríkisráðuneytisins.

Um er að ræða 120 fermetra skýli sem hýsir 12 reykofna sem geta fullreykt rúmlega tonni af ferskum fisk á dag. Verkefnið hófst fyrir um ári síðan og líkur formleg í dag með opnunar hátíð þar sem utanríkisráðherra klippir á borða og afhendir þar með heimamönnum aðstöðuna.

Í vestanverðri Afríku er fiskreyking helsta aðferð til að koma fisk á markað áður en hann skemmist. Hin hefðbundna aðferð við reykingu er að setja fiskinn yfir opin eld í lokuðu rými, þar sem framleiðendur, sem aðalega eru konur, stadda í reykjarmekki dag hvern. Þessi vinnuaðstaða er að valda alls kyns kvillum í öndunarvegi og augum. Reykkofarnir sem Matís hefur hannað leysir þessi heilsuvandamál, auk þess sem viðarnotkun minnkar til muna.

IS