Fréttir

Samnorrænt verkefni um fiskmjöl og lýsi

Nú fer senn að ljúka samnorrænu verkefni um fiskmjöl og lýsi. Meginmarkmið verkefnisins var að skilgreina stöðu þekkingar á fiskmjöli með það fyrir augum að varpa ljósi á það hvar frekari rannsókna er þörf. Niðurstöður verkefnisins geta nýst bæði iðnaðinum og rannsóknar-samfélaginu sem vegvísir til framfara. Verkefnið var unnið með samtökum fiskmjölsframleiðenda í Evrópu EU-fishmeal, DTU Food&Aqua í Danmörku, Nofima í Noregi og hlaut styrk frá Norrænu Ráðherranefndinni (AG-fisk).

Að verkefninu komu fyrirtæki á borð við FF Skagen í Danmörku, Havsbrún í Færeyjum og Triple Nine í Noregi. Marvin Ingi Einarsson, Iðnaðarverkfræðingur hjá Matís sá um verkefnastjórn.

Megin niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að gæði hráefnis, fiskmjöls og lýsis séu enn ekki nægilega vel skilgreind. Áherslan hefur hingað til verið mest á efnainnihald fiskmjöls með minni áherslu á jákvæð heilsufarsleg áhrif þess að notast við fiskmjöl og lýsi í fóður. Einnig er þörf á að tengja betur saman áhrif hráefnismeðhöndlunar og áhrif vinnsluferla á bæði næringarlega og eðlislega þætti.

Verkefnið stóð fyrir vinnustofu í Kaupmannahöfn þar sem komu saman fjölmargir úr fiskimjölsiðnaðinum í Evrópu og sérfræðingar á þessu sviði. Ein af niðurstöðum fundarins var sú að til að styrkja frekar markaðsstöðu og samkeppnishæfni framleiðenda þá þarf fiskmjölsiðnaðurinn að öðlast betri þekkingu á þörfum viðskiptavina sinna og hvað það sé sem kaupendur eru raunverulega að leitast eftir. Koma þarf á fót betri samskiptaleiðum milli aðila í virðiskeðjunni allt frá fiskmjölsframleiðendum til neytenda. Mikilvægt er að koma á fót áætlun um hvernig samskiptum milli aðila skuli háttað og í framhaldi móta skýra stefnu í rannsóknum.

Skýrslu verkefnisins má finna hér.

Fréttir

Uppökur af erindum ráðstefnu Matvælalandsins aðgengilegar

Ráðstefna Matvælalandsins, um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, fór fram miðvikudaginn 10. apríl sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskriftin var “Hvað má bjóða þér að borða? – Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu”.

Á ráðstefnunni var fjallað um gildi sérstöðunnar og þær áskoranir sem margar þjóðir standa frammi fyrir í sinni matvælaframleiðslu. Kröfur um örugg matvæli, fá sótspor, virðingu fyrir umhverfinu og auðlindum, bætta lýðheilsu og heilbrigt búfé munu hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu um heim allan á komandi árum.

Að Matvælalandinu standa Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Matís, Íslandsstofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Matarauður Íslands og Háskóli Íslands.

Upptökur af erindum ráðstefnunnar eru nú aðgengilegar hér .

Fréttir

Doktorsvörn við HÍ – Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Mánudaginn 27. maí 2019 fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Stephen Knobloch doktorsritgerð sína „Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea (e. Host-microbe symbiosis in the marine sponge Halichondria panicea).

Andmælendur verða Dr. Detmer Sipkema, dósent í vistfræði sjávarörvera við háskólann í Wageningen í Hollandi og Dr. Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.Umsjónarkennari var Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent í örverufræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Leiðbeinandi og í doktorsnefnd var Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og faglegur leiðtogi hjá Matís. Í doktorsnefnd var einnig Dr. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri í fiskeldi og fiskirækt hjá Hafrannsóknastofnun.

Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni, sem fer fram í stofu 132 í Öskju kl. 13-15.  

Ágrip
Svampar (phylum Porifera) eru taldir ein af elstu núlifandi fylkingum dýraríkisins. Náin tengsl þeirra við örverur gera þá áhugaverða og heppilega til rannsókna á fyrstu gerðum samlífis dýra og örvera og til að auka almennt skilning okkar á þessu varðveitta samspili og virkni þess. Að auki framleiða margir svampar og samlífisörverur þeirra lífvirk efnasambönd sem gera þá áhugaverða fyrir líftækni og lyfjaiðnaðinn.

Í þessari rannsókn var fjölbreytileiki samlífisörvera H. panicea svamps, sem tekin var úr íslensku sjávarumhverfi, skoðaður með merkigenaraðgreiningu, auk raðgreiningar genamengja (metagenome) og erfðamengja (genome) ræktaðra baktería. Sýnt er fram á að H. Panicea, úr íslensku umhverfi, hýsir eina ríkjandi bakteríutegund. Tegundin sem fékk heitið “Candidatus Halicondribacter symbioticus”, er einnig til staðar í öðrum H. panicea svömpum sem rannsakaðir hafa verið frá mismunandi stöðum og óháð árstíðum. Hins vegar eru aðrar sambýlisörverur óskilyrtar og meira bundnar við stað og tíma. Greining á genamengi ríkjandi skilyrtu bakteríunnar sýnir fram á að algeng stýrigen vantar í erfðamengi hennar. Það er í samræmi við hið skilyrta samlífisform en skortur á stýrigenum er algengur í ákveðnum genafjölskyldum tengdum samlífisforminu og vörnum þess. Jafnvel þó að genaklasi fyrir smíði á lífvirka efninu bacteriocin sé til staðar í “Candidatus Halichondribacter symbioticus” virðist sem það komi ekki við sögu við framleiðslu lífvirkra efna eða „secondary metabolites”.
Samlífisörveran “Ca. H. symbioticus” í sjávarsvampinum H. panicea er heppilegt módel til rannsókna á samspili samlífisörvera og dýra. Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn leggja því grunninn að framtíðarrannsóknum á slíku samspili.

Um doktorsefnið
Stephen Knobloch fæddist árið 1987 í Toronto í Kanada. Hann lauk námi í „Applied Sciences “ frá Háskólanum í Bremerhaven í Þýskalandi og hlaut BSc gráðu í sjávartækni (Maritime Technologies), með áherslu í sjávarlíftækni. Hann stundaði framhaldsnám við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu (MSc) í fiskeldi árið 2013.
Árið 2014 hóf hann doktorsnám við Háskóla Íslands sem styrkþegi í Evrópuverkefninu „BluePharmTrain“ á vegum Marie Curie ITN (Innovative Training Networks). Stephen hefur kennt í haustnámskeiðum í meistaranámi við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ frá 2016 til 2018 og er verkefnastjóri AVS-verkefnisins „FishGutHealth“ frá árinu 2017.

Stephen býr í Reykjavík með konu sinni Rebeccu og tveimur börnum, sem eru Sascha fæddur 2014 og Nora fædd 2017, bæði á Íslandi.

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands.

Fréttir

Hagnýt meistaraverkefni við Matvælafræðideild Háskóla Íslands

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Hagnýt nemendaverkefni um þróun sjávarútvegs verða til umfjöllunar þegar Meistaranemendur í Matvælafræðideild Háskóla Íslands flytja MS fyrirlestra sína þriðjudaginn 28. maí 2019 í Matís, Vínlandsleið 12, í fundarsal 312. Allir eru velkomnir!

Kl. 15:00 flytur Snæfríður Arnardóttir ritgerð sína:
Hringormar í ferskum flökum úr Atlantshafsþorski. Mögulegar leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorma í ferskum fiski eða minnka hreyfanleika þeirra.“ (Nematodes in fresh Atlantic cod fillets. Possible methods to remove or kill nematodes from fresh fish or decrease their mobility.)

Markmið verkefnisins var að kanna leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorm í ferskum fiski án þess að hafa áhrif á gæði flaksins. Það var kannað með því að nota rafstuð við mismunandi spennu, hljóðbylgjur í mismunandi tíðni og óson. Einnig var hreyfanleiki hringorma kannaður í loftskiptum umbúðum (MAP) við annarsvegar 4°C og hinsvegar -0,5°C.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Sveinn Víkingur Árnason verkfræðingur.
__________________________________________________________________________________________________Kl. 15:45 flytur Aníta Elíasdóttir ritgerð sína:
„Áhrif mismunandi hráefnismeðhöndlunar og frystigeymslu á efnaeiginleika þorskhauss.“ (Effect of different processing method and frozen storage on chemical properties of the various parts of the cod head.)

Markmið verkefnisins
 var fyrst og fremst að skoða möguleikann á því að nýta hina ýmsu parta af þorskhausnum, auk þess að kanna áhrif mismunandi vinnsluaðferða um borð í fiskiskipum og frystigeymslu á efnafræðilega eiginleika mismunandi parta frá þorskhausnum þ.e. tálkn, kinnar, gellur, augu og heila.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir
__________________________________________________________________________________________________

Kl. 16:30
 flytur Britney Sharline Kasmiran ritgerð sína:
“Physicochemical properties and potential utilization of side raw materials of yellowfin and albacore tuna.” (Efnasamsetning og nýting hliðarafurða yellowfin og albacore túnfisks.)

Leiðbeinendur/Supervisors: María Guðjónsdóttir prófessor, Sigurjón Arason prófessor, Dr. Magnea Karlsdóttir

Í MS nefnd voru/MSc thesis committee: María Guðjónsdóttir, Sigurjón Arason, Magnea Karlsdóttir, Tumi Tómasson, Hildur Inga Sveinsdóttir

Prófdómari/Examiner: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir

Fréttir

Ráðstefna um vörustjórnun og fjórðu iðnbyltinguna

Tengiliður

Valur Norðri Gunnlaugsson

Fagstjóri

valur.n.gunnlaugsson@matis.is

Vorráðstefna Vörustjórnunarfélags Íslands verður haldin 7. maí næstkomandi kl. 8-12 í Hvammi á Grand Hótel Reykjavík.

Yfirskrift ráðstefnunnar er Vörustjórnun og fjórða iðnbyltingin – rekjanleiki með nýjum kröfum og tækni. Ráðstefnan er haldin með stuðningi SI, SVÞ, FA og GS1 Ísland og fer skráning fram hér.

Valur N. Gunnlaugsson, starfsmaður Matís mun halda erindi um hvernig hægt er að mæta upplýsingaþörf neytenda í breyttu umhverfi.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Fréttir

Tækifæri í nýsköpun innan EES

Minnum á vinnustofu um tækifæri og styrki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar í bláa og græna hagkerfinu sem haldin verður á vegum Uppbyggingasjóðs EES, miðvikudaginn 24. apríl
kl. 8:30-11:30 hjá Íslandsstofu að Sundagörðum 2.

Á vinnustofunni verður sérstök áhersla á samstarfsáætlanir Uppbyggingasjóðs EES í Portúgal, Grikklandi og Rúmeníu. Fulltrúi frá Innovation Norway mun kynna áætlanirnar ásamt Rannís, Matís, NMÍ og Íslandsstofu.

Einnig verður kynnt tengslaráðstefna sem haldin verður 22. maí fyrir áætlanir sjóðsins í bláa hagkerfinu og sagt frá mögulegum ferðastyrkjum fyrir íslenska aðila til að sækja hana.

Dagskrá:

  • 8:30-9:30 Nýsköpunar- og viðskiptatækifæri í bláa og græna hagkerfinu og
    tengslaráðstefnur. 
    Anne Lise Rognlidalen verkefnastjóri hjá Innovation Norway
  • 9:30-9:40 Stuðningur við þátttöku íslenskra aðila. Aðalheiður Jónsdóttir sviðsstjóri
    alþjóðasviðs Rannís og Mjöll Waldorf verkefnastjóri Enterprise Europe Network
    á NMÍ.
  • 9:40-9:50 Dæmi um samstarfsverkefni innan EES svæðisins. Bryndís Björnsdóttir forstöðumaður lausna og ráðgjafar hjá Matís.
  • 9:50-10:10 Kaffihlé.
  • 10:10-11:30 Umræður og spurningar. Fyrirlesarar verða til viðtals og veita ráðgjöf.

Vinnustofan er skipulögð af utanríkisráðuneytinu í samstarfi við Rannís, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu og Háskóla Íslands.

Allir áhugasamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Nánar um Uppbyggingasjóð EES hér.

Fréttir

Vöktun líffræðilegs fjölbreytileika með Umhverfis DNA

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Líffræðilegur fjölbreytileiki á undir högg að sækja í hafinu en talið er að fjölbreytileikinn sé að dala hratt og hraðar en áður í sögu hafsins. Sýnt hefur verið fram á að útbreiðsla og göngumynstur margra sjávartegunda hafi breyst vegna hnattrænnar hlýnunar. Einnig hefur veðurfar breytt vistkerfum þannig að margar tegundir hafa horfið en slíkt tap á tegundum er eflaust vanmetið þar sem aðeins lítið brot af tegundum í djúpsævi og á heimskautasvæðum eru þekktar. Tegundir sem lifa í hafinu eru flestar huldar sjónum okkar og því er erfiðara að finna og meta fjölda þeirra.

Eftirlit með líffræðilegum fjölbreytileika og útbreiðslu sjávartegunda er erfitt, kostnaðarsamt og tímafrekt. Slíkar rannsóknir krefjast sérhæfðra rannsóknarskipa og tækjabúnaðar ásamt sér menntaðar áhafnar.

Ný tæki í verndunarlíffræði notast við umhverfis DNA (environmental eDNA) til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika. Þessi tækni hjálpar við að komast fyrir ýmsa af þeim annmörkum sem fylgir öðrum aðferðum og býður upp á fljótlega og ódýra leið til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu. Uppruni eDNA í hafinu er ýmiskonar en venjulega kemur DNA-ið frá lífverunum úr húðfrumum, slími, hrognum, hlandi eða saur. Sjó er safnað á misunandi dýpi á þeim svæðum sem eru til rannsókna og er sjórinn svo síaður. Í síunni verður eftir DNA úr lífverum sem hægt er að greina með raðgreiningartækni. Eftirlit með líffræðilegum fjölbreytileika með umhverfis DNA hefur marga kosti umfram aðrar aðferðir og hefur aðferðin reynst vel við mat á líffræðilegum fjölbreytileika í mörgum vistkerfum.

Í þessu verkefni er ætlunin að setja ráðstefnu með helstu sérfræðingum í Evrópu og víðar um tækni, tækifæri og annmarka í eDNA rannsóknum. Einnig verða kynnt rannsóknarverkefni þar sem eDNA hefur verið notað við vistfræðirannsóknir.

Ráðstefnan verður haldin í fundarsal Hafrannsóknastofnunar 2. til 3. október 2019 og verður hún öllum opin. Fljótlega verður vefsíða ráðstefnunnar opnuð. Þar verður hægt að finna dagskrá ásamt ýmsum fróðleik um eDNA og þar verður einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Verkefninu er stýrt af Davíð Gíslasyni hjá Matís og Christopher Pampoulie hjá Hafrannsóknastofnun. Verkefnið er styrkt af Ag-fisk, vinnunefndar Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf á sviði fiskveiða og fiskeldis.

Fréttir

Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani

Nýverið birti tímaritið Icelandic Agricultural Science greinina Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani eftir þau Jón H. Eiríksson, Ágúst Sigurðsson, Guðmund Jóhannesson og Emmu Eyþórsdóttur.

Þar er greint frá viðamikilli rannsókn þar sem alls 480.495 mælingar á daglegri nyt 33.052 íslenskra kúa voru notaðar til að meta erfðastuðla fyrir mjólkurmagn, fitumagn, próteinmagn og frumutölu á fyrstu þremur mjaltaskeiðum með slembiaðhvarfslíkani. Í ljós kom að arfgengi allra eiginleika reyndist lægst í upphafi mjaltaskeiðs en hæst um eða eftir mitt mjaltaskeið. Þá var arfgengi afurðaeiginleika metið hærra í þessari rannsókn en í eldri rannsóknum á stofninum. Athyglisverð niðurstaða var ennfremur að erfðabreytileiki á mjólkurúthaldi í stofninum gerir kleift að breyta lögun mjaltakúrfunnar fyrir íslenskar kýr með úrvali.

Greinina má nálgast hér.

Fréttir

Nýsköpun og viðskiptaþróun í bláa og græna hagkerfinu

Vinnustofa um tækifæri og styrki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar í bláa og græna hagkerfinu verður haldin þann 24. apríl.

Uppbyggingarsjóður EES veitir styrki til samstarfsverkefna og verður lögð áhersla á áætlanir í Grikklandi, Portúgal og Rúmeníu á vinnustofunni.

Fulltrúi frá Innovation Norway mun kynna þessar áætlanir ásamt Matís, Rannís og Íslandsstofu og nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins. Jafnframt verður kynnt tengslaráðstefna sem haldin verður í maí um áætlanir sjóðsins í bláa hagkerfinu og mögulega ferðastyrki fyrir íslenska aðila.

Vinnustofan er skipulögð af utanríkisráðuneytinu í samstarfi við Matís, Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands.

8:30 – 9:30 – Nýsköpunar- og viðskiptatækifæri í bláa og græna hagkerfinu og tengslaráðstefnur
Anne Lise Rognlidalen, verkefnastjóri, Innovation Norway

9:30 – 9:40 – Stuðningur við þátttöku íslenskra aðila
Mjöll Waldorff, verkefnastjóri, Enterprise Europe Network á Nýsköpunarmiðstöð Íslands Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, Rannís

9:40 – 9:50 – Dæmi um samstarfsverkefni innan EES svæðisins
Bryndís Björnsdóttir, forstöðumaður lausna og ráðgjafar, Matís

9:50 – 10:10 – Kaffihlé

10:10 – 11:30 – Umræður og spurningar 
Fyrirlesarar verða til viðtals og veita ráðgjöf

Vinnustofan fer fram í húsakynnum Íslandsstofu, Sundagörðum 2. Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Matís á „Scottish Seafood Summit“

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Seafish í Bretlandi, sem að vissu leyti er systurstofnun Matís, stóð fyrir ráðstefnu í Aberdeen í lok Mars, sem bar yfirskriftina the Scottish Seafood Summit. Þetta var í fyrsta sinn sem Seafish stendur fyrir svona viðburði í Skotlandi, en viðlíka ráðstefnur hafa virðið árlegir viðburðir í Grimsby um árabil s.k. Humber seafood summit.

Talsmönnum Seafish Þótti takast einstaklega vel með þessar ráðstefnu í Aberdeen, en um 150 manns sóttu ráðstefnuna og um 100 manns í viðbót fylgdust með beinni útsendingu á vef stofnunarinnar.

Meginumfjöllunarefnið var að sjálfsögðu Brexit og var fjallað um mögulegar afleiðingar út frá hinum ýmsu sjónarhornum. Ein málstofan var tileinkuð umræðum um hvaða áhrif Brexit geti haft á mönnun í veiðum og vinnslu (labour constraints), en sjávarútvegur í Bretlandi er töluvert háður innfluttu vinnuafli. Í þessari málstofu var meðal annars fjallað um sjálfvirkni og tækninýjungar, og þá hvaða tækifæri séu í að nýta sjálfvirkni til að koma í stað vinnuafls sem verður erfiðara að flytja inn til Bretlands í kjölfar Brexit. Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís, var boðið á ráðstefnuna til að fjalla um sjálfvirkni í íslenskum sjávarútvegi og hver þróunin hafi verið í tengslum við tækninýjungar og mannaflaþörf á Íslandi. Kynningu Jónasar má sjá hér, en ræða hans vakti mikla athygli og fékk hann fjölda fyrirspurna að henni lokinni. Segja má að ráðstefnugestir hafi skipst í tvo jafna hópa varðandi framtíðarsýn fyrir skoskan sjávarútveg þar sem um helmingur taldi að best væri að fara „íslensku leiðina“ með að einblína á hagræðingu og sjálfvirkni; en hinn helmingurinn taldi að réttara væri að yfirvöldum bæri að tryggja að sjávarútvegurinn geti lifað í núverandi mynd án þess að einblínt sé á fjárhagslegan gróða. Allar kynningar frá ráðstefnunni má nálgast á heimasíðu Seafish hér.

IS