Fréttir

Skráning á Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki lýkur í dag

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Askurinn 2019

Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki, Askurinn 2019, fer fram í nóvember. Skráningu líkur í dag, 4. nóvember, og keppendur skila keppnisvörum til Matís 19. nóvember. Dómarastörf og fagleg úttekt á keppnisvörunum fer fram hjá Matís dagana 20.-21. nóvember. Úrslit keppninnar og verðlaunaafhending verður tilkynnt á Matarhátíð á Hvanneyri 23. nóvember kl 14:00. Að keppninni standa Matís ohf í samstarfi við Matarauð Íslands. Samstarfsaðilar við verðlaunaafhendingu eru Sóknaráætlun Vesturlands, Markaðsstofu Vesturlands, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Keppni í matarhandverki er fyrir framleiðendur matarhandverks að sænskri fyrirmynd, Svenska Mästerskapen i Mathantverk. einnig kölluð Særimner, hefur verið haldin árlega, við góðan orðstír frá 1998 af Eldrimner sem er sænska landsmiðstöðin fyrir matarhandverk. Keppnin felur í sér að framleiðendur fá faglegt mat á gæði vörunnar og eru verðlaun, Askurinn, veitt fyrir þær vörur er þykja skara fram úr. Vinningshafar fá viðurkenningarskjal og leyfi til að merkja vinningsvörurnar með viðeigandi límmiða, gull-, silfur eða brons askur, þar sem á er merki keppninnar ásamt ártali. Heimilt er að nota þær merkingar á verðlaunavörur fram að næstu keppni. Gullverðlaunahafi er jafnframt Íslandsmeistari í viðkomandi flokki.

Keppni í matarhandverki var haldin í fyrsta sinn haustið 2014 í samstarfi Matís og Ný norræn matvæli (Ny Nordis Mad). Keppnin tókst mjög vel, 110 vörur tóku þátt í 8 matvöruflokkum frá öllum Norðurlöndunum. Vinningshafar fengu góða fjölmiðlaumfjöllun og eru sumir hverjir ennþá að nýta sér þessa viðurkenningu í markaðsstarfi sínu.

Hvað er matarhandverk?

Matarhandverk snýst um að skapa vörur þar sem lögð er áhersla á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaður getur ekki búið til. Áherslan er á að nota staðbundin hráefni, framleiðslu í litlu magni sem er oft svæðisbundin. Matarhandverksvörur eru heilnæmar, án óþarfra aukaefna og vörur sem hægt er að rekja til upprunans. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna. Í matarhandverki er lögð áhersla á að þróa hefðbundnar vörur fyrir neytendur dagsins í dag.