Fréttir

Lokafundur Discardless

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri rannsókna

jonas@matis.is

Verkefninu DiscardLess lauk formlega nú fyrir skemmstu með lokafundi verkefnisins sem haldinn var í húsakynnum DTU í Lyngby í Danmörku. Verkefnið stóð yfir í fjögur ár og tóku alls 31 fyrirtæki og stofnanir frá 12 löndum þátt í því.

Helsta markmið DiscardLess var að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanni sem Evróusambandið hefur verið að reyna að koma á síðastliðin fjögur ár, með takmörkuðum árangri. Nú í upphafi árs 2019 átti brottkastbannið að vera að fullu innleitt á öllum hafsvæðum sem hin sameininlega fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins (CFP – Common Fisheries Policy) nær til, en ljóst er þó að langt er enn í land að bannið geti talist hafa skilað þeim árangri sem að var stefnt. Meðal þátttakenda í verkefninu voru fyrirtækin Matís, SkipaSýn, Hampiðjan og Marel, og átti ekkert land jafn marga fulltrúa og Ísland í verkefninu. Í DiscardLess verkefninu var sjónum meðal annars beint að löndum sem hafa nú þegar reynslu af brottkastbönnum, með það fyrir augum að reyna að miðla af reynslu þeirra og ljóst er að horft er til Íslands hvað það varðar.

Á fundinum var farið yfir helstu áfanga verkefnsins, hindranir og næstu skref.

Hér má nálgast kynningarnar og niðurstöður sem kynntar voru á lokafundinum. 

Fréttir

Matís á North Atlantic Seafood Forum í Bergen

North Atlantic Seafood Forum, sem haldin í Bergen í Noregi, er ein stærsta sjávarútvegsráðstefna heims.

Þeir sem sækja ráðstefnuna eru áhrifafólk í alþjóðlegum sjávarútvegi sem og kaupendur, framleiðendur, sérfræðingar o.fl. Reikna má með að fjöldi gesta sé um 900 manns frá 30 löndum og u.þ.b. 300 fyrirtækjum. Á ráðstefnunni eru rædd málefni sem snerta einkum hagsmuni landa við Norður Atlantshaf. Þar er m.a. fjallað um nýsköpun, sjálfbærni, framboð og markaðsmál; 16 málstofur og 150 fyrirlestrar.

Íslenskum aðilum, fyrirtækjum í framleiðslu, sölu og þjónustu við sjávarútveg, aðilum í stuðningsumhverfi greinarinnar gefst tækifæri á að taka þátt, kynna vörur sínar og þjónustu á alþjóðavettvangi, en Matís er einmitt á meðal þátttakenda þarna.

Matís á North Atlantic Seafood Forum

Fréttir

Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði. Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefninu Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu lauk nýverið, en það var styrkt af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni og unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Markmið verkefnisins var meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Myndskeið um verkefnið má finna hér.

Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu

Fréttir

Aukum áhuga og þekkingu ungs fólks á mat

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Matis vinnur næstu þrjú árin með Háskóla Íslands og 13 öðrum háskólum og stofnunum í Evrópu að verkefninu IValueFood sem er ætlað að stuðla að bættri heilsu neytenda og styðja við matvælaiðnað í Evrópu. 

Það verður gert með því að bæta þekkingu og áhuga næstu kynslóða á mat og matvælaframleiðslu. Nýlegar aðferðir, á borð við eflingu í gegnum leiki, áhugahópa um matreiðslu, tilraunir með nýjar matreiðsluaðferðir, pörun (twinning) og „vísindi mæta mat“ verða nýttar til að efla áhuga og þekkingu ungra neytenda, allt frá grunnskóla til háskóla, á mat. Þannig er ætlunin að móta framvarðarsveit ungra einstaklinga sem miðla gildum um mat.

Að verkefninu munu koma ýmis matvælafyrirtæki og hagmunaaðilar, og matvælaiðnaðurinn mun vinna með ungum neytendum við að skilgreina matvælagildi. Áhersla verður lögð á svæði innan Evrópu þar sem auka þarf áhuga og þekkingu á matvælum til að stuðla að því að næstu kynslóðir taki skynsamlegar og upplýstar ákvarðanir í fæðuvali sínu.

IValueFood er hluti og styrkt af stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið.

Fréttir

Sjálfbær nýting auðlinda er samvinnuverkefni

Haftengdri áherslu í formennsku Íslands – Gagnvegir góðir – í Norrænu ráðherranefndinni, var ýtt formlega úr vör í síðustu viku þegar upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Matís. 

Málefni hafsins og bláa lífhagkerfið er í forgrunni á formennskutímabili Íslands í Norrænu ráðherranefndinni nú í ár. Undir áherslunni – Hafið, blár vöxtur í norðri – eru skilgreind þrjú verkefni sem Ísland leggur sérstaka áherslu á í þessari formennskuáætlun, en þau eru Nordmar Hafnir, um hafnir sem miðstöðvar nýsköpunar og orkuskipta, NordMar Plast,um lausnir við þeirri ógn sem plast í höfunum er fyrir lífríkið og afkomu okkar og NordMar Lífiðjuver,um þá möguleika sem felast í bláa lífhagkerfinu og fullnýtingu hráefnis og vinnslu sífellt verðmætari vara úr auðlindum sjávar.

Þessi verkefni fóru formlega af stað á fimmtudaginn í síðustu viku á upphafsfundi Hafsins – blár vöxtur í norðri, sem haldinn var í Matís. Geir Oddson, sérfræðingur í Norðurlandadeild Utanríkisráðuneytisins, hóf fundinn á kynningu á formennskuáætluninni og svo fylgdu kynningar á hverju verkefninu fyrir sig. Hrönn Jörundsdóttir hjá Matís leiðir NordMar Plast, Bryndís Björnsdóttir leiðir NordMar Lífiðjuver og Jákup Sørensen frá norræna Atlantssamstarfinu (NORA) leiðir NordMar Hafnir.

Eftir hádegi funduðu svo hóparnir hver í sínu lagi þar sem farið var yfir verkferli og vinnupakka og þátttakendur fengu tækifæri til að kynnast og skiptast á hugmyndum varðandi verkefnin.

Fréttir

Nýr samningur HÍ og Matís um rannsóknir, nýsköpun og kennslu

Í gær var undirritaður nýr samningur á milli Háskóla Íslands og Matís ohf um rannsóknir, nýsköpun og kennslu.

Með samningi þessum vilja Matís og HÍ leggja grunn að enn frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis með nánu samstarfi á sviði rannsókna og nýsköpunar. Í því skyni verður lögð áhersla á samstarf í rannsóknum og nýsköpun, m.a. á leiðbeiningu meistara- og doktorsnema í verkefnum tengdum Matís og samstarfi um nýtingu rannsóknatækja og búnaðar.

Hlutverk Háskóla Íslands er að bera faglega ábyrgð á námi, kennslu, námsefni, efnistökum, prófum, veitingu prófgráða við námslok og að sjá til þess að starfsfólk sem annast kennslu og rannsóknir á vegum HÍ standist akademískar kröfur.

Tenging menntunar og starfsþjálfunar við atvinnulíf og samfélag er rauði þráðurinn í samstarfi Matís við menntastofnanir. Hlutverk Matís að stunda rannsóknir og nýsköpun í þágu atvinnulífs, lýðheilsu og matvælaöryggis er haft að leiðarljósi. Tilgangurinn samstarfsins er að:

  • auka hæfni og möguleika starfsfólks í rannsóknun og að vera með í og leiða innlend og alþjóðleg verkefni með áherslu á hagmuni Íslands.
  • mennta og þjálfa upp starfsfólk fyrir íslenskan matvælaiðnað og íslenskt samfélag
  • samnýta starfsfólk, aðstöðu og búnað til að geta yfirleitt stundað öflugar rannsóknir á hagkvæman hátt
  • geta aflað, framkvæmt og skilað verkefnum fljótt og vel  

Það er gert með því að:

  • ráða sameiginlegt starfsfólk
  • ráða nemendur í doktorsnám í verkefni á vegum Matís sem í flestum tilfellum eru unninn í samvinnu við fyrirtæki á Íslandi
  • bjóða nemendum upp á verkefni í mastersnámi sem eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og/eða stofnanir

Fréttir

Tækifæri í sjávarútvegi eru óþrjótandi

Í viðhafnarútgáfu Ægis sem kom út í tilefni 100 ára fullveldis Íslands var rætt ítarlega við Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands um starfsferilinn. Hér fylgja nokkra glefsur úr viðtalinu.

Sigurjón hóf að leggja hönd á plóg í frystihúsinu á Norðfirði 10 ára gamall og reyndi Sigurjón fyrir sér í sjómennsku með föður sínum á unglingsárunum á Hornafirði og það var upptakturinn að námi tengdu fiskiðnaði.

„Alveg frá því ég var á bátnum á Hornafirði forðum hefur það verið mitt mottó að allt sem við veiðum eigi að meðhöndla rétt og vel. Fiskur er viðkvæmt hráefni og vandmeðfarið,“ segir Sigurjón.

Á háskólaárum sínum vann Sigurjón á sumrin hjá Fiskmati ríkisins og fór m.a. milli allra frystihúsa á Íslandi, 1972-1974, sem þá voru á annað hundrað talsins, til að fylgjast með hvernig hreinlæti væri háttað. Tilgangurinn var að undirbúa nýtt regluverk á þessu sviði, svokallaða Rauðu handbók, og uppfylla með því staðla að kröfu fiskkaupenda í Bandaríkjunum.

Að loknu háskólanámi, fyrst í efnafræði frá Háskóla Íslands og síðan vinnsluferlaverkfræði í Kaupmannahafnarháskóla (DTU) réðst Sigurjón til Atlas Sabroe.

Í septemberlok 1978 var Sigurjóni boðið að koma heim og taka við stöðu deildarstjóra tæknideildar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Hann tók tilboðinu. Strax á fyrstu mánuðunum fór hann að kenna fiskiðnaðartækni og matvælaverkfræði við Háskóla Íslands þannig og frá þessum tíma hefur hann kennt við bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Sem kunnugt er sameinaðist Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins inn í Matís á sínum tíma en rauður þráður í daglegum verkefnum Sigurjóns og samstarfsmanna hefur alla tíð verið að bæta vinnsluferla og auka verðmæti sjávarfangs.

Byggist allt á sömu fræðunum í grunninn

„Eitt af því sem við unnum að á þessum tíma var kæling á kolmunna niður í mínus eina gráðu, ofurkæling, til að stöðva niðurbrot. Kolmunnaveiðin lagðist svo af stuttu síðar en þekkingin nýttist okkur aftur fyrir fáum árum þegar makríll fór að veiðast hér við land í lögsögunni að sumarlagi. Þá tókst okkur að þróa tækni sem gerði að verkum að hægt var að skapa mikil verðmæti úr makrílnum þó hann væri ekki á hentugasta skeiði til vinnslu. En til viðbótar við þekkingu sem byggst hefur upp á vinnslutækninni þá hefur kælitækninni líka fleygt fram með árunum og skapað grundvöll til að bæta hráefnisgæðin,“ segir Sigurjón.

„Við erum þannig alltaf að hamra sömu fræðin í grunninn og nýta okkur þau í t.d. rannsóknum og nemendaverkefnum sem aftur skila sé með beinum hætti inn í greinina.“

Gæðahugsun í sjávarútvegi er nokkuð almenn í greininni í dag en við þurfum samt alltaf að skerpa á henni og vera meðvituð um atriði sem þarf að laga, t.d. hvað varðar meðferð fisks, ísun, blæðingu og fleira.“

Óþrjótandi tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar

Með styttingu veiðiferða skipanna segir Sigurjón að hafi skapast grunnur að framleiðslu og útflutningi á ferskum fiski sem síðan hefur orðið snar þáttur í botnfiskvinnslunni hér á landi síðari ár.

„Þróunin í hvíta fiskinum hefur verið mjög hröð og við erum komin langt. En samt eru óþrjótandi tækifæri til að gera betur og mín skilaboð til stjórnvalda eru að spýta á ný í lófana hvað varðar framlög í AVS rannsóknasjóð um aukið verðmæti sjávarfangs, sem hefur verið fjársveltur undanfarin ár. Fyrirtækin í greininni sjá að leiðin til að nýta tækifærin og möguleikana byggist á þekkingu og rannsóknum. Þann grunn verður því að treysta.“

Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson/HÍ

Fréttir

Getur grálúða bætt psoriasis og exem? | Hagnýting fitusýra úr grálúðu

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Nú er nýhafið mjög áhugavert samstarfsverkefni milli Dermos og Matís þar sem ætlunin er meðal annars að kanna áhrif fituefna úr grálúðu til dæmis á húðsjúkdóma.

Þegar Guðbjörn Björnsson, meðeigandi Dermos var héraðslæknir á Austfjörðum, fyrir allmörgum árum síðan, heyrði hann á tali manna að fiskverkakonur, löguðust mjög af psoriasis og exemi þegar þær unnu berhentar við grálúðu. Hann ákvað þá í samráði við lækni í húðsjúkdómafræði að búa til áburð úr fitu grálúðu. Áburðurinn var prófaður á sjúklingum með þessa húðsjúkdóma og góður bati náðist en vegna mikillar fiski og lýsislyktar hættu þeir prófunum. Meðhöndlun á fitusýrum hefur farið mikið fram síðan þessi tilraun var gerð.

Markmið verkefnisins er að útbúa áburð úr fituefnum grálúðu, takmarka lyktina sem áður var of mikil og búa til náttúrlegan áburð sem getur meðhöndlað sjúkdóminn með skilvirkari hætti en önnur efni á markaðinum.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og verkefnisstjórnun hjá Dermos.

Teikningin af grálúðunni er eftir Jón Baldur Hlíðberg, fauna.is

Fréttir

Aðgerðir fyrir sjálfbær lífhagkerfi í útnorðri

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Pallborð lífhagkerfis í útnorðri (e. West Nordic Bioeconomy Panel)  hefur dregið fram fimm stefnumótandi forgangsmarkmið og lagt til tengdar lykilaðgerðir í því markmiði að efla nýsköpun og sjálfbæra verðmætasköpun innan lífhagkerfis í útnorðri til lengri tíma.

Talið er að þessar lykilaðgerðir séu skynsamar og raunhæfar, næsta skref er að láta þær verða að veruleika. Allir hagsmunaðilar eru því hvattir til að leggja metnað sinn til verksins þar á meðal stjórnmálamenn, ríkisstofnanir og fyrirtæki,. Með því munu samfélögin í Færeyjum, á Grænlandi og á Íslandi stuðla að því að ná fram markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. 

Árið 2015 var Pallborð lífhagkerfis í útnorðri stofnað í því markmiði að leggja til og miðla raunhæfri stefnu til viðhalds og styrkingar lífhagkerfis landanna í útnorðri. Vinnan hefur verið fjármögnuð af Norður Atlantshafs samstarfinu (NORA).

Lífhagkerfið er atvinnustarfsemi sem snýst um vörur og þjónustu sem byggir á lífauðlindum. Það felur í sér nýtingu lífauðlinda og aukna virðisaukningu frumframleiðslu úr lífauðlindum, afurða og notkun hliðarstrauma úr virðiskeðjum lífauðlinda.

Lífauðlindir hafsins gegna lykilhlutverki í lífhagkerfi í útnorðri; Færeyja, Grænlands og Íslands. Hér lífhagkerfið frábrugðið lífhagkerfum margra annarra landa; Löndin í útnorðri eru að miklu leyti háð flutningi lífmassa, unnum að takmörkuðu leyti, t.a.m. frystra sjávarafurða. Möguleikar á verðmætaaukningu aukast með meiri vinnslu og nálægð við markaði. Með meiri vinnslu er einnig hægt að nýta hliðarstrauma, auka nýtingu og skapa störf. Þess vegna er nýsköpun sem eykur vinnslu og framleiðslu á verðmætari vörum sérstaklega mikilvæg í útnorðri. Á sama tíma hafa hár launakostnaður, strábýli og breytingar í lýðfræði áhrif á nýsköpunargetu svæðisins.

Löndin í útnorðri geta lagt sitt af mörkum til aukinnar sjálfbærni í matvælavinnslu og nýtingu, en það krefst fjárfestingar í innviðum í tengslum við matvælaöryggi, sem er forsenda viðskipta með matvæli. Innflutningur matvæla, fóðurs og áburðar til svæðisins gefur til kynna tækifæri til aukinnar sjálfsnægta, einkum með því að nýta sér hliðarvörur á öllum sviðum.

Þau stefnumótandi forgangsmarkmið og meginaðgerðir sem lagðar eru hér til, eru skref í þá átt.

Skýrslu West Nordic Bioeconomy Panel má finna hér.

Fréttir

Nemendur hjá Matís

Hlutverk og þáttur Matís í menntun og þjálfun nemenda er mikill og er fyrirtækið með sterk tengsl við marga virta erlenda háskóla.

Fjöld innlendra sem erlendra nemenda víðsvegar úr heiminum hafa notið góðs af leiðsögn vísindamanna Matís og þeirri framúrskarandi aðstöðu sem fyrirtækið getur boðið nemendum. Þeim þykir Matís spennandi kostur vegna þess hversu vel fyrirtækið er tengt bæði háskólaumhverfinu og fyrirtækjum, enda eru flest nemendaverkefnin af þeim toga að verið er að vinna vísindaleg verkefni með hagnýtingu í huga.

Meðfylgjandi mynd er af þeim erlendu nemum sem eru í Matís í byrjun árs 2019 en þau eru frá Aruba, Danmörku, Englandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi.

IS