Fréttir

Sjálfbær nýting auðlinda er samvinnuverkefni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Haftengdri áherslu í formennsku Íslands – Gagnvegir góðir – í Norrænu ráðherranefndinni, var ýtt formlega úr vör í síðustu viku þegar upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Matís. 

Málefni hafsins og bláa lífhagkerfið er í forgrunni á formennskutímabili Íslands í Norrænu ráðherranefndinni nú í ár. Undir áherslunni – Hafið, blár vöxtur í norðri – eru skilgreind þrjú verkefni sem Ísland leggur sérstaka áherslu á í þessari formennskuáætlun, en þau eru Nordmar Hafnir, um hafnir sem miðstöðvar nýsköpunar og orkuskipta, NordMar Plast,um lausnir við þeirri ógn sem plast í höfunum er fyrir lífríkið og afkomu okkar og NordMar Lífiðjuver,um þá möguleika sem felast í bláa lífhagkerfinu og fullnýtingu hráefnis og vinnslu sífellt verðmætari vara úr auðlindum sjávar.

Þessi verkefni fóru formlega af stað á fimmtudaginn í síðustu viku á upphafsfundi Hafsins – blár vöxtur í norðri, sem haldinn var í Matís. Geir Oddson, sérfræðingur í Norðurlandadeild Utanríkisráðuneytisins, hóf fundinn á kynningu á formennskuáætluninni og svo fylgdu kynningar á hverju verkefninu fyrir sig. Hrönn Jörundsdóttir hjá Matís leiðir NordMar Plast, Bryndís Björnsdóttir leiðir NordMar Lífiðjuver og Jákup Sørensen frá norræna Atlantssamstarfinu (NORA) leiðir NordMar Hafnir.

Eftir hádegi funduðu svo hóparnir hver í sínu lagi þar sem farið var yfir verkferli og vinnupakka og þátttakendur fengu tækifæri til að kynnast og skiptast á hugmyndum varðandi verkefnin.