Fréttir

Endurnýjanleg orka í fiskmjölsiðnaði

Ísland vill með ábyrgum hætti taka á þeim vanda sem steðjar að, sé ekkert aðhafst, í loftlagsmálum en í því samhengi má nefna að Ísland gerðist fyrir lok árs 2015 aðili að Parísarsamkomulaginu.

Mikilvægt er að nýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið frá athafasemi okkar. Í virðiskeðjum sjávarfangs er eftir miklu að slægjast varðandi bætt umhverfisáhrif frá veiðum og vinnslu. Liður í bættum áhrifum af vinnslu sjávarfangs er raforkuvæðing fiskmjölsframleiðslu á Íslandi en mikilvæg skref hafa einmitt nýlega verið stigin í þeim efnum.

Eins og greint var frá í aðdraganda vorfundar félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa félagið og Landsvirkjun tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði eins kom fram í viljayfirlýsingu sem Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu. Eins og verkast vill í íslensku samfélagi flýgur gjarnan fiskisagan.

Á opnum fundi Hafsins Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins um loftslagsmál – áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, fimmtudaginn 6. apríl, vék Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra máli sínu að framangreindum áformum í opnunarerindi.

“Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslagsávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu.”

Á fundinum kom í ljós almenn ánægja með framangreind áform. Hörður Arnarson sagði frá því að til þess að Landsvirkjun og FÍF gátu komið sér saman um framangreinda viljayfirlýsingu þurfti til gagnkvæman skilning á rekstri og rekstrarumhverfi hvors aðila. Hafði Hörður á orði að fiskmjölsverksmiðjur væru tæknilega krefjandi viðskiptaaðili m.t.t. eðlis rekstrarins og óvissu.

Þá sagði Hörður að aðkoma Matís hefði átt þátt í þeirri niðurstöðu sem að endingu varð.

Þetta er einungis eitt dæmi um það að með samstilltum aðgerðum getum við náð árangri í þessum málum sem öðrum og haft áhrif á þróun mála.

Í því samhengi má benda á að ársfundur Landsvirkjunar fer fram í dag, miðvikudaginn 26. apríl kl. 14:00 á Hilton Reykjavík Nordica.

#lvarsfundur

Fréttir

Nýsköpun til betra lífs

Hvernig þróa íslenskir frumkvöðlar hugmyndir sínar og koma þeim á framfæri um allan heim? Sérfræðingur Matís með erindi um hugverkaréttindi.

Einkaleyfastofan býður til morgunverðarfundar í tilefni Alþjóðahugverkadagsins. Morgunverðafundurinn verður haldinn í Norræna húsinu þann 28. apríl frá frá kl. 8:45 til 10. Aðgangur á fundinn er ókeypis en fundargestir eru beðnir um að senda staðfestingu um þátttöku á postur@els.is.

Sjá nánar á heimasíðu Einkaleyfastofunnar.

Fréttir

Vísindaganga á Degi Jarðar í miðborg Reykjavíkur – Stöndum vörð um vísindin!

Vísindagangan (e. March for Science) fer fram í miðbæ Reykjavíkur á Degi Jarðar, laugardaginn 22. apríl kl. 13. Markmið göngunnar er að sýna vísindafólki samstöðu og um leið fagna vísindum sem mikilvægri stoð í lýðræðislegu samfélagi. Efnt verður til fundar í Iðnó að lokinni göngu þar sem rætt verður um þá hættu sem steðjar að vísindastarfi og vísindafólki.

Hugmyndin að Vísindagöngunni kviknaði meðal vísindafólks og áhugafólks um vísindi í Bandaríkjunum í lok janúar en gengið verður til stuðnings vísindum í Washington D.C. þann 22. apríl. Hugmyndin barst um heiminn og til varð alþjóðahreyfing sem standa mun fyrir sams konar göngum víða um lönd. Hér á landi standa vísindamenn og áhugafólk um vísindi fyrir göngunni. 

Markmið hreyfingarinnar er meðal annars að vekja athygli á vísindum sem einni af meginstoðum lýðræðislegs samfélags sem þjónar sameiginlegum hagsmunum þjóða og stuðlar m.a. að upplýstum ákvörðunum í þágu almennings.

Vísindagangan fer fram í skugga þeirra breytinga sem hafa orðið á umhverfi vísindamanna og vísindalegrar afstöðu við ákvarðanatöku í Bandaríkjunum frá því að stjórn Donalds Trump tók við þar í landi í janúar. Stefnumörkun nýrra valdhafa mun hafa víðtæk áhrif um allan heim og takmarka möguleika vísindamanna til þess að stunda rannsóknir og miðla þekkingu sinni og uppgötvunum. Því horfumst við í augu við mögulega framtíð þar sem fólk virðir ekki einungis vísindalega þekkingu að vettugi heldur reynir að útiloka hana algerlega. 

Vísindin eiga víðar undir högg að sækja en í Bandaríkjunum. Hér á landi liggur fyrir fjármálaáætlun á vegum ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sem gerir ráð fyrir að háskólakerfið verði áfram fjársvelt og niðurskurði á samkeppnissjóðum á næsta ári. Þá hefur fjölda fræði- og vísindamanna verið sagt upp störfum í opinberum háskólum í Danmörku.

Í Vísindagöngunni er einnig ætlunin að fagna vísindunum, því hlutverki sem þau hafa í lífi okkar allra og undirstrika nauðsyn þess að virða og hvetja til rannsókna sem stuðla að auknum skilningi okkar á heiminum. Því þurfum við að standa vörð um vísindin. 

Áhugafólk um vísindi á öllum aldri er hvatt til að mæta í gönguna. Safnast verður saman á Skólavörðuholti við styttuna að Leifi Eiríkssyni þaðan sem gengið verður niður Skólavörðustíg og Bankastræti, eftir Austurstræti, yfir Austurvöll og að Iðnó. Þar verður haldinn umræðufundur sem hefst á stuttum erindum frá vísindafólki en þau munu fjalla um hættuna sem steðjar að vísindunum í Bandaríkjunum og víðar og áhrif þess á umheiminn.

Nánari upplýsingar um gönguna eru á Facebook-síðu hennar hér á landi: https://www.facebook.com/events/608584169266237/

og heimasíðu hinnar alþjóðlegu hreyfingar: https://www.marchforscience.com/

Fréttir

Lærdómur dreginn af reynslu Íslendinga

Mikilvægt er að virða náttúruna með því að nýta villta stofna á sjálfbæran hátt. Skynsamlegt er að virða hráefnið með því að nýta það sem er dregið úr sjó, gera sem mest úr aflanum. Þá er virðing borin fyrir samfélaginu með því að gera sem mest verðmæti úr því sem tekið er til vinnslu.
Nýting þess fisks sem aflast hefur lengi verið til umræðu. Áhersla hefur aukist á gæði og dregið hefur úr áherslu á magn. Ábyrg umgengni um auðlindir hafs hefur jákvæðar víðtækar afleiðingar. Umgengni Íslendinga um auðlindir hafsins hefur batnað til muna og þykir nú til eftirbreytni. Lagt er upp með að vanda til verka við meðhöndlun íslensks sjávarfangs. 

Matís hefur, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Hampiðjunni og Marel, verið virkur þátttakandi í DiscardLess verkefninu sem leitt er af danska tækniháskólanum DTU frá upphafi (mars 2015). Verkefninu er ætlað að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanninu sem verið er að innleiða innan evrópska fiskiskipaflotans. Evrópskir ráðamenn og aðrir hagaðilar horfa til Íslands og annarra landa sem reynslu hafa af því að starfa undir brottkastsbanni og því er innlegg Íslands mikilvægt í verkefninu, auk þess sem Matís leiðir einn vinnupakka og er með lykilhlutverk í nokkrum öðrum vinnupökkum. 

Meðal aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til með það fyrir augum að stemma stigu við brottkasti má nefna, sveigjanleika við tilfræslu aflaheimilda, heimild til löndunar meðafla utan aflaheimilda hvar meirihluti aflaverðmætis rennur í Verkefnasjóð Sjávarútvegsins, reglur um hlutfall hausa af afla vinnslu skipa sem landað skuli í samræmi við lestarrými vinsluskipanna, eins má rifja upp reglur um löndun grásleppu og kvaðir um löndun lifrar þorsks, ufsa, löngu, keilu og skötusels sem og þorsk og ufsa hrogna (við grásleppu veiðar). Aukin áhersla á nýtingu afla til verðmætasköpunnar hefur leitt til þess að lifur er tekin með í reikninginn við skiptingu aflaverðmætis skv. hlutaskiptakerfi.

Dagana 6. – 10. mars fór ársfundur í DiscardLess verkefninu fram í Róm. Fundurinn í Róm var annar ársfundur í DiscardLess og markar hann að verkefnið er nú hálfnað. Frá Matís tóku þeir Jónas Rúnar Viðarsson og Kristinn Ólafssson þátt í fundinum, sem þótti takast með eindæmum vel. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum FAO og var sóttur af 60 þátttakendum og um 50 hagaðilum (stakeholders) sem voru innvinklaðir í fundardagskrána á ýmsan veg. Ísland átti sinn fulltrúa í hópi hagaðilanna, Kristján Þórarinsson frá SFS, sem sat fundinn fyrir hönd íslensks sjávarútvegs og talaði þar máli útgerða sem starfað hafa undir brottkastsbanni í rúma þrjá áratugi. Kristján hélt áhugaverða tölu sem vakti mikla athygli, þar sem hann skýrði frá áhrifum brottkastsbannsins á íslenskan sjávarútveg. Hvað þar við nokkuð annan tón en heyrst hafði frá kollegum hans í Evrópu, sem höfðu kvartað mikið yfir banninu. Kristján færði rök fyrir því að bannið hafi verið mikið gæfuspor fyrir íslenskan sjávarútveg og að það væri í raun skylda þeirra sem treyst er fyrir náttúruauðlindum að fara vel með.

Jónas fór yfir nokkur af mikilvægustu atriðunum sem draga má lærdóm af reynslu Íslendinga af brottkastbanni, nærri fjagra áratuga þrotlausri viðleitni til bættrar umgengni um auðlindir sjávar og aukinnar sjálfbærni. Jónas vék einkum að þeim atriðum sem eru auðvledlega yfirfæranleg og nýta má í fjölbreyttum sjávarútvegi víðsvegar fyrir ströndum Evrópulanda. Þá sýndi Jónas þróun sem átt hefur sér stað fyrir Íslandsströndum í tilviki ýsu. Sem og tillögur að bættum aðbúnaði um borð í fiskiskipum á Biscay flóa þannig að áhafnir geti gert að aflanum og komið með allan afla að landi.

Hér er örstutt myndbrot sem víkur að nýtingu Íslendinga á auðlindum sjávar.

Nýting

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson faglegur leiðtogi varðandi Örugga virðiskeðju matvæla.

Fréttir

Þróunarsamvinna í starfsemi Matís

Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan hefur verið samstarfsaðili um kennslu í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, UNU-FTP, frá upphafi starfsemi skólans árið 1998.

“Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu og starfskynningum sem taka rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3-4 brautum, en sérnámið tekur 4-5 mánuði. Matís sér um kennslu á gæðabraut og eru nemendur á þeirri braut á bilinu 5 til 10. Á hverju ári koma 15-20 sérfræðingar Matís að kennslu og verkefnaleiðbeiningum”, segir Heiða Pálmadóttir, fagstjóri hjá Matís.

Það getur verið heilmikið púsluspil að koma dagskránni fyrir sérnámið saman, “fyrst eru fyrirlestrar í 6 vikur og þar koma ýmsir að og ekki bara sérfræðingar hjá Matís, heldur fólk vítt og breitt úr íslenskum fiskiðnaði og tengdum greinum eins og flutningum og pakkningum. Það er farið í heimsóknir þar sem fyrirtæki taka á móti nemendum, þetta eru skemmtilegar og fræðandi heimsóknir fyrir nemendur og ekki síður fyrir fylgdarmenn. Skemmtilegar umræður skapast frekar í óformlegum heimsóknum en þegar setið er í fyrirlestri um efnið. Mér hefur sjálfri þótt gaman og fræðandi að fara með í þessar heimsóknir,” segir Heiða Pálmadóttir sem um langt árabil hefur haft umsjón með kennslunni.

Hagur UNU-FTP skólans af samstarfinu:

  • Matís hefur á að skipa fjölhæfum sérfræðingum með langa reynslu af rannsóknum og þjónustu í fiskiðnaðinum
  • Sérfræðingar Matís hafa góð tengsl við íslenskan fiskiðnað vegna smæðar landsins, allt frá veiðum til útflutnings og neyslu
  • Sérfræðingar Matís eiga margháttað samstarf við íslenska háskóla og tengjast menntun bæði í grunnámi og framhaldsnámi og mynda brú milli iðnaðar og háskóla á Íslandi

Hagur Matís af samstarfinu:

  • Matís leggur sitt að mörkum til þróunarhjálpar
  • Sérfræðingar Matís viðhalda tengslum við sjávarútveg og fiskiðnað og varðveita grunnþekkingu sína á því sviði
  • Skapar ný tækifæri til aukinna verkefna á alþjólegum markaði

Nemendur vinna lokaverkefni sín hjá Matís og við það skapast tengsl við nemendur sem slitna ekki. Margir koma aftur til frekara náms hér á Íslandi, þó nokkrir hafa komið í doktorsnám og mastersnám á síðustu árum. Við það að dvelja svo lengi á Íslandi skapast mikil og varanleg tengsl milli manna. Þetta hefur getið af sér verkefni og vinskap sem lengi heldur.

“Ég hef verið í sambandi við nemenda frá SriLanka, hann er að koma upp gæðakerfi og leitaði ráðlegginga um framkvæmd á einstökum mælingum eins og gæðamælingum á fiski og frekari útskýringum á aðferðafræði – þetta er hægt að vinna í gegnum netið og tekur okkur lítinn tíma að afgreiða. Annað dæmi er um nemanda í Kenýa sem hefur verið í sambandi vegna fitusýrugreininga en henni er sérstaklega hugleikið að auka lýsisneyslu, sérstaklega hjá ungum börnum og mæðrum þeirra.  Óneitanlega verður manni hugsað til nemenda sinna þegar hörmungar dynja yfir þjóðir þeirra og maður veit aldrei hvað um þau verður sérstaklega ef tengslin eru ekki stöðug. Það var líka sterk reynsla að taka á móti nemendum frá Norður Kóreu og Kúbu meðan ástandið var þar sem verst,” segir Heiða.

“Allt er þetta vel menntað fólk í byrjun og ákaflega áhugasamt um að læra og kynna sér sem best það sem við höfum upp á að bjóða” segir Heiða að lokum.

Fréttir

Frekari verðmætasköpun úr íslenskum makríl

Nú er í gangi verkefni hjá Matís, styrkt af AVS og Tækniþróunarsjóði Rannís, sem snýr að því ýta undir frekari fullvinnslu á makríl og auka þar með verðmæti hans.

Fram að þessu hefur verið algengast að flytja út makríl, sem ætlaður er til manneldis, heilfrystan til t.d. Kína þar sem hann hefur verið handflakaður og unnin frekar í verðmætar afurðir. Slík framkvæmd er dýr og óumhverfisvæn og gerir það að verkum að minni verðmæti sitja eftir í íslensku hagkerfi. Aukinheldur gerir flökun hér á landi fyrirtækjum kleift að nýta það sem til fellur við flökun í aðrar verðmætar afurðir til dæmis snyrtivörur eða fæðubótarefni. Því er það keppikefli íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi að finna leið til þess að flaka makríl hér á landi.

Makríll er, eins og margt annað sjávarfang, viðkvæmt hráefni og ætli menn að fá sem mest verðmæti úr makrílveiðum þarf að huga vel að allri meðferð aflans, frá miðum í maga. Þegar makríll er við Íslandsstrendur er hann um margt viðkvæmari en til dæmis þegar hann er vestur af Noregi, bæði er meira um rauðátu og eins er fiskurinn lausari í sér og erfiðari til vinnslu.

Matís tekur jafnframt þátt í verkefni þar sem Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar vinna í sameiningu að ferlum sem nýst gætu við vélflökun makríls. Þessum rannsóknum var síðan framhaldið í samstarfi Síldarvinnslunnar á Neskaupstað og Matís og þá tekið sérstaklega á þeim áskorunum sem fylgja makrílnum þegar hann veiðist hér við land.

Markmið verkefnisins er m.a. að meta hvort makríll henti í flakaafurðir þegar hann er veiddur við Íslandsstrendur. Rannsakað verður geymsluþol frosinna flaka pakkað á mismunandi vegu og hvernig tryggja má a.m.k. 12 mánaða geymsluþol. Verkefnið mun skila nýrri þekkingu til að stýra gæðum lokaafurða.

Nánari upplýsingar veitir dr. Magnea G.Karlsdóttir hjá Matís.

Fréttir

“Ljót” matvæli fá nýtt líf – sigurvegarar Ecotrophelia

Á miðvikudaginn fór fram keppnin Ecotrophelia og voru verðlaun veitt í gær fimmtudag á ráðstefnunni „Þekking og færni í matvælageiranum“ haldin af samstarfsvettvanginum Matvælalandið Ísland.

Vinningshugmyndin kom frá þeim Hildi Ingu Sveinsdóttur, Margréti Örnu Vilhjálmsdóttur, Mariu Katrinu Naumovskaya og Málfríði Bjarnadóttur. Hugmyndin var varan „Mauk“ sem framleidd er úr vannýttu hráefni. Markmiðið með framleiðslu vörunnar var að taka á einu stærsta vandamáli í matvælaiðnaði, matarsóun. Mauk er hugsað sem marinering fyrir kjúkling og hvítan fisk en nýtist einnig sem grunnur í súpur, sósur eða pottrétti. Aðal uppistaða vörunnar eru tómatar og gulrætur en hvoru tveggja er ræktað á Íslandi í stórum stíl og er gífurlegt magn sem fer til spillis. Ástæðan er meðal annars miklar útlitskröfur frá smásölum og neytandanum sjálfum.

Sigurvegararnir stefna að enn frekari þróun vörunnar fyrir Evrópukeppni Ecotrophelia sem haldin verður í London í lok nóvember.

Nánari upplýsingar veita Málfríður og Hildur Inga hjá Matís.

Fréttir

Styttist í eina stærstu sjávarútvegstengdu ráðstefnu sem haldin hefur verið hér á landi

World Seafood Congress (WSC2017) fer fram á Íslandi 10.-13. september nk. Undirbúningur gengur vel og hefur fjöldi manns nú þegar skráð sig á ráðstefnuna sem fram fer í Hörpu. Einnig hafa mjög áhugaverðir fyrirlesarar boðað komu sína.

WSC er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis, og dregur að borðinu fólk úr öllum hlutum virðiskeðju sjávarfangs. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim, ekki síst frá þróunarlöndum.

Íslensk fyrirtæki hafa verið dugleg að skrá sig enda kjörið tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg að koma sér enn betur á framfæri. Þess má einnig geta að þeir sem skrá sig á WSC2017 fá frían aðgang að Íslensku sjávarútvegssýningunni sem opnar skrax í kjölfarið á WSC, á hádegi þann 13. september.

Skráningargjöld eru á sérstökum afslætti fram til 1. maí.

#WSC_2017 #icefishevent #iceland

Fréttir

Þekking og færni í matvælagreinum

Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnu á Hótel Sögu fimmtudaginn 6. apríl þar sem fjallað verður um leiðir til að efla þekkingu og færni innan matvælagreina. Matís hefur frá stofnun lagt áherslu á náið samstarf með hagaðilum um framþróun matvælagreina á Íslandi með það að markmiði að auka verðmætasköpun, bæta matvælaöryggi og lýðheilsu. Matís er stoltur þátttakandi í samstarfsvettvangnum Matvælalandið Ísland.  

11.30     Hádegishressing í samvinnu við meistarakokka Grillsins
12.00     Setning og afhending verðlauna Ecotrophelia Ísland. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Tæknin byltir matvælaiðnaði – Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís

Nýjar aðferðir við miðlun fræðslu til starfsmanna 
Þjálfun í þenslu – hvernig næ ég til starfsmanna?  – Hlíf Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Securitas
Nýjar leiðir við miðlun kennsluefnis – Hróbjartur Árnason, lektor við Menntavísindasvið HÍ
Vinnustaðanám og fræðsla Icelandair hótela – Erla Ósk Ásgeirsdóttir forstöðumaður starfsmanna- og gæðasviðs Icelandair hótela
Menntanet sjávarútvegsins – Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur SFS

Hlé

Reynslusögur úr fyrirtækjum
Gæði, öryggi og arðsemi í framleiðslu 
– Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri Norðlenska
Hverjir kaupa fiskinn okkar, erum við á réttri leið? Klemenz Sæmundsson og Ásdís Vilborg Pálsdóttir, verkefnastjórar hjá  Fisktækniskóla Íslands  
Starfsþjálfunaráætlun – Aðalheiður Héðinsdóttir, stjórnarformaður Kaffitárs
Ráðgjöf til bænda – Nýjar áskoranir í breyttu umhverfi – Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins  

Pallborðsumræður með þátttöku ungs fólks úr ýmsum greinum.
Lilja Rut Traustadóttir, gæðastjóri Gæðabaksturs
Viktor Örn Andrésson, matreiðslumeistari, 3. sæti í Bocuse d’Or 2017
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda og stjórnarmaður í Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Eyrún Sif Skúladóttir, ráðgjafi hjá Wise
Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Dominos

16:00     Ráðstefnuslit

Kynnir og ráðstefnustjóri: Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis 

Fréttir

Vegna skýrslu Félags atvinnurekenda (FA) „Eftirlitsgjöld á atvinnulífið“

Matís sendir frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna skýrslu FA „Eftirlitsgjöld á atvinnulífið“ þar sem m.a. er rætt um gjaldskrá Matís í samhengi við eftirlit með matvælaöryggi. Í skýrslunni er gagnrýnt að ekki sé hægt að nálgast heildstæða gjaldskrá Matís, hvorki gegnum bein samskipti né á heimasíðu Matís.

Við fögnum opinni umræðu um eftirlit með matvælaöryggi á Íslandi og viljum í því samhengi benda á eftirfarandi:

Matís er rannsóknarfyrirtæki sem, eins og önnur rannsóknarfyrirtæki á Íslandi, þjónustar opinbera eftirlitsaðila (Matvælastofnun og landshlutabundin heilbrigðiseftirlit) og einkaaðila varðandi mælingar og rannsóknir. Matís hefur byggt upp viðamikla innviði á sviði efna-, örveru- og erfðamælinga matvæla og umhverfissýna hérlendis með það fyrir augum að þjónusta matvælaframleiðendur og stjórnsýslu matvælaöryggis sem best. Þessi uppbygging stuðlar að bættu matvælaöryggi fyrir neytendur og framleiðslu heilnæmra matvæla.

Verðlagning Matís er byggð á raunkostnaði við mælingar og rannsóknastofa Matís er faggilt. Kostnaður við að viðhalda faggildingu er hluti af verði mælinga hjá Matís, ásamt afskriftakostnaði, sérhæfðu viðhaldi, efniskostnaði, tíma starfsfólks o.fl.  Matís tekur við sýnum alla virka daga en vissar mælingar, sér í lagi örverumælingar, krefjast ákveðins tímaramma, sem veldur því að vinna verður í einhverjum tilvikum að vera framkvæmd um helgar.

Við gerum viðskiptavinum okkar tilboð í mælingar og vinnum með þeim að því að halda kostnaði í lágmarki, t.a.m. með því að leggja áherslu á að skipulag sýnatöku henti m.t.t. skipulags mælinga.  Fjöldi sýna skiptir miklu máli í þessu samhengi og þarf að taka m.a. að taka mið af tímasetningu mælinga og aðgengis að rannsóknabúnaði. Útgáfa einhverskonar opinberrar verðskrár væri til þess fallin að minnka hagkvæmni og sveigjanleika og myndi ekki þjóna hagsmunum viðskiptavina okkar.

Ísland er í alþjóðlegri samkeppni í framleiðslu matvæla.  Matís er í alþjóðlegri samkeppni um mælingar.  Samkeppnisaðilar okkar hafa aðgang að margföldum sýnafjölda í samanburði við íslenskar aðstæður.  Slíkt býður upp á einfalda verðskrá, þar sem miðað er við að sýni fari aftast í röðina þegar þau koma.  Greitt er sérstaklega fyrir forgang. Stærð matvælaframleiðslu á Íslandi leyfir ekki slíkt fyrirkomulag. Þess vegna er fjárfesting í innviðum og mannauði á rannsóknarstofum Matís þeim mun mikilvægari.  Þannig er stutt við matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu og útflutningshagsmunir lykilatvinnuvega þjóðarinnar tryggðir, matvælaöryggi á Íslandi aukið, viðbragðstíma styttur og verðmætasköpun matvælaframleiðenda efld.

Sérstakar athugasemdir:

Bls. 14: Varðandi hækkun á „sýnatökugjaldi“ úr 61.320 krónum í 81.760 krónum. Gert er ráð fyrir því að átt er við varnarefnamælingar í ávöxtum og grænmeti. Árið 2014 fór fram viðamikil uppbygging á sviði varnarefnamælinga hjá Matís þar sem efnum sem mæld eru var fjölgað úr u.þ.b. 60 upp í 135 og eru í dag mæld tæplega 190 efni. Þetta er gert til að mæta þeim kröfum sem settar eru í matvælalöggjöf Íslands og Evrópu varðandi hámarksgildi varnarefna í þessum vörum. Ástæða hækkunar var fjölgun efna og er hún minni en hlutfallsleg fjölgun efnasambanda.

Bls. 21: Verðskrá Matís er ekki birt með tilskildum hætti. Matís er í samkeppni á frjálsum markaði. Viðskiptavinir leita tilboða og haga viðskiptum sínum eftir þeim tilboðum. Matís gerir ávallt tilboð fyrir hvern og einn viðskiptavin með það fyrir sjónum að hagræða kostnaði viðskiptavinar með hagræðingu í vinnu Matís, t.a.m. út frá tímasetningu mælinga og viðeigandi skipulags sýnatöku. Opinberir aðilar, Matvælastofnun og landshlutabundin heilbrigðiseftirlit, sem senda inn opinber eftirlitssýni, skipuleggja sýnatöku í samvinnu við Matís með það að markmiði að lágmarka kostnað eftirlitsþega. Verðhækkunum á mælingum er haldið í lágmarki, t.d. hafa hækkanir flest undanfarin ár verið mun lægri en hækkun launa og annars kostnaðar við mælingar. 

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sviðsstjóri Mæliþjónustu og innviða

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, hronn.o.jorundsdottir@matis.is

IS