Fréttir

Ný grein komin út í Icelandic Agricultural Sciences

Ný grein, sú fjórða í röðinni í hefti 30/2017, alþjóðleg vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (IAS) er komin út. 

Þetta er stuttgrein og á íslensku mundi hún nefnast „Athugun á plöntuvali móhumlu (Bombus jonellus) á Suðvesturlandi“. Athugunin var gerð á tveimur stöðum, í Heiðmörk og við Vífilsstaðavatn, sumarið 2016. Fyrri hluta sumars nærðist móhumlan (hunangsflugan, villibýflugan) aðallega á blóðbergi og fjalldalafífil, lítillega á blágresi og sáralítið á nokkrum öðrum plöntutegundum. Seinni part sumars var meira úrval af blómstrandi plöntum og fæðuvalið var þá ekki eins einsleitt. Þá nærðist móhumlan aðallega á engjarós, umfeðmingi, beitilyngi, blóðbergi, skarfífli og gullkolli. Rannsóknin sýndi greinilegan mun á plöntuvali móhumlu milli fyrirparts sumars og síðsumars og að hún nýtir sér fjölbreytni blómplantna mólendisins síðsumars.  

Þessa áhugaverðu grein má nálgast á vef IAS

Fréttir

Fræðslufundur um nýtingu sauða- og geitamjólkur

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Fullyrða má að ónýtt sóknarfæri liggi í nýtingu sauða- og geitamjólkur hér á landi.  Áhugi fyrir mjöltum og vinnslu úr mjólkinni er til staðar, enda möguleikarnir kannski meiri en nokkru sinni áður að bjóða heimaunnar landbúnaðarvörur nú þegar landið okkar er svo vinsæll áningarstaður ferðamanna.  Þá er ekki vanþörf á því að skoða alla möguleika sem kunna að vera fyrir hendi í því að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.

Fyrirhugað er að halda fræðslufund fyrir þá sem hafa hug á því að hefja mjaltir og vinnslu á afurðum úr sauða- og geitamjólk.  Markmið fundarins er að kynna fólki hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og að hverju þarf að huga áður en farið er af stað í slíkt verkefni. Þess má til gamans geta að áhugi á þessum fundi er mun meiri en við áttum von á og nú hafa vel á 30 tug áhugasamra skráð sig á fundinn.

Á fundinum mun Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, greina frá reynslu þeirra bænda í Akurnesi af framkvæmd sauðamjalta.  Óli Þór Hilmarsson hjá MATÍS mun fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar samkvæmt núgildandi reglugerðum.  Þá mun Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækni ráðunautur RML, fjalla um aðstöðu við mjaltir.

Fréttir

Doktorsvörn – áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk

Fimmtudaginn 15. júní ver Godfrey Kawooya Kubiriza doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk (The effects of dietary lipid oxidation on farmed fish).

Hvenær hefst þessi viðburður: 15. júní 2017 – 13:00
Staðsetning viðburðar: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðarsalur

Andmælendur eru dr. Anders Kiessling, prófessor við Swedish University of Agricultural Sciences, Department of Animal Nutrition and Husbandry, Svíþjóð, og Þórarinn Sveinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi er Helgi Thorarensen, prófessor við Háskólann á Hólum, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Aðrir í doktorsnefnd eru Ólafur Sigurgeirsson, lektor við Háskólinn á Hólum, Anne M. Akol, Makerere University í Úganda, Jón Árnason, sérfræðingur hjá Matís, og Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands stýrir vörninni sem fer fram í Hátíðarsal aðalbyggingar hefst klukkan 13:00.

Ágrip af rannsókn

Þótt aðstæður til fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku séu góðar er fiskeldisframleiðsla á svæðinu ennþá fremur lítil. Helsta hindrun frekari vaxtar fiskeldis er skortur á hagkvæmu fóðri, sem framleitt er úr hráefnum af svæðinu. Í doktorsverkefninu voru gerðar tilraunir sem taka á þessu vandamáli: 1) Með því að skilgreina kjöruppsetningu vaxtartilrauna (heppilegasta fjölda fiska og endurtekninga meðferða) og bestu tölfræðiaðferðir til þess að greina gögnin. 2) Könnuð voru áhrif þránunar á lýsi í fóðri á fiska. Niðurstöðurnar benda til þess að þránun hafi ekki áhrif á vöxt Nílarborra (Oreochromis niloticus) í tjörnum þar sem gnægt er af þörungasvifi, ríku af andoxunarefnum. 3) Borin var saman andoxunarvirkni ethoxiquin (EQ), sem mikið er notað í fiskafóðri, og nýrra andoxunarefna: rósmarínolíu (RM; Rosmarinus officinalis) og blöðruþangs (BÞ; Fucus vesiculosus). Niðurstöðurnar benda til þess að RM geti hindrað þránun lýsis jafn vel og EQ auk þess að hvetja til betri vaxtar fiskanna en EQ eða BÞ. 4) Ný hráefni í fiskifóðri, sem framleidd eru í Úganda, voru prófuð. Niðurstöðurnar benda til þess að hagkvæmt sé að nota rækjuna Caradina nilotica, sem er meðafli úr fiskveiðum í Viktoríuvatni, í fóður og skipta þannig út fiskimjöli úr Rastrineobola argentea, sem nýta má beint til manneldis. Niðurstöður þessara tilrauna eru mikilvægt framlag til frekari þróunar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku, einkum framleiðslu fóðurs fyrir eldisfiska.

Um doktorsefnið

Godfrey Kawooya Kubiriza er fæddur 7. ágúst 1979 í Úganda. Foreldrar hans eru Yekosofati Kawooya Kayizzi og Khezia Nakiryowa frá Kikwayi í Mukono-héraði í Úganda. Godfrey er níundi í röð tólf systkina. Hann er lektor við Makerere University í Kampala.

Grunn- og framhaldskólamenntun sína fékk Godfrey í Bishop’s Central Primary School, Namakwa Senior Secondary School og Bishop’s Senior School í Mukono. Árið 2004 lauk hann B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum og fiskeldi frá Makerere University. Hann lauk meistaragráðu með láði árið 2009 frá háskólanum í Malaví, Bunda College, sem naut stuðnings frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Frá 2009 til 2010 var Godfrey styrkþegi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og sérhæfði sig í fiskeldi við Háskólann á Hólum. Leiðbeinendur hans á Íslandi voru Helgi Thorarensen og Ólafur Sigurgeirsson við Háskólann á Hólum og Albert K. Imsland hjá Akvaplan Niva. Lokaverkefni Godfreys á Hólum fjallaði um skipulag tilrauna og tölfræðiúrvinnslu í fiskeldisrannsóknum.

Godfrey hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2011 með námsstyrk frá Sjávarútvegsskólanum. Lokaverkefnið á Hólum var hluti af doktorsverkefninu. Doktorsritgerð Godfreys fjallar um fjölbreytt efni, einkum áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfiska og leiðir til þess að forðast þránun, auk tölfræðiúrvinnslu í vaxtartilraunum. Niðurstöður rannsókna Godfreys eru mikilvægt framlag til frekari uppbyggingar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku.

Fréttir

Fyrirlestrar frá ráðstefnunni „Úrgangur í dag – auðlind á morgun“ nú aðgengilegir

24. maí sl. var haldin ráðstefnan „Úrgangur í dag – auðlind á morgun“ á Grand hótel en ráðstefnan var samstarf UmhverfisstofnunarBændasamtaka ÍslandsFENÚRLandgræðslu ríkisins, MatísNýsköpunarmiðstöðvar ÍslandsSamtaka fyrirtækja í sjávarútvegiSamtaka iðnaðarins og Sjávarklasans.

Ráðstefnan fjallaði um bætta nýtingu lífrænna aukaafurða á Íslandi og var ráðstefnan lokaliður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Norræna lífhagkerfið (NordBio). Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Bæklingur um norræna lífhagkerfið (NordBio)

Fréttir

Matís í samstarf við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís og hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands (LHÍ) skrifuðu í sl. viku undir viljayfirlýsingu sem útlistar áhuga til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á afurðum íslensks lífhagkerfis að markmiði.

Matís og hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ telja að rannsóknir og samstarf geti lagt grunn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í matvælaframleiðslu, hönnun og vöruþróun á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla sem höfða til neytenda á sama tíma og framleiðsla þeirra stuðlar að sjálfbærri þróun í lífhagkerfinu og stuðli að því að nýir kraftar leysist úr læðingi þegar kemur að framþróun íslensks matvælaiðnaðar.

Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum lífhagkerfinu, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni- og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu.  Notendamiðuð hönnun, vara og þjónusta, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, með aukna verðmætasköpun, bætt matvælaöryggi og bætta lýðheilsu að markmiði.  Matís hefur á síðustu árum náð mjög góðum árangri í sókn í alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði, í samstarfi við íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir. 

Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans býður upp á BA-nám í vöruhönnun og alþjóðlegt MA-nám í hönnun. Við deildina er lögð áhersla á nýtingu staðbundinna hráefna til þróunar og nýsköpunar. Deildin hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknarverkefnum á sviði matarhönnunar og vöruþróunar með sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og samfélags að leiðarljósi.

Fréttir

Það er betra að heilreykja makrílafurðir

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Benjamin Aidoo ver meistararitgerð sína í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Ritgerð Benjamins ber heitið „Áhrif mismunandi reykingaraðferða á myndun fjölarómatískra kolvetnissambanda (PAH) og eðlisefnafræðileg gæði í reyktum makrílafurðum“

Nánari staðsetning

  • Matís
  • Vínlandsleið 12
  • 113 Reykjavík
  • 8. júní 2017 kl. 14
  • Fundarsalur 312

Effects of different smoking methods on the formation of polycyclic aromatic hydrocarbons (PAHs) and physicochemical quality in smoked Atlantic mackerel products

Áhrif mismunandi reykingaraðferða á myndun fjölarómatískra kolvetnissambanda (PAH) og eðlisefnafræðileg gæði í reyktum makrílafurðum

Rannsökuð voru áhrif mismunandi reykingaraðferðar og hitastigs á myndun fjölarómatísk kolvetni (PAH) í reyktum makríl. Einnig voru áhrif mismunandi reykingaraðferða, geymsluhitastig og pökkunarefna á stöðugleika heitreyktra makrílafurðir kannaðar, með því að fylgjast með eðlis- og efnaeiginleikum þeirra. Rannsóknin sýndi að myndun PAH efna var yfir æskilegum mörkum ef notast var við klefareykingu á makrílflökum. Hins vegar reyndust PAH undir viðmiðunarmörkum ef makríllinn var reyktur heill eða í Bradley reykofni. Hitastigið sem fékkst í Bradley reykofninum var hins vegar ekki nógu hátt til þess að tryggja stöðugleika afurðanna m.t.t. niðurbrots af völdum örvera, oxunar eða ensíma í gegnum geymslu í kæli. Myndun frírra fitusýra og oxunarafleiða var almennt hærri í flökum en í heilum fiski. Einnig mátti hægja á myndun TVB-N ef flökin voru geymd við lofttæmdar aðstæður í stað loftumbúða. Því er mælt með því að makríll sé reyktur heill í klefareykofni, og hann geymdur í kæli við loftskiptum umbúðum til að tryggja hámarksgæði.

Leiðbeinendur

  • María Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands
  • Sigurjón Arason, Matís, Háskóli Íslands

Allir velkomnir! 

Fréttir

Þekking þróar sjávarútveg

Samstarf um rannsóknir og þróun í sjávarútvegi er liður í þróunarsamvinnu Íslendinga. Með þeim hætti er lagt upp með að nýta sérþekkingu Íslendinga á sviði hvar Íslendingar standa framarlega svo stuðla megi m.a. að bættu fæðuöryggi á grunni sjálfbærrar auðlinda nýtingar. Slíkt samstarf leiddi nýverið í ljós niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum.

Í nýliðnum maí mánuði kom út grein í Journal of Food Engineering um áhrif umhverfishita og bið hráefnis við flakavinnslu. Greinin byggir á rannsókn sem unnin var í samstarfi í tengslum við áherslur Íslendinga í þróunarsamvinnu, hvar lagt er upp með að nýta sérþekkingu Íslendinga á sviði fiskvinnslu. Að rannsókninni unnu einkafyrirtæki og opinberir aðilar í sameiningu, slíkt samstarf er liður í því að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að mæta heimsmarkmiðunum.

Kínverskur nemandi við Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP), Mu Gang, vann að rannsókninni undir handleiðslu íslenskra leiðbeinenda meðan á námsdvöl hans stóð hér á landi. Leiðbeinendur Mu Gang voru dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Marel, Ásbjörn Jónsson og Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís og var rannsóknin unnin hjá Matís.

Í greininni má sjá niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum. Markviss kæling gegnir lykilhlutverki við varðveislu gæða. Eins mikilvægt og það er að lágmarka hnjask sem fiskurinn verður fyrir frá veiðum að neyslu er jafnframt mikilvægt að draga úr töfum sem kunna að verða í vinnsluferlinu. Eins og komið hefur fram á öðrum vettvangi skiptir blóðgun, blæðing (blóðtæming), þvottur og kæling miklu máli um borð í fiskiskipum, sama máli gildir um skilvirkni og viðhald lágs hitastigs við flakavinnslu. 

Þó allt kapp sé lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið. Niðurstöður rannsókninnar sýna vel afleiðingar þess ef vikið er frá upplögðu verklagi þ.e. að viðhalda lágu hitastigi í gegnum vinnsluferlið, jafnvel þó frávikið sé skammvinnt. Hár umhverfishiti og tafir við vinnslu leiða til rýrnunar á þyngd og verðmætum afurða. Því er mikilvægt að forðast flöskuhálsa sem leiða til uppsöfnunar fisks í vinnslurásum, sér í lagi við lítt kældar aðstæður. Auk þess er bent á að mikilvægi sé að hitastig afurða við pökkun sé sem næst geymsluhitastigi. 

Þekkingin sem skapaðist með rannsókninni er dæmi um ávexti langs og farsæls samstarfs Matís og Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg, s.s. Marel. Mikil þekking skapast í háskólasamfélaginu og hafa vísindamenn unnið í víðtæku samstarfi að þróun og innleiðingu hennar hjá öflugum ábyrgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Samstarf um hagnýtingu þekkingar hefur gert íslenskum fiskiðnaði kleift að taka stórstígum framförum svo eftir hefur verið tekið víða um veröld. Það hefur gert íslenskan sjávarútveg að þeim þekkingariðnaði sem hann er í dag og býr í haginn fyrir þróun hans til framtíðar.

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til fiskvinnslu.

Matís veitir ráðgjöf og þjónustu um allan heim til viðskiptavina s.s. fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði.  Matís aðstoðar viðskiptavini við þróun og innleiðingu þekkingar þ.m.t. nýjrra ferla fyrir fyrirtæki með hagnýtingu vísinda.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vinna að verðmætasköpun með sjálfbærni að leiðarljósi, líffræðilegri, efnahagslegri og samfélagslegri. 

Sjávarútvegsskóli háskóla sameinuðu þjóðanna er einn af fjórum skólum háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hýstur er á Íslandi og hefur að markmiði að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi; fiskveiðum og fiskvinnslu í þróunarríkjum.

Fréttir

Getum við einangrað prótein úr sölvum?

Málfríður Bjarnadóttir hjá Matís ver meistararitgerð sína föstudaginn 2. júní kl. 13 en í verkefni sínu rannsakaði Málfríður hvort hægt væri að ná í prótein úr sölvum sem gæti til dæmis hentað grænmetisætum. 

Nákvæmari staðsetning: 

  • Matís
  • Vínlandsleið 12
  • 109 Reykjavík
  • Fundarherbergi 311 
  • Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís

Ágrip

Þörfin fyrir öruggt framboð matvæla fer stöðug vaxandi samhliða fólksfjölgun. Í nútímasamfélagi er jafnframt lögð sífelld meiri áhersla á heilnæmt mataræði, verndun umhverfis, nýtingu náttúrulegra hráefna og sjálfbærni. Þannig nýtur til dæmis nýtur mataræði sem útilokar dýraafurðir stöðugt meiri vinsælla. Vegna þessa er mikilvægt að finna nýjar uppsprettur matvæla einkum próteingjafa sem inniheldur þær lífsnauðsynlegu amínósýrur sem mannslíkaminn þarf. Söl (Palmaria palmata) tilheyra flokki rauðþörunga sem innihalda hátt hlutfall próteina af góðum gæðum. Útdráttur próteina úr sölvum takmarkast hins vegar af sterkum frumuvegg sem samanstendur aðallega af β-(1→4)/β-(1→3)-D-xylönum. Til þess að yfirstíga þessa hindrun er nauðsynlegt að brjóta þennan frumuvegg niður. Mismunandi leiðir til þess hafa verið skoðaðar ásamt mismunandi aðferðum til að meta próteininnihald. Markmið þessa verkefnis var að skoða áhrif mismunandi ensíma á próteinheimtur úr P. palmata. Ensím hvataður útdráttur bæði með próteasa og xylanasa var skoðaður. Vatnsrof með xylanasa skilaði bestum próteinheimtum og sýndi að próteinútdráttur úr P. palmata inniheldur allar þær lífsnauðsynlegu amínósýrur sem mannslíkaminn hefur þörf fyrir og væri þess vegna hagkvæmur sem próteingjafi í fæðu. Nýr köfnunarefnisstuðull var reiknaður fyrir þau sýni sem greind voru með tilliti til amínósýrusamsetningar og var stuðullinn mjög breytilegur milli sýna. Stuðullinn var marktækt lægri en 6.25 sem er sá stuðull sem venjulega er notaður. Þessar niðurstöður benda til þess að sé köfnunarefnisstuðull 6.25 notaður fyrir þang eins og P. palmata getur það valdið ofmati á magni próteina. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að bera sama niðurstöður á milli rannsókna.  Vatnsrof með próteasa með eða án xylanasa skilaði hærra hlutfalli peptíða, aminósýra og lítilla próteina í vökva eftir síun og var því dreifing próteina jafnari á milli sýna. Vatnsrof með próteasa er þess vegna ekki góð til þess að einangra prótein með þeirri aðferð sem notuð var í þessari rannsókn. Hins vegar sýndi vökvaútdráttur þeirra sýna góða in vitro andoxunarvirkni og ACE hamLandi virkni. Það bendir til þess að að notkun próteasa á P. palmata er góð leið til þess að framleiða og draga út lífvirk efni. 

  • Leiðbeinandi: Rósa Jónsdóttir, Matís
  • Umsjónarkennari: Björn Viðar Aðalbjörnsson, Háskóli Íslands, Matís
  • Meðleiðbeinandi: Hörður Kristinsson, Matís
  • Prófdómari: Hákon Hrafn Sigurðsson, Háskóli Íslands

Fréttir

Aðalfundur Matís vegna 2016

Aðalfundur Matís vegna starfsársins 2016 fór fram í gær kl. 13 að Vínlandsleið 12. Dagskrá fundarins var venju samkvæmt eins og kveðið er á um í samþykktum fyrir félagið.

Stjórn Matís eftir aðalfund er sem hér segir:

  • Sjöfn Sigurgísladóttir – formaður 
  • Auðbjörg Ólafsdóttir
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Heiða Kristín Helgadóttir
  • Karl Ægir Karlsson
  • Sigrún Traustadóttir
  • Sindri Sigurgeirsson

Úr skýrslu stjórnar

Matís er vísinda og þekkingarsamfélag sem byggir á sterkum rannsóknarinnviðum og traustu iðnaðarsamstarfi. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu og að bæta lýðheilsu.  Matís hóf störf 1. janúar 2007. Síðan þá hefur fyrirtækið jafnt og þétt eflst á innlendum vettvangi og sem alþjóðlegt rannsóknafyrirtæki. Matís er í dag stærra, öflugra og framsæknara fyrirtæki en fyrir 10 árum, sem undirstrikar að stofnun þess á sínum tíma var rétt.  Matís er ekki hluti af opinberu eftirliti. Slíkt eftirlit er á forræði Matvælastofnunar sem kaupir m.a. mæliþjónustu af Matís.

Stærstur hluti starfsemi Matís er rannsóknaþátturinn, fjölbreytt verkefni, stór og smá, verkefni unnin með innlendum fyrirtækjum og á alþjóðavettvangi. Rannsókna- og nýsköpunarverkefni skila niðurstöðum sem miklu skiptir að áfram sé unnið með, að þær séu nýttar til breytinga og framþróunar – að þær séu innleiddar hjá fyrirtækjum og fjárfestum.  

Árið 2016 var tíunda starfsár Matís. Við héldum upp á afmælið með því að bjóða starfsmönnum og fjölskyldum þeirra upp á sannkallaða vísindafjölskylduskemmtun í febrúar á þessu ári. Matís býr að gríðarlegum mannauði og það var svo sannarlega gaman að fá fjölskyldur starfsmanna til okkar. Áhuginn leyndi sér ekki meðal gesta sem fjölmenntu að höfuðstöðvum fyrirtækisins að Vínlandsleið 12. 

Lífhagkerfið og framtíðartækifæri innan þess eru áhersluefni í rannsóknum og þjónustu Matís á komandi árum. Líkt og allt annað í okkar heimi taka rannsóknir breytingum og þróast yfir lengra tímabil. Í dag eru rannsóknaverkefni þverfaglegri og heildstæðari en áður var, meira er horft á heildarmynd rannsóknarefna. Í þessu liggur einmitt einn ef helstu styrkleikum Matís, fjölbreytni í þekkingu og jafnframt þekking og geta til mjög afmarkaðra rannsókna.

Fjárfestar, OECD, Alþjóðabankinn og fleiri alþjóðastofnanir horfa í auknum mæli til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafanna til að tryggja efnahagslegan vöxt og velferð fyrir 9 milljarða jarðarbúa á næstu áratugum. Matís hefur á liðnum árum lagt áherslu á þessi tækifæri í okkar alþjóðastarfi, enda felast í þeim framtíðartækifæri í starfi Matís og fyrir verðmætasköpun á Íslandi. Alþjóðavæðing er komin til að vera og hún snertir fjárfestingar, rannsóknir, framleiðslu, markaðsstarf og virðiskeðju lífhagkerfisins alls. Hún hefur drifið tæknilegar umbyltingar sl. ára og mun gera í enn ríkara mæli á komandi árum.

Stefna Matís er að vera framsækið þekkingarfyrirtæki sem eflir samkeppnishæfni Íslands og skilar þannig tekjum til íslenska ríkisins og jafnframt að vera eftirsóttur, krefjandi og spennandi vinnustaður með fyrsta flokks aðstöðu þar sem hæft og ánægt starfsfólk fær tækifæri til að vaxa og njóta sín í starfi.

Markmið Matís er að vera leiðandi í krefjandi heimi nýsköpunar og með þetta krefjandi umhverfi og tækifæri í bakgrunni var unnin umfangsmikil stefnumótunarvinna á árinu 2016.  Í stefnu Matís er lögð áhersla á öfluga miðlun og innleiðingu niðurstaðna, ásamt því að byggja upp sterka innviði sem þjónað geta rannsóknum í fremstu röð á sviði öruggrar virðiskeðju matvæla, þróunar vara og innihaldsefna og könnunar og hagnýtingar erfðaauðlinda.

Gildi Matís eru heilindi, metnaður, sköpunarkraftur og frumkvæði. Með þessi gildi að leiðarljósi hefur starfsfólk Matís á síðastliðnum 10 árum byggt upp myndarlegan höfuðstól á formi innviða, ferla og færni. Á næstu 10 árum viljum við enn frekar hafa áhrif á þessum sviðum fyrir Ísland, íslenska ríkið og aðra viðskiptavini okkar innanlands sem utan – fjárfesta, fyrirtæki, stofnanir, samtök og einstaklinga.

Árangur Matís í gegnum tíðina er svo sannarlega eftirtektarverður og mig langar til að nefna nokkur dæmi frá árinu 2016:

Matís náði þeim frábæra árangri á árinu 2016 að vera í  hópi 50 fyrirtækja og stofnana í Evrópu sem urðu hlutskörpust í samkeppni um 400 milljón evra fjárfestingu Horizon 2020 áætlunarinnar í EIT FOOD. Í þessum hópi eru t.d. fyrirtæki á borð við Pepsico og háskólar á borð við Cambridge háskóla. Heildarfjárfesting í EIT FOOD er áætluð yfir 200 milljarðar íslenskra króna á 7 árum.

Á árinu varð Matís, ásamt samstarfsaðilum, hlutskarpast í samkeppni um verkefni sem ætlað er að bæta fiskveiðistjórnun og nýtingu fiskistofna sem Evrópuþjóðir hafa aðgang að utan lögsögu Evrópu. Verkefnið hefur fengið heitið FARFISH, en tekjur Matís vegna þess eru um 1,2 milljónir evra á árabilinu 2017-2020. Heildartekjur Matís vegna alþjóðlegra rannsóknaverkefna voru á árinu 2016 um 480 milljónir evra og voru ríflega 2500 milljónir  evra frá 2007-2016.

Fleiri dæmi um árangur 2016:

  • Samstarf Matís, Skaginn/3X, FISK Seafood og fleiri um þróun ofurkælingar fékk Svifölduna á Sjávarútvegsráðstefnunni í haust, en Svifaldan er verðlaun sem veitt eru fyrir mestu framúrstefnuhugmynd í sjávarútvegi á hverju ári.
  • Á árinu fór áhorf á myndbönd Matís á Youtube yfir 120 þúsund, fyrirtækið hefur fleiri en 5000 fylgjendur á Facebook sem tengjast oftar en 10 þúsund sinnum á mánuði og taka þátt í umræðum síðunnar oftar en 6 þúsund sinnum á mánuði. Við erum í dag með fleiri en 6 þúsund fylgjendur á Twitter. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að Matís er að ná að miðla vísindaupplýsingum til almennings.
  • Matís hefur tekið þátt í og leitt menntun á sviði verkfræði, hönnunar og fleiri fræðigreina, en sérstaklega á sviði matvælafræði. Við höfum tengt saman háskólanám og atvinnulífið með góðum árangri, sem hefur leitt til þess að fjölmargir einstaklingar í atvinnulífinu í dag hafa fengið menntun og reynslu tengda Matís og búa að því í núverandi starfi sínu. Fyrir vikið hlotnaðist samstarfi Matís og Háskóla Íslands um nám í matvælafræði verðlaunin Fjöreggið frá Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands á árinu 2016.

Matvælaöryggi spilar lykilhlutverk í verðmætasköpun matvælaiðnaðar í dag. Líklega mun áhersla á matvælaöryggi og heilindi í matvælaframleiðslu enn aukast á næstu árum, þegar teknar verða upp tilvísunarrannsóknastofur á sviði matvælaheilinda (food integrity). Íslenska ríkinu er skylt að útnefna tilvísunarrannsóknastofur til að framfylgja ákvæðum evrópsku matvælalöggjafarinnar, en tilvísunarrannsóknastofur eru mikilsverður liður í því að gera flutning matvæla milli Evrópulanda auðveldari og opnar evrópska markaðinn fyrir íslenska framleiðendur en eykur um leið allt öryggi í slíkum flutningum þar sem allir vinna samkvæmt sömu kröfum og reglum. Á sviði efna og örverumælinga er skilgreint 21 svið og í árslok 2016 hafði Matís fengið útnefningu sem tilvísunarrannsóknastofa fyrir 14 þessara sviða. Þetta er dæmi um hið vaxandi hlutverk sem Matís hefur í matvælaöryggi hér á landi.

Tekjur Matís á árinu 2016 voru samtals 1615 milljónir. Rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði var um 28,5 milljónir, en að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta var hagnaður félagsins rúmar 9 milljónir. Munar þar mestu um sterka stöðu krónunnar, en ríflega þriðjungur af heildartekjum Matís var í erlendri mynt á árinu 2016.

Heildarfjöldi starfsmanna í árslok var 114. Alls eru 12 starfsmenn iðnmenntaðir og 93 háskólamenntaðir, þ.a. 28 með doktorsgráðu og 10 í doktorsnámi. Niðurstöður starfsánægjukönnunar árið 2016 voru jákvæðar og sýna fram á bætt vinnuumhverfi hjá Matís, en það var ein af lykiláherslum stefnumótunar félagsins.  Slíkt er sannarlega hvatning til að gera enn betur.

Fréttir

Þrettán hljóta styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

27. apríl sl. úthlutaði Watanabe sjóðurinn styrkjum til þrettán aðila og að því tilefni var haldin athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. 

Níu nemendur og fjórir fræðimenn á afar fjölbreyttum fræðasviðum við bæði íslenska og japanska háskóla hljóta styrki að upphæð samtals um ellefu milljónir króna úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Styrkirnir voru afhentir við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 27. apríl. Viðstödd úthlutunina voru Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og eiginkona hans, Hidemi Watanabe.

Matís tengist úthlutun eins styrkjar en Kazufumi Osako, dósent við Tokyo University of Marine Science and Technology, fær styrk til viku dvalar á Íslandi, til að efla þríhliða samstarf við bæði Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís. Guðjón Þorkelsson er tengiliður Háskóla Íslands vegna þessa og tók við styrknum fyrir hönd styrkþega. Kazufumi Osako mun funda með Matís og Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, í september í haust í tengslum við World Seafood Congress.

Meira

IS