Fréttir

Strandbúnaður 2017

Í dag, 13. mars 2017, hefst ráðstefnan Strandbúnaður 2017. Strandbúnaður, sem er nýyrði, sem samheiti atvinnugreina sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, þ.m.t. ræktun og eldi. Af því tilefni ritaði Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Innleiðingar og áhrifa, eftirfarandi grein í Morgunblaðið, sem birtist í dag.

Íslendingar standa, rétt eins og aðrir jarðarbúar, frammi fyrir miklum áskorunum. Óvíst er með hvaða hætti glíman við hinar miklu áskoranir kann að hafa áhrif á samfélag okkar, velferð og velsæld. Jarðarbúum fjölgar ört, það er staðreynd sem setur kvöð á mannkynið að nýta betur þau hráefni sem unnið er úr og framleiða eftir fremsta megni með sjálfbærum hætti.

Matvælaframleiðsla er meðal þýðingarmeiri verkefna sem huga þarf að þegar kemur að úrlausn hinna stóru áskoranna. Um alllangt skeið hefur innan við 5% af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo þau þeki um 70% af yfirborði jarðarinnar. Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því líklegt er að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við og fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja. Landbúnaður er fyrirferðamikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna. Efnahagslögsaga Íslands er víðfeðm og ljóst er að möguleikar eru á að framleiða matvæli innan hennar auk veiða á villtum tegundum. Strandríkið Ísland býr að tækifærum með agaðri og skipulagðri uppbyggingu atvinnugreina við strendur landsins.

Ræktun lífvera í vatni er ekki ný af nálinni en hvorki ræktun né eldi hefur verið fyrirferðamikið á Íslandi, þó Ísland sé leiðandi í bleikjueldi og hafi verið framarlega í eldi á lúðu. Á síðustu árum hefur verið mikil aukning í laxeldi við Íslandsstrendur og efnileg fyrirtæki í þörungaræktun hafa sprottið upp. Þá hefur gróska verið í ræktun hryggleysingja og skel hefur sést á matseðlum víða um land. Mikilvægt er að vanda vel til verka við uppbyggingu atvinnugreina hér á landi. Atvinnugreinar sem byggja á hagnýtingu auðlinda á og við strendur landsins geta liðkað til við lausn þeirra áskorana sem við okkur blasa.

Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða.

Fyrir ábyrga þróun þeirra atvinnugreina sem teljast til strandbúnaðar er mikilvægt að fyrir hendi sé opinn vettvangur fyrir faglega og fræðandi rökræðu um brýnustu og mikilvægustu úrlausnarefnin. Í því augnamiði er efnt til ráðstefnunnar Strandbúnaður 2017 dagana 13.-14. mars á Grand Hótel. Ráðstefnan er öllum opin, þar verður farið yfir, á skilgreindum málstofum, stöðu og þróun fyrirferðamestu þátta strandbúnaðar við Ísland sem og stöðu mála á heimsvísu. Ráðstefnan styður þannig við menntun, rannsóknir, stefnumótun og þar með þróun greinarinnar.

Fréttir

Opinn fundur um eftirlitskerfi Matvælastofnunar

Matvælastofnun heldur fund um eftirlitskerfi stofnunarinnar kl. 9-12 föstudaginn 17. mars í Reykjavík. Fundurinn er öllum opinn en er sérstaklega ætlaður matvælaframleiðendum sem stofnunin hefur eftirlit með, bændum sem og fyrirtækjum, til að fara yfir framkvæmd eftirlits, eftirfylgni og birtingu niðurstaðna úr eftirliti.

Á fundinum verður fjallað um uppbyggingu og nýlegar breytingar á skoðunarhandbókum Matvælastofnunar og áhættuflokkun fyrirtækja. Farið verður yfir forsendur og framkvæmd eftirlits og frammistöðuflokkun Matvælastofnunar á fyrirtækjum út frá niðurstöðum eftirlits. Verklag stofnunarinnar við beitingu þvingunar- og refsiúrræða verður kynnt, ásamt upplýsingagjöf út á við um niðurstöður eftirlits og aðgerðir Matvælastofnunar.

Dagskrá

09:00 – 10:00    Skoðunarhandbækur Matvælastofnunar – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST
10:00 – 10:25    Áhættuflokkun fyrirtækja – Jónína Stefánsdóttir, MAST
10:25 – 10:40    Hlé
10:40 – 10:55    Frammistöðumat á fyrirtækjum – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST
10:55 – 11:40    Eftirfylgni og beiting þvingunar- og refsiúrræða – Ástfríður Sigurðardóttir, MAST
11:40 – 12:00    Birting á niðurstöðum eftirlits – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST
 
Fundargestum gefst kostur á að koma spurningum sínum á framfæri og taka þátt í umræðum. Þátttakendur þurfa ekki að skrá sig og er þátttakan þeim að kostnaðarlausu.
 
Fundurinn er föstudaginn 17. mars kl. 9:00 – 12:00 hjá Markaðsstofu Matvælastofnunar að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði stofnunarinnar að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Nánari upplýsingar má fnna á vef Matvælastofnunar

Ítarefni: Ekki ruglast! Matís er ekki Matvís sem er ekki MAST…..

Fréttir

Lektor í matvælafræði við Matvæla- og næringar­fræðideild Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar 100% starf lektors í  matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Fagsvið: 

Leitað er eftir umsækjanda með þekkingu og reynslu til að efla rannsóknir og kennslu í matvælafræði með áherslu á matvælaefnafræði, matvælavinnslu eða matvælaörverufræði.

Starfssvið:

• Að taka þátt í þróun og kennslu í grunn, meistara- og doktorsnáms í matvælafræði.
• Að kenna og leiðbeina nemendum í matvælafræði.
• Að stunda rannsóknir á sviði matvælafræði.
• Að taka þátt í stjórnun og uppbyggingu kennslu og rannsókna.
• Að afla utanaðkomandi rannsóknarstyrkja og taka virkan þátt í innlendum og alþjóðlegum verkefnum og samstarfi.

Menntunar- og hæfniskröfur:

• Doktorspróf með sérhæfingu í matvælafræði.  Sérhæfingin getur m.a. verið á sviðum matvælaefnafræði, matvælalíftækni, matvælavinnslu eða matvælaörverufræði.
• Reynsla af umsjón rannsóknaverkefna, skýrar rannsóknaáherslur og reynsla í öflun vísindastyrkja.
• Kennslureynsla á háskólastigi með góðum árangri sem og reynsla í leiðbeiningu framhaldsnema.
• Framúrskarandi enskukunnátta.
• Góð samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum.
• Áreiðanleiki, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, ásamt góðri færni í að miðla eigin þekkingu.

Við ráðningu verður miðað við að sá er starfið hlýtur falli sem best að aðstæðum og þörfum Matvæla- og næringarfræðideildar.

Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Samkvæmt reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009, 38. gr. er rektor heimilt að veita framgang í starf dósents eða prófessors við nýráðningu uppfylli viðkomandi þau skilyrði.

Umsóknarferli:

Umsóknarfrestur er til og með 6. mars 2017 og skulu umsóknir berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI17010159.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og rannsóknaráætlun ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Ef ekki er unnt að skila fylgigögnum með umsókn á rafrænu formi skal skila þeim í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Gert er ráð fyrir að ofangreint starf verði veitt frá 1. ágúst 2017 eða eftir samkomulagi, enda verði störfum nefnda, sem um málið fjalla, þá lokið. Umsækjendum verður greint frá niðurstöðum dómnefndar og valnefndar og um ráðstöfun starfsins þegar sú ákvörðun liggur fyrir.

Nánari upplýsingar veita:

  • Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og starfsmaður Matís (gudjont@hi.is / s. 422 5044)
  • Auður Ingólfsdóttir, deildarstjóri Matvæla- og næringarfræðideildar (auduring@hi.is / 543 8408).

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Matvælafræði- og næringarfræðideild er ein af sex deildum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Við deildina stunda um 120 stúdentar nám í matvælafræði og næringarfræði. Þar af eru um 50 framhaldsnemar, bæði í meistaranámi og doktorsnámi.  Akademísk stöðugildi innan deildarinnar eru átta og vegna hás meðalaldurs matvælafræðikennara er gert ráð fyrir verulegri endurnýjun starfliðs á  næstu árum. Því eru ungir vísandamenn sérstaklega hvattir til að sækja um.  Deildin er í rannsókna- og kennslusamstarfi við Rannsóknastofu í næringarfræði (www.rin.hi.is) og Matís ohf (www.matis.is).

Nánari upplýsingar um deildina má finna á vef fræðasviðsins
http://www.hi.is/matvaela_og_naeringarfraedideild/forsida

Fréttir

Styttist í Strandbúnað 2017

Ráðstefnan Strandbúnaður 2017 verður haldin á Grand Hótel 13. og 14. mars n.k. Heiti ráðstefnunar vísar til þess að Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða. Tilgangurinn er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun atvinnugreinanna sem hagnýta land og eða sjávar gæði við strandlengju landsins

Á ráðstefnunni verður sérstaklega vikið að mikilvægi menntunar fyrir atvinnugrein í vexti. Ein af átta málstofum ráðstefnunnar ber heitið Menntun í Strandbúnaði. Enda eru þekking og færni meðal mikilvægustu grunnþátta sem huga þarf að og hagnýta má við uppbyggingu á nýjum atvinnugreinum.

Strandbúnaður er atvinnugrein sem vex og dafnar með hagnýtingu þekkingar fjölmargra fræðasviða. Mikilvægt er að þekkingu sé miðlað á skilvirkan hátt til atvinnulífs og samfélags svo hagnýting hennar verði sem best. Menntun einstaklinga til fjölbreyttra starfa tengdum strandbúnaði er lykill að aukinni samkeppnishæfni greinarinnar. Í málstofunni verður framboð menntunar í strandbúnaði á Íslandi kynnt, óskir atvinnugreinarinnar um frekari þróun hennar ræddar sem og væntingar og viðhorf einstaklinga til náms og starfsumhverfis. 

Erindi á málstofunni um menntun í Strandbúnaði koma frá ArnarlaxiKeynaturaArctic FishHáskólanum á HólumHáskólanum á Akureyri og Háskólasetri Vestfjarða. Þessir aðilar eru taldir mjög hæfir til að fjalla um stöðu og framtíðarsýn menntunar í fiskeldi, samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar og þátt menntunar í fiskeldi í styrkingu strandbyggða. 

Á öðrum sviðum Strandbúnaðar má nefna nokkur dæmi um einkaráhugaverð umræðuefni. Ræktun bláskeljar og þá sérstaklega heilnæmi íslenskrar bláskeljar er nokkuð sem er vert að draga fram í dagsljósið. Þörungarækt og nýting þörunga og þá sérstaklega m.t.t. vinnslu og vöruþróunarmöguleika. Í umræðu um framtíð laxeldis verður farið yfir þátt fóðurframleiðslu og fóðurþróunar með tilliti til umhverfisins.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig til þátttöku á ráðstefnunni hér.

Fréttir

Samstarf um verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á geitaafurðum

Matís og Geitfjárræktarfélag Íslands, lýstu yfir vilja til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á geitaafurðum að markmiði fyrr í vikunni.

Matís og Geitfjárræktarfélagið telja að auknar rannsóknir í tengslum við ræktun geitarinnar, beiting upplýsinga- og líftækni og kynning á geitinni geti lagt grunninn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í landbúnaði á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla og um leið stuðlað að nýtingu matarafganga og aukahráefna sem í dag falla til sem úrgangur úr matvælaiðnaði, af veitingahúsum og heimilum. 

Geitin hefur verið hluti af íslenska lífhagkerfinu frá landnámi og er ein af erfðaauðlindum þjóðarinnar.  Mjólk, kjöt, skinn  og ull geitarinnar hafa verið nýtt frá landnámi og ýmsar geitaafurðir, s.s. hafurseistu, geitalifur og geitahland hafa verið sett í samhengi við lækningamátt lífauðlinda.

Matís hefur á síðustu árum náð mjög góðum árangri í sókn í alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði, í samstarfi við íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir.  Matís mun leitast við að kynna íslensku geitina og möguleika til nýsköpunar henni tengdri fyrir samstarfsaðilum sínum innanlands sem utan.

Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum landbúnaði, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni-og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu.  Notendamiðuð hönnun vara og þjónustu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.

Geitfjárræktarfélag Íslands var stofnað árið 1991. Félagið er hagsmunasamtök geitfjárræktenda á Íslandi, en alls eru ríflega 1000 vetrarfóðraðar geitur – hafrar og huðnur – á Íslandi. Hlutverk félagsins er að stuðla að verndun og ræktun íslenska geitfjárstofnsins og leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti geitaafurða.

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, með aukna verðmætasköpun, bætt matvælaöryggi og bætta lýðheilsu að markmiði.

Fréttir

Alþjóðlegt átak til að auka nýsköpun í fiskeldi

Í dag var fundað um nýtt Netverk um nýsköpun í fiskeldi á norðurslóðum og Norðurskautinu (e. Aquaculture Innovation Network for the Northern Periphery and Arctic (AINNPA)) sem miðar að því að bæta stuðning á sviði nýsköpunar við fjarlæg fiskeldisfyrirtæki, einkum lítil og meðal stór fyrirtæki, og gera þeim þar með kleift leggja áherslu á að mæta eftirspurn við þróun á vörum og þjónustu.

Með stuðningi Norðurslóðaáætlunarinnar leiðir AINNPA verkefnið saman sérfræðinga frá Færeyjum, Íslandi, Írlandi, Noregi og Skotlandi. Verkefnið er leitt af Skosku fiskeldis Nýsköpunarmiðstöðinni (e. Scottish Aquaculture Innovation Centre (SAIC)) sem er hýst hjá Háskólanum í Stiling.

Að sögn Heather Jones forstjóra skosku fiskeldisnýsköpunarmiðstöðvarinnar: „leika lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) lykilhlutverk í sjálfbærum vexti fiskeldis hvort sem er í Skotlandi eða annarsstaðar á norðurslóðum. Hinsvegar fyrir þá sem reka fyrirtæki á fjarlægum stöðum er vandkvæðum bundið að nálgast stuðning og þjónustu á sviði nýsköpunar. Í AINNPA er fengist við þessar áskoranir og tækifærin sem blasa við LMF með því að deila leiðbeiningum um besta verklag þvert yfir svæðið og með því að þróa nýjar vörur og þjónustu með samþættu stuðningsnetverki.

Fundurinn í dag markar upphaf af hálfsárs undirbúningsferli við að kortleggja núverandi nýsköpunar-stuðning á sviði fiskeldis á Norðurslóðasvæðinu; með því að greina fyrirliggjandi og tækifæri á sjóndeildarhringnum fyrir LMF, og byggja samstarfsnetverk um svæðin sem taka þátt í samstarfinu.

„Við vitum hverju við viljum áorka með hinu alþjóðlega samstarfi – nefnilega, bjóða litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sterkari stuðningsnetverk en þau hefðu með öðrum hætti aðgang að, til að þau geti þróað, með nýsköpun, lausnir við áskorunum sem fiskeldi glímir við. Nú hefjum við ferlið við að koma okkur saman um hvernig við náum hinum aðstefnda árangri.“ Útskýrir  Robin Shields Fiskeldis nýsköpunarstjóri og AINNPA fulltrúi hjá skosku fiskeldis nýsköpunarmiðstöðinni.

Sem hluti af þessari upphafsvinnu leitast samstarfsaðilarnir við að eiga samskipti við og tilnefna tengda þátttakendur. „Til að þetta framtak verði árangursríkt til langs tíma er innsýn hagaðila mikilvæg frá fyrstu stundu“ bætir Robin við. „Sem dæmi má nefna svæðisbundna þróunaraðila, samtök fiskeldisfyrirtækja og aðrar einingar sem kunna að reynast hjálplegar við að bera kennsl á forgangsatriði nýsköpunarþarfa og sem, að lokum, verða meðal helstu áhrifaþátta fyrir uppörvandi upptöku og hagnýtingu AINNPA um þátttökusvæðin.

Áhugasamir aðilar sem tengjast samtökum fiskeldisfyrirtækja og fyrirtækjum sem hafa áhuga á að ganga til liðs við AINNPA geta haft samband við Jón Árnason eða Robin Shields

Fréttir

Áhrif umhverfishita og biðtíma hráefnis við flakavinnslu

Í nýrri grein koma fram niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum. Þó allt kapp sé lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið.

Lenging vinnslutíma og óæskileg hækkun á hitastigi í fiskflökum getur leitt til umtalsverðs þyngdartaps afurða og haft samsvarandi áhrif á verðmæti þeirra.  Rannsóknin er nýr afrakstur af löngu og farsælu samstarfi Matís og Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg.  

Nýlega hefur verið samþykkt til birtingar í Journal of Food Engineering grein um áhrif umhverfishita og biðtíma hráefnis við vinnslu ufsa- og karfaflaka. Greinin er aðgengileg á netinu og kemur út í maí hefti ritsins Journal of Food Engineering. Greinin byggir á rannsókn sem kínverskur nemandi við Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP), Mu Gang, vann undir handleiðslu íslenskra leiðbeinenda meðan á námsdvöl hans stóð hér á landi. Leiðbeinendur Mu Gang voru dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Marel, Ásbjörn Jónsson og Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís og var rannsóknin unnin hjá Matís.

Niðurstöður rannsóknarinnar styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við vinnslu á fiskflökum. Markviss kæling gegnir lykilhlutverki við varðveislu gæða. Eins mikilvægt og það er að lágmarka hnjask sem fiskurinn verður fyrir frá veiðum að neyslu er jafnframt mikilvægt að draga úr töfum sem kunna að verða í vinnsluferlinu. Eins og komið hefur fram á öðrum vettvangi skiptir blóðgun, blæðing (blóðtæming), þvottur og kæling miklu máli um borð í fiskiskipum, sama máli gildir um skilvirkni og viðhald lágs hitastigs við flakavinnslu. 

Þó allt kapp sé ætíð lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið. Til að líkja eftir mögulegum frávikum frá verklagsreglum var fiskur geymdur við 9°C, 16°C og 21°C og voru flök tekin til skoðunar á hálfrar klukkustundar fresti. Sá fiskur sem lengst var geymdur var geymdur í 3 klukkustundir. Hvort tveggja voru skoðuð stór (634 g) og lítil (289 g) ufsaflök sem og karfaflök (105 g).

Niðurstöður rannsókninnar sýna vel afleiðingar þess ef vikið er frá upplögðu verklagi þ.e. að viðhalda lágu hitastigi í gegnum vinnsluferlið, jafnvel þó frávikið sé skammvinnt. Hár umhverfishiti og tafir við vinnslu leiða til rýrnunar á þyngd og verðmætum afurða. Því er mikilvægt að forðast flöskuhálsa sem leiða til uppsöfnunar fisks í vinnslurásum, sér í lagi við lítt kældar aðstæður. Auk þess er bent á að mikilvægi sé að hitastig afurða við pökkun sé sem næst geymsluhitastigi. 

Þekkingin sem skapaðist með rannsókninni er enn einn ávöxtur af löngu og farsælu samstarfi Matís og Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg, s.s. Marel. Mikil þekking skapast í háskólasamfélaginu og hafa vísindamenn unnið í víðtæku samstarfi að þróun og innleiðingu hennar hjá öflugum ábyrgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Samstarf um hagnýtingu þekkingar hefur gert íslenskum fiskiðnaði kleift að taka stórstígum framförum svo eftir hefur verið tekið víða um veröld. Það hefur gert íslenskan sjávarútveg að þeim þekkingariðnaði sem hann er í dag og býr í haginn fyrir þróun hans til framtíðar.

Fréttir

Marlýsi

Tækniþróunarsjóður Rannís hefur nú styrkt samstarfsverkefni Margildis, Matís, Háskólans á Akureyri, Síldarvinnslunnar, Mjólkursamsölunnar og KPMG sem ber heitið Marlýsi.

Í þessu verkefni er stefnt að því að besta nýja vinnsluaðferð á lýsi til manneldis úr uppsjávartegundunum loðnu, síld og makríl. Margildi er sprotafyrirtæki sem hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullhreinsa lýsi úr áðurnefndum uppsjávartegundum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis á skilvirkan og hagkvæman hátt vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra. Margildi hefur þegar sótt um einkaleyfi fyrir hraðkaldhreinsitæknina.

Þróaðar verða vinnsluaðferðir fyrir lýsið sem gerir það hæft til notkunar sem fæðubótarefni í hylkjum eða flöskum, en einnig sem íblöndunarefni í matvæli. En lýsið frá Margildi er að koma afar vel út sem íblöndunarefni í matvæli vegna náttúrlegs stöðuleika lýsisins. 

Hrálýsi úr loðnu, síld og makríl, sem er unnið í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum er í dag eingöngu selt sem íblöndunarefni í dýrafóður samhliða fiskmjöli. Góð þekking er til staðar á framleiðslu hrálýsis á Íslandi í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum og eru þær vel tækjum búnar. Fimm af ellefu verksmiðjum hafa fengið manneldisvottun frá Matvælastofnun (MAST) á sína starfsemi að hluta eða öllu leyti og fleiri stefna í sömu átt. Manneldisvottun er ein af frumforsendum þess að hægt sé að framleiða lýsi úr uppsjávarfiski til manneldis. Bæði útvegsfyrirtækin í þessu verkefni, þ.e. Síldarvinnslan og HB Grandi, búa yfir manneldisvottuðum verksmiðjum og verður unnið áfram með afurðir frá þeim. 

Í janúar á þessu ári samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar undirritun viljayfirlýsingar við Margildi þar sem lýst er velvilja og stuðningi í garð mögulegrar verksmiðju fyrirtækisins í sveitarfélaginu. Við erum þakklátir fyrir stuðninginn og áhugann, sem við höfum svo sem fundið víða en hann hefur verið mjög mikill úr Fjarðabyggð eins og þessi viljayfirlýsing ber með sér,“ segir Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis.

Gangi þetta verkefni eftir munu skapast forsendur til að reisa og reka hérlendis sérhæfða lýsisverksmiðju sem byggir á niðurstöðum verkefnisins. Með tilkomu verksmiðju Marlýsis verður arðvænlegri stoðum skotið undir fiskmjöls- og lýsisiðnaðinn og hann getur þróast að hluta úr hrávöruframleiðslu til fóðurgerðar yfir í framleiðslu fullunninnar vöru til manneldis. 

Nánari upplýsingar veitir Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.

Fréttir

Efna- og eðlisfræðilegir eiginleikar hringorma í Atlantshafsþorski

Snorri Karl Birgisson fer með fyrirlestur til meistaraprófs í matvælafræði við Háskóla Íslands og fer fyrirlestur Snorra fram hjá Matís að Vínlandsleið 12, fundarsal nr. 312, þriðjudaginn 7. febrúar nk. frá kl. 15-16 en verkefnið var unnið á Matís.

Fyrr um daginn, í Eirbergi við Eiríksgötu, stofu 103C, fer einnig fram fyrirlestur til meistaraprófs en þá greinir Helga Guðrún Friðþjófsdóttir frá verkefninu sínu: „Fæðuval ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og þróun líkamsþyngdar þeirra á 12 mánaða tímabili.“

Um verkefni Snorra

„Hringormar – Efna- og eðlisfræðilegir eiginleikar hringorma í atlantshafsþorski“
“Physicochemical properties of nematodes found in the Atlantic cod (Gadus morhua)”.

Megin markmið verkefnisins var að rannsaka eðlis- og efnaeiginleika hringorma sem finnast í Atlantshafs þorski. Hringormar voru flokkaðir eftir lengd og staðsetningu í þorskflaki og rannsakaðir með myndbandsupptökum í fiskvinnslu. Efnaeiginleikar hringorma voru rannsakaðir með því að mæla efnasamsetningu þeirra. Ásamt efnasamsetningu voru ýmis stein- og snefilefni mæld. Að auki var amínósýrusamsetning hringorma mæld. Til að skoða heildarmyndina voru efnisþættir bornir saman við efnainnihald þorskflakahluta.

Eðliseiginleikar hringorma voru rannsakaðir með því að skoða áhrif þeirra á vinnslu þar sem áhersla var lögð á vinnsluafköst og hringormafjölda í flakahlutum. Hringormar voru einnig tegundagreindir eftir flakahlutum. Þol hringorma gagnvart frystingu var rannsakað, með þvi að koma lifandi hringormum milli tveggja þorsksmarningslaga og fryst við mismunandi hitastig og tíma. Að lokum var þykkt hringormahams rannsakað með stærðargreiningu á þverskurðarsniði hringorms.

Greining á hringormum leiddi í ljós að hringormar höfðu ekki mikil áhrif á vinnsluafköst en höfðu í stað áhrif á nýtingu. Hringormarhópar mældust með líka efnasamsetningu, en þegar kom að samanburði við þorskflakahluta þá höfðu hringormar hærra magn af kolvetnum og fitu. Hringormar voru einnig með hærri steinefnagildi í kopar(Cu), kalki(Ca) og járni(Pb) ef miðað var við þroskflökin. Hringormar mældust með minna af snefilefnum miðað við þorskflök. Hringormar og þorskflök voru með svipuð hlutföll í níu amínósýrum, og innhéldu báðir hópar töluvert magn af lífsnauðsynlegum amínósýrum. Frysting á lifandi hringormum sýndi fram á að þol hringorma lækki með lækkuðu hitastigi og auknum tíma við það hitastig.

Það var ljóst í upphafi að þetta verkefni myndi ekki svara öllum spurningum er snúa að fiskvinnslunni í dag varðandi hringorma og kostnað samfara þeim. Heldur er vonast um að niðurstöður verkefnisins séu eitt nytsamleg skref í þeirri vinnu sem liggur fyrir að vinna áfram með.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur Matís og Magnea G.Karlsdóttir verkefnastjóri hjá Matís.
Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Um verkefni Helgu Guðrúnar Friðþjófsdóttur

„The diet of young Icelanders with psychotic disorders and weight development over 12 months period“
„Fæðuval ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og þróun líkamsþyngdar þeirra á 12 mánaða tímabili“

7.febrúar kl.13:30-14:30, Eirberg við Eiríksgötu, st. 103C

Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala í samstarfi við Laugarásinn meðferðargeðdeild, Landspítala.

Leiðbeinendur: Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor og Ólöf Guðný Geirsdóttir dósent
Prófdómari: Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor

Fréttir

Nemendur í líftækni við Háskólann á Akureyri í verklegu námi hjá Matís

Fjölmargir nemendur voru í dag í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki til þess að taka verklega hluta sameindaerfðafræðikúrs við Háskólann á Akureyri, en kúrsinn er hluti af líftækninámi við skólann.

Guðrún Kristín Eiríksdóttir starfsmaður Matís á Sauðárkróki sendi okkur nokkrar myndir frá deginum. Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Matís.

IS