Fréttir

Nemendur í líftækni við Háskólann á Akureyri í verklegu námi hjá Matís

Fjölmargir nemendur voru í dag í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki til þess að taka verklega hluta sameindaerfðafræðikúrs við Háskólann á Akureyri, en kúrsinn er hluti af líftækninámi við skólann.

Guðrún Kristín Eiríksdóttir starfsmaður Matís á Sauðárkróki sendi okkur nokkrar myndir frá deginum. Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Matís.

20170131_13243620170131_104828

Fréttir

Hefur þú áhuga á að taka þátt í rannsókn? Áhrif blöðruþangs á bólguþætti

Matís og rannsóknarstofa í Öldrunarfræðum, Landakoti 5L, óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hlotið hefur samþykki Vísindasiðanefndar.

Þátttakendur þurfa að vera fullorðnir einstaklingar, 40 ára og eldri með líkamsþyngdarstuðul (BMI) ≥ 27 kg/m2(sjá töflu með útreiknuðum líkamsþyngdarstuðli hér að neðan) og mittisummál ≥ 88cm hjá konum og ≥ 102 cm hjá körlum. Þátttakendur sem stunda hreyfingu meira en 30 mín/dag eru útilokaðir frá þátttöku sem og þungaðar konur eða konur með barn á brjósti. Einstaklingar sem hafa samband og hafa áhuga að taka þátt í rannsókninni þurfa að draga úr neyslu á matvælum sem innihalda omega-3 og forðast lýsi í 2 vikur áður en íhlutun hefst og  meðan á þátttöku stendur.

  • Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif blöðruþangs á bólguþætti hjá of þungum, fullorðnum einstaklingum, ásamt því að kanna hvort blöðruþang hafi áhrif á aðrar lífeðlisfræðilegar breytur (blóðsykur og blóðfitur)
  • Þátttakendum verður af handahófi skipt upp í tvo hópa sem fá annað hvort :
    a)  Blöðruþangsduft (3 hylki = 1200 mg/dag) í 10 vikur  b) Lyfleysu duft (3 hylki/dag) í 10 vikur.
  • Þátttaka í rannsókninni felst í því að mæta í byrjun og lok tímabils í líkamsmælingar og lífssýnatöku, ásamt því að svara almennum spurningarlista um mataræði og heilsufar við upphaf rannsóknar. Framkvæmdar verða mælingar á líkamssamsetningu, mittisummáli, hæð og þyngd. Helstu mælingar í blóði eru bólguþættir, blóðsykur og fitur í blóði.
  • Blöðruþang (Fucus vesiculosus) er ríkt af joði, ómeltanlegri sterkju, salti og lífvirkum efnum. Blöðruþangs duft verður til þegar ákveðin lífvirk efni eru dregin út úr blöðruþanginu og einangruð. Þessi lífvirku efni eru sett í hylki úr gelatíni til að auðvelda inntöku. Notkun á blöðruþangi til manneldis er þekkt og rannsóknir á lífvirkum efnum í blöðruþangi benda til þess að duft úr blöðruþangi gæti haft jákvæð áhrif á lífeðlisfræðilegar breytur (bólguþætti og blóðsykur).
  • Ekki er greitt fyrir þátttöku.

Áhugasamir sem uppfylla ofangreind skilyrði eru beðnir um að hafa
samband við Anítu Sif Elídóttur í síma 844-7131 eða senda tölvupóst á anitas@landspitali.is


Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Alfons Ramel, Prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (alfonsra@hi.issími: 543-9875).  Aníta Sif Elídóttir er næringarfræðingur og starfsmaður á Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hjálpar við framkvæmd rannsóknarinnar.

Tafla 1 – Lágmarksþyngd sem þarf til að uppfylla skilyrði um líkamsþyngdarstuðul ≥ 27 kg/m2

Hæð (m)Þyngd (kg)
1,6069
1,6271
1,6473
1,6674
1,6876
1,7078
1,7280
1,7482
1,7684
1,7886
1,8087
1,8289
1,8491
1,8693
1,8895
1,9097
1,92100
1,94102
1,96104
1,98106
2,00108

Líkamsþyngdar stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd samkvæmt formúlunni þyngd/hæð2 (kg/m2).

Þeir sem hafa samband við rannsakendur eru eingöngu að lýsa yfir áhuga á frekari upplýsingum en ekki skuldbinda sig til þátttöku.

Fréttir

Matís á framadögum 2017

Framadagar 2017 verða haldnir þann 9. febrúar í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 10-16.

Matís tekur þátt og mun kynna möguleg sumarstörf og nemendaverkefni á Framadögum.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Framadaga.

Fréttir

Roð nýtt í verðmætar afurðir

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Í verkefninu Lífvirk efni úr roði sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís er markmiðið að kanna hvort efni sem finnast í roði hafi lífvirkni, svo sem blóðþrýstinglækkandi eiginleika eða geta komið í veg fyrir kölkun á brjóskfrumum. Verkefnið hófst árið 2015 og er til tveggja ára.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði.  Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski  og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefnið Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni er unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Í því verkefni er markmiðið meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Nánari upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir hjá Matís.

Frá fundi í verkefninu „Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu“ í Noregi í október 2016. Peter Kamp Busk DTU, Hemanshu Mundhada Biosustain, Margrét Geirsdóttir Matís, Alex Toftgård Nielsen Biosustain, Davíð Tómas Davíðsson Codland, Lene Lange DTU og Jan Arne Vevatne Biomega.

Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Codland og Oddur Már Gunnarsson Matís undirrita samstarfssamning milli fyrirtækjanna.

Hluti þeirra starfsmanna og nema sem komið hafa að vinnu við kollagenverkefnin á fundi á Sauðárkróki í Maí 2016. Frá vinstri til hægri:  Dagný Björk Aðalsteinsdóttir MS nemi HÍ, Maxime Clays frá Belgíu, Yonathan Souid frá Frakklandi, miðjuröð: Margrét Geirsdóttir Matís, Eva Kuttner Matís Sauðárkróki, Thomas Degrange Frakklandi, fremsta röð Hilma Eiðsdóttir Bakken, Margrét Eva Ásgeirsdóttir og Guðrún Kristín Eiríksdóttir Matís Sauðárkróki, Rodrigo Melgosa frá Spáni.

Hráefni – Þorskroð

Gelatín úr roði

Peptíð úr kollageni úr roði – leynist þar lífvirkni?

Fréttir

Íslenska geitin kynnt starfsmönnum Matís

Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands og Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli í Hvítársíðu, kynntu geitabúskap og geitaafurðir á Vínlandsleið. Starfsmenn fengu stutta kynningu um geitur og var boðið að smakka geitaafurðir, en þær Sif og Jóhanna voru mættar til að funda við Matís um hugsanlegt samstarf.

Geitur hafa fylgt Íslendingum frá landnámi eins og sést á örnefnum víða um land. Um miðja 20. öld lá við að stofninn þurrkaðist út en síðan hefur verið reynt að viðhalda honum. Árið 2014 taldi íslenski geitastofninn um 987 dýr (skv. www.bondi.is).

Geitur búa yfir verðmætum afurðum sem hægt er að vinna svo sem mjólk, þel, kjöt og skinn. Þá hefur verið hægt að fá krem og sápur sem unnið er úr geitaafurðum og jurtum á Háafelli.

Geitur eru ekki rúnar líkt og kindur, og kemba þarf ullina af þeim með sérstökum kambi. Jóhanna bar hálsklút sem hún benti á að væri unninn úr mjúkri og hlýrri kasmírull af íslenskri geit sem er þekkt fyrir fjölbreytilegt litamynstur. Þar sem íslenska geitin hefur verið einangruð hérlendis í um 1100 ár, er ullin í hávegum höfð því hún er talin líkjast einna mest ull af svonefndum kasmírgeitum.


Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á
Háafelli í Hvítársíðu og Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.

Fréttir

Farsælt samstarf Matís og HÍ árið 2016

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í góðu samstarfi um langt skeið og var árið 2016 engin undantekning. Í samræmi við starfssemi Matís þá snýr þessi samvinna mest að verkfræði, matvæla- og næringarfræði, lífefnafræði, líffræði og skyldum greinum og er sérstaklega vert að minnast á samstarfið um meistaranámið í matvælafræði.

Matvælafræði átti undir högg að sækja undir lok síðasta áratugar og færri nemendur sem bæði sóttu námið í grunnnámi og meistaranámi og sem útskrifuðust úr náminu en oftast áður. Með sameiginlegu átaki tókst HÍ og Matís að auka áhuga á náminu svo um munaði enda er nám í matvælafræði hagnýtt nám sem býður upp á fjöldann allan af tækifærum að námi loknu. Tengingin við matvælaframleiðslufyrirtæki er líka sterk, þá sérstaklega í meistaranáminu, og er stór hluti nemenda sem útskrifast hafa sl. fjögur ár sem fengið hafa vinnu strax að námi loknu.

Viltu kynna þér nám í matvælafræði?

Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_allar_gradur_vefur
Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_meistaranamid_vefur

Fréttir

Matís á afmæli í ár!

Matís varð 10 ára í gær, þann 1. janúar, en þann dag árið 2007 tók Matís opinberlega til starfa. Þá runnu saman rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, MATRA, RF og líftæknifyrirtækið Prokaria, og mynduðu eina sterka heild þar sem rannsóknir á matvælum og í líftækni fengu samastað, þar sem áhersla var á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Í ljósi þessa ákváðum við að setja saman ársskýrslu þar sem litið væri um öxl og stiklað á stóru í starfssemi Matís. Í skýrslunni þetta árið, sem venju samkvæmt er gefin út fyrsta virka daginn í janúar, er farið yfir víðan völl og segja má að skýrslan þetta árið sé samansett úr mismunandi smásögum, það sem við köllum árangurssögur, og sýnir innihald hennar svo ekki verður um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Ársskýrslan er að þessu sinni á ensku í heild sinni en íslenskir útdrættir, þar sem áhersla er lögð á það sem gerðist í starfssemi okkar á Íslandi, verða gefnir út á næstu dögum.

Ársskýrsla Matís 2016

Við horfum stolt til baka og bjartsýn fram á veginn. Mjög margt áhugavert, skemmtilegt og krefjandi mun eiga sér stað á þessu ári og er óhætt að segja að einn stærsti viðburðurinn sem Matís hefur tekið að sér verði á þessu ári þegar við sjáum um World Seafood Congress (WSC). Viðburðurinn er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis, og dregur að borðinu fólk úr öllum hlutum virðiskeðju sjávarfangs. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim, ekki síst frá þróunarlöndum. Það er okkur sannur heiður að fá tækifæri til að halda þessa ráðstefnu og hlutverkið er okkur mikil hvatning.

Vöxtur Matís hefur verið töluverður á síðastliðnum 10 árum, en slíkt gerist ekki án öflugra starfsmanna.

Fréttir

Markaðsaðstæður hafa áhrif á nýtingu og verðmætasköpun

Svipull er sjávarafli og sviptingar sjást jafnframt á mörkuðum hvorttveggja hefur áhrif á ráðstöfun afla til vinnslu hjá verkendum. Eins og fram kom í erindi Sveins Margeirssonar á Sjávarútvegsráðstefnunni 24. október s.l. var nýting sjávarafla sem útfluttar vörur skv. hagtölum 48% árið 2015. 

Löngum hefur verið vitað að svipull er sjávarafli og sviptingar geta jafnframt einkennt aðstæður á mörkuðum og slíkt hefur áhrif á hvað verður um aflann í vinnslu hjá verkendum og að lokum hvernig afurðir sem unnar eru úr aflanum eru seldar. Eins og fram kom í erindi Sveins Margeirssonar á Sjávarútvegsráðstefnunni 24. október s.l. var nýting sjávarafla sem útfluttar vörur skv. hagtölum 48% árið 2015.

Útflutningsnýting, ef svo má segja, lækkaði um 12 prósentu stig frá 2014 til 2015. Árið 2015 fluttum við út 631,8 þúsund tonn af sjávarafurðum, 22,5 þúsund tonnum minna en árið 2014 þrátt fyrir að veiða 242 þúsund tonnum meira en 2014 eða 1.319,3 þúsund tonn í stað fyrir 1.076,8 þúsund tonn árið 2014. Í afla munar mestu um 240,9 þúsund tonn meira af loðnu sem landað var 2014 en 2015. Árið 2015 fluttum við 92 þúsund tonnum minna af frystum afurðum en um 65 þúsund tonnum meira af mjöli og lýsi. Þá fluttum við út nærri 300 tonnum minna af hertum sjávarafurðum 2015 en 2014. Hér er um allan afla að ræða, áður hefur verið bent á að nýting Íslendinga á þorski nam árið 2015 um 77%. Áhersla rannsókna og nýsköpunar hefur verið að auka þá nýtingu með verðmætamyndandi hætti.

Timalina-ensk_2015Nýting afla til útflutnings og verðmætasköpunar

Þessar tölur bera með sér nokkuð af þeim breytingum sem birst hafa í útflutningsskýrslum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að undanförnu. Má leiða líkum að breytingar á mörkuðum með sjávarafurðir hafi haft áhrif sem leitt hafi til þessarar niðurstöðu rétt eins og takmörkun á aðgengi að Rússlandsmarkaði. Lækkun olíuverðs hefur haft víðtækar afleiðingar þar á meðal minnkandi kaupmátt í Nígeríu sem verið hefur mikilvægur markaður fyrir hertar sjávarafurðir, þeirrar þróunar varð vart með óyggjandi hætti á árinu 2015. Sumarið 2015 bættu rússnesk stjórnvöld Íslandi á lista landa hvaðan óheimilt væri að flytja inn matvæli eins og ítrekað hefur verið tekið fram í almennri umræðu. Hvorttveggja er meðal utanaðkomandi áhrifaþátta á nýtingu sjávarfangs.

Eins mikilvæg og góð nýting afla er m.t.t. umhverfisálags af veiðum og vinnslu er það verðmætamyndunin sem knýr hjól efnahagslífsins. Útflutningsverðmæti sjávarafurða 2015 námu 264,5 milljörðum króna sem var um 20,6 milljörðum hærra en árið 2014. Árið 2015 fékkst 201 kr. á hvert aflað kg með útflutningi, um 26 minna en fyrir hvert aflað kg árið 2014. Hinsvegar var meðal verðmæti hvers útflutts kg 418 kr. árið 2015 um 46 kr. hærra en árið 2014.

Hagnýting vísindalegrar þekkingar skiptir máli fyrir framþróun atvinnugreina og samkeppnishæfni þeirra. Fáist að endingu meira fyrir hverja einingu, hvert kg sem úr sjó er dregið, þarf minna til að skapa sambærileg verðmæti sem minnkað getur umhverfisálag af veiðum og vinnslu. Með rannsóknum og nýsköpun hefur orði vart við framþróun í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum, það kemur þó fleira til, þar á meðal vega markaðsaðstæður þungt og þolinmæði við uppbyggingu markaða er mikilsverð.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri Innleiðingar og áhrifa

Fréttir

Tvær nýjar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar voru að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html.

Fyrri greinin nefnist „Strongyloides stercoralis found in imported dogs, household dogs and kennel dogs in Iceland“ og er eftir Matthías Eydal and Karl Skírnisson.

Höfundar tóku saman yfirlit um tilfelli sem greinst hafa af sníkjuþráðorminum Strongyloides stercoralis í hundum á Íslandi en ormurinn hefur greinst í saursýnum úr 20 (0.6%) hundum sem fluttir voru til landsins um einangrunarstöðvar á árunum 1989-2016. Árið 2012 greindist ormurinn svo í mörgum hundum á íslenskri hundaræktunarstöð og ennfremur í nokkrum hvolpum sem keyptir hafa verið þar og í tveimur heimilishundum sem höfðu haft samgang við hunda frá hundaræktunarstöðinni.Ormalyfjagjafir og aðrar aðgerðir í hundaræktunarstöðinni virðast hafa borið umtalsverðan árangur en ormurinn hefur þó greinst í stökum saursýnum á undanförnum árum. Talið er að þráðormurinn hafi borist inn í hundaræktunarstöðina með innfluttum hundi, þrátt fyrir endurteknar ormalyfjagjafir í einangrunarstöð hefur smitast milli hunda í ræktunarstöðinni og borist þaðan út með seldum hundum.

Þessi grein sýnir að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi gagnvart innfluttum sjúkdómum í dýr hér á landi og mikilværi þess að halda utan um gögn nýtast við að finna leiðir til að halda þessum sjúkdómi í skefjum.

Seinni greinin nefnist „Geothermal ecosystems as natural climate change experiments: The ForHot research site in Iceland as a case study“ eftir Bjarna D. Sigurðsson og 20 aðra höfunda.

Rannasóknin sem hér er fjallað um nýtir sér þær sérstöku aðstæður að jarðvegur á jarðhitasvæði hefur hlýnað og hægt að bera vistkerfi þar saman við jarðveg án hita. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á áhrif hlýnunar á norðlæg þurrlendisvistkerfi. Rannsóknirnar  fóru  fram  á  þremur  stöðum í  Ölfusi, í næsta nágrenni Hveragerðis: i) í graslendum sem hafa verið undir áhrifum jarðvegshlýnunar í langan tíma allavega í 50 ár, ii) í samskonar  graslendum sem byrjuðu fyrst að hitna vorið 2008 eftir Suðurlandsskjálftann og  iii) í gróðursettum 50 ára sitkagrenisskógi sem einnig byrjaði að hitna vorið  2008.  Reynt var að velja þannig að upphitunin yrði sem næst +1, +3, +5, +10 og +20 °C. Efnagreiningar sýndu engin merki þess að jarðhitavatn næði upp í jarðveg svæðanna og lokaniðurstaðan var að jarðhitasvæði ForHot verkefnisins framkölluðu aðstæður sambærilegar við ýmsar stýrðar jarðvegsupphitunartilraunir erlendis sem notaðar eru til að rannsaka áhrif hlýnunar á þurrlendisvistkerfi.

Þessi greinin segir frá stóru verkefni sem fjöldi manns og stofnana koma að og nú þegar hafa bæði MS og ein doktorsritgerð auk nokkurra greinar byrst um það og margar eiga örugglega eftir að koma á næstu árum. Áhugi manna á þessu verkefni nær langt út fyrir landsteinana sýnir þörf manna að kynna sér og rannsaka hver möguleg áhrif hlýrra loftslags kunni að hafa á náttúruna.

Fréttir

Uppfærðar starfsreglur stjórnar Matís

Uppfærðar starfsreglur stjórnar Matís voru samþykktar á stjórnarfundi félagsins síðdegis í gær. Starfsreglurnar eru settar í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög, sbr. 4. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995, sbr. lög nr. 89/2006 (opinber hlutafélög).

Í reglunum er kveðið nánar á um framkvæmd starfa stjórnar Matís til fyllingar ákvæðum hlutafélagalaga þar að lútandi. Stjórn skal fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Hér er einkum vísað til leiðbeininga Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja og leiðbeiningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stjórnarhætti fyrirtæka í eigu ríkisins.

Starfsreglur stjórnar

Stjórnarhættir fyrirtækja af vef Samtaka atvinnulífsins

Leiðbeiningar OECD

IS