Fréttir

Einstakt tækifæri til að stuðla að auknum heilindum matvæla

Matís hvetur alla áhugasama aðila til að skrá hugmyndir sínar sem stuðlað geta að auknum heilindum í virðiskeðjum matvæla. Matís sem formlegur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi mun ekki keppa um þá fjármuni sem hér eru boðnir til afmarkaðra rannsókna á sviði MatarHeilinda enda var það aldrei ætlunin. Í samræmi við áform þátttakenda í verkefninu er hér verið að opna samstarfið með þessum hætti fyrir utanaðkomandi aðilum.

Sem virkur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi (e.FoodIntegrity) vekur Matís athygli á einstöku tækifæri sem nú býðst utanaðkomandi aðilum. Frá upphafi verkefnisins (í ársbyrjun 2014) hefur verið stefnt að því að hleypa utanaðkomandi aðilum að verkefninu. Nú er komið að því. Áhugasamir aðilar geta tilkynnt áhuga um að tengjast verkefninu og nýta fjármuni sem verkefnið hefur yfir að ráða til að vinna rannsókn sem þjónar sama tilgangi og heildarverkefnið.

Áhugasamir aðilar þurfa að senda inn hugmyndir sínar í samræmi við lýsingu á vefsíðu verkefnisins fram til 14. ágúst kl. 15:00 að íslenskum tíma. Enginn þeirra 38 aðila sem eru með formlegum hætti tengdir verkefninu MatarHeilindi geta skráð sínar hugmyndir. Þetta er opin aðkoma fyrir hugmyndir (verkefni) sem lúta að Stöðlun og samræmingu, nýjum lausnum til að tryggja heilindi matvæla, hagkvæmniathugun á hvernig megi deila upplýsingum meðfram virðiskeðjum matvæla og hraðvirkum árangursríkum aðferðum til greiningar á svikum. Fjármögnun til framkvæmdar rannsókna á framangreindum sviðum er áætluð 3 milljónir €.  Stuðningur við rannsóknatengdan kostnað í verkefnum er fást við hagkvæmniathugun getur numið allt að 250 þúsund €, fyrir verkefni er fjalla um stöðlun og samræmingu annars vegar og nýjar lausnir hins vegar getur stuðningur mögulega numið allt að hálfri milljón € og fyrir verkefni er snúa að hraðvirkum lausnum getur stuðningur mögulega numið allt að 750 þúsund €.

Verkefnið er leitt af Fera, bresku matvæla- og umhverfisrannsóknastofnuninni. MatarHeilindi fást við að matvæli séu heil/óskert eða í fullkomnu ástandi þ.e.a.s. að kaupendur fái örugglega afhenta þá vöru sem þeir telja sig vera að kaupa. Veita þarf neytendum eða öðrum hagsmunaaðilum í virðiskeðju evrópskra matvæla fullvissu um öryggi, áreiðanleika og gæði. Heilindi innan matvælaiðnaðarins er lykilatriði til verðmætaaukningar í lífhagkerfi álfunnar. Heiðarleika evrópskra matvæla er stöðugt ógnað af sviksamlegum merkingum eða eftirlíkingum sem seldar eru til að njóta ávinnings þess virðisauka. Verkefninu er ætlað að vera þungamiðja í alþjóðlegri samhæfingu við nýtingu rannsókna og þróunar í að tryggja heiðarleika evrópskra matvæla með þátttöku kjarnahóps verkefnisins. Fera hefur umsjón með þessum þætti verkefnisins.

Matís sinnir hlutverki sínu, að auka verðmæti matvæla, stuðla að matvælaöryggi og bættri lýðheilsu með þróunar- og rannsóknastarfi, með að hvetja áhugasama aðila til að skoða kosti þess að skrá hugmyndir sínar í tæka tíð og nota þar með þetta tækifæri.

Fagstjóri Virðiskeðju og sjálfbærni Jónas Rúnar Viðarsson er ábyrgur fyrir þátttöku Matís í verkefninu MatarHeilindi.

Fréttir

Fjöldi sumarnemenda hjá Matís

Í sumar starfar hjá Matís fjöldi erlendra og innlendra sumarnemenda. Hlutverk þeirra er margvíslegt, allt frá rannsóknastörfum til markaðsstarfa og allt þar á milli.

Mikil eftirsókn hefur skapast fyrir sumarstörfum og starfstengdu námi hjá Matís þá ekki hvað síst erlendis frá og sérstaklega frá Frakklandi en í sumar er stærsti hópurinn einmitt þaðan. Annars eru nemendurnir frá fjölda annarra landa og má þar nefna Póllandi, Slóveníu, Svíþjóð, Danmörku, Kanada, Ungverjalandi ofl. löndum.

Í vikunni fór nokkur fjöldi til út á Faxaflóa og í Elliðaárnar til að ná í sýni til rannsókna.

Fréttir

Matís aðstoðar ríki í Karabíska hafinu við uppbyggingu í sjávarútvegi

Margeir Gissurarson, fagstjóri hjá Matís og Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís eru nú stödd í Karabíska hafinu þar sem þau veita stjórnvöldum ríkja á svæðinu ráðgjöf varðandi þætti sem snúa að sjávarútvegi og útflutningi fisks fá svæðinu, þá sérstaklega til Evrópu.

Óskað var eftir sérfræðiþekkingu Matís í þetta verkefni. Þáttur Matís stendur yfir í um fimm vikur í fyrsta hluta verkefnisins. Matís kemur með tillögur að úrbótum fyrir þau ríki sem aðild eiga að samtökum ríkja á svæðinu sem stunda fiskveiðar (Caribbean Regional Fisheries Mechanism – CRFM). Síðar kemur í ljós aðkoma Matís að þeim breytingum sem gera þarf á fiskveiðum á þessu svæði til þess að útflutningur á fiski frá geti hafist til Evrópu.

Frétt Caribbean News Desk og frétt Grenada Informer.

Nánari upplýsingar veita Margeir og Helga.

Fréttir

Aldarafmæli kosningaréttar kvenna

Matís hvetur starfsfólk sitt til að sækja hátíðarhöld vegna aldarafmælis kosningaréttar kvenna og sýna þannig í verki stuðning sinn við jafnrétti.

Matís gefur starfsfólki frí eftir hádegi á morgun, föstudaginn 19. júní, í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og eru allir starfsmenn fyrirtækisins hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldum þessa mikilvæga dags.  

Stefna Matís í jafnréttismálum er að tryggja jafna stöðu kynjanna. Það er markmið Matís að allir starfsmenn njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri til starfsframa, burtséð frá kynferði, þjóðerni, stöðu eða högum. Gætt er jafnréttis við alla ákvarðanatöku sem að starfsfólki snýr, þ.m.t. ákvarðanir um ráðningar, kjaramál og endurmenntun.

Neyðarnúmer

Örverudeild er 422-5116 / 858-5116.

Fréttir

Viljayfirlýsing um samstarf Hafrannsóknastofnunarinnar á Nýfundnalandi í Kanada og Matís

Í lok síðustu viku skrifuðu Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Glenn Blackwood, aðstoðar forseti Memorial háskólans í Nýfundnalandi og Labrador, undir viljayfirlýsingu um samstarf til aukins framgangs kennslu, þjálfunar og rannsókna og þróunar í málefnum tengdum sjálfbærum fiskveiðum.

Með viljayfirlýsingunni eru auknar áherslur settar á hagnýtar rannsóknir í virðiskeðju sjávarfangs og sjávarafurða og á frekara samstarf við sjávarútvegstengdan iðnað í löndunum tveimur.

Enn fremur skapar viljayfirlýsingin farveg fyrir nemendur og kennara frá löndunum til aukins samstarfs sem tekið getur enn meira mið af þörfum iðnaðarins í löndunum tveimur.

Með þessari viljayfirlýsingu styrkjast málefni Hafrannsóknastofnunarinnar (MI) og Matís út á við þegar kemur að sjálfbærum vexti bláa hagkerfisins.

Fréttir

Áhrif samverkandi efnasambanda á okkar daglega líf

EuroMix (European Test and Risk Assessment Strategies for Mixtures) er nýtt verkefni sem styrkt er af rannsóknaráætlun Evrópu (H2020). EuroMix mun leggja fram tilraunaáætlun til að rannsaka sameiginleg áhrif efnasambanda (efnablöndu) sem við komumst í snertingu við í okkar daglega lífi þar sem beitt verður bæði nýjum og áður þekktum eiturefnafræðilegum prófunum.

Verkefnið er einstaklega mikilvægt fyrir nútíma samfélagið, þar sem samverkun mismunandi efnasambanda hefur hingað til ekki verið rannsökuð nægilega og ESB hefur áréttað þörfina fyrir áhættumat efnablanda sé nauðsynlegt í framtíðinni.

Upphafsfundur (20-21. maí hjá RIVM, Bilthoven)

Sérfræðingar frá alþjóðastofnunum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (World Health Organization, WHO), Matvælaöryggisstofnun Evrópu (European Food Safety Authority, ESFA), Sameinuðu Rannsóknarstofnun Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EC Joint Research Centre) ásamt sérfræðingum sem hafa tekið þátt í alþjóðlegri umræðu líkt og RISK 21 tóku þátt í upphafsfundi verkefnisins, þar sem kynnt var yfirlit yfir rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í Evrópu og frá öðrum löndum. Farið var yfir helstu svið eiturefnafræðinnar, nýjar og háþróaður rannsóknaraðferðir og áhættumat samsettra efnablandna. Helstu atriði EuroMix verkefnisins voru kynnt á upphafsfundinum og sett í samhengi við alþjóðlega þróun og rannsóknir.

Markmið og skref

EuroMix miðar að því að þróa og sannreyna tilraunaáætlun fyrir efnablöndur mismunandi efna með ólíkar uppsprettur og áhrif á mismunandi æviskeið manna. Tilraunir verða framkvæmdar þar sem niðurstöðum og reynslu verða gert skil í hagnýtum leiðbeiningum fyrir framtíðar rannsóknaráætlanir. Þar sem fjöldi efnablandna sem við komumst í snertingu við í daglegu lífi er óendanlegur, verða ákveðnar lykil blöndur skilgreindar.

Þessar lykil blöndur verða prófaðar og niðurstöðu rannsóknanna verða notaðar í framtíðinni fyrir gagnagrunna til að meta útsetningu okkar við efnablöndur. Gagnsemi lífvirkniprófa (bioassays) verða metin fyrir efnablöndur og hentugustu aðferðirnar sem finnast verða sannreyndar og fullgildar í samanburði við dýratilraunir. Ný líkön til að framkvæma áhættumat fyrir efnablöndur verða þróuð og mat á útsetningu mun fara fram. Nýtt EuroMix líkan verður gert hagsmunaaðilum aðgengilegt gegnum almenna opna vefsíðu. EuroMix verkefnið mun veita alþjóðastofnunum ráðgjöf um hvernig á að nota lífvirknipróf ásamt notkun á líkaninu fyrir framtíðar rannsóknir og áhættumat á efnablöndum.

Niðurstöður

Gert er ráð fyrir því að verkefnið muni auka nýsköpun bæði í opinbera- og einkageiranum. Verkefnið mun veita traustan vísindalegan grunn til að meta áhrif efnablandna ásamt því að draga úr notkun tilraunadýra í framtíðinni. Einnig mun verkefnið styðja umræðu um samræmda stefnu innan áhættumats efnablandna innan í ESB, Codex Alimentarius og Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (US Environmental Protection Agency, EPA).

Alþjóðasamstarf

22 samstarfsaðilar eru í EuroMix verkefninu ásamt því að fjórir alþjóðlegir aðilar tengjast verkefninu. Verkefnið er innan rannsóknar- og nýsköpunar áætlunarinnar ESB, Horizon 2020, sem byggir á fyrri evrópskum rannsóknarverkefnum. Samstarfsaðilar EuroMix og framkvæmdastjórn ESB hafa samþykkt samhliða fjármögnun fyrir 8 milljónir evra.

Hollenska lýðheilsu og umhverfisstofnunin RIVM leiðir EuroMix verkefnið. Aðrar stofnanir eru skráðar í viðauka 1.

Nánari upplýsingar veitir dr. Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Tenglar og ítarefni

http://cordis.europa.eu/project/rcn/193181_en.html tengill á EU síðu

http://horizon2020projects.com/

Fréttir

Verðmætaaukning í íslenskum sjávarútvegi

Íslenskur sjávarútvegur er mikilvægur Íslendingum og íslenska hagkerfinu. Síðastliðin 20 ár eða svo hefur virði aflans aukist umtalsvert og það á sama tíma og heildarmagn afla hefur verið nánast óbreytt; við erum semsagt að nýta hvert kg. afla betur en nokkurn tímann áður! 

Hvernig er þetta hægt? Þetta stutta myndband varpar e.t.v. ljósi á það!

Verðmætaaukning í íslenskum sjávarútvegi

Fréttir

Ekki veiða það sem þú vilt ekki og fullnýttu það sem þú veiðir!

Upphafsfundur í íslenska hluta verkefnisins DiscardLess fór fram hjá Matís í sl. viku en verkefnið gengur út á að auka fullnýtingu á öllum afla sem veiddur er innan landa Evrópu og er stýrt af DTU í Danmörku. Upplýsingarnar og tæknin sem koma út úr verkefninu verða auk þess nýtanleg í öðrum löndum enda öllum til hagsbóta að sjávarfang sem ekki er óskað eftir eða ekki er nýtt sé annaðhvort ekki veitt eða fullnýtt til aukinnar verðmætasköpunar.

Stóra málið er að veiða ekki sjávarfang sem ekki er nýtt til verðmætasköpunar og þar með er hægt að minnka sóun á takmarkaðri auðlind. En stundum gerist það að óæskilegur afli er veiddur og er meðafli skýrt dæmi um slíkt. Því er mikilvægt að tryggt sé að slíkur afli sé nýttur eins og best verður á kosið. Auk þess má ekki gleyma að mikilvægt er að fullnýta einnig þann afla sem við viljum fá að landi þannig að sem mest verðmæti verði búin til úr hverju kg af sjávarfangi sem veitt er. Íslendingar hafa staðið sig sérstaklega vel í fullnýtingu ýmissa fisktegunda, þá sérstaklega þorsks.

Nánar um DiscardLess má finna í bæklingi um verkefnið sem og á CORDIS síðu verkefnisins. Tengiliður Matís við verkefnið er Jónas R. Viðarsson og veitir hann allar nánari upplýsingar um þetta áhugaverða og tímabæra verkefni.

Fréttir

Christian Patermann í Skagafirði

Dr. Christian Patermann er aftur á leið til Matís. Dr. Patermann er af mörgum álitinn „Faðir” lífhagkerfisins í Evrópu og mun hann m.a. taka þátt í fundi sem haldinn verður í Verinu á Sauðárkróki fimmtudaginn 28. maí kl. 16:00-17:15.

Eftir stuttar kynningar fara fram umræður. Meðal þátttakenda í panel eru Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri, Hólmfríður Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Iceprotein og Friðrik Friðriksson formaður stjórnar Matís.

Allir velkomnir! Kaffi á könnunni!

Mætum öll og tökum þátt í umræðu um hvaða tækifæri felast í lífhagkerfinu fyrir Skagafjörð.

Nánari upplýsingar veita Guðrún Kristín Eiríksdóttir og Eva Kuttner.

Fréttir

Fiskbókin er opin

Búið er að opna Fiskbókina en bókin er fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri. Með þessari rafrænu útgáfu Fiskbókarinnar er mögulegt að koma á framfæri margvíslegum upplýsingum um fisk og fiskafurðir, fræðslu og rannsóknum sem þeim tengjast með mun skilvirkari og fjölbreyttari hætti en hægt er í prentaðri bók.

Fiskbókin er unnin í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök fiskvinnslustöðva, nú samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og Iceland Seafood International með stuðningi AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Fiskbókin var opnuð í miðju erindi Matís starfsmanna um margföldun verðmæta til útflutnings að ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála viðstöddum á ráðstefnunni Matvælalandinu í sl. viku.

Fiskbókin er önnur í röð rafrænna bóka frá Matís en áður hafði Kjötbókin verið sett í loftið.

Bókin er öllum opin til frjálsra afnota, þó ber að geta upprunans ef upplýsingar úr bókinni eru nýttar í hverskyns annarskonar útgáfu.  Vistun bókarinnar er með þeim hætti að hægt er að prenta hana út í heild, valda kafla eða einstakar síður og nýta þær sem hluta af kynningarefni. Hver einstök síða er merkt upprunanum og er innihald hennar óbreytanlegt.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

IS