Fréttir

Færðu örugglega starf að loknu námi?

Mikilvægt er að velja áhugaverða námsbraut þegar ákvörðun um framhaldsmenntun er tekin. Mikil samkeppni er oft um störf eftir framhaldsmenntun og ekki allir sem fá starf strax eftir skóla.

Nemendum sem útskrifast úr meistaranámi í matvælafræði virðist ganga mjög vel að fá starf strax eftir nám.

Fyrsti útskriftarhópurinn í meistaranáminu samanstóð af 11 nemendum. Fljótlega eftir að námi lauk voru níu þeirra búnir að fá framtíðarstörf, eða rúm 80%. Störf matvælafræðinganna voru t.a.m. hjá Icelandic Group, Lýsi, Ferskum kjötvörum, Matvælastofnun, Ísteka ofl. fyrirtækjum eða stofnunum.

Auðvitað er ekki hægt að fá tryggingu fyrir því að fá starf við hæfi að námi loknu en það lítur vel út þegar kemur að meistaranámi í matvælafræði.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís.

Fréttir

Matís auglýsir eftir sérfræðingum

Áhugasamir einstaklingar hafa e.t.v. rekið augun í auglýsingar frá Matís um nýliðnar helgar.

Nýverið auglýsti Matís eftir annarsvegar metnaðarfullum og kraftmiklum sérfræðingi í mannauðsmálum og hinsvegar eftir öflugum markaðsdrifnum sérfræðingi. Umsóknarfrestur er til og með 5. ágúst 2015. Sérfræðingur í mannauðsmálum mun starfa í höfuðstöðvum Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík. Stefnt er að því að starf hins markaðsmiðaða sérfræðings vinnist á starfsstöðvum Matís t.d. á Akureyri Höfn í Hornafirði eða Sauðárkróki.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um störfin tvö á vefsíðu Matís www.matis.is/atvinna og í framhaldinu geta hæfir áhugasamir aðilar sótt um sitthvort starfið á sama stað.

Fréttir

Góðir gestir á góðum degi

Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) dr. David M. Malone heimsækir Ísland og þá skóla UNU sem starfræktir eru hér á landi í þessari viku. Mánudaginn 6. júlí s.l. leit Rektor David ásamt fylgdarliði við hjá Matís.

Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna ( e. United Nations University – UNU) dr. David M. Malone er á Íslandi í þessari viku ásamt Max Bond aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna í heimsókn til þeirra skóla háskóla sameinuðu þjóðanna sem hýstir eru hér á landi. Á Íslandi eru starfræktir: frá 1980 Jarðhitaskóli ( e. Geothermal Training Programme – UNU-GTP), frá 1998 Sjávarútvegsskóli ( e. Fisheries Training Programme – UNU-FTP), frá 2007 Landgræðsluskóli ( e. Land Restoration Training Programme – UNU-LRT) og frá 2009 Jafnréttisskóli ( e. Gender Equality Studies and Training Programme – UNU-GEST) Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Rekstur skólanna er liður í þróunarsamvinnu Íslands sem er á forræði utanríkisráðuneytisins.

Dagskrá hinna góðu gesta er þéttskipuð. Matís hlotnaðist sá heiður mánudaginn 6. júlí að vera meðal viðkomustaða gestanna á fyrsta degi heimsóknar þeirra til Íslands ásamt fylgdarliði. Dr. Tumi Tómasson forstöðumaður UNU-FTP hóf heimsókn gestanna til Matís á örstuttri kynningu. Dr. Tumi rakti helstu ástæður þess að Háskóli Sameinuðu þjóðanna ákvað að leggja þá áherslu á sjávarútveg með þeim hætti að hér yrði starfræktur sérstakur skóli er fjallar um málaflokkinn. Í stóru myndinni þá eru mikil tækifæri fólgin í því að fara betur með það sem er framleitt, gera sem mest úr því, og þá ber jafnframt að líta á mikilvægi sjávarafurða í daglegri neyslu almennings í þróunarlöndunum.
Arnljótur B. Bergsson sviðsstjóri Auðlinda og Afurða kynnti Matís og hvernig Matís hefur komið að verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi með bættri nýtingu, betri meðhöndlun og þróun vinnsluferla m.a. í samstarfi við UNU-FTP.


Prófessor Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís sagði frá samþættingu hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna Matís við nám þ.m.t. nemenda UNU-FTP. Eins greindi Sigurjón frá aðkomu Matís að þurrkun sjávarafurða hér á landi og reykingu og þurrkun fiska í Afríku, vinnu sem unnin er í samstarfi við títtnefndan sjávarútvegsskóla. Þá sagði Sigurjón frá fjórum doktorum sem útskrifast hafa frá Háskóla Íslands með stuðningi UNU-FTP í samstarfi við Matís og tveggja doktorsnemenda sem nú eru í námi. Eins benti Sigurjón á skýrslu sem rituð var af fyrrum nemanda UNU-FTP og helstu sérfræðinga Matís á sviði þukkrunar matvæla um notkun jarðhita við matvælaframleiðslu og gefin var út af Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna nýlega. Umræður spunnust um sjálfbærni veiða, hreinleika umhverfisins og framtíðar fyrirætlanir doktorsnemendanna.


Að loknum hinum stutta fundi var gestunum sýnd aðstaða Matís á Vínlandsleið. Þótti gestunum aðstaðan til fyrirmyndar. Á leið sinni um húsið voru gestirnir kynntir fyrir doktorsnemendunum Cyprian Ogombe Odoli frá Kenía og Dang Thi Thu Huong frá Víetnam. Gestirnir hvöttu þau til dáða í ljósi mikilvægis viðfangsefnis rannsókna hvors þeirra.

Matís vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við þá skóla Haskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktir eru hér á landi og vonast til að dr. David M. Malone rektor og Max Bond aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna njóti dvalarinnar og hafi gagn og gaman af heimsóknunum.

Fréttir

Kaldar staðreyndir í sumarhita

Kæling er mikilvæg allt árið um kring, en sérstaklega mikilvæg yfir sumarmánuðina.

Kaldur júní mánuður er að baki hér á landi, almenningur vonast eftir góðu sumri á Íslandi. Í Evrópu er nú nokkru hlýrra en almennt gerist og gengur, jafnvel á þessum árstíma. Á meginlandi Evrópu var t.a.m. nýlega búist við að hiti gæti farið yfir 40°C þ.m.t. á nokkrum af helstu markaðssvæðum íslensks sjávarfangs, eins og raunin varð. Þó ekki sé beinlínis búist við jafn skelfilegum afleiðingum, í Frakkland í sumar, og af hitabylgjunni 2003 þá er samt réttara að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Sem fyrr er vönduð aflameðferð einkar mikilvæg, þar skiptir kæling hráefnis máli. Mikilvægi kælingar lýkur ekki þó í land sé komið. Mikilvægt er að forða fiski frá rýrnun gæða, einkum þeim sem selja á ferskan eða frystan frá mögulegu hitaálagi, í meðferð sjómannafiskverkendaflutningsaðila og seljenda. Enn sem fyrr er meðhöndlun, kæling þ.m.t., um borð er mikilvæg þau gæði sem glatast kunna um borð endurheimtast ekki í landi.

Einangrandi umbúðir eru til þess fallnar að verja matvæli fyrir hitaálagi. Umbúðir kæla ekki vöru. Kælimiðlar sem fylgja t.a.m. ferskum/kældum matvælum inn í umbúðir er komið fyrir inn í umbúðum til að viðhalda köldu hitastigi vörunnar. Brýnt er að matvælin séu í því ástandi sem þau eiga að vera þegar þeim er pakkað. Að frosin vara sé fryst við þar tilgreint hitastig og kjarnhiti sé skv. skilgreiningu og að kæld fersk matvæli séu köld. Umbúnaður vöru þarf að taka mið af þeim aðstæðum sem eru í umhverfi vörunnar hverju sinni. Ef flytja á fersk flök eða flaka bita til meginlands Evrópu í sumar er mikilvægara en verið hefur í vetur að gæta að kælingu vörunnar og því að nægjanleg vörn fyrir hitaálagi sé tryggð. Gæði fisks sem dreginn er úr sjó eru hvorki eilíf né endanleg, það er verkefni allra sem að koma að varðveita þau gæði sem best m.a. með vandaðri og markvissri kælingu, koma í veg fyrir að þau glatist að óþörfu og stuðla að því að þau berist endanlegum neytendum.

Kæling er mikilvæg allt árið um kring, en sérstaklega mikilvæg yfir sumarmánuðina. Nafnið Ísland veitir aðilum í íslenskum sjávarútvegi ekki tryggingu gegn hitaálagi. Vönduð vinnubrögð hvers og eins og markviss kæling auðveldar allt markaðsstarf til frambúðar.

Fréttir

Jákvæð þróun fyrir matvælaöryggi

Föstudaginn 3. júlí s.l. sömdu Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið og Matís um rekstur Matís á tilvísunarrannsóknastofum á sjö sviðum.

Föstudaginn 3. júlí s.l. sömdu Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið og Matís um rekstur Matís á tilvísunarrannsóknastofum (TVR; eNational Reference Laboratory (NRL)) í samræmi við reglugerð nr. 106/2010 og lög nr. 93/1995. Samkvæmt samningnum sér Matís um rekstur TVR á sjö sviðum: greiningu og prófun vegna sjúkdóma sem berast milli manna og dýra, vöktun á veiru og bakteríumengun í skelfiski, rannsókna á Listeria monocytogenes, rannsókna á kóagúlasa jákvæðum klasakokkum, rannsókna á Escherichia coli, rannsókna á varnarefnaleifum og rannsókna á þungmálmum. 

Tilvísunarrannsóknastofur hér á landi starfa í samstarfi við aðrar tilvísunarrannsóknastofur á Evrópska efnahagssvæðinu. Lögbundið hlutverk og helstu skyldur tilvísunarrannsóknastofa eru margvísleg og felast m.a. í samræmingu á starfsemi tilnefndra opinberra rannsókna í hverju landi. Þetta felur í sér m.a. ráðgjöf og leiðbeiningar um mæliaðferðir, þátttöku í þróun og sannprófun mæliaðferða og skipulagningu samanburðarprófana, upplýsa tilnefndar rannsóknastofur á mælisviðinu um samanburðarprófanir, fylgjast með árangri rannsóknastofa og bjóða aðstoð eða fara í aðgerðir skv. ákveðnum ferli ef tilefni er til, miðla þekkingu og upplýsingum frá erlendum tilvísunarrannsóknastofum til rannsóknastofa hér á landi, veita lögbærum yfirvöldum vísindalega og tæknilega aðstoð og viðhalda faggildingu.

Rétt er að minna á að Matís er ekki eftirlitsaðili, eftirlit er í höndum Matvælastofnunar (MAST), eða þeirra aðila sem MAST felur framkvæmd eftirlitsins. Tilvísunarrannsóknarstofur Matís eru einar þær fullkomnastu á landinu og geta mætt margvíslegum þörfum viðskiptamanna með breiðu umfangi faggildra mæliaðferða á mörgum mismunandi sviðum. Rannsóknastofurnar eru einnig vel tengdar við erlendar rannsóknastofur og hafa milligöngu um mælingar sem ekki er hægt að framkvæma á Íslandi.Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir

Fréttir

Hvað er átt við með lífhagkerfi?

Að undanförnu hefur í vaxandi mæli orðið vart við hugtakið lífhagkerfi (e. bioeconomy). Sem dæmi má nefna að formennska Íslands í Norræna ráðherraráðinu snérist um lífhagkerfi Norðurlanda (e. Nordic bioeconomy) og jafnframt tekur núverandi formennska Dana í Norræna ráðherraráðinu mið af lífhagkerfinu og þá sérstaklega því sem tengist hafinu, eða hinu bláa lífhagkerfi (e. blue bioeconomy).

Í samhengi við þá áherslu má nefna velheppnaða ráðstefnu sem haldin var í Færeyjum í nýliðnum júní mánuði en hún fjallaði um lífhagkerfi í kjölfar áherslu á þekkingar samfélög. Evrópskt samstarf um rannsóknir og þróun tiltók „þekkingarmiðað lífhagkerfi“ sem eina af áherslum samstarfsins á árunum 2007-2013.

Matvælaframleiðendur hafa sameiginlega hagsmuni og samstarf milli ólíkra greina matvælaframleiðslu getur nýst hverjum og einum sem og stærri hópi matvælaframleiðenda. Til að mynda hefur Matvælalandið Ísland hefur dregið fram í dagsljósið ótvíræða kosti fjölþætts samstarfs innan lífhagkerfisins.

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á lífhagkerfinu. Skilgreiningin tekur oft mið af umhverfi þess sem skilgreinir og hagsmunum minni eða stærri heildar á ákveðnu svæði. Mikilvægt er að skilgreiningin um lífhagkerfi nái yfir atriði sem skipta alla máli, enda lífhagkerfi á einum stað líklegt til að hafa áhrif á lífhagkerfi annarra staða. 

Hugtakið lífhagkerfi hefur verið notað til að ná yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Rannsóknir á sviði lífhagkerfis ganga þannig þvert á atvinnugreinar og leitast við að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær.

Sigrún Elsa Smáradóttir, ársskýrsla Matís 2013

Fréttir

Einstakt tækifæri til að stuðla að auknum heilindum matvæla

Matís hvetur alla áhugasama aðila til að skrá hugmyndir sínar sem stuðlað geta að auknum heilindum í virðiskeðjum matvæla. Matís sem formlegur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi mun ekki keppa um þá fjármuni sem hér eru boðnir til afmarkaðra rannsókna á sviði MatarHeilinda enda var það aldrei ætlunin. Í samræmi við áform þátttakenda í verkefninu er hér verið að opna samstarfið með þessum hætti fyrir utanaðkomandi aðilum.

Sem virkur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi (e.FoodIntegrity) vekur Matís athygli á einstöku tækifæri sem nú býðst utanaðkomandi aðilum. Frá upphafi verkefnisins (í ársbyrjun 2014) hefur verið stefnt að því að hleypa utanaðkomandi aðilum að verkefninu. Nú er komið að því. Áhugasamir aðilar geta tilkynnt áhuga um að tengjast verkefninu og nýta fjármuni sem verkefnið hefur yfir að ráða til að vinna rannsókn sem þjónar sama tilgangi og heildarverkefnið.

Áhugasamir aðilar þurfa að senda inn hugmyndir sínar í samræmi við lýsingu á vefsíðu verkefnisins fram til 14. ágúst kl. 15:00 að íslenskum tíma. Enginn þeirra 38 aðila sem eru með formlegum hætti tengdir verkefninu MatarHeilindi geta skráð sínar hugmyndir. Þetta er opin aðkoma fyrir hugmyndir (verkefni) sem lúta að Stöðlun og samræmingu, nýjum lausnum til að tryggja heilindi matvæla, hagkvæmniathugun á hvernig megi deila upplýsingum meðfram virðiskeðjum matvæla og hraðvirkum árangursríkum aðferðum til greiningar á svikum. Fjármögnun til framkvæmdar rannsókna á framangreindum sviðum er áætluð 3 milljónir €.  Stuðningur við rannsóknatengdan kostnað í verkefnum er fást við hagkvæmniathugun getur numið allt að 250 þúsund €, fyrir verkefni er fjalla um stöðlun og samræmingu annars vegar og nýjar lausnir hins vegar getur stuðningur mögulega numið allt að hálfri milljón € og fyrir verkefni er snúa að hraðvirkum lausnum getur stuðningur mögulega numið allt að 750 þúsund €.

Verkefnið er leitt af Fera, bresku matvæla- og umhverfisrannsóknastofnuninni. MatarHeilindi fást við að matvæli séu heil/óskert eða í fullkomnu ástandi þ.e.a.s. að kaupendur fái örugglega afhenta þá vöru sem þeir telja sig vera að kaupa. Veita þarf neytendum eða öðrum hagsmunaaðilum í virðiskeðju evrópskra matvæla fullvissu um öryggi, áreiðanleika og gæði. Heilindi innan matvælaiðnaðarins er lykilatriði til verðmætaaukningar í lífhagkerfi álfunnar. Heiðarleika evrópskra matvæla er stöðugt ógnað af sviksamlegum merkingum eða eftirlíkingum sem seldar eru til að njóta ávinnings þess virðisauka. Verkefninu er ætlað að vera þungamiðja í alþjóðlegri samhæfingu við nýtingu rannsókna og þróunar í að tryggja heiðarleika evrópskra matvæla með þátttöku kjarnahóps verkefnisins. Fera hefur umsjón með þessum þætti verkefnisins.

Matís sinnir hlutverki sínu, að auka verðmæti matvæla, stuðla að matvælaöryggi og bættri lýðheilsu með þróunar- og rannsóknastarfi, með að hvetja áhugasama aðila til að skoða kosti þess að skrá hugmyndir sínar í tæka tíð og nota þar með þetta tækifæri.

Fagstjóri Virðiskeðju og sjálfbærni Jónas Rúnar Viðarsson er ábyrgur fyrir þátttöku Matís í verkefninu MatarHeilindi.

Fréttir

Fjöldi sumarnemenda hjá Matís

Í sumar starfar hjá Matís fjöldi erlendra og innlendra sumarnemenda. Hlutverk þeirra er margvíslegt, allt frá rannsóknastörfum til markaðsstarfa og allt þar á milli.

Mikil eftirsókn hefur skapast fyrir sumarstörfum og starfstengdu námi hjá Matís þá ekki hvað síst erlendis frá og sérstaklega frá Frakklandi en í sumar er stærsti hópurinn einmitt þaðan. Annars eru nemendurnir frá fjölda annarra landa og má þar nefna Póllandi, Slóveníu, Svíþjóð, Danmörku, Kanada, Ungverjalandi ofl. löndum.

Í vikunni fór nokkur fjöldi til út á Faxaflóa og í Elliðaárnar til að ná í sýni til rannsókna.

Fréttir

Matís aðstoðar ríki í Karabíska hafinu við uppbyggingu í sjávarútvegi

Margeir Gissurarson, fagstjóri hjá Matís og Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís eru nú stödd í Karabíska hafinu þar sem þau veita stjórnvöldum ríkja á svæðinu ráðgjöf varðandi þætti sem snúa að sjávarútvegi og útflutningi fisks fá svæðinu, þá sérstaklega til Evrópu.

Óskað var eftir sérfræðiþekkingu Matís í þetta verkefni. Þáttur Matís stendur yfir í um fimm vikur í fyrsta hluta verkefnisins. Matís kemur með tillögur að úrbótum fyrir þau ríki sem aðild eiga að samtökum ríkja á svæðinu sem stunda fiskveiðar (Caribbean Regional Fisheries Mechanism – CRFM). Síðar kemur í ljós aðkoma Matís að þeim breytingum sem gera þarf á fiskveiðum á þessu svæði til þess að útflutningur á fiski frá geti hafist til Evrópu.

Frétt Caribbean News Desk og frétt Grenada Informer.

Nánari upplýsingar veita Margeir og Helga.

Fréttir

Aldarafmæli kosningaréttar kvenna

Matís hvetur starfsfólk sitt til að sækja hátíðarhöld vegna aldarafmælis kosningaréttar kvenna og sýna þannig í verki stuðning sinn við jafnrétti.

Matís gefur starfsfólki frí eftir hádegi á morgun, föstudaginn 19. júní, í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og eru allir starfsmenn fyrirtækisins hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldum þessa mikilvæga dags.  

Stefna Matís í jafnréttismálum er að tryggja jafna stöðu kynjanna. Það er markmið Matís að allir starfsmenn njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri til starfsframa, burtséð frá kynferði, þjóðerni, stöðu eða högum. Gætt er jafnréttis við alla ákvarðanatöku sem að starfsfólki snýr, þ.m.t. ákvarðanir um ráðningar, kjaramál og endurmenntun.

Neyðarnúmer

Örverudeild er 422-5116 / 858-5116.

IS