Fréttir

Lífssaga 186 Atlantshafslaxa

Uppruni og lífssaga 186 Atlantshafslaxa veiddum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar var rannsökuð með því að nota DNA stuttraðir til að meta uppruna og hreistur og kvarnir til að finna út hversu langan tíma laxarnir hafa dvalið í ferskvatni og sjó. Rannsókn þessi var gerð hjá Matís í samvinnu við VeiðimálastofnunHafrannsóknastofnun og Fiskistofu.

Flest sýnanna voru úr laxi sem var á sínu fyrsta ári í sjó eða 72,8%. Líftími í ferskvatni var breytilegur, frá einu ári til fimm og meðalferskvatnsaldur laxanna var 2,6 ár. Flestir höfðu laxarnir verið tvö ár í ferskvatni eða 42% og 28% höfðu verið þrjú ár í ferskvatni.

Við rannsókn á uppruna var notast við gagnagrunn um erfðir laxastofna í 284 evrópskum ám. Í ljós kom að 68% sýnanna voru rakin til meginlands Evrópu og Bretlandseyja, 30% voru rakin til Skandínavíu og norður-Rússlands en einungis 2% laxana voru frá Íslandi.

Þessi rannsókn sýnir fram á að hafsvæðið suður og austur af Íslandi er mikilvæg fæðuslóð fyrir Atlandshafslaxinn, og þá sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.  Lágt hlutfall laxa af íslenskum uppruna kom á óvart og gefur til kynna að íslenskur lax noti annað beitarsvæði.

Nánar er sagt frá rannsókninni á vef ICES ritsins.

Ítarlegi upplýsingar veitir fyrsti höfundur greinarinnar, Kristinn Ólafsson hjá Matís.

Fréttir

Traust samstarf við Matís um kennslu og rannsóknir

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Matís hafa gert samning sín á milli um áframhaldandi samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, undirrituðu samninginn í gær. Með samningnum er tryggð áframhaldandi samvinna um að þróa og bæta nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands. Samkomulagið festir enn frekar í sessi hið öfluga samstarf Háskóla Íslands og Matís.

Helstu atriði samnings Matvæla- og næringarfræðideildar og Matís eru:

  • Tryggja ásættanlegan fjölda nemenda í matvæla- og næringafræði við Háskóla Íslands.
  • Þróa og bæta nám í matvæla- og næringafræði  við Háskóla Íslands og tryggja því faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Vinna saman að fleiri verkefnum sem tengja saman greinar matvælafræði, matvælaöryggis, líftækni og næringarfræði. Áfram skal unnið saman að uppbyggingu tækja, gagnagrunna  og annara innviða.
  • Nemendur geta unnið að rannsókna- og þróunarverkefnum undir leiðsögn starfsmanna Matís undir umsjón fastráðinna kennara eða gestaprófessora Matvæla- og næringarfræðideildar og samkvæmt reglum Háskóla Íslands um hæfi leiðbeinenda.  
Undirritun_HI_Matis_LoRes

Frá vinstri: Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og sviðsstjóri hjá Matís, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og
Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Matvæla- og næringarfræðideild og Matís hafa átt gott samstarf um kennslu um langt skeið en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við deildina. Nú hefur samstarfið aukist enn frekar en tveir starfsmenn Matís hafa fengið fasta stöðu við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og einn starfsmaður deildarinnar hefur fengið fasta stöðu við Matís.

  • Björn Viðar Aðalbjörnsson, sérfræðingur hjá Matís, hefur gegnt 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá 1. janúar 2015.
  • Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, gegnir 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá og með 1. janúar 2016.
  • Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, gegnir 20% stöðu sérfræðings hjá Matís frá og með 1. janúar 2016.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Matvæla- og næringarfræðideild er ein öflugast eining Háskóla Íslands í rannsóknavirki á hvert stöðugildi kennara. Deildin leitast við að vera í fremstu röð með vönduðum rannsóknum og kennslu sem stenst samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Samstarfið við Matís rennir stoðum undir þau markmið. Þá er rík áhersla á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís í stefnu Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar veita Inga Þórsdóttir og Sveinn Margeirsson.

Fréttir

Marlýsi – Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015

Snorri Hreggviðsson, Margildi ehf., hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015.

Hugmyndin er að framleiða Marlýsi, lýsi úr makríl, síld og loðnu til manneldis. Margildi ehf. hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að kaldhreinsa lýsi úr uppsjávartegundunum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa á skilvirkan hátt og fullhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra s.k. steríns í lýsinu.

Margildi hefur unnið að verkefninu með verkfræðistofunni EFLU, Matís, KPMG, Alta ráðgjöf, Kanon-arkítektum, Háskólanum á Akureyri,  Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, AVS og Sjávarklasanum. Tilraunahráefni hefur fengist hjá HB Granda, Síldarvinnslunni og Eskju, einnig Vinnslustöðinni og Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. 

Sérfræðingar Matís hafa komið að verkefninu og aðstaða Matís nýtt verkefninu til framdráttar.

Heimasíða Margildis.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 2015

Sjávarútvegsráðstefnan 2015 verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 19. – 20. nóvember

Markmið Sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af íslenskum sjávarútvegi til að vinna að framförum. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni.

Matís er með bás á ráðstefnunni þar sem tæknilausnir og samstarfsverkefni eru kynnt. Birgir Örn Smárason, doktorsnemi hjá Matís, heldur erindi á ráðstefnunni. Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri, er í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Heimasíða Sjávarútvegsráðstefnunnar er hér

Fréttir

Starfsmaður Matís í mikilvægu starfi hjá SAFE Consortium

Dr. Hrönn Jörundsdóttir hefur verið skipuð stjórnsýsluritari af framkvæmdastjórn SAFE Consortium, evrópskum samtökum um matvælaöryggi.

Hrönn er doktor í efnafræði og verkefnastjóri hjá Matís og hlaut doktorsgráðu sína frá Stokkhólmsháskóla. Hún er sérfræðingur í umhverfisefnafræði, matvælaöryggi og áhættumati og hefur stjórnað þó nokkrum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á þessu sviði.

Hrönn mun aðstoða við rekstur og stjórnun samtakanna, þar á meðal umsjón á birtingum, samskiptum við félaga í samtökunum og kynningum á SAFE fyrir hagsmunaaðila. Hrönn hefur mikla reynslu af málefnum tengdum matvælaöryggi, umhverfisgæðum, samskiptum við fjölmiðla og kynningum og verður því öflug viðbót vil stjórnunarteymi SAFE.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

Fréttir

Lífeyrisskuldbindingar Matís ohf.

Þann 22. janúar 2009 var undirritaður samningur á milli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Matís ohf. kt. 670906-0190 hins vegar um árlegt uppgjör á skuldbindingum vegna starfsmanna Matís ohf. skv. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samningur þessi tók gildi frá og með 1. janúar 2007 þegar Matís ohf. var stofnað.

Skuldbindingar vegna starfsmanna Matís ohf. sem eiga aðild að B-deild LSR eru gerðar upp árlega og var greiðsla Matís vegna þeirra 11,9 milljónir á árinu 2014.  Rétt er að geta þess að þessi skuldbinding varð ekki ljós fyrr en um tveimur árum eftir að félagið hóf starfsemi og hefur hún ekki verið bætt sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í síma 858-5125.

Fréttir

Matís – brú milli háskóla og atvinnulífs

Matís er í miklu samstarfi við Háskóla Íslands, sem og aðra ríkisrekna háskóla, til þess að tryggja góða samvinnu milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Fyrirtækið vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi.

„Innan Matís er mjög fjölbreytt starfsemi. Hér eru mörg sérsvið sem vinna bæði í matvælaiðnaði og líftækni. Það er sterk tenging við atvinnulífið og háskólaumhverfið,“ segir Hörður G. Kristinsson rannsóknarstjóri Matís.

Boðið er upp á meistaranám og doktorsnám í matvælafræði við Háskóla Íslands. Námið er samvinnuverkefni Matís og næringarfræðideildar Háskóla Íslands. Boðið er upp á þrjár námsleiðir, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og líftæknilínu. Doktorsnámið felur í sér vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Mikil áhersla er lögð á að rannsóknarniðurstöður séu birtar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum við lok doktorsnáms.

Áhersla er lögð á hagnýtt nám en það felur í sér samstarf við fyrirtæki og stofnanir á vettvangi matvælaframleiðslu. Tækifærin eru mikil í íslenskri matvælaframleiðslu, sem sýnir sig í eftirspurn og starfsmöguleikum eftir nám. Námið nýtist þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði. Það nýtist öllum þeir sem hafa áhuga á að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar: www.matis.is/bruin/

Fréttir

Fundur hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi – MareFrame

Nú rétt í þessu lauk fundi í MareFrame verkefninu. Fundurinn var með íslenskum hagsmunaaðilum, þversniði af þeim hagsmunaaðilum sem fiskveiðistjórnun hefur áhrif á. 

Matís, Háskóli Íslands og Hafrannsóknarstofnun eru þátttakendur í evrópska rannsóknar- og þróunarverkefninu MareFrame (http://www.mareframe.eu).

Meðal markmiða MareFrame er að þróa og nýta vistkerfislíkön til að aðstoða við ákvarðanatöku þegar kemur að stjórn fiskveiða.

Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að taka tillit til áherslna og skoðana mismunandi hagsmunaaðila við gerð líkananna og við ákvarðanatökuna. Þarf þar að huga jafnt að líffræðilegum-, vistfræðilegum-, efnahagslegum- og félagslegum áhrifaþáttum.

Á fundinum var MareFrame kynnt og sú vinna sem fram hefur farið í verkefninu hér á landi.

Nánari upplýsingar um MareFrame verkefni má finna á heimasíðu verkefnisins og heimasíðu Matís.

Fréttir

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir

Cyprian Ogombe Odoli mun verja doktorsritgerð sína í matvælafræði fimmtudaginn 22. október næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.14:00.

Ritgerðin ber heitið: Drying and smoking of capelin (mallotus villosus) and sardine (sardinella gibbosa) – the influence on physicochemical properties and consumer acceptance.

 Andmælendur eru dr. Morten Sivertsvik, prófessor og sviðsstjóri hjá Nofima, Noregi, og dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Leiðbeinandi í verkefninu var Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd þau Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, dr. Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá Matís.

Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir sem almennt eru notaðar í þróunarlöndum, þar sem vanþróaðir flutningaferlar takmarka markaðssetningu á ferskum fiski. Í Austur-Afríku er þurrkaður og reyktur fiskur mikilvæg uppspretta próteina í mataræði íbúa. Smáfiskur, aðallega sardínur, er venjulega settur í saltpækil og forsoðinn til að stöðva ensímvirkni og örveruvöxt áður en hann er þurrkaður utandyra. Þurrkaði fiskurinn er oft lélegur að gæðum og takmarkast sala hans við tekjulægri hópa er versla á útimörkuðum. Á sama tíma er aukin eftirspurn meðal neytenda millistéttar eftir þurrkuðum og reyktum smáfiski í stórmörkuðum sem uppfyllir gæðakröfur þeirra. Þessari eftirspurn mætti mæta með innflutningi eða bættum vinnsluaðferðum. Markmið þessarar rannsóknar var að bæta gæði og öryggi í vinnslu smáfisks og kanna viðbrögð neytenda við nýrri afurð eins og þurrkaðri loðnu veiddri við Ísland, sem er ekki þekkt á mörkuðum í Austur-Afríku. Áhrif forsuðu, þurrkunar og reykingar á gæði afurða voru metin, ásamt áhrifum pökkunaraðferða á niðurbrot fitu. Einnig voru kannaðir skynmatseiginleikar og magn örvera í þurrkuðum og reyktum afurðum. Að síðustu var hugað að markmiðssetningu á hollari þurrkaðri sardínu og innfluttri þurrkaðri loðnu.                                                                                       

Hefðbundin þurrkun og forsuða fyrir þurrkun á sardínum og loðnu leiddi til minni afurðagæða, lakara skynmats og minni próteingæða. Magn fitu í loðnu er árstíðabundið og þegar loðna með fituinnihald 9-10% í stað 7-7,5% var þurrkuð, tók þurrkunin lengri tíma og rakainnihald í lokaafurð jókst. Jafnframt dró fitan úr afmyndun próteina í vinnsluferlinu. Við stýrðar þurrkaðstæður jukust gæði afurða, en það bendir til að nauðsynlegt sé að þróa þurrkara fyrir vinnslu á smáfiski. Í þurrkaðri og reyktri loðnu og sardínum greindist hátt hlutfall lífsnauðsynlegra fjölómettaðra fitusýra eins og eicosapentaenoic-sýru (EPA) og docosahexaenoic-sýru (DHA), nákvæmlega 13% í loðnu og 20% í sardínum. Í heitreyktri loðnu og sardínum var hærra fituinnihald, minna rakainnihald og aukinn stöðugleiki gegn örverum, miðað við kaldreykta afurð, en heitreyking minnkaði nýtingu. Fituinnihald hafði áhrif á vatnsrof próteina, oxun fitu og bætti skynmatseiginleika við geymslu á reyktri og þurrkaðri loðnu. Niðurbrot fitu var mest í loðnu með lágu fituinnihaldi á meðan þránun var mest í loðnu með háu fituinnihaldi. Pökkun á reyktri og þurrkaðri feitri loðnu í loftfirrtar umbúðir leiddi til minni þránunar fitu og færri örvera. Pökkun hafði ekki áhrif á niðurbrot fitu.

Heitreyktur fiskur í loftfirrtum umbúðum hélt upphaflegum eiginleikum sínum eftir fjögurra vikna geymslu. Þurrkuð loðna með rakainnihaldi undir 25% og vatnsvirkni undir 0,7 geymist óskemmd við stofuhita í fimm mánuði í loftfirrtum umbúðum. Bætt vinnsluferli við þurrkun á sardínum og loðnu skilaði góðum árangri og afurðinni var vel tekið hjá  neytendum hefðbundins þurrkaðs smáfisks í Kenía. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna fram á að þurrkaður og reyktur smáfiskur getur verið mjög næringarrík fæða og ef verklag við vinnslu og pökkun er rétt, gæti neysla þessara afurða dregið verulega úr vannæringu sem er ríkjandi í þróunarlöndum.

Doktorsvörn_auglýsing_Cyprian-Odoli

Um doktorsefnið

Cyprian Ogombe Odoli er fæddur í Kenýa árið 1974. Árið 2006 lauk hann námi frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og í framhaldi af því hefur skólinn styrkt hann til meistara- og doktorsnáms.  Cyprian lauk MS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og innritaðist í doktorsnám við sömu deild þremur árum síðar, árið 2012. Hann er kvæntur Hellen Namugeere og eiga þau tvö börn.

Doktorsnemi: Cyprian Ogombe Odoli – coo1@hi.is  cogombe@yahoo.com (gsm: 8627565).

Nánari upplýsingar veita Cyprian Ogombe Odoli og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2015 haldinn fimmtudaginn 15. október

Titill ráðstefnunnar í ár: Hvaða efni eru í matnum ?  Vitum við það ? Brýn þörf á gagnagrunnum & viðhaldi þeirra.

Dagurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun um sértæka gagnagrunna sem halda utan um næringargildi og efnainnihald matvæla, bæði íslenskra og innfluttra. Mikilvægi þessa gagnagrunna er ótvírætt en án þeirra er ekki hægt að reikna út næringargildi máltíða, matseðla og framleiðsluvara, né að meta mengunarefni í fæðunni.

Nánar á heimasíðu Matvæla- og næringafræðafélags Íslands.

IS