Fréttir

Rannsóknir tengdar húðvörum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vegna umfjöllunar um húðvörur frá fyrirtækinu Villimey sem birtist í DV í gær, 16. desember 2016, vill Matís taka eftirfarandi fram:

Í frétt sem Matís birti á vef sínum þann 1. september sl. er um að ræða ónákvæmt orðalag en skilja má hluta fréttarinnar með þeim hætti að Matís hafi rannsakað virkni húðvaranna á líkamsstarfsemi.

Varðandi framkvæmd rannsókna þeirra er um ræðir er hið rétta að jurtir í vatnsupplausn (jurtaextrakt) með jurtum sem notaðar eru í húðvörur Villimeyjar voru prófaðar í margskonar húðfrumuprófum og bandvefsprófum.  Slík próf gefa m.a. vísbendingar um virkni ýmissa efna í húð -og bandvefsfrumum. Í viðkomandi frumuprófum var mælt magn kollagens og magn ensímanna elastasa, málmpróteinasa 1, málmpróteinasa 2 og málmpróteinasa 9.

Prófin sýndu að jurtirnar höfðu hamlandi áhrif á myndun ensímanna. Jafnframt gáfu prófin vísbendingu um aukið magn kollagens í húðfrumum. Þá kom fram virkni við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) sem og andoxunaráhrif.

Matís þykir miður að hafa sent frá sér texta sem innihélt ónákvæmt orðalag og biður alla viðeigandi afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.