Fréttir

Má bjóða þér aðstoð við vöruþróun?

Matís auglýsir eftir umsóknum um verkefni sem fela í sér nýtingu á svæðisbundnum auðlindum. Ætlast er til þess að verkefnið skili auknum verðmætum, aukinni sjálfbærni í nýtingu líf-auðlinda og/eða dragi úr lífrænu sorpi.

Stuðningurinn felst í sérfræðiráðgjöf við að koma vöru á markað og getur m.a. falist í aðstoð við uppsetningu vinnsluferla, vöruþróun, umbúðahönnun og mælingar (t.d. geymsluþols-, næringargildis-, efnamælingar- og/eða lífvirknimælingar)

Verkefnið er hluti af nýsköpunarverkefnum undir “Nordbio“ formennskuáætlun Íslands (2014-2016) í Norrænu ráðherranefndinni. Um er að ræða verkefni sem snúa að nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukinni framleiðslu lífmassa. Sjá meira um heildarverkefnið hér.

Ekki verður greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup.

Gert er ráð fyrir að verkefnin hefjist í apríl og verði lokið í október 2015.

Umsóknafrestur er til 23. mars 2015. Sótt er um þátttöku með því að fylla út umsóknareyðublað sem má finna hér.

Matsblöð sem notuð verða við mat á umsóknum. Matsblað (á íslensku), Evaluering (in Danish).

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Þóra Valsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Frumkvöðladagur uppsveitanna

Frumkvöðladagur uppsveitanna verður haldinn fimmtudaginn 12. mars kl. 13:00 – 17:00 á Café Mika, Reykholti.

Dagurinn er haldinn í samstarfi sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og skipulagður af ferðamálaráði uppsveita Árnessýslu.

Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og eflingu atvinnutækifæra á svæðinu. Hugað verður að því hvernig er að hefja atvinnurekstur eða þróa. Stoðkerfið verður kynnt, styrkjamöguleikar og reynslusögum deilt.

Áhugasömum gefst  tækifæri til að viðra hugmyndir sínar við ráðgjafa.  Fjölbreytt erindi verða flutt á fundinum m.a. koma gestir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og atvinnuráðgjöf SASS en einnig mun Ingunn Jónsdóttir, sameiginlegur starfsmaður Matís og Háskólafélags Suðurlands flytja erindi um nýsköpunarhugsun og segja frá Matvælabrúnni, námi sem Háskólafélagið hefur verið að keyra í samstarfi við Matís og matvælafyrirtæki á Suðurlandi.

Auk þess munu fulltrúar fyrirtækja í uppsveitum deila reynslusögum.

Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á www.sveitir.is

Fréttir

Taka höndum saman til að stuðla að frekari nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi

Stykkishólmsbær, írska fyrirtækið Marigot Ltd. sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. hafa undirritað samkomulag sem hefur að markmiði að samþætta samstarf milli þessara aðila í tengslum við nýtt verkefni sem nú er í undirbúningi. Verkefnið lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.

Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.

Friðrik Friðriks­son, formaður stjórn­ar Matís, Sturla Böðvars­son, bæj­ar­stjóri Stykk­is­hólms­bæj­ar, og Ein­ar Sveinn Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Íslenska kalkþör­unga­fé­lags­ins, f.h. Marigot.

Hyggja á náið samstarf

Með því samkomulagi sem Stykkishólmsbær, Marigot og Matís hafa nú undirritað er ætlunin að örva samþættingu í samstarfi milli þessara aðila, m.a. til að stuðla að nýjum tækifærum á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar í sveitarfélaginu á grundvelli vísindastarfs og þarfa iðnaðarins. Gangi allar áætlanir eftir mun Deltagen Iceland reisa og reka nýja verksmiðju í Stykkishólmi þar sem unnir verða hágæða þörungakjarnar til útflutnings, ekki síst á grundvelli nýsköpunar og víðtækrar þekkingar vísindamanna Matís.

Varúðarsjónarmið grundvöllur sjálfbærrar þróunar

Sjálfbær nýting þangs og stórþörunga við Breiðafjörð er grundvöllur samstarfsins. Rannsóknir benda til að sjálfbær ávöxtun auðlindarinnar sé talsvert meiri en sem nemur núverandi nýtingu. Í samkomulaginu er tekið fram að ávallt verði gætt að varúðarsjónarmiðum við sérhverja framkvæmd sem fyrirhuguð starfsemi mun krefjast, enda eru þau grundvöllur sjálfbærrar þróunar á nýtingu lífrænna auðlinda. Megináhersla verður lögð á vísindalega nálgun við nýtingu auðlindarinnar með það að markmiði að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum efnahagslegum ávinningi.

Viljum taka þátt í frekari atvinnuppbygginu

„Með stofnun Deltagen Iceland horfir Marigot til mögulegs framtíðarvaxtar í starfsemi sinni á Íslandi og gangi þessar áætlanir eftir verður verksmiðjan í Stykkishólmi reist gagngert með markmið starfseminnar í huga. Við horfum til Stykkishólms vegna fullnægjandi og nauðsynlegra innviða í bæjarfélaginu, tiltæks vinnuafls og nálægðar við hráefnið. Þetta er einnig skýrt merki um áhuga Marigot á því að taka þátt í frekari atvinnuuppbyggingu á Íslandi,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins og fulltrúi Marigot hér á landi.

Stuðlar að fjölbreyttari atvinnumöguleikum

„Við fögnum þessu spennandi samkomulagi sem hefur að markmiði að skapa fleiri störf og auka fjölbreytni atvinnulífsins hér á svæðinu. Miðað við áætlanir myndi verksmiðjan sjálf skapa 15 ársverk undir fullum afköstum auk starfa við þangslátt og söfnun, þróunar- og tæknivinnu auk annarra afleiddra starfa sem eru okkur í Stykkishólmi mikilvæg búbót í frekari atvinnuuppbyggingu. Bæjaryfirvöld eru núna að vinna í nauðsynlegum skipulagsmálum sem snúa að verkefninu, sem við vonum að gangi eftir. Fyrirhugaður iðnaður þyrfti m.a. að hafa beinan aðgang að góðri hafnaraðstöðu fyrir allstór flutningaskip og til að landa þangi úr flutningaprömmum og skipum sem flytja þang frá sláttuprömmum á Breiðafirði. Við munum skoða þetta verkefni með stjórnvöldum,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Fellur vel að meginhlutverki Matís

„Við fögnum þessu samkomulagi og lítum björtum augum til þeirra spennandi tækifæra sem samstarfið mun vonandi leiða af sér. Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Aðkoma okkar að starfsemi Deltagen Iceland verður í gegnum starf vísindamanna Matís þar sem mikil þekking er til staðar á vannýttum afurðum á borð við þang og þara. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti erum við að stuðla að nauðsynlegum hvata til að þróa hugmyndirnar áfram og búa til verðmætar vörur og efla þannig íslenskt atvinnulíf. Það er í raun eitt meginhlutverk Matís,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís.

Nánari upplýsingar veita eftirtaldir aðila:

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, í síma 863 8888, Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, f.h. Marigot, í síma 897 0303 og Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís, í síma 896-7350.

Fréttir

Rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Sú venja hefur lengi verið viðhöfð innan íslenska sjávarútvegsins að þegar sjómenn stinga sig á oddhvössum uggum karfa þá hafa þeir einfaldlega skorið í augu fiskjarins og borið slímið í stungusárið.

Aukin verðmæti úr vinnslu á Karfa (Sebastes)
– rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Með því að nota slímið með þessum hætti hafa sjómenn komið í veg fyrir sýkingu og einnig hefur verkurinn orðið minni en ella og bólgusvörun hverfandi samanborið við þegar augnslím er ekki borið á sárið. Þetta varð kveikjan að verkefninu og þær upplýsingar sem byggt var á þegar farið var á stað með verkefnið. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á hvort nýta megi slím úr augum karfa (Sebastes) til framleiðslu efna sem hafa eftirsóknarverða lífvirkni sem mögulega mætti nota í ýmsan iðnað, svo sem í snyrtivörur, sem fæðubót ofl.

Niðurstöður sýna að andoxunarvirkni er að finna í augnslími úr karfa og þá fyrst og fremst þegar 50% metanóllausn var notuð við útdráttinn og andoxunarvirkni mæld með svokölluðu DPPH prófi. Lágt próteininnihald reyndist í augnslíminu en hæst mældist það í augnslími sem var hitaþurrkað við 30°C. Með þeim aðferðum sem prufaðar voru reyndist augnslímið hvorki innihalda bakteríuhamlandi virkni né mældist í því β-karótín.

Þetta verkefni var í raun frumrannsókn á efni sem ekki hefur verið skoðað áður og safnað var upplýsingum sem ekki lágu fyrir. Áhugavert væri í framhaldinu að rannsaka aðra eftirsóknarverða lífvirkni, svo sem bólguhamlandi virkni. Einnig væri spennandi að einangra og rannsaka frekar þau prótein sem er að finna augnslíminu.

Nemandi

Friðrik Þór Bjarnason sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri vorið 2014 og meistaranemi í fiskeldi við Háskólann í Bodø Noregi frá haustinu 2014.

Leiðbeinandi

Rannveig Björnsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís.

Verkefnið unnið í Háskólanum á Akureyri og Matís Akureyri, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Allt hráefni til rannsóknarinnar kom úr vinnslu Samherja hf.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri hjá Matís á Akureyri.

Fréttir

Meirihlutinn í Marinox seldur

Gengið hefur verið frá samningi um kaup írska fyrirtækisins Marigot, eiganda Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, á 60% hlut í nýsköpunarfyrirtækinu Marinox ehf., sem er í eigu Matís ohf. og tveggja lykilstjórnenda þar. Gefið verður út nýtt hlutafé fyrir hlut Marigot í kjölfarið.

Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Oftar en ekki hefur verið um að ræða afurðir sem hafa verið vannýttar og má þar nefna þang og þara sem starfsemi Marinox hefur einmitt byggst í kringum. Matís hefur þannig haft aðkomu að fyrirtækjum sem freistast hafa til þess að búa til verðmæti úr vannýttri auðlind sem aðrir hefðu ekki sýnt áhuga að nýta. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti er búinn til hvati fyrir rannsakendur hjá fyrirtækinu að fara lengra með sína vinnu og búa til úr henni verðmæta vöru, atvinnulífinu öllu til heilla. Slíkt fyrirkomulag hefur lengi tíðkast um heim allan og hér á landi einnig, til dæmis innan háskólasamfélagsins.

Á sama tíma og það hefur verið keppikefli Matís að aðstoða frumkvöðla og fyrirtæki við að taka fyrstu skrefin í verðmætri matvælaframleiðslu og líftækni þá hefur það aldrei staðið til að Matís sé með eignarhlut í sprotafyrirtækjum til lengri tíma. Mikilvægt er að frumkvöðlar og fyrirtæki fá þá sérfræðiaðstoð sem Matís hefur upp á að bjóða einungis í þann tíma sem nauðsynlegur er og að Matís selji svo hlut sinn í fyrirtækjunum. Gott dæmi um slíkt ferli og aðkomu Matís er nýsköpunarfyrirtækið Iceprotein á Sauðárkróki sem selt var til FISK-Seafood ehf. árið 2012.

Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís
og Frank O’Sullivan, fjármálastjóri Marigot

Nú er komið að sölu hlutafjár í vinnsluhluta Marinox. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara. Fyrirtækið verður því rekið áfram með sama nafni en með nýjum ráðandi hluthafa. Samhliða hlutafjáraukningu í Marinox verður húðvörulínan, UNA Skincare, skilin frá fyrirtækinu og sett í nýtt félag, sem til að byrja með verður í eigu sömu aðila og eiga Marinox nú. Í beinu framhaldi verður leitað að nýjum fjárfestum í UNA Skincare.

Matís fagnar þessum áfanga og lítur björtum augum til þeirra tækifæra sem opnast fyrir Marinox og Matís í samstarfi við írska fyrirtækið, sem þegar hefur getið sér gott orð hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís (896-7350). 

Fréttir

NordBio – Nordic Bioeconomy – áætlun og verkefni

Boðað er til opins kynningarfundar þar sem NordBio áætlunin og verkefni hennar verða kynnt en Norræna lífhagkerfið (NordBio) er forgangsverkefni í formenskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

NordBio áætluninni leiðir saman breiðan hóp norrænna sérfræðinga sem leggja saman krafta sína og vinna að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Áætlunin nær til þriggja ára (2014-2016).

Hvenær

Þriðjudagur 3. mars, kl. 13-16.

Hvar

Norræna húsið, Sturlugötu 5, 101 Reykjavík.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Dagskrá:

  • Fundarsetning | Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.
  • Lífhagkerfið – undirstaða sjálfbærrar þróunar | Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Háskóla Íslands.
  • NordBio áætlunin | Halldór Runólfsson, formaður íslensku verkefnisstjórnar NordBio. 
  • WoodBio. Hlutverk viðarlífmassa í norræna lífhagkerfinu | Ólafur Eggertsson, Skógrækt ríkisins.
  • Nýsköpun í lífhagkerfinu. Tækifæri til vöruþróunar og verðmætasköpunar | Sigrún Elsa Smáradóttir, Matís.
  • Marina. Aukin notkun vistvænnar orku á sjó | Ágústa S. Loftsdóttir, Orkustofnun.
  • Ermond. Vistheimt gegn náttúruvá | Guðmundur Halldórsson, Landgræðsla ríkisins.
  • Biophilia. Sköpun sem kennsluaðferð | Björk Óttarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneytið.
  • Lífauðlindir Norðurlandanna: sjálfbærniviðmið | Brynhildur Davíðsdóttir, Háskóla Íslands.
  • Lífrænn úrgangur til nýsköpunar | Guðrún Lilja Kristinsdóttir, Umhverfisstofnun.
  • Tækifæri tengd lífhagkerfinu á völdum svæðum | Sigríður Kristjánsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
  • Sjálfbær framleiðsla á próteini | Torfi Jóhannesson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
  • Fyrirspurnir og umræður.

Kaffihlé verður um kl. 14.30.

Fundarstjóri

Danfríður Skarphéðinsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Nánar um NordBio á www.norden.org og á Facebook síðu fundarins.

Fréttir

Síldarvinnslan er Menntasproti atvinnulífsins 2015

Síldarvinnslan er Menntasproti atvinnulífsins 2015 en úrslitin voru kynnt sl. fimmtudag á Menntadegi atvinnulífsins sem Samtök atvinnulífsins standa að ásamt aðildarfélögum sínum, SFS, SVÞ, SF, SFF, SI, Samorku og SAF.

Menntaverðlaunin eru viðurkenning til fyrirtækja sem lagt hafa áherslu á fræðslu- og menntamál innan sem utan fyrirtækjanna. Síldarvinnslan er vel að viðurkenningunni komin enda áhersla verið lögð á þróunarstarf og nýsköpun til eflingar menntunar og fræðslu.

Matís óskar Síldarvinnslunni hjartanlega til hamingju og er stolt af því að mega kalla sig samstarfsaðila þessa öfluga fyrirtækis.

Illugi Gunnarsson, Hildur Elín Vignir og Gunnþór Ingvason við afhendingu menntasprotans 2015.
Mynd af vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, www.sfs.is.

Örfá samstarfsverkefni Síldavinnslunnar og Matís:

og mörg fleiri verkefni. Auk þess nýtir Síldavinnslan sér þjónustu Matís á Neskaupstað.

Fréttir

Athyglisverð skynmatsráðstefna í Noregi í maí 2015

Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur Nordic Sensory Workshop sem fjalla að mestu um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Matís  tekið þátt í undirbúningi þeirra. Næsta ráðstefna verður haldin í Osló 11. og 12. maí nk. og ber hún yfirskriftina: Bragð framtíðarinnar (e. A Taste of the Future).

Helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar að þessu sinni verða:

  • Hvað vilja börnin borða? (e. Children and Food Preferences)
  • Heilsusamleg matvæli sniðin að þörfum neytenda (e. Taylor made Healthy Foods)
  • Stefnur í  nýnorrænni matargerð (e. Nordic Food Trends)

Gunnar Karl Gíslason veitingamaður á Dill Restaurant mun halda erindi um hvert ný norræn matargerð stefnir frá sjónarhóli kokksins. Gunnar gaf nýlega út matreiðslubókina North ásamt bandaríska rithöfundinum Jody Eddy. Þema bókarinnar er hin nýja norræna matargerð eins og hún birtist á Íslandi en Dill hefur einmitt verið einn fremsti boðberi þeirrar stefnu hér á landi.

Fólk í matvælaframleiðslu og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst.  Nánari lýsing, skráning og dagskrá er á vefsíðu Nofima.

Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Matís og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Matís hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum á þessu sviði og er þátttakandi í evrópskum samtökum European Sensory Network (ESN) sem fjalla um skynmat og neytendarannsóknir.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Mikil tækifæri í matvælaframleiðslu

„Ég sé mikil tækifæri fyrir Íslendinga í matvælaframleiðslu og ég held að við ættum að horfa til þess sem Svíar hafa verið að gera með verkefninu Matlandet Sverige,“ segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra.

Sýn þarlendra stjórnvalda er að Svíþjóð verði hið nýja matarland Evrópu og byggi á sænskum matarhefðum, verðmætri náttúru og menningu, einstöku hráefni og matreiðslumönnum sem náð hafa miklum árangri alþjóðlega. Allt þetta eigum við að geta gert líka. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á aðgerðir til að auka matvælaframleiðslu hér á Íslandi. Þar leggjum við áherslu á útflutning og sérstöðu Íslands þegar kemur að hreinleika og gæðum hráefna.

Með aukinni sjálfbærri og vistvænni matvælaframleiðslu höfðum við til ört stækkandi markhóps bæði hér heima og erlendis. Aukning í innlendri matvælaframleiðslu gefur möguleika á að auka hagvöxt og fjölga störfum. Tækifærin er að finna í matvælavinnslu, útflutningi, ferðaþjónustu og upplifun sem og í landbúnaðinum sjálfum.

Sérstaða okkar þegar kemur að ferskleika matvæla er einstök. Landið er stórt og við höfum aðgang að miklu magni af hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða alls annars í matvælaframleiðslu, og þar er gott að geta treyst á landbúnaðinn og óspillta íslenska náttúru.

Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum þegar kemur að matvælaframleiðslu og við nýsköpun í matvælaiðnaði er ekki síst mikilvægt að hugsa um gæði matvælanna og matvælaöryggi á sama tíma og reynt er að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Stjórnvöld eiga að huga að því að fjölga matvælaframleiðendum, bæði stórum og smáum og auka veltu þeirra.

Stærsti matvælakaupandinn er hið opinbera og því fylgir mikil ábyrgð. Stefnumörkun stjórnvalda skiptir því miklu máli þegar kemur að hráefniskaupum fyrir þær þúsundir máltíða sem framreiddar eru daglega í skólum, á sjúkrastofnunum og elliheimilum.

Í raun þarf að verða ákveðin vitundarvakning þegar kemur að vali á hráefni auk þess sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að gæta vel að vali og þjálfun starfsmanna við vinnslu og innkaup á matvælum. Einnig þarf að leggja áherslu á fullnýtingu hráefnis og hagræðingu í innkaupum, án þess þó að það komi niður á gæðum máltíðanna.

Matur er og verður stór hluti af upplifun okkar af því að heimsækja önnur lönd. Þetta þurfum við að leggja enn meira áherslu á á Íslandi. Jafnvel má orða þetta svo að sala á innlendum mat til erlendra ferðamanna sé útflutningur, þar sem kaupandinn borgar sjálfur fyrir flutninginn. Frábært dæmi um hvernig menn hafa nýtt innlent hráefni og menningu eru kryddpylsurnar hans Klaus Kretzer, sem hann framleiðir úr kindakjöti í Öræfunum. Pylsurnar hafa slegið í gegn og eru orðnar hluti af upplifun ferðamannsins þegar hann heimsækir Skaftafell og Öræfin. Við þróun á hugmyndinni naut hann aðstoðar frá Matarsmiðju Matís á Höfn. Við þurfum að gera meira af þessu. Því var verkefnið Arctic Bioeconomy sérstakt ánægjuefni en það var hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið skilaði tæplega 30 nýjum vörum sem voru unnar í samstarfi við Matís sem hefur leitt þennan hluta verkefnis.

Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um sérstöðu Íslands og orðspor íslenskra matvæla er hluti af því. Við þurfum að styðja við framþróun í þessum geira og það getum við gert með því að styðja við þátttöku Íslendinga í matreiðslukeppnum, gerð íslenskra matreiðslubóka og sjónvarpsþátta og að sjálfsögðu rekstri fjölbreyttrar flóru íslenskra veitingastaða, þannig komum við matnum okkar á framfæri, hvetjum fólk til að sækja landið heim og styðjum við íslenska matvælaframleiðslu.

Ofangreindur texti birtist upphaflega í ársskýrslu Matís fyrir árið 2014.

Fréttir

Nautnir norðursins tilnefndar til Edduverðlauna

Þátturinn Nautnir norðursins er tilnefndur til Edduverðlauna sem besti lífsstílsþáttur ársins 2014 en þátturinn er framleiddur af Sagafilm fyrir RÚV, NRK, YLE og Kringvarp í Færeyjum og er Matís meðframleiðandi þáttanna.

Þættirnir eru styrktir af NORA og Kulturraadet í Noregi, auk atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis.

Ferðalangur er Gísli Örn Garðarsson leikari. Á ferð sinni um Grænland, Færeyjar, Ísland og Noreg hittir hann fjóra kokka frá löndunum fjórum og leiða þau hann í nýjan sannleik um hefðbundna matreiðslu og nýstárlega nálgun á hráefni úr heimahéraði.

Nánari upplýsingar um þættina má m.a. finna á Fasbók síðu þáttanna. Edduverðlaunahátíðin fer fram í Silfurbergi í Hörpu, laugardaginn 21. febrúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

IS