Fréttir

Ert þú að borða nóg af ómega-3 fitusýrum?

Þrátt fyrir að heilsusamleg áhrif þess að neyta fjölómettra fitusýra séu margsönnuð er þeirra ekki alltaf neytt í nægu magni vegna þess að neysla á feitum fiski er frekar lítil á Íslandi. Matís og fyrirtækið Grímur kokkur (www.grimurkokkur.is) hafa á undanförnum árum unnið saman að verkefnum um auðgun sjávarrétta úr mögrum fiski með ómega olíum.

Í norrænu verkefni, sem styrkt var af Nordic Innovation, þróaði Grímur kokkur tilbúna sjávarrétti sem auðgaðir voru ómega olíum til að auka magn ómega 3 fitusýra og um leið hollustugildi réttanna. Olían kom frá fyrirtækinu BioActive Foods í Noregi en hún er unnin að hluta til úr íslenskri fiskiolíu. Í samstarfi við Alfons Ramel á Rannsóknastofu i næringarfræði, Háskóla Íslands og Landspítala var gerð íhlutandi rannsókn til að kanna lífaðgengi (bioavailability) n-3 fitusýra sem bætt var í tilbúna rétt og bera saman við ómegaduft sem neytt var beint. Í rannsókninni tóku þátt 77 manns yfir 50 ára að aldri en auglýst var eftir þátttakendum. Einn hluti þátttakenda neytti hefðbundinna fiskrétta frá Grími kokki, annar hópurinn neytti fiskrétta sem auðgaðir voru með ómega olíu og þriðji hópurinn neyttir ómegadufts. Rannsóknin stóð í fjórar vikur og voru tekin sýni af blóði fyrir og eftir. Þeir þátttakendur sem fengu ómega olíu eða ómega duft fengu u.þ.b. ráðlagðan dagsskammt af DHA og EPA fitusýrum.  Magn EPA í blóði tvöfaldaðist hjá þeim sem neyttu ómega og DHA jókst líka marktækt. Engin breyting mældist í blóði þeirra sem ekki fengu ómega.

Þessar rannsóknaniðurstöður hafa nú birst í  vísindagrein í tímaritinu European Journal of Clinical Nutrition (2014) og heitir greinin: Bioavailability of long-chain n-3 fatty acids from enriched meals and from microencapsulated powder. Höfundar eru Harpa Hrund Hinriksdóttir, Valgerður Lilja Jónsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Emilía Martinsdóttir og Alfons Ramel. Matís, Grímur kokkur og BioActive Foods munu halda áfram rannsóknum á þessu sviði í EU verkefninu EnRichMar.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Afurðum ætlað að mæta þörfum á mörkuðum

Umbreyting afla í útflutningsverðmæti skiptir sköpum fyrir þjóðarbúið. Nýting og vinnsla sjávarafurða koma þar við sögu. Eins og vinnslan snýst um virðingu fyrir neytendum og hráefnum, snýst nýtingin um virðingu fyrir hráefnum og umhverfi að samaskapi snýst verðmætasköpunin um virðingu fyrir samfélagi og auðlindum. Fullmargir fullyrða fullmikið um fullvinnslu og fullnýtingu. Samhliða fullyrðingaflaumi ber á óþarfa mismunun, þar sem afurðir eru flokkaðar nokkuð frjálslega sem aðalatriði og aukaatriði.

Grá(upplögð)lúða

Vissulega er markmiðið að nýta öll aðföng sem best á sem arðbærastan hátt. Keppikeflið má ekki vera nýtingarhlutfallið eitt og sér, verðmætin knýja þjóðfélagið áfram. Bræðsla, vinnsluaðferð sem notar allt hráefnið, þó heimtur séu ekki mikið umfram fitu og prótein innihald hráefnisins, aflanum er öllum ráðstafað til einnar og sömu vinnsluaðferðarinnar, og ekkert er skilið eftir, sama gildir um heilfrystingu fisks, vinnslu sem skilar háu hlutfalli afurða af hráefni en verðmætin eru tæpast eftirsóknarverð, ef frekari vinnsla er möguleg.

Er fullvinnsla að meðhöndla allt hráefni eða sú meðhöndlun sem er nauðsynleg þannig að neytandinn þurfi sem minnst að handleika matinn? Er fullnýting að lágmarka það sem fer forgörðum við meðhöndlun hvers hlekks í keðjunni frá báti að áti? Veltur nýtingin á notkun hráefna, flækjustigi vinnslu, notkun vinnslubúnaðar eða nýtingu á tækifærum til verðmætasköpunar? Nýting eins aðila, fyrirtækja samstæðu eða samanlagt allra þeirra sem höndla með sjávarfang hér á landi?

Eðlilega falla aukaafurðir vel að hugarheimi Íslendinga sem eru gefnir fyrir að velta aukaatriðum fyrir sér. Menn leggja áherslu á það sem skapar hverjum og einum mestar tekjur, fjölbreytt samfélag rúmar ólíkar áherslur, það sem er aukaatriði eins er aðalafurð annars. Hver og einn kappkostar að gera vel það sem hann gerir og sumir hafa náð miklum árangri. Þar sem hagtölur sýna mikil verðmæti þorsks er hægt að spyrja hvort ýsa sé aukaafurð þorsks? Líta ber á allan fisk sem hráefni fyrir verðmætar vörur. Aðstæður hverju sinni takmarka getu manna til athafna og hafa áhrif á nýtingu og verðmætasköpun. Nærtækara er að minna fólk á að taka lýsi en að taka aukaafurð.

Allt það framsýna fólk sem tekst verðmætasköpun úr vannýttum tækifærum sem liggja í því sem alla jafnan er ekki er neytt á hrós skilið fyrir hugvitssemi. Þó hægt sé að sníða klæði úr roði þá verður róið til fiskjar eftir hinum æta hluta, enn um sinn. Takmarkað magn hráefna krefst þess að mest verðmæti séu sköpuð úr hverjum fiski, þar skiptir framsýni máli.

Tækifæri til að gera betur

Þeir sem vilja reyna að eyða tíma sínum í að sannfæra fólk um að slor sé jákvætt, því það rími við þor, mega reyna það. En líklegra er að fleirum þyki slor neikvætt, kannski vegna þess það rímar við gor, því þarf það að vera á hreinu að Íslenskur sjávarútvegur er ekkert slor, heldur er íslenskur sjávarútvegur spennandi vettvangur ábyrgrar verðmætasköpunar á sjálfbæran hátt úr tækifærum sem ólíkar þarfir á fjölbreyttum mörkuðum skapa.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís.

Fréttir

Fölsuð heilbrigðisvottorð fyrir lax hjá rússneskum embættismönnum

Systurstofnun Matvælastofnunar (MAST) í Rússlandi hefur undanfarnar tvær vikur verið í úttekt á Íslandi. Starfsmenn hennar voru hér á landi fyrir hönd Tollabandalags Rússlands, Hvíta Rússlands og Kasakstan eins og greint er frá á heimasíðu MAST.

Í fréttinni frá MAST kemur m.a. fram að heilbrigðisvottorð hafi verið fölsuð í nafni stofnunarinnar og nokkurra íslenskra fyrirtækja vegna innflutnings á laxi til bandalagsþjóðanna en MAST hefur undir höndum afrit af nokkrum fjölda slíkra vottorða. Útgáfa falsaðra vottorða er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir íslenskan matvælaiðnað og mikilvægt að róið sé öllum árum að koma í veg fyrir slíkt hvort sem þessi eða önnur lönd eiga hlut að máli.

Niðurstaða heimsóknarinnar var á þá leið að íslenskur matvælaiðnaður og MAST njóta trausts frá systurstofnun MAST í umræddu tollabandalagi og að mikilvægt væri að koma á fót rafrænum samskiptum á milli stofnananna.

Matís tekur þátt í evrópsku verkefni sem snýr að fölsunum og heilindum í matvælaiðnaði en þessu verkefni er ætlað að stuðla að nýtingu rannsókna og þróunar til að tryggja falsleysi evrópskra matvæla. Verkefnið miðar að því að þróa aðferðir til að greina og hindra svik í evrópskum matvælaiðnaði og má í því samhengi nefna mikilvægi t.d. erfðarannsókna á tegundauppruna og innihaldi matvæla.

Í matvælaiðnaði líkt og annarstaðar eru heilindi forsenda þess að neytandinn treysti vörunni, en matvælaframleiðendur hafa fundið fyrir áhrifum þess þegar traust viðskiptavina er laskað vegna hneyksla, en margir muna eflaust eftir fárinu sem fylgdi þegar uppkomst að hrossakjöt hafði verið notað í stað nautakjöts í fjölmörgum tilbúnum réttum.

Nánar um verkefnið MatarHeilindi (FoodIntegrity).

Fréttir

Viltu vera hjá okkur?

Nú eru lausar skrifstofur til leigu í húsnæði Matís, Vínlandsleið 14, fyrir lítil fyrirtæki og einstaklinga, sem sjá sér hag í því að vera innan um helstu sérfræðinga landsins í matvælavinnslu og líftækni.

Húsnæðið sem er í boði eru nokkrar bjartar og góðar skrifstofur, einnig er hægt að fá aðgang að rannsóknaraðstöðu og vottuðu matvinnslurými eftir nánara samkomulagi.

Kynntu þér málin á heimasíðu Matís.

Húsnæði til leigu

Fréttir

Hve sjálfbær er þorsk- og ýsuframleiðslan í heild sinni?

Íslenskir framleiðendur telja sig vita að þorsk- og ýsuafurðir úr Norður-Atlantshafi standi öðrum framar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu, lágmörkun umhverfisáhrifa og góðum starfsháttum sem lúta að efnahagslegum og félagslegum þáttum. En getum við raunverulega lagt mat á þessi atriði? Kynntu þér málið á fundi hjá Matís 25. nóvember kl. 13.

Kröfur um sjálfbæra nýtingu og lágmörkun umhverfisáhrifa hafa aukist síðustu misserin á mikilvægum mörkuðum fyrir sjávarafurðir Íslendinga. Þessum kröfum hefur meðal annars verið svarað með umhverfisvottunum, en upplýsingar um sjálfbærni framleiðslunnar í heild hafa hins vegar verið takmarkaðar.

Þeir sem hafa haft til þess fjárhagslega burði hafa látið framkvæma vistferilsgreiningu (LCA) í virðiskeðjum sínum. Vistferilsgreining segir hins vegar einvörðungu til um umhverfisálag framleiðslunnar á afmökuðu liðnu tímabili, en segir lítið um aðra þætti sjálfbærni, eins og til dæmis félagslega- og efnahagslega sjálfbærni. Íslenskir framleiðendur telja sig vita að þorsk- og ýsuafurðir úr Norður- Atlantshafi standi öðrum framar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu, lágmörkun umhverfisáhrifa og góðum starfsháttum sem lúta að efnahagslegum og félagslegum þáttum. Þetta á sérstaklega við í samanburði við samkeppnisaðila okkar í öðrum heimsálfum. Með það að markmiði að gera smáum- og meðalstórum fyrirtækjum kleift að nýta það forskot sem þessir yfirburðir okkar í framleiðslu ættu að gefa í markaðslegum tilgangi hefur Matís, í samstarfi við fjölda fyrirtækja, samtaka og rannsóknastofnana unnið að þróun staðals sem gerir framleiðendum kleift að meta sjálfbærni þorsk- og ýsuframleiðslu sinnar á fljótlegan og einfaldan hátt. Stefnt er að því að staðallinn verði gefinn út af CEN í lok þessa árs.

Kynning verður á staðlinum og aðstoð við að nýta hann í rekstri

Þriðjudaginn 25. nóvember kl 13:00 fer fram á Matís kynning á staðlinum, aðferðafræðinni sem hann er byggður á og útskýringar á því hvernig íslenskir framleiðendur geta nýtt hann í daglegum rekstri og í markaðslegum tilgangi. Í framhaldi af fundinum mun Matís aðstoða þá framleiðendur sem áhuga hafa við innleiðingu staðalsins.

Nánari upplýsingar má finna á einblöðungi um þetta efni sem og með því að hafa samband við Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Liggja tækifæri í rekjanleika sjávarafurða?

Þann 21. október síðastliðinn stóð Matvælastofnun fyrir Norrænni ráðstefnu um rekjanleika í matvælaiðnaði. Ráðstefnan var hluti af þeim viðburðum sem tengjast formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014 og var sótt af fjölda aðila í matvælaeftirlitsgeiranum á norðurlöndunum.

Ráðstefna um rekjanleika í matvælaiðnaði

Fulltrúar Matís héldu framsögu á fundinum þar sem þeir fjölluðu um tækifærin sem felast í því að nýta rekjanleika til að auka verðmæti sjávarafurða. Nálgast má kynninguna á heimasíðu Matvælastofnunar hér.

Auk framsögu fulltrúa Matís voru fimm aðrir ræðumenn með áhugaverðar kynningar þ.e.

  • Kris de Smet frá Evrópusambandinu fjallaði um rekjanleika-, öryggi- og uppruna matvælaiðaði
  • Karen Bar Yacow frá Evrópusambandinu fjallaði um rekjanleika og svindl í matvælaiðnaði
  • Kyösti Siponen frá Evira í Finnlandi fjallaði um rekjanleika í kjötiðnaði
  • Erlendur Stefánsson frá HB Granda fjallaði um rekjanleika í fiskiðnaði

Að loknum hverjum fyrirlestri fóru fram umræður um umfjöllunarefnið þar sem komu fram áhugaverðar staðreyndir og frekari upplýsingar.

Nánari upplýsingar Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan hefst á morgun

Sjávarútvegsráðstefnan 2014 fer fram á morgun, fimmtudag, og föstudag en markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversneið af greininni til að vinna að framförum og sókn.

Fjöldi mjög góðra erinda eru á dagskránni þessa tvo daga og eru starfsmenn Matís með ein þrjú erindi og auk þess eru starfsmenn Matís með umsjón eða málstofustjórn í þremur málstofum.

Til viðbótar er Matís með bás á ráðstefnunni þar sem tæknilausnir og samstarfsverkefni verða kynnt.

Nánari upplýsingar um sjávarútvegsráðstefnuna 2014 má finna á vef hennar.

Fréttir

Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði

Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Matís, fjallar um tilurð og vöxt líftæknifyrirtækisins Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í skólanum í öðru erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember nk. kl. 12:10.

Líftæknifyrirtækið Zymetech byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Zymetech grundvallast á áratugarannsóknum við Háskóla Íslands á meltingarensímum úr þorski og hagnýtingu ensímanna í lækningavörur og snyrtivörur á markaði.
 
Fjallað verður um gildi grunnrannsókna í nýsköpunarferlinu og það hvernig djúp þekking á ensímum, örverufræði, matvælafræði, lífefnafræði, frumulíffræði og lyfjafræði nýtist beint í hagnýtri líftækni. Nýsköpunarferli líftæknifyrirtækja er langt og flókið. Alþjóðlegir markaðir líftækniafurða, eins og t.d. lækningavara, eru stórir, kröfuharðir og nýjungagjarnir. Því krefst þróun nýrra lækningavara fyrir slíka markaði sífelldrar uppbyggingar hugvits og aukinnar þekkingar. Kostnaður við einkaleyfi, skráningu lækningaafurða, erlenda ráðgjafa, markaðsmál, leyfisveitingar og fleira er mikill en nauðsynlegur fyrir alþjóðlega markaðssetningu.
 
Zymetech hefur átt gott samstarf við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús um öflun rannsóknastyrkja, menntun framhaldsnema og birtingu vísindagreina. Einnig býður samstarfið upp á störf fyrir unga vísindamenn og aðgengi að sérhæfðri aðstöðu til grunn- og læknisfræðilegra rannsókna. Mikilvægi rannsóknasjóða fyrir nýsköpun og áframhaldandi uppbyggingu hugvits innan fyrirtækja á alþjóðamarkaði verður einnig rætt. 

Boðið verður upp á hádegishressingu að erindi loknu.

Um Ágústu Guðmundsdóttur

Ágústa Guðmundsdóttir lauk doktorsprófi í örverufræði og sameindalíffræði frá örverufræðideild Virginíuháskóla í Charlottesville í Bandaríkjunum árið 1988. Hún hefur verið gistiprófessor við skólann frá árinu 1989 og hefur jafnframt stundað rannsóknir við University of California, San Francisco og New York University. Frá árinu 1993 hefur Ágústa verið prófessor í matvælaefnafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs en var dósent í sömu grein frá 1989–1993. Rannsóknir Ágústu hafa í vaxandi mæli beinst að notkun þorskensíma gegn örverusýkingum og þróun lækningavara sem byggjast meðal annars á rannsóknum hennar í samstarfi við Zymetech. Ágústa hefur verið rannsóknastjóri Zymetech um árabil en rannsóknirnar hafa verið unnar í samstarfi við Háskóla Íslands. Hún hefur ritað fjölda vísindagreina og bókakafla um rannsóknir sínar og samstarfsmanna og leiðbeint fjölda doktors- og meistaranema. Auk þess hefur hún tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum jafnt innan sem utan Háskóla Íslands. 

Um fyrirlestraröðina

Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð  Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.

Frétt þessi birtist fyrst á vefsvæði Háskóla Íslands.

Fréttir

Sigurvegarar í Íslandsmeistarakeppninni í matarhandverki 2014

Nú er fyrsta Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki yfirstaðin. Keppnin var að þessu sinni opin fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar og fór fram í Norræna húsinu 13. nóvember.

Matís og Ný norræn matvæli II stóðu að þessari keppni. 

Samhliða keppninni var haldin ráðstefna þar sem hægt var að fræðast um hvernig frændur okkar á Norðurlöndunum hafa stutt og markaðssett matarframleiðslu úr héraði. Ráðstefnan var styrkt af ÍslandsstofuIcelandairNorræna húsinu og Mjólkursamsölunni.

Keppendur voru frá öllum Norðurlöndunum og voru skráðar 110 vörur. 
Keppt var í 8 mismunandi flokkum.

Hér má sjá lista yfir vinningshafa:

Mjólkurafurðir:

Gull     Arla Unika, Sirius (ostur), Danmörk
Silfur   Den Blinde ku, Blåmandag (ostur), Noregur
Brons  Skärvångens bymejeri, Rosalina (ostur), Svíþjóð

Kjötafurðir:

Gull     Sjónarsker, Klettur (þurrkryddaður, saltaður og reyktur lærvöðvi), Ísland
Silfur   Bjarteyjarsandur, Birkireyktur bláberjavöðvi, Ísland
Brons  Bjärhus gårdsbutik, Bjärhus ölpinne (þurrkuð hrápylsa), Svíþjóð

Fiskafurðir:

Gull     Leif Sørensen, Fish chips, Færeyjar
Silfur   Sólsker, Makrílpate, Ísland
Brons  Sólsker, Heitreyktur makríll, Ísland

Ber, ávextir og grænmeti:

Gull    Útoyggjafelagið, Meadowsweet syrup, Færeyjar
Silfur  Útoyggjafelagið, Rabarbusaft, Færeyjar
Silfur  Holt og heiðar, Rabarbarasulta með vanillu, Ísland

Bakstur:

Gull   Cum Pane ekologisk bakverkstad, Fröknäcke (hrökkbrauð), Svíþjóð  

Súrdeigs bakstur:

Gull    Sandholt, Reykt graskersbrauð, Ísland
Silfur  The Coocoo’s Nest, Súrdeigsbrauð, Ísland

Nýsköpun í matarhandverki:

Gull    Örtagård Öst, Skuren marmelad, Svíþjóð
Silfur  Urta Islandica,  SPRETTUR-orku og úthalds jurtate fyrir íþrótta- og fjallgöngufólk, Ísland

Salt:

Gull    Saltverk, Birkireykt salt, Ísland
Silfur  Norður & Co, Norðursalt – íslenskt flögusalt, Ísland

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Hvert er sótspor ferskra þorskhnakka frá Íslandi?

Í seinni tíð hefur krafan um sjálfbæra nýtingu og lágmörkun umhverfisáhrifa í framleiðslu á matvælum aukist mikið á mörkuðum sem eru mikilvægir fyrir ferskfiskafurðir okkar Íslendinga.

Kröfum um sjálfbæra nýtingu fiskistofna hefur verið svarað með umhverfisvottunum, en upplýsingar um heildarumhverfisáhrif íslenskra sjávarafurða og samanburð við samkeppnisvörur hefur skort. Því tóku nokkur fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu á ferskum þorskhnökkum saman höndum og létu framkvæma vistferilsgreiningu (Life Cycle Assessment) á afurðum sínum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að umhverfisálag ferskra íslenskra þorskhnakka er tiltölulega lágt í samanburði við okkar helstu samkeppnisaðila í sjávarútvegi og mun lægra en frá kjötafurðum.

Afurðir frá fjórum framleiðendum og af sjö mismunandi fiskiskipum sem seldar eru í Bretlandi og í Sviss voru rannsakaðar og niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið annarsstaðar í heiminum. Nokkur munur er á sótspori einstakra skipa eftir stærð, veiðarfærum, kvótastöðu og útgerðarmynstri, en meðaltalsniðurstöður rannsóknarinnar sýna að sótspor ferskra þorskhnakka er um 0,8 Kg CO2 ígildi / Kg hnakkar þegar búið er að vinna aflann. Flutningur með skipi til Bretlands eða Sviss bætir frekar litlu við sótsportið, en ef afurðirnar eru fluttar með flugi getur sótsporið allt að þrefaldast, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Séu þessar niðurstöður bornar saman við niðurstöður sambærilegra rannsókna annarsstaðar frá má sjá að sótspor íslenskra þorskhnakka sem fluttir eru með flugi til Bretlands er sambærilegt á við norskan þorsk og lax sem fluttur hefur verið með sendibílum til mið-Evrópu. Séu hnakkarnir hins vegar sendir með skipi kemur íslenski fiskurinn töluvert betur út en sá norski. Séu þorskhnakkarnir bornir saman við aðra próteingjafa úr dýraríkinu má sjá að íslenskur þorskur hefur mjög takmarkað sótspor.

Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa verið gefnar út í skýrsluformi, auk þess sem gefin hefur verið út bæklingur með helstu niðurstöðum. Nálgast má skýrsluna og bæklinginn á heimasíðum Matís og AVS, en verkefnið var styrkt af AVS.

Nánari upplýsingar Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

IS