Fréttir

Þversnið af þangi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís hefur nýverið fengið úthlutað Marie Skłodowska-Curie nýdoktor styrk sem er ætlað að veita ungum vísindamönnum þá þekkingu, hæfni og alþjóðlegu reynslu sem þarf til að tryggja farsælan feril.

Mismunandi tegundir arsens í þangi – hve stórt hlutfall er eitrað?

Viðtakandi þessa nýdoktorstyrks er dr. Ásta Heiðrún Pétursdóttir sem lauk doktorsnámi á síðasta ári frá háskólanum í AberdeenSkotlandi. Styrkurinn gefur Matís einstakt tækifæri til að koma á fót nýju rannsóknarsviði og -aðstöðu á Íslandi til að greina mismunandi tegundir arsens í fæðu. Verkefnið mun einnig veita Ástu Heiðrúnu fjölbreytta vísindalega þjálfun og mikilvæga þverfaglega reynslu sem saman mun mynda heildstæðan grunn að farsælum og sjálfstæðum ferli í vísindum.  Alls bárust 8438 umsóknir um nýdoktorstyrk á styrkárinu 2014, en árangurshlutfallið var 16.8%.

Verkefnið Þversnið af þangi (e. SilhouetteOfSeaweed) snýr að því að auka öryggi neytenda með því að öðlast dýpri þekkingu á þeim arsentegundum sem finnast í þangi. Í dag er þang í auknum mæli notað sem matþörungur og/eða í snyrtivörur. Sérstök áhersla verður lögð á lífræn arsenlípíð, sem finnast í þangi, en nýlegar rannsóknir gefa vísbendingar um að lífræn arsenlípíð séu mjög eitruð1. Rannsóknir hafa fram að þessu einkum beinst að ólífrænu arseni sem er krabbameinsvaldandi (sbr. fjölmiðlaumræðuna um arsen í hrísgrjónum) en lífræn arsen hafa hingað til verið talin hættuminni en ólífrænt arsen.

Brýn þörf er að auka rannsóknir á arsenlípíðum í dag. Fá teymi með þessa sérþekkingu og rannsóknaraðstöðu eru til á heimsvísu og er þetta verkefni tækifæri fyrir Ísland til að vera leiðandi á nýju spennandi rannsóknarsviði. Verkefnið er í samstarfi við sérfræðing í rannsóknum arsenlípíða við Tækniháskólann í Danmörku (DTU). Verkefnið eflir einnig innlent samstarf þar sem verkefnið er unnið í samvinnu við íslenska efnagreiningafyrirtækið ArcticMass.

Afrakstur verkefnisins er fyrst og fremst tvíþættur. Annars vegar að byggja upp gagnagrunn um arsenlípíð í mismunandi tegundum af þangi sem safnað hefur verið á þremur ólíkum stöðum á Íslandi á mismunandi árstíma. Þetta verður mikilvægt framlag til að tryggja öryggi neytanda og auðvelda áhættumat á þangi. Hins vegar mun ýtarleg tölfræðiúrvinnsla og samanburður á gögnum um umhverfisþætti við söfnun sýnanna (s.s. seltu, næringarefni, hitastig, staðsetningu ofl) gera kleift að ákvarða kjöraðstæður til að safna þangi þegar eitruð arsen eru líkleg til að vera í lágmarki.

Nánari upplýsingar veitir dr. Ásta Heiðrún Pétursdóttir.