Fréttir

TASTE – nýting á matþörungum til bragðaukningar og saltminnkunar í matvælaframleiðslu

Í tilefni af lokum verkefnisins TASTE verður haldin opin málstofa þann 16. september á Matís um nýtingu á sjávarþörungum til bragðaukningar og saltminnkunar í matvælaframleiðslu.

Á málstofunni verða haldnir fyrirlestrar um sjávarþörunga á Íslandi og nýtingu þeirra, sjávarþörungiðnaðinn í Frakklandi, næringargildi þörunga og notkun þörunga í matvæli og aðrar neytendavörur. Málstofan fer fram á ensku. 

Dagskrá málstofunnar.

Skráning á málstofuna: vinsamlegast sendið póst á rosa@matis.is.

Nánari upplýsingar um TASTE verkefnið má finna á heimasíðu Matís og með því að hafa samband við Rósu Jónsdóttur og Þóru Valsdóttur hjá Matís.

Fréttir

Íslenskur sjávarútvegur: betri gögn – meiri verðmæti!

Allar ákvarðanir stórar og smáar eru teknar á grundvelli upplýsinga og þekkingar og því skyldi maður ætla að ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar væri stútfull af gögnum sem hægt væri að reiða sig á. Þegar leitað er svara við mörgum áleitnum spurningum um þróun og verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi þá kemur oftar en ekki í ljós að upplýsingar eru ekki til staðar eða þá að þær standast ekki skoðun.

Nú er það ekki svo að ekki sé hægt að teikna upp stóru myndina, afli allra tegunda er þekkt stærð og heildarútflutningsverðmætin liggja einnig fyrir, en þegar meta á t.d. þróun og nýsköpun einstakra tegunda eða afurða þá er oft erfiðara um vik.

Lögð hefur verið mikil áhersla á að skrá allan afla og er því að sjálfsögðu fylgt vel eftir, en þegar kemur að útflutningi þá tekur við annað kerfi sem byggist á skráningu útflutnings eftir tollskrárnúmerum.

Tollskránni er ætlað að vera það kerfi sem á að ná utan um allar afurðir sem fluttar eru til og frá landinu. Það kerfi sem notað er hér á landi er byggt á samræmdu alþjóðlegu númera- og flokkunarkerfi sem yfir 200 þjóðir nýta sér, þannig að í grunninn er t.d. þorskur með sama númer víðast hvar í heiminum. Þetta á við um fyrstu sex tölustafina, síðan geta þjóðir lengt númerið og bætt við ítarlegri greiningu afurða. Hér á landi hefur einungis verið hægt að bæta við tveimur tölustöfum vegna takmarkaðrar getu gagnagrunna sem eru í notkun.

Upplýsingarnar sem útflytjendur setja á útflutningspappíra og skila til Tollsins, eru síðan grunnurinn að birtingu gagna hjá Hagstofunni, þannig að ef útflytjendur eru að kasta til hendinni við upplýsingagjöfina þá verður minna mark á takandi þeim upplýsingum sem Hagstofan birtir. Þar sem útflutningur er ekki tilefni gjalda hér á landi þá gefur það auga leið að eftirlit með réttri skráningu er takmarkað, það á sér í raun ekki stað fyrr en í innflutningslandi því þá þarf varan að tengjast réttu tollnúmeri þess lands.

Þegar verið er að rýna tölur um útflutning þá er fyrsta stopp að skoða vörulýsinguna og finna út hvað er átt við eða hvað ekki er átt við, það getur reynst mjög erfitt að fá glögga mynd af þeim afurðum sem skráðar eru í tiltekin tollskrárnúmer. Vörulýsingar er oft á tíðum mjög opnar og geta átt við mismunandi afurðir, en yfir 100 hugtök eru notuð til að lýsa sjávarafurðum í tollskránni og er hvergi að finna nánari skýringar á þeim hugtökum.

Það er hægt að tína til mýmörg dæmi um misvísandi vörulýsingar og er greinilegt að nokkur skortur er á vöruþekkingu við samningu þeirra, en hafa verður þó í huga að starfsmenn Tollsins hafa ýmislegt annað á sinni könnu en að semja vörulýsingar fyrir sjávarafurðir. Tollskrárnúmer fyrir sjávarfang eru örfá hundruð meðan tollskráin í heild hefur að geyma þúsundir annarra vörulýsinga, því er mikilvægt að sjávarútvegurinn sé með í ráðum þegar svona mikilvægur gagnagrunnur er skipulagður.

Það er jú sjávarútvegurinn sem nýtur fyrst og fremst góðs af góðum og ítarlegum upplýsingum um hvernig til tekst með verðmætasköpun og nýtingu sjávarfangs, því í upplýsingunum verða tækifærin sýnileg.

Þrátt fyrir töluverða endurskoðun tollskrárinnar 2012 og fjölgun númera þá er engan veginn hægt að greina með nokkrum hætti hver nýting einstakra tegunda er, sem sést m.a. af því að fjórða verðmætasta tegundin sem flutt er frá Íslandi er „annar fiskur“ eða „ýmsar tegundir“ það eru afurðir þar sem engin sérstök fisktegund er nefnd í vörulýsingu. Þessi „annar fiskur“ skilar um 10% af heildarverðmætum útfluttra sjávarafurða.

Það eru á floti fullyrðingar um svo og svo mikla nýtingu einstakra tegunda og eru menn að berja sér á brjóst og fullyrða að við séu öðrum þjóðum fremri. En það er ekki hægt að halda neinu slíku fram nema að fyrir hendi liggi betri upplýsingar um allar afurðirnar. Meðan ólíkum afurðum er safnað saman í einstök tollskrárnúmer þá er ekki hægt að reikna til baka og segja hver nýting aflans er.

Þeir sem hafa komið nálægt vinnslu sjávarafurða vita að það skiptir máli að vita hvort fiskur er með eða án hauss, slægður eða óslægður, flök með roði og beinum eða roðlaus og beinlaus o.s.frv., ef þessar upplýsingar eru ekki fyrir hendi þá er útilokað að reikna út heildarnýtingu einstakra tegunda.

Matís hefur verið í samstarfsverkefni með Tollstjóraembættinu, Hagstofu Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssambandi fiskeldisstöðva, Icelandic og Iceland Seafood, þar sem farið hefur verið yfir þessi máli. Verkefnið var styrkt af AVS sjóðnum. Skýrsluna „Aukin verðmæti gagna“ má finna hér (best að skoða í Acrobat Reader).

Afrakstur verkefnisins er samantekt um hver staðan er og hvernig núverandi upplýsingakerfi er ekki að ná nægjanleg vel utan um þessi gögn sem til verða. Einnig er sett fram tillaga að úrbótum og hvernig mætti ná fram mjög ítarlegum upplýsingum um allar tegundir, verðmæti og nýtingu, en til þess að ná slíku fram þá þarf að samræma vörulýsingar og tryggja það að sami skilningur sé um hugtökin sem notuð eru. Nú liggja fyrir hugtakaskýringar fyrir vörulýsingarnar og eru þær með fjölda mynda til að sýna betur hvað átt er við.

Þessi nýja tillaga mun einfalda alla skráningu og getur í raun gert tilbúning séríslenskra tollskrárnúmera fyrir sjávarfang algerlega óþarfan, en samt boðið upp á mun ítarlegri upplýsingar.

Þá verður hægt að svara nánast öllum hugsanlegum spurningum varðandi verðmætasköpun og nýtingu sjávarfangs og þar með taka skynsamlegar ákvarðanir, byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum, um allt sem viðkemur nýtingu auðlindarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Mjög vel sóttur fundur um loðnu

Nú stendur yfir ráðstefna á Akureyri um loðnu og loðnuveiðar en tilefnið er að hálf öld er liðin frá því að Íslendingar hófu hagnýtingu á loðnu. Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís, heldur erindi á ráðstefnunni og ber erindi Sigurjóns heitið „Tækniþróun í fiskimjölsiðnaði“.

Markmið ráðstefnunnar er að ná heildstæðu yfirliti um nýtingu á loðnu og sýna hvað hefur áunnist á fimmtíu árum. Farið verður yfir stöðu stofnsins, þróun iðnaðar, helstu afurðir og markaði, efnahagslegt mikilvægi loðnu og möguleg sóknarfæri.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og tengiliði má finna á vef Háskólans á Akureyri og á vef Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Sigurjón Arason.

Fréttir

Nautnir norðursins – sýningar hefjast í kvöld á RÚV

Sjónvarpsþáttaröðin „Nautnir norðursins“ fer í sýningu á Ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20:05. Matís hefur unnið að gerð þáttana í samstarfi við Sagafilm. Markmiðið með þáttunum er að gefa jákvæða ímynd af matarmenningu og efla matartengda ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi.

Í þáttunum verður fornum og hefðbundnum matarvenjum á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi gerð skil. Matreiðslumenn frá hverju landi fyrir sig munu jafnframt sýna nýjungar sem þeir framreiða úr staðbundnu hráefni. Vonast er til þess að þættirnir kveiki áhuga almennings og framleiðenda á að prófa sig áfram með nýtingu hráefna á nýstárlegan hátt sem og að nýta hráefni og aukaafurðir sem hafa hingað til ekki verið nýtt.

Norræna eldhúsið hefur vakið talsverða athygli á undanförnum árum og matartengd ferðaþjónusta hefur aukist, ekki síst vegna þess hversu sterk tengsl eru við hefðina þegar staðbundnar fæðu er neytt. Vinsældir nýnorrænnar matarhefðar hafa sannað sig í alþjóðlegu matreiðslukeppninni Bocuse d’Or þar sem norrænu þjóðirnar hafa verið í efstu sætunum síðan árið 2008. Ennfremur var haldin mjög áhugaverð og vel sótt ráðstefna á Selfossi þann 25. júní sl. þar sem 30 nýjar vörur frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi voru kynntar. Ráðstefnan var hluti af formennsku Íslands í norræna ráðherraráðinu á þessu ári. Nánar um verkefnið má finna á vef Nordtic.

Þessi mikli áhugi á norrænni matarhefð gefur framleiðendum tækifæri til að koma vörum sínum á framfæri utan heimalandsins og styrkja þar með matarímynd landsins út á við. Þjóðir á borð við Japan, Ítalíu, Frakkaland og Spán hafa skapað einkar jákvæða ímynd af matarmenningu sinni sem hefur á sama tíma styrkt útflutning matvæla og gert löndin að eftirsóttum ferðamannastöðum. Með því að koma matvælum frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum á framfæri mætti stuðla að margþættri virðisaukningu bæði í ferðamanna- og fæðuiðnaði.

Í þáttunum verður villibráð, sjávarfangi, þangi, kryddjurtum o.fl. staðbundnum hráefnum gerð skil. Þá verður einnig fjallað um fornar geymsluaðferðir og hvernig hægt er að nýta þær sem og hráefnið með nýstárlegum hætti.

Alls voru gerðir 8 þættir, tveir helgaðir hverju landi. Þættirnir verða sýndir í Noregi, Finnlandi og Færeyjum, fleiri lönd hafa þegar sýnt þáttunum áhuga og má því vænta frekari dreifingar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Facebooksíða þáttarins

Fréttir

Rétt vara á réttan markað

QualiFish er norrænt samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að auka á þekkingu og þróa aðferðir, ferla og tækni sem stuðlað geti að enn frekari sjálfbærni og arðsemi veiða og vinnslu bolfiskafurða úr N-Atlantshafi.

Verkefnið sem hófst á vormánuðum er stýrt af norsku rannsóknarstofnuninni SINTEF og fjármagnað af Norska Rannsóknarráðinu (NRC). Auk Matís koma að QualiFish verkefninu þverfaglegur hópur sem samanstendur af útgerðum, fiskvinnslum, dreifingar- og markaðsfyrirtækjum, tækjaframleiðendum og rannsóknaraðilum.. Verkefninu er ætlað að rannsaka og þróa aðferðir sem framleiðendur geta nýtt sér til að mæta þörfum markaða með hágæða vörum allt árið um kring, en helstu áherslur verkefnisins eru meðal annars gæði, matvælaöryggi, tæknilausnir í vinnsluferlum og bestun í framleiðslu með tilliti til markaðs- og efnahagslegra sjónarmiða. Verkefnið er skipulagt í fjórum verkþáttum, hver með áherslu á tilteknum viðfangsefnum er viðkoma bolfisksiðnaðinum. Matís fer þar með forystu í verkþætti sem lýtur að því að þróa nýja/endurbæta tækni við uppþíðingu á sjófrystu hráefni; og er þátttakandi í verkþætti sem snýr að því að þróa nýja markaðsmiðaða tækni fyrir aðgreiningu á hráefni og afurðum, sem tryggir „rétta vöru á réttan markað“.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdottir, fagstjóri hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um verkefnið á heimasíðu QualiFish (www.qualifish.no).

Fréttir

Matís skipuleggur ráðstefnu á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi

Matís, ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Háskóla Íslands og Mercator Media, skipuleggur mjög áhugaverða ráðstefnu sem fram fer fyrsta dag Sjávarútvegssýningarinnar (IceFish) í Kópavogi en ráðstefnan fer fram dagana 25.-27. september nk.

Matís hefur tekið þátt í öllum IceFish sýningunum frá stofnun Matís árið 2007. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og þar koma saman allir helstu aðilarnir í sjávarútvegi og greinum tengdum sjávarútvegi hér á landi sem og frá öðrum löndum. Sýningin hefur stækkað jafnt og þétt frá upphafi árið 1984 og er það eftirtektarvert að þátttakendum og gestum fjölgaði verulega árin 2008 og 2011 og það þrátt fyrir margskonar þrengingar hér á landi.

Ráðstefnan sem Matís tekur þátt í að skipuleggja mun fjalla gaumgæfilega um hvernig við getum bætt okkur enn frekar þegar kemur að fullnýtingu sjávarfangs. Íslendingar standa mjög framarlega í fullnýtingu sjávarafla og margir horfa til Íslendinga þegar kemur að því að læra réttu handtökin ef svo má á orði komast. Þegar talið kemur til dæmis að þorski og fullnýtingu alls hráefnis sem kemur að landi þá ber nafn Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings hjá Matís, jafnan á góma enda fáir ef nokkur með jafn mikla reynslu og þekkingu þegar kemur að bættri nýtingu þorsks og annarra fisktegunda og spannar starf hans með íslenskum sjávarútvegi meira en 30 ár.

Sigurjón mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni sem og dr. Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís. Fleiri mjög áhugaverðir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni og má þar nefna Friðrik Sigurðsson ráðgjafa sem lengi hefur starfað í sjávarútveginum í Noregi, Hólmfríði Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Iceprotein á Sauðárkróki, en Hólmfríður starfaði um árabil í starfsstöð Matís á Króknum, og Ingólfi Arnarsyni, framkvæmdastjóra Skagans.

Nánar um ráðstefnuna má finna á heimsíðunni www.icefishconference.com

Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Viltu smakka söl og beltisþara?

Um helgina fer fram matarmarkaður Búrsins í Hörpunni, þar gefst tækifæri til að smakka söl, beltisþara og fleiri gómsæta þörunga. Þörungar eru fullir af steinefnum, vítamínum og öðrum heilsusamlegum næringarefnum sem gerir þá  næringarlega að góðri viðbót við allan mat. Þrátt fyrir að gífurlegt magn þeirra, rétt innan seilingar, þá eru þörungar vannýtt hráefni – en það á eftir að breytast segja fróðir menn. Þörungar gera allan mat áhugaverðari!

Þörungar vaxa meðfram ströndum okkar. Þeir teygja sig upp, niður og þversum og safna í sig sjávarsöltum og steinefnum. Þeir gefa fiskum, skeldýrum og örðum sjávarlífverum líf og vernd en hafa átt takmarkaðan sess í matarræði okkar. Margir spá því að í náinni framtíð verði sjávarþörungar hversdagsmatur á Norðurlöndunum. Þá má nota á margvíslegan hátt til að auka næringargildi matar samhliða því að styðja við baráttu Vesturlanda gegn ofþyngd sem og afleiðingu vannæringar þar sem hana er að finna.

Bakað bóluþang

Þörunga má matreiða á fjölbreyttan máta. Gott er að blanda þörung um í smoothie eða steikja þá lítillega með sesamfræjum auk þess sem gott getur verið að mala þá og sáldra síðan yfir ýmsa rétti. Bóluþang er frábært snakk eftir smá tíma í ofni með örlítilli olíu. Það má steikja kjúkling í eldföstu móti með smá þörungum í vatninu, til að gefa bragð. Í eftirréttum með sýrðum rjóma er hægt að nota sumar tegundir þörunga sem hleypiefni s.s. marínkjarna. Þörunga má einnig nota sem bragðauka í súpur og salöt, þurrkaða og skorna í smá bita. Þá er gott að setja þörunga í brauð, til dæmis söl. Það er því bara spurning um að prófa sig áfram. Fara sjálf að safna þörungum eða kaupa úti í næstu verslun. Vöruúrvalið er sífellt að verða betra og uppskriftir má finna í matreiðslubókum eða á netinu.

Eins og með önnur matvæli, þá er meðalhófið best. Það er mikilvægt að tryggja að þörungar séu skornir upp á hreinum svæðum og sumar tegundir af þörungum eru það ríkar af joði að eingöngu örlítið magn þarf af þeim til að fara yfir ráðlagða neyslu. Með það á bak við eyrað, eru þörungar frábært hráefni til að gera matarræði okkar heilsusamlegra.    

Heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið

Ný Norræn Matvæli, sem er verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, hefur lagt áherslu á nýtingarmöguleika þar sem hugmyndin er að nýta matþörunga sem heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið. Nú í haust verða viðburðir á öllum Norðurlöndunum þar sem þemað er sjávarþörungar sem hollur og bragðgóður matur (sjá nánar hér). Markmiðið er að kynna hráefnið og hvetja almenning til að nýta þörunga til matar.

Á Matarmarkaði Búrsins helgina 30 – 31 ágúst verður sérstök kynning og sala á matþörungum. Helstu framleiðendur verða á staðnum til að kynna vörur sínar og spyrja spjörunum úr. Það er því um að gera að skella sér og kynnast  þessu skemmtilega hráefni.

Fréttir

Eldisfiskur gæti mettað heiminn

Sífellt vaxandi fólksfjöldi felur í sér miklar áskornir sem FAO (Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) vekur athygli á í nýjustu útgáfu SOFIA. Talið er að mannfjöldi heimsins muni nema 9.6 milljörðum árið 2050. Nú þegar eru ýmis framleiðslusvæði komin að þenslumörkum, svo finna þarf nýjar leiðir til svara fæðuþörf vaxandi heims.

Í leiðara nýjustu útgáfu SOFIA (The State of World Fisheries and Aquaculture) sem er viðamesta rit FAO leggur José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri FAO áherslu á mikilvægi þess að finna leiðir til að mæta hungursneyð í heiminum, án þess að það komi niður á gæðum matvæla eða stuðli að ofnýtingu auðlinda. Horfir hann hýru auga til þeirra möguleika sem liggja í fiskeldi og fram kemur að möguleiki sé á að fiskeldi geti spilað stórt hlutverk í að útrýma hungri, stuðla að bættri heilsu og minnka fátækt í heiminum.

Talið er að 800 milljónir manna búi nú þegar við hungursneyð og líkur eru á að sú tala hækki með auknum fólksfjölda. Landsvæði sem hafa verið notuð til ræktunar eru sumstaðar komin að þolmörkum og því er mikilvægt að efla sjávarútveginn og nýta þau tækifæri sem þar eru. Fiskneysla hefur aukist verulega á síðustu árum, en hún hefur verið einkar mikilvæg uppspretta próteina og næringarefna í fátækari löndum heims.

Blár hagvöxtur

Sú mikla aukning sem hefur verið í fiskeldi á síðustu árum hefur víða skapað atvinnu á svæðum sem hafa einkennst af fátækt og atvinnuleysi en í þróunarlöndum er fiskur oft ríflega helmingur útflutningsverðmæta. Á Íslandi hefur fiskeldi ýtt undir jákvæða byggðarþróun á svæðum sem hafa búið við fólksfækkun á undanförnum árum.

Í leiðaranum leggur da Silva jafnframt áherslu á að þrátt fyrir að stefnt sé að aukinni fæðuframleiðslu megi það ekki koma niður á auðlindum jarðar. Heilsa og fæða mannskyns sé háð heilsu jarðar. Því þurfi að efla sjálfbærar veiðar og fiskeldi og stuðla umfram allt að bláum hagvexti.

Hann segir bláan hagvöxtur fást með því að efla sjálfbæra notkun og varðveislu endurnýtanlegra vatnaauðlinda með hagfræði-, félags- og umhverfisvænum aðferðum. Blár hagvöxtur miðar að því að jafna og samrýma þau forgangsatriði sem stuðla hvortveggja að vexti sem og varðveislu og tryggja ávinning fyrir samfélög sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi með því að viðhalda jafnvægi milli handverks-, iðnaðarveiða og fiskeldis.

Íslendingar eygja tækifæri í fiskeldi

Fiskeldi er sú fæðuframleiðslu grein sem hefur vaxið mest á síðustu árum og vex um þessar mundir hraðar en fólksfjölgun í heiminum. Fiskur framleiddur í fiskeldi er þegar orðið um helmingur þess fisks sem neytt er í heiminum og áætlað er að hlutur fiskeldis verið orðinn 62% árið 2030.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein hérlendis. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðstjóri hjá Matís telur þó að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis. Hann bendir á að Íslendingar veiði um 1-2% af veiddum fisk í heiminum en ali einungis 0,01% af heildar fiskframleiðslu.

„Hér eru vissulega tækifæri til aukningar en leita þarf leiða til að hámarka arðsemi fiskeldis til dæmis með því að þróa ódýrara fóður án þess að það komi niður á gæðum hráefnisins.“

Arnljótur bendir þó á að Íslendingar ættu frekar að horfa til gæða frekar en magns og stefna þar með á dýrari markaði. Lífhagkerfið við strendur Íslands sé viðkvæmt og varúðar þurfi að gæta svo það spillist ekki.

Arnljótur telur að þegar fram í sækir megi ætla að fiskeldi á vestfjörðum muni framleiða jafn mikinn ef ekki meiri fisk en veiddur eru á svæðinu í dag. Ísland getur spilað stórt hlutverk í baráttuni gegn hungri, ekki bara sem fæðuframleiðandi heldur einnig með rannsóknum og nýsköpun.

Fréttir

Brúin eflir hugvit og hæfni

Frá árinu 2012 hefur Matís lagt grunn að auknu samstarfi við innlendar og erlendar menntastofnanir, sem hefur skilað sér í fjölbreyttum samstarfsverkefnum.

Nú þegar styttist í að sumarfríi háskólanna ljúki er ekki úr vegi að taka Guðjón Þorkelsson sviðssjóra hjá Matís á spjall.

„Matís hefur átt í farsælu samstarfi við menntastofnanir á liðnum árum, hér starfar mikið af ákaflega góðum vísindamönnum og í sérfræðingum á sviði matvælafræða sem hafa komið að kennslu í háskólum hérlendis og erlendis. Árið 2012 var tekin ákvörðun um að styrkja þetta samstarf sem við teljum að hafi þegar stuðlað að verðmætasköpun í matvælaiðnaðinum hér á landi. Við leggjum mikla áherslu á starfsþjálfun nemenda og teljum okkur þannig vera að undirbúa einstaklinga til að takast á við raunveruleg störf strax að loknu námi.“

„Við teljum okkur jafnframt vera að fylgja eftir áherslum um rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis. Matvælafræðin er ört vaxandi grein og í ljósi þess hversu víðtækt hún snertir neytandann verða kröfur um framúrskarandi menntun og þekkingu háværari með degi hverjum. Við teljum að með því að tengja saman menntun og starfsþjálfun verði Matís að brú sem tengi saman háskólana og atvinnulífið. En það er einkar mikilvægt að þessir aðilar vinni saman og nýti þekkingu hvors um sig til framþróunar.“

„Önnur ástæða þess að Matís leggur áherslu á samstarf við menntastofnanir er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Auk þess skiptir það Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að vera með fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi.“

„Starfsfólk Matís hefur haldið fyrirlestra og leiðbeint í verklegum æfingum í 10 BS námskeiðum, 4 námskeiðum sameiginlegum fyrir BS og MS nema og 10 MS námskeiðum í matvæla- og næringarfræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið,“ segir Guðjón.

„Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við háskólasamfélagið að kennslu og þjálfun nemenda. Þá leitast Matís eftir því að tengja starfsemi sína og samstarfsaðila við fyrirtæki, rannsóknasetur og starfsstöðvar utan Reykjavíkur.“

„Á þessu ári höfum við tekið enn fleiri skref í eflingu matvælafræðináms hér á landi með nýjum samstarfssamningum við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Á Akureyri verður lögð áhersla á frekari eflingu rannsókna og menntunar í sjávarútvegsfræðum, matvælafræðum og líftækni auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna, með það að markmiði að vera í fararbroddi á Íslandi á þeim fræðasviðum sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni. Samstarf Matís og Bifrastar felst í uppbyggingu á nýrri námslínu í matvælarekstrarfræði og mun Matís að mestu sjá um kennslu og uppbyggingu námsgreina sem tengjast meðferð, innihaldi og framleiðslu matvæla.“

Fréttir

Matís tekur þátt í menningarnótt

Á Menningarnótt þann 23. ágúst næst komandi mun Matís standa fyrir kynningu á nýjum matvælum sem gestum menningarnætur býðst að smakka. Nýjungarnar eru afrakstur nýsköpunar- og vöruþróunar verkefnisins „Nýsköpun í norræna lífhagkerfinu“.

Verkefnið er eitt af megin verkefnum „Nordbio“ sem er hluti af formennskuáætlun Íslands, en Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið fjallar um nýsköpun í lífhagkerfinu þ.m.t. matvælaframleiðslu og framleiðslu á lífmassa með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Fyrsti hluti verkefnisins fólst í að aðstoða matvælaframleiðendur við þróun á nýjum matvörum. Matís auglýsti í vor eftir hugmyndum að nýsköpun í matvælavinnslu á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Mikill áhugi skilaði sér í að tæplega 80 frumkvöðlar sóttu um aðstoð og fengu um 40 þeirra sérfræðiaðstoð m.a. frá Matís við vöruþróun. 

Á Menningarnótt gefst gestum og gangandi tækifæri til að smakka á framleiðslu tveggja íslenskra frumkvöðla og kynna sér norrænt samstarf, sem utanríkisráðuneytið sinnir:

Perlubygg (úrvalsbygg í fína matseld) frá Móðir Jörð á Vallanesi. Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari ætlar að matbúa girnilegan rétt úr perlubygginu.

BE juicy (lífrænt vottað duft úr káli til safagerðar) hægt verður að smakka BE juicy boozt.  

 Kynningin verður haldin í utanríkisráðuneytinu, Rauðarárstíg 25, 4. hæð, milli klukkan 14:00 og 17:00.

Verkefnið „Nýsköpun í norræna lífhagkerfinu“, skilaði af sér 30 vörutegundum en verkefnið miðaði að því að  þróa nýjar matvörur eða matvælatengdar vörur í Grænalandi, Færeyjum og á Íslandi. Nýsköpunarverkefni af þessari gerð styrkja svæðisbundinn hagvöxt og auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Upplýsingar um allar vörurnar má nálgast á vefsetri Nordtic.

IS