Fréttir

Gagnasöfnun um öryggi matvæla er mikilvæg íslenska lífhagkerfinu

Rannsóknastofa Matís, sem er sjálfstæð rekstrareining innan sviðsins Mælingar og miðlun, sinnir alþjóðlega faggildri mælingarþjónustu og á hverju ári eru þúsundir sýna frá opinberum eftirlitsaðilum og aðilum úr atvinnulífinu rannsökuð fyrir efna- og örverufræðilegum þáttum. Mælingar snúa að gæða og öryggismælingum fyrir m.a. matvæla-, fóður-, lyfja- og líftækniiðnað auk mælinga sem tengjast heilbrigðis- og umhverfismálum.

Rannsóknastofan er tilvísunarrannsóknarstofa Íslands á sviði örverumælinga í skelfiski og mælinga á Salmonella í matvælum. Það er Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sem tilnefnir tilvísunarrannsóknastofur sem starfa í samstarfi við aðrar tilvísunarrannsóknastofur á Evrópska efnahagssvæðinu. Lögbundið hlutverk og helstu skyldur tilvísunarrannsóknastofa eru margvísleg og felast m.a. í samræmingu á starfsemi tilnefndra opinberra rannsókna í hverju landi. Þetta felur í sér m.a. ráðgjöf og leiðbeiningar um mæliaðferðir, þátttöku í þróun og sannprófun mæliaðferða og skipulagningu samanburðarprófana.  Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að rannsóknastofan verði einnig tilnefnd sem tilvísunarrannsóknastofa á sviði sjúkdómsvaldandi E. coli baktería, Listeria monocytogenes og Staphylococcus aureus á árinu 2015.

Rannsóknarstofan er ein sú fullkomnasta á landinu og getur mætt margvíslegum þörfum viðskiptamanna með breiðu umfangi faggildra mæliaðferða á mörgum mismunandi sviðum. Rannsóknastofan er einnig mjög vel tengd við margar erlendar rannsóknastofur og getur haft milligöngu með mælingar sem ekki er hægt að gera á Íslandi á hagstæðum kjörum og hraðri afgreiðslu.

Sviðið býr yfir víðtækum gagnagrunni með mælingarniðurstöðum sem gagnast viðskiptavinum við greiningu og úrvinnslu sinna gagna en ekki síður rannsakendum og opinberum eftirlitsaðilum þar sem er gagnagrunnurinn er mikilvæg langtíma heimild með marga úrvinnslumöguleika á mæliniðurstöðum og öðrum hliðstæðum gögnum.

Sú gagnasöfnun sem á sér stað á sviðinu er einkar mikilvæg fyrir lífhagkerfið þar sem reynt er að koma í veg fyrir neyslu manna og dýra á skaðlegum efnum og örverum. Nýjar hugmyndir um fullvinnslu afurða og sjálfbærni fela í sér ákveðna áhættu og áskoranir, þar sem unnið er með ný hráefni sem áður flokkuðust sem úrgangur eða voru alls ekki nýtt. Í því samhengi er margt óljóst og sérstaklega þegar kröfur um sjálfbæra og lífræna framleiðslu er um að ræða þar sem tækifæri til að hreinsa matvælin eða beita rotvörnum eru takmarkaðri. Þá þarfnast nýjar fæðutegundir rannsókna og gagnaupplýsinga þar sem þær geta hugsanlega innihaldið áður óþekkt eiturefni auk þess sem sá möguleiki er fyrir hendi að við blöndun á ólíkum hráefnum verði til óheilnæm vara.

Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson, sviðsstjóri.

Fréttir

Íslenskir munkar og nunnur frjálsleg í matarvali

Nú í sumar hefur Matís í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands rannsakað hvað var hugsanlega borðað í íslenskum klaustrum. Rannsóknin snýst um að skoða matarleifar í leirkersbrotum. Þá er einnig í gangi annað samstarfsverkefni þar sem sýni úr fornleifauppgrefti eru notuð til þess að athuga mataræði landnámsmanna. 

Mataræði innan íslenskra klaustra, sem voru í kringum 11 talsins og starfrækt allt frá 1133 til siðaskipta, er rannsóknarefni sem lítið hefur verið rannsakað og því er vitneskja okkar um matarvenjur þar af skornum skammti. Til að átta sig á því hvað var borðað í íslenskum klaustrum hafa leirbrot úr ílátum frá Skriðuklaustri og Kirkjubæjarklaustri verið til skoðunar. Dr. Björn Viðar Aðalbjörnsson sérfræðingur hjá Matís leiðir verkefnið fyrir hönd Matís en Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands. 

Björn segir rannsóknina einungis skoða leirbrot úr matarílátum  sem fengin hafa verið á Þjóðminjasafninu og hafi fundist í fornleifauppgrefti, ekki séu aðrar heimildir nýttar. Hér sé um tæknilega rannsókn að ræða. Verkefni er unnið af Mariu Katrínu Naumovskaya nemanda við Háskóla Íslands, sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóð Námsmanna fyrir verkefninu.

„Lítil leirkersbrot eru mulin niður og fitusýrur greindar í gasgreini og massagreini. Hlutföll fitusýra geta gefið upp hvaða matur var eldaður og borið fram í áhöldunum og benda fyrstu niðurstöður til þess að mataræði munka og nunna hérlendis hafi verið fjölbreytt og mögulega fjölbreyttara en reglur um mataræði munka og nunna sögðu til um á þeim tíma,“ segir Björn. 

Uppgröfturinn í Vogi

„Minna er vitað um matarræði landnámsmann. Verkefnið hefur stækkað og hafnar eru rannsóknir á sýnum úr fornleifarannsókninni í Vogi í Höfnum, sem Fornleifafræðistofan leiðir undir stjórn Dr. Bjarna F. Einarssonar. Jarðvegssýni hafa verið tekin og fituefni greind í þeim líkt og í fyrra verkefninu.  Niðurstöður hafa gefið betri sýn á matarræði landnámsmanna og einnig gefið vísbendingar um hlutverk mannvirkis sem var áður ráðgáta.“

Fréttir

Bíttu í borgfirskan bita á Bræðslunni

Um helgina fer tónlistarhátíðin Bræðslan fram á Borgarfirði eystri, þar sem mat og menningu verður blandað saman á skemmtilegan máta í tengslum við verkefnið „Matur og menning á Borgarfirði eystri“. 

Markmiðið verkefnisins var að auka framboð veitinga á hátíðinni og styrkja um leið framgöngu borgfirskra matvæla og fengu smáframleiðendur á svæðinu stuðning við matvælasköpun frá Matís í tengslum við verkefnið.

Á hátíðinni mun gestum gefast mörg tækifæri til að prófa nýjar og gamlar uppskriftir af borgfirskum mat. Gestir á tjaldstæði verða boðnir velkomnir með heimagerðum lummum á föstudeginum og á meðan Pollapönk spilar verður krökkum boðið að koma og grilla sér marglitt „pollabrauð“. Landsátakið „Fiskídag“ (www.fiskidag.is) ásamt Fiskverkun Kalla Sveins munu standa fyrir fiskismakki við útimarkað Fjarðarborgar á laugardeginum. Að venju verður svo hægt að gæða sér á allskyns góðum réttum hjá Álfakaffi, Álfheimum og „Já sæll“ í Fjarðarborg.

Á laugardag verður einnig opinn markaður þar sem heimamenn kynna m.a. ýmiskonar matarhandverk og bjóða til sölu.

Verkefnið er samstarf Matís, Bræðslunnar, Framfarafélags Borgarfjarðar, Fiskverkunar Kalla Sveins ehf. og veitingaaðila á Borgarfirði eystri. Gestir Bræðslunnar eru sérstaklega hvattir til þess að kynna sér þessa nýbreytni og njóta þeirra matvæla sem kynnt verða á hátíðinni.  

Dagskrá Bræðslunnar 

Fréttir

Heiðarleiki Evrópskra matvælaframleiðanda í skoðun

Evrópu verkefnið MatarHeilindi hófst í árs byrjun, en því er ætlað að stuðla að nýtingu rannsókna og þróunar til að tryggja falsleysi evrópskra matvæla. Matís tekur þátt í verkefninu sem miðar að því að þróa aðferðir til að greina og hindra svik í evrópskum matvælaiðnaði.

Í matvælaiðnaði líkt og annarstaðar eru heilindi forsenda þess að neytandinn treysti vörunni, en matvælaframleiðendur hafa fundið fyrir áhrifum þess þegar traust viðskiptavina er laskað vegna hneyksla, en margir muna eflaust eftir fárinu sem fylgdi þegar uppkomst að hrossakjöt hafði verið notað í stað nautakjöts í fjölmörgum tilbúnum réttum.  Við athugun hér á landi hefur komið í ljós að innihaldslýsingar eru ekki alltaf réttar, t.d. greindist ekki kjöt í nautabökum sem framleiddar voru hérlendis.

Öryggi, áreiðanleiki og gæði

Verkefninu er stýrt af Fera, bresku matvæla- og umhverfis rannsóknastofnuninni og nefnist FoodIntegrity eða MatarHeilindi. Með verkefninu á að tryggja að matvæli séu samkvæmt innihaldslýsingu og séu í fullkomnu ástandi þ.e.a.s. að kaupendur fái örugglega afhenta þá vöru sem þeir telja sig vera að kaupa. Heilindi og traust eru lykilatriði verðmætaaukingar vöru. Með því að tryggja að neytandinn treysti vörunni eru framleiðendur og aðrir hagsmunaaðilar að styrkja stöðu sína á markaðinum. 

Heiðarleika evrópskra matvæla er stöðugt ógnað af sviksamlegum merkingum eða eftirlíkingum, þar sem iðnaður með falsaðar matvörur fer sífellt stækkandi. Niðurstöðum verkefninsins er ætlað að vera þungamiðja í alþjóðlegri samhæfingu um nýtingu rannsókna og þróunar til að tryggja heiðarleika evrópskra matvæla meðþátttöku kjarnahóps verkefnisins.

Spornað gegn vörusvikum

MatarHeilindi samræma á rökrænan hátt ferli innan heildstæðs ramma til að tryggja matarframboð og auðvelda upplýsingamiðlun milli hagsmunaaðila um heilindi matvæla. Nýta á fyrirliggjandi gagnagrunna með samræmingu og innleiða á aðferðafræði sem hæfir tilganginum, að takast á við þarfir hagsmunaaðila greina og fást við eyður sem framkomnar rannsóknaniðurstöður hafa skilið eftir.

Koma á upp sjálfbæru fyrirkomulagi um tímanlegar viðvaranir um hugsanleg vörusvik til að sporna við vaxandi áhættu á hneykslum í kjölfar svika. Efna á til hnattræns samstarfs hagsmunaaðila til að tryggja hagnýtingu niðurstaðna verkefnisins. Bætt sannprófanaferli verða þróuð fyrir gæðastjórnun hagsmunaaðila í matvælaiðnaði, tilviksrannsóknir verkefnisins byggjast á þátttöku framleiðenda sjávarfangs, drykkja og ólívuolíu. Unnin verður rannsókn á viðhorfi neytenda í ljósi falsana í evrópskum matvælaiðnaði. Ætlunin er að koma á fót óháðum vettvangi fyrir staðfestingu um heilindi matvæla sem geta tekið út áreiðanleika eða falsanir fyrir þá aðila sem eftir því sækja. 

Nánari upplýsingar um verkefnið gefur Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.

Fréttir

Útgerð frystitogara á krossgötum

Mikil breyting hefur orðið á útgerð frystitogara á Íslandi síðan hún hófst í byrjun níunda áratug síðustu aldar. Hlutdeild frystitogara í þorski hefur dregist saman umtalsvert og er hann í dag eingöngu veiddur sem meðafli við sókn í aðrar tegundir eins og karfa, ufsa og grálúðu. Árið 1992 voru frystitogarar flestir í Íslenska flotanum, 35 talsins en í dag eru þeir 23 og fer fækkandi.

Ástæður fyrir minnkandi hlutdeild frystiskipa í þorskveiðum má rekja til hækkunar á olíuverði, háum launakostnaði miðað við landvinnslu og breytinga á fiskmörkuðum, þar sem aukin eftirspurn hefur verið á ferskum flakastykkjum og aukahráefni. Óvissa í umhverfi sjávarútvegs og hækkun veiðigjalda hafa hins vegar komið í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu, sem er forsenda þróunar á búnaði og afurðum frystiskipa. Skipin eru komin til ára sinna og orðið tímabært að endurnýja flotann, ef  hann á að standast samkeppni við framleiðslu afurða á markaði sem greiða hærra afurðaverð og stenst samkeppni við vinnslu bolfisks í landi. 

Álagning veiðigjalda hefur valdið óvissu og dregið úr hagkvæmni frystitogara sem hefur komið í veg fyrir fjárfestingu í greininni ásamt hlutaskipakerfi sem ekki hvetur til fjárfestinga í tækni eða vöruþróun. Frystitogarar eru Íslendingum mikilvægir, og þó hlutdeild þeirra í þorski og ýsu hafi farið minnkandi þá þarf áfram að vera hagkvæmt að veiða aðrar tegundir með vinnsluskipum. Tegundir eins og karfi og grálúða henta vel fyrir vinnslu sem þessa, eins verða fjarlæg mið varla sótt nema með frystitogurum. 

Matís hefur nýlega gefið út skýrslu sem rituð er í kjölfar greiningarvinnu til að draga fram mynd af hinum ýmsu þáttum sem vega þyngst í rekstri frystitogara á Íslandi. Skýrslunni er ætlað að styðja við ákvörðunartöku hvað varðar fjárfestingu í sjávarútvegi til framtíðar og skýra hvaða þættir í rekstri frystitogara vega þyngst. Skýrslan getur nýst í umræðum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og hægt verður að styðjast við niðurstöður verkefnisins til að meta áhrif breytinga mismunandi þátta. Skýrslan einskorðast ekki við frystitogara og getur nýst við heildstæða stefnumótun í sjávarútvegi, og niðurstöðurnar nýtast jafnt útgerðarmönnum og stjórnmálamönnum við ákvarðanatöku. Helstu þættir sem skipta sköpum í þessu samhengi varða aflaverðmæti, laun sjómanna og veiðigjald. Þau gögn sem aflað var í verkefninu hafa nýst við nýlega ákvarðanatöku um breytingar í útgerðarmynstri íslenskra útgerða. Um er að ræða lokaskýrslu verkefnisins „Fjárfestingastjórnun í frystitogararekstri“ sem unnin var í samstarfi við HB Granda með stuðningi frá AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi með styrk S 007-12.

Fréttir

Mikill áhugi á sumarstarfi hjá Matís

Alls bárust 200 umsóknir um sumarstörf hjá Matís í sumar og en einungis var áætlað að ráða inn átta einstaklinga. Auk þess voru 10 manns ráðnir til Matís með styrk frá nýsköpunarsjóð námsmanna. 

Því verða 18 sumarstarfsmenn hjá Matís í sumar en alls starfa um 30 nemendur hjá fyrirtækinu. 

Þá hefur Matís á undanförnum tveimur mánuðum auglýst eftir fimm meistaranemendum til að vinna að lokaverkefnum sínum hjá Matís. Verkefnin eru meðal annarra unnin í samstarfi við, Promens, Thor Ice, Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, Eimskip og Samskip.

Matís fagnar þeim áhuga sem fyrirtækinu er sýndur á meðal nemenda í háskólum landsins, enda er það eitt af markmiðum Matís, að vera brú á milli háskólasamfélagins og atvinnulífsins. 

Viltu vinna lokaverkefnið þitt hjá Matís? 

Fréttir

Starfsmaður Matís kapteinn á kafbáti

Í dag föstudag og á morgun laugardag munu starfsmenn Matís nota fjarstýrða kafbáta til að safna sýnum úr svömpum og ígulkerum í Breiðfirði. Markmiðið er að rannsaka hvort hægt sé að vinna nýjar tegundir lyfja úr svömpum og ígulkerum.

Svampar eru þekktir fyrir að verja sig með efnahernaði og því miðast rannsóknirnar nú að því að athuga hvort nýta megi þennan eiginleika til þess að framleiða lyf. Þegar hafa verið greindar 7000 lífvirkar sameindir í svömpum.

Áhugi vísindamanna á lífvirkum efnum sjávar er sífellt að aukast á sama tíma og tæknin gerir mönnum kleift að rannsaka náttúruna með enn meiri nákvæmni en áður.

Ein helsta áskorunin verður að sögn Ragnars Jóhannssonar hjá Matís, sem leiðir verkefnið, að finna leiðir til að einangra nógu mikið magn lífvirkra efna til að nota í framleiðslu.

Sýnatakan úr svömpunum er hluti af tveimur verkefnum sem bera heitið Bluepharmtrain og BlueGenics. Sýnatakan úr ígulkerunum er hluti af verkefninu ResUrch. Verkefnin fá styrk frá Marie Curie áætlun ESB og frá 7. Rammaáætlun Evrópu (FP7). Samtals nema styrkirnir rúmlega 80 milljónum króna.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson.

Fréttir

Viltu vinna lokaverkefnið þitt hjá Matís?

Matís leitar eftir þremur nemendum til þess að vinna að rannsóknum hjá fyrirtækinu. Verkefnin eru 60 eininga og nýtast þar með sem lokaverkefni. Verkefnin eru unnin í samstarfi með stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Möguleiki er á styrk.

Verkefnin henta nemendum í matvælafræði, efnafræði og líffræði. Umsóknafrestur er til og með 14. júlí næstkomandi. Verkefnin sem umræðir eru:

Hámörkun gæða frosinna makrílafurða:

Megin markmið verkefnisins er að rannsaka gæði og stöðugleika makrílafurða í frosti eftir árstíðum og áhrif mismunandi forkælingar, frystingar og geymsluaðstæðna. Þróuð verða varmaflutningslíkön sem spáð geta fyrir um hitabreytingar í makríl við vinnslu, geymslu og flutning. Með því að skoða samspil þessara þátta er hægt að hámarka gæði og nýtingu makríls og því um leið verðmæti hans.

Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á haustönn 2014.

Aukin gæði og stöðugleiki frosinna síldarafurða:

Aðalmarkmið verkefnisins er að hámarka einsleit gæði og verðmæti íslenskra síldarafurða. Gæði og stöðugleiki síldarafurða í frosti eftir árstíðum og áhrif mismunandi forkælingar, frystingar og geymsluaðstæðna verða könnuð. Niðurstöðurnar munu ekki bara leiða af sér minni gæðarýrnun sem verður vegna geymslu og flutninga, heldur einnig auka skilning á tengslum milli afurðargalla og þeirra áhrifa sem hráefnið verður fyrir frá veiðum og út á markaði.

Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á haustönn 2014.

Geymsluþol léttsaltaðra flaka í frosti:

Markmið verkefnisins er að auka verðmæti sjávarfangs með því að greina kjöraðstæður við geymslu á léttsöltuðum þorsk- og ufsaflökum og um leið auka stöðugleika þessara afurða miðaða við árstíma og hráefnisgæði. Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum þáttum og mun verkefnið því skapa mikilvægar upplýsingar, stöðugri og ekki síst verðmætari sjávarafurðir.

Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á vorönn 2015, möguleiki er á að klára verkefnið á sumarönn.

Frekari upplýsingar veitir Sigurjón Arasson.

Fréttir

Aukið matvælaöryggi á Íslandi

Samstarfsverkefni íslenskra og þýskra stjórnvalda um aukið öryggi matvæla er nú lokið. Matvælaöryggi er lykilforsenda þess að matvælaframleiðendur geti selt sína vöru og tekið þátt í alþjóðaviðskiptum.

Neytendur, innlendir sem erlendir, verða að geta treyst því að matvæli séu örugg og að stjórnvöld hafi getu til að fylgjast með því að matvælaöryggis sé gætt í samræmi við alþjóðlega staðla og reglugerðir.

Tvíhliða samstarfsverkefni Þýskalands og Íslands, Örugg matvæli, sem stuðlað hefur að auknu matvælaöryggi á Íslandi er nú lokið, en helstu þátttakendur verkefnisins voru Matís, Matvælastofnun (MAST), Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, German Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

„Markmið okkar var byggja upp stjórnsýsluna og bæta rannsóknaaðstöðu á Íslandi þannig að allir nauðsynlegir innviðir séu til staðar til að tryggja öryggi matvæla á íslenskum markaði. Þetta er gert til að vernda heilsu og hagsmuni neytenda á sífellt stækkandi mörkuðum á tímum aukinnar alþjóðavæðingar“ sagði prófessor dr. dr. Andreas Hensel, forseti BfR, og undir það tók prófessor dr. Eberhard Haunhorst, forseti LAVES á fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 25. júní 2014. „Samstarfsverkefnið Örugg matvæli hefur stuðlað að verulegri eflingu á rannsóknargetu Íslands, sem mun gera okkur kleift að vinna í samræmi við evrópska staðla og reglugerðir. Þessi vinna mun auðvelda útflutning á íslenskum matvælum á alþjóðamarkaði.“ sagði Sveinn Margeirsson forstjóri Matís. „Þökk sé nánu samstarfi milli íslenskra yfirvalda og þýskra samstarfsaðila, hafa opinberir eftirlitsaðilar aukið þekkingu sína á löggjöf, stjórnsýslu og verklagi við opinbert matvælaeftirlit þannig að við erum nú betur í stakk búin til að tryggja hagsmuni neytenda með tilliti til matvælaöryggis“, bætti forstjóri Matvælastofnunar Jón Gíslason við.

Helstu forgangsatriði verkefnisins voru að bæta greiningu varnarefnaleifa og annarra aðskotaefna í matvælum, svo sem PCB, auk greininga á erfðabreytingum í matvælum og fóðri. Annar mikilvægur þáttur var að innleiða efnagreiningaraðferðir til að mæla þörungareitur í skelfiski. Til að ná þessum markmiðum voru keypt fyrsta flokks rannsóknartæki og sett upp á rannsóknarstofu Matís ásamt því að viðkomandi starfsfólk var þjálfað í notkun tækjanna og framkvæmd á opinberum greiningaraðferðum samkvæmt Evrópskum stöðlum. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fengu einnig þjálfun í sýnatökum, eftirliti og túlkun löggjafar á þessum sviðum. Samtals komu hingað til lands 24 sérfræðingar frá þýsku samstarfsstofnununum til að veita þessa þjálfun auk þess sem íslenskir sérfræðingar munu fara í kynnisheimsókn til Þýskalands.

Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís, dr. Roland Gerhard Körber starfsmaður Safe Food verkefnisins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Thomas Hermann Meister, sendiherra Þýskalands á Íslandi, dr. dr. Andreas Hensel, forseti BfR, dr. Eberhard Haunhors forstjóri Laves og Margrét Björk Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun.

Verkefnið þykir hafa tekist afar vel og er verið að ræða hugsanlegt framhald á því samstarfi sem komið er á milli íslenskra og þýskra stofnana á sviði matvælaöryggis.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís. 

Fréttir

Erlendir sjávarútvegsráðherrar heimsækja Matís

Íslendingar hafa markað sér gott orðspor þegar kemur að nýtingu sjávarfangs og nýsköpunar í sjávarútvegi. Matís ásamt samstarfsaðilum sínum hefur stutt vel við þessa þróun með rannsóknum og nýsköpun. 

Velgengni Ísland á þessu sviði hefur vakið verðskuldaða athygli og hafa erlendir aðilar áttað sig á að hér er að finna einstaka þekkingu og reynslu í sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra Noregs Elisabeth Aspaker heimsótti Matís í dag til þess að fræðast um starfsemi fyrirtækisins og fá svör við spurningunni „Af hverju Íslendingar eru svona duglegir að framleiða og selja hágæðavörur unnar úr hvít- og uppsjávarfisk?“
Spurningin á fullan rétt á sér því munurinn á aflanýtingu Íslendinga og Norðmanna er umtalsverður. Á Íslandi fást t.d. 570 kg af afurðum úr 1 tonni af þorsk en sama magn skilar Norðmönnum aðeins 410 kg af afurðum. Munurinn nemur 16% eða 160 kg á hvert tonn sem  þýðir að virðisaukning Norðmanna út frá heildarafla þeirra í Barentshafi árið 2013 gæti numið rúmlega 1 milljarði NOK eða 21 milljarði ISK ef þeir tileinkuðu sér aðferðir Íslendinga.1 
Raunar er það svo að sjávarútvegsráðherrar beggja vegna Atlantshafsins hafa lagt leið sína til Matís á undanförnum dögum því fyrir viku síðan heimsótti Keith Hutchings sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands einnig Matís. Auknar þorsveiðar úti fyrir Nýfundnalandi skapa ný tækifæri fyrir sjávarútveginn. Auk þess sýndi hann hlutverki Matís sem brú milli háskóla og atvinnulífs mikinn áhuga og taldi það samstarf efla iðnaðinn.

IS