Fréttir

Nemendur í meistaranámi óskast – styrkur í boði

Matís, Promens, Thor Ice, Sjávarútvegsklasi Vestfjarða, Eimskip og Samskip eiga í samstarfi í verkefni sem snýr að flutningi ferskfiskafurða í kerum og kössum og eru að leita að tveimur nemendum í meistaranámi eða sem eru á leið í meistaranám.

Um tvö meistaraverkefni er að ræða og er mögulegt umfang þeirra beggja 30–60 ECTS (ein til tvær annir). Verkefnin henta einkum fyrir meistaranema í véla/iðnaðarverkfræði, matvæla- eða viðskiptafræði. AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi (www.avs.is) stendur straum af kostnaði vegna neðangreindra meistaraverkefna.

Verkefni 1-markmið

Hagrænn samanburður mismunandi pakkninga- og flutningsleiða fyrir ferskar fiskafurðir frá Íslandi til markaða í Evrópu og Ameríku. Greiningin tekur tillit til kostnaðar við mismunandi vinnslukælingaraðferðir, pökkunar, flutnings og gæðarýrnunar afurða. Nákvæmt mat á rúmmálsnýtingu kæligáma við flutning í kössum annars vegar og kerum hins vegar er hluti af verkefninu.

Verkefni 2-markmið

Áætla ákjósanlegt magn og gerð (salt- og íshlutfall) ískrapa í 340 L matvælakeri með tilraunum og/eða varmaflutningslíkanagerð með stöðuga fiskhitastigið –1,0 °C að markmiði. Þetta verður framkvæmt fyrir tvö möguleg tilfelli umhverfishita í gámaflutningi kera, þ.e.  –0,5 °C og 3 °C og tvö möguleg upphafsfiskhitastig, þ.e. 0 °C og 5 °C. Felur einnig í sér að finna lágmarks magn og íshlutfall ískrapa, sem nota þarf í ker sem verður fyrir umtalsverðu hitaálagi (hærri umhverfishiti).

Verktími: maí 2014–apríl 2015


Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, prófessor við HÍ og yfirverkfræðingur Matís (sigurjon.arason@matis.is) og dr. Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Promens (bjorn.margeirsson@promens.com).

Fréttir

Matís með erindi á samráðsþingi Matvælastofnunar

Samráðsþing Matvælastofnunar var haldið í gær en samráðsþingið er vettvangur Matvælastofnunar, eftirlitsaðila og annarra viðskiptavina stofnunarinnar til að styrkja samskipti sín á milli og koma sjónarmiðum á framfæri með gagnvirkum hætti.

Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís fór á þinginu yfir öryggi afurða og fjallaði einnig um nýja rannsóknastofu í húsakynnum Matís en ítarlega er fjallað um opnun rannsóknastofunnar á fréttavef Matís.

Nánari upplýsingar um samráðsþingið má finna á vef Matvælastofnunar, www.mast.is, en nánari upplýsingar um nýju rannsóknastofuna og verkefnið Örugg matvæli má finna á vef Matís, www.matis.is.

Fréttir

Samstarfsaðilar Öruggra matvæla fögnuðu á föstudag

Tilefnið var opnun glæsilegrar rannsóknastofu að Vínlandsleið 12 í Reykjavík en rannsóknastofan var sett upp vegna samstarfsverkefnisins Örugg matvæli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson var viðstaddur opnunina ásamt sendiherra Þýskalands á Íslandi, Thomas Hermann Meister, en báðir héldu þeir stuttar ræður og opnuðu rannsóknastofuna formlega með borðaklippingum. Ágústa Guðmundsdóttir, sem situr í stjórn Matís, hélt einnig góða ræðu um mikilvægi rannsóknaaðstöðunnar fyrir almenning, fyrir íslenska matvælaframleiðslu og fyrir Matís og hvernig aðstaðan mun nýtast í m.a. námi í matvæla- og næringarfræði við háskóla Íslands.


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður
Ingi Jóhannsson og sendiherra Þýskalands á Íslandi,
Thomas Hermann Meister, opna aðstöðuna formlega.

Verkefninu Örugg matvæli er ætlað að tryggja matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Örugg matvæli er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Með opnun rannsóknaaðstöðunnar og með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.

Verkefnið Örugg matvæli verður án vafa mikill stökkpallur fyrir íslenska neytendur, eftirlitsaðila og ekki hvað síst fyrir framleiðendur og söluaðila. Neytendur vilja nánari upplýsingar um efnin sem eru og eru ekki í matvælum sem þeir neyta og framleiðendur og söluaðilar vilja einnig fá þessar upplýsingar til að auka enn frekar traust neytenda á þeirra vörum.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís.

Fréttir

Greining nóróveirusmita á Íslandi

Hjá Matís hafa verið þróaðar sértækar aðferðir til að greina nóróveirur í matvælum og vatni, en veirurnar eru bráðsmitandi og geta valdið mjög slæmum iðrakveisum hjá fólki.

 Nóróveirur finnast þar sem saurmengun hefur átt sér stað og það þarf næmari aðferð til að greina þær en hefðbundnar aðferðir sem notaðar eru til að greina saurmengun í matvöru og vatni.

Aðferðirnar sem Matís hefur þróað til greininga á nóróveirum eru sameindalíffræðilegar aðferðir með svokallaðri PCR tækni (e. Polymerase Chain Reaction). Notkun PCR aðferða til örverugreininga hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár, en með tækninni er nú hægt að greina tilvist nóróveira í matvælum og vatni og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu veiranna. Hópsýkingar af völdum nóróveiru geta verið alvarlegt vandamál þar sem þær koma upp og því mikilvægt að hindra útbreiðslu veiranna.

Það eru einkum matvæli sem neytt er hrárra eða lítið eldaðra, s.s. skelfisks, grænmetis og ávaxta, sem eru varhugarverð m.t.t. nórósýkinga. Veiran þolir frost en drepst við hitun yfir 60°C. Neysla skelfisks var löngum talin helsta ástæða matvælasýkinga af völdum nóróveira og hópsýkingar af völdum mengaðs skelfisks eru algengar. Fjöldi hópsýkinga sem ekki hefur mátt rekja til neyslu skelfisks hefur hins vegar beint sjónum manna að öðrum matvælum, einkum tilbúnum réttum, ávöxtum, grænmeti og drykkjarvatni sem áhættuþáttum.

Beitum nýjum greiningaraðferðum

„Matís hefur sett upp aðferðir til greiningar á nóróveirum í drykkjarvatni, yfirborðsvatni og matvælum og getum við nú greint nóróveirur af genótýpu I og II, en það eru þær týpur sem einkum sýkja menn,“ segir Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís.

Fréttir

App fyrir sjómenn til að reikna ísþörf – nú fyrir Windows síma

Eins og flestir vita sem stunda sjóinn þá bjó Matís til sérstakt smáforrit (app) fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir sjómönnum auðvelt að reikna út ísþörf vegna afla. Forritið var kynnt á Sjávarútvegsráðstefnunni haustið 2013.

Eins og fram kom á vef Matís þá var forritið eingöngu aðgengilegt fyrir snjallsíma með Android stýrikerfi en nú hefur Windows stýrikerfið bæst í hópinn. Von er á ÍsAppi Matís fyrir snjallsíma frá Apple (iPhone) á allra næstu vikum.

ÍsAppið eða smáforritið er einkar hentugt og auðvelt í notkun og nýtist sjómönnum til að reikna út hversu mikil ísþörfin er fyrir þann afla sem veiddur er. Í forritinu er tekið tillit til aðstæðna eins og sjávarhita, lofthita og dagar á sjó og leiðbeiningar varðandi kg magn af ís gefnar út auk þess í fjölda skófla og fjölda fata.

Nú hefur aldrei verið auðveldara að finna út hversu mikið af ís þarf til að fara sem best með okkar dýrmæta hráefni.

QR fyrir ísreikni Matís | QR for Matís' ice app
Google Play (fyrir Android snjallsíma) – skannaðu kóðann

Windows store (fyrir Windows snjallsíma) – skannaðu kóðann

Forritið má nálgast á Google Play 

Fréttir

Andoxunarefni og lífvirk efni í sjávarfangi

Út er komin bókin „Antioxidants and Functional Components in Aquatic Foods” en Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs og rannsóknastjóri Matís er ritstjóri bókarinnar. Auk þess skrifa nokkrir starfsmenn Matís kafla í bókinni.

Í bókinni er fjallað um andoxunarefni og önnur lífvirk efni sem finna má í sjávardýrum og hvernig slík efni geta nýst til bættrar heilsu. Ítarlega er fjallað um hvað hefur áhrif á gæði þessara lífvirku efna við geymslu, framleiðslu og vegna fleiri þátta.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Wiley. Einnig veitir Hörður G. Kristinsson nánari upplýsingar.

Fréttir

Allir hagsmunaaðilar komi að stjórnun fiskveiða

Í tengslum við EcoFishMan verkefnið er skoðanakönnun í gangi á meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Tilgangur könnunarinnar er að leita sjónarmiða allra þeirra aðila sem koma að fiskveiðum á Íslandi, hvort sem það er í stjórnun eða framkvæmd.

Í EcoFishMan verkefninu er lögð áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.  Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og miðla þeirri reynslu áfram. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum. Gert er ráð fyrir að kerfið verði innleitt í áföngum og sniðið að hverri tegund fiskveiða fyrir sig.  Fullkominnar nafnleyndar verður gætt við úrvinnslu og farið verður með öll gögn samkvæmt fyrirmælum Persónuverndar. Nafn þátttakenda mun að sjálfsögðu hvergi koma fram og þess verður gætt að ekki verði hægt að rekja neinar upplýsingar í niðurstöðum til einstaklinga.

Mjög mikilvægt er að sem flestir svari könnuninni, svo niðurstöður verði sem áreiðanlegastar.

Könnuninni má svara hér: https://docs.google.com/forms/d/1sv5xw8Ya8kRtC0UPGeOtB7_aT0SB61MZZ4P_syIQuuA/viewform

Fréttir

Atvinnulífssýningin Lífsins gæði og gleði 2014

Atvinnulífssýningin Lífsins gæði og gleði 2014 fer fram í þriðja sinn á morgun og á sunnudaginn og mun Matís kynna starfssemi sína ásamt öðrum úr Verinu á Sauðárkróki.

Sveitarfélagið Skagafjörður mun í samvinnu við Skagafjarðarhraðlestina, SSNV og ýmsa aðila standa fyrir atvinnulífssýningu á Sauðárkróki við upphaf Sæluviku, dagana 26. – 27. apríl nk. Var sú ákvörðun tekin í kjölfarið á óformlegri könnun um tíðni atvinnulífssýninga þar sem mikill vilji kom fram um að halda sýningarnar á 2ja ára fresti en fyrri sýningar voru haldnar árin 2010 og 2012.

Sjá nánar á vef Sveitarfélags Skagafjarðar.

Fréttir

Langvarandi geymsla fisks hefur mest áhrif á gæði fjölómettaðra fitusýra

Magnea Guðrún Karlsdóttir matvælafræðingur varði doktorsritgerð sína, Oxunarferlar og stöðugleiki frosinna sjávarafurða, í Hátíðarsal HÍ þann 21.3. sl.. Andmælendur voru dr. Santiago Aubourg prófessor hjá CSIC á Spáni, og dr. Sigríður Jónsdóttir fræðimaður við HÍ. Leiðbeinendur voru dr. Hörður G. Kristinsson og próf. Sigurjón Arason.

Neysla á unnum og frystum sjávarafurðum hefur aukist á undanförnum árum. Fita í fiskafurðum er góð uppspretta af fjölómettuðum fitusýrum (PUFA) sem sýnt hefur verið fram á að hafa jákvæð áhrif á heilsu manna. Fiskafurðir með hátt hlutfall af PUFA eru einstaklega viðkvæmar gagnvart þránun. Varðveisla á gæðum fitu er því mikilvæg við geymslu og vinnslu sjávarafurða. Frysting og frostgeymsla er skilvirk aðferð til að lengja geymsluþol fiskafurða, og hefur verið beitt í fjölda ára. Engu að síður geta gæði afurðanna rýrnað í frostgeymslu. Verkefninu var ætlað að auka skilning á mismunandi oxunarferlum sem eiga sér stað í frystum fiskafurðum, og kanna stöðugleika ólíkra fisktegunda við langvarandi frostgeymslu. Rannsökuð voru áhrif mismunandi geymsluhita á hráefnisgæði og stöðugleika fiskafurða, og áhrif hitunar og áframhaldandi frostgeymslu eldaðra afurða á gæði fitunnar. Ennfremur var lagt mat á ýmsar efnamælingar og hraðvirkar mælingar sem gjarnan er beitt til þess að fylgjast eftir með niðurbroti fitu.

Rannsóknir verkefnisins leiddu í ljóst dýpri skilning á mismunandi ferlum oxunar og stöðugleika frystra sjávarafurða og á því hvernig mismunandi geymsluskilyrði og breytileiki hráefnis hefur áhrif á þessa ferla. Hitastig og tími við geymslu reyndust mjög mikilvægir þættir fyrir stöðugleika frystra afurða. Gæði og stöðugleiki fitunnar í frostgeymslu reynast mjög háð fisktegundum. Þá hefur langvarandi geymsla fyrir eldun mest áhrif á stöðugleika fitunnar eftir eldun.

Magnea Guðrún er fædd 1978. Hún lauk BS prófi í matvælafræði frá HÍ 2008 og MSc-prófi í matvælafræði 2010. Samhliða námi hefur Magnea starfað hjá Matís ohf. og sinnt margvíslegum rannsóknarverkefnum.

Foreldrar Magneu eru Karl Jóhann Valdimarsson og Erla Þóra Óskarsdóttir. Eiginmaður Magneu er Ingvar Júlíus Tryggvason og eru börn þeirra Ástrós, Erla Ósk, Eva María og Tryggvi.

Nánari upplýsingar veitir Magnea Guðrún Karlsdóttir.

Fréttir

Verstöðin Ísland – valkostur neytenda?

Nú er lag. Vissulega liggja tækifæri í ókönnuðum efnum sem kann að verða hagkvæmt að einangra úr ólíkum áttum íslenskrar matvælavinnslu. Til að gera verðmæti úr tækifærum þarf þolinmæði eins og t.d. aðstandendur Zymetech hafa tamið sér. Nærtækt er að einbeita sér að frekari framförum í daglegum athöfnum.

Líklegra er að Íslendingar geri sig gildandi í matvælaframleiðslu út frá gæðum en út frá magni. Allur sá styr sem staðið hefur hér um stjórn fiskveiða snýst um rétt rúman hundraðshluta lagarafurða heimsins, afli og eldi heimshafa og ferskvatns. Talið er að sóun matvæla nemi um tífaldri framleiðslu lagarafurða. Okkar framlag er því brotabrot af því sem lagt er á borð fyrir meðal jarðarbúann.

Ábyrgð og öryggi

Ímynd byggist á raunveruleika. Sé ímyndin fölsk er hún blekking. Virði menn þau viðmið að vinnsla matvæla snúist um virðingu fyrir neytendum og hráefnum og nýting við þá vinnslu snúist um virðingu fyrir hráefnum og umhverfi geta þeir selt vörur sem uppfylla væntingar og þarfir upplýstra og greiðslufúsra neytenda. Íslendingar eiga að geta sagt sögur, til að aðgreina sínar vörur, sem vísa til atriða eins og uppruna, afhendingaröryggis, samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærrar nýtingar, öryggis, hollustu matvæla, hefða og heilnæmis á grípandi hátt. Tækifæri eru fyrir hendi til að marka íslenskum matvælum sérstöðu á grunni gæða og öryggis sem fá neytendur til að sækja í að kaupa íslensk matvæli fremur en annars staðar að. Eigi neytendur að greiða hærra verð fyrir íslenskar vörur en sambærilegar vörur þurfa íslenskir matvælaframleiðendur að undirgangast aga, fylgja reglum, uppfylla kröfur, fara að lögum og mæta þörfum, sýna þrautseigju og temja sér þolinmæði. Til að ná árangri á neytendavörumörkuðum þarf að móta stefnu til langs tíma.

Líta ber á allan fisk sem hráefni fyrir verðmætar vörur – afurðir vinnslunnar – og forðast að lítillækka þá sem brydda upp á nýjungum því rúm er fyrir ólíkar vörur í fjölbreyttu atvinnulífi. Dæmin sýna að við þurfum að taka okkur á svo við getum gert 21. öldina að öldinni sem þurrkuðu hausarnir okkar komast í samskonar sérflokk eins og indónesíska Luwak-kaffið; ígulkerjahrognin úr Breiðafirði eignist greiða leið að hæsta verði í Evrópu og Japan, þann tíma sem þroski þeirra er réttur. Komum við íslenska þorsknum á svipaðan stall og nuddaða bjóralda nautakjötinu frá Kobe eða niðursoðinni tegundagreindri fisklifur í samanburði við foie gras? Verður loðnunni líkt við goji-ber? Mun okkur takast að upphefja ufsa eins og brokkólí? Rannsóknir Matís hafa, með stuðningi AVS og Tækniþróunarsjóðs Rannís o.fl., opnað augu sjómanna, útgerðarmanna, fiskverkenda og fiskseljenda t.d. fyrir því að með öguðum vinnubrögðum um borð, góðri aflameðhöndlun – kælingu þar með talinni – og kælingu við vinnslu má koma ferskum fiskafurðunum köldum í frauðplastkassa. Þannig er íslenskum fiskverkendum mögulegt að flytja út fersk flök með skipum. Lykilatriði er að matvæli, sem flytja á fersk úr landi séu köld þegar þau eru komin í umbúðirnar, í flutningi er reynt að varðveita ástand vöru fremur en að bæta það.

Eins og sjómenn kappkosta að láta fiski blæða út fyrir þvott og slægingu og flokka um borð geta lyftaramenn forðast það að sturta fiski, sé þeim nauðugur einn kostur þá þarf ekki að sturta fiski úr hæstu mögulegu stöðu. Má ekki birta tölur um hitastig í afla á sama hátt og aflamagn er gert opinbert? Geta fiskmarkaðir ekki boðið upp fisk flokkaðan á grunni gæða eins og á grunni stærðar?

Íslenskur sjávarútvegur er ekkert slor

Íslenskur sjávarútvegur er ein samkeppnishæfasta atvinnugrein landsins að mati McKinsey. Íslenskur sjávarútvegur er og hefur verið grunnatvinnuvegur á Íslandi (og frá Seðlabankanum), eins og Háskólinn á Akureyri gekk út frá við stofnun sjávarútvegsdeildar 1990 (og meira: Saga HA), hvaðan á annað hundrað sjávarútvegsfræðingar hafa útskrifast.

Ein leið til frekari verðmætaaukningar felst í því að selja máltíðir í stað matvæla sem nýtast við matreiðslu máltíða. Hafi menn vonir um aukinn hagnað geta menn litið til samspils nýtingar og verðmæta í tengslum við óskir á mörkuðum. Okkur ber að rýna í íslensk hráefni út frá óskum markaða fremur en að mæna álengdar á markaðina út frá hráefnunum sem hér eru aðgengileg.

Kapp er best með forsjá í ölduróti alheimsviðskipta, vönduð stefnufesta skilar okkur í höfn frekar en bóluleitandi hjarðhegðun. Væntingar geta skekkt myndir og kippt stoðum undan vönduðum áætlunum.

Öflugur sjávarútvegur stendur, enn sem fyrr undir fjórðungi lífskjara landsmanna. Sjávarútvegurinn er atvinnuvegur sem hefur þróast að nokkru leyti í takt við aukna þekkingu og hrygnt fyrirtækjum er þjónusta sjávarútveginn. Þjóðin má vart við því að sjávarútvegurinn verði fyrir skakkaföllum, við þurfum á því sem þjóð að halda að sjávarútvegurinn vaxi og dafni áfram með aukinni þekkingu.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

IS