Fréttir

Fréttatilkynning: Kynningarfundur 5. janúar á Sauðárkróki

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sameiginlegur kynningarfundur Rf, Hólaskóla og Fisk Seafood um uppbyggingu á rannsókna- og þróunarstarfsemi í Þróunarsetrinu Verinu á Sauðárkróki verður haldinn n.k. fimmtudag 5. janúar kl. 16:00-18:00 í Verinu, rannsókna- og kennsluhúsnæði Hólaskóla á Sauðárkróki.

Rf hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að efla rannsóknir sínar á landsbyggðinni. Þannig hefur Rf átt vaxandi samstarf um rannsóknir við FISK Seafood í Skagafirði og Hólaskóla um vinnslu sjávarafla, matvælavinnslu og fiskeldi. Hólaskóli og FISK Seafood hafa undanfarin ár myndað með sér náin tengsl um eflingu þekkingar í fiskeldi og fiskalíffræði með tilkomu myndarlegs húsnæðis til slíkrar starfsemi á Sauðárkróki.

Fyrirhugað er nú að styrkja þetta samstarf enn frekar með sérstökum samstarfssamningi um rannsóknir og þróun á sviði fiskeldis, náttúruvísinda og matvælavinnslu. Auk Rf, Hólaskóla og Fisk Seafood er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eigi aðild að samningi þessum, auk fleiri samstarfsaðila. Tilgangur samningsins er að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu, rekstur og nýtingu á Þróunarsetri Hólaskóla sem staðsett er á Háeyri 1 við höfnina á Sauðárkróki.  

Samstarfið verður í formi skilgreindra verkefna og munu sérfræðingar og nemar í framhaldsnámi koma að þeim.  Bæði sjávarútvegs- og iðnaðarráðherra hafa ákveðið að styrkja samstarfið með sérstöku fjárframlagi til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sem nemur 6 m.kr. á ári. Fjármagnið verður notað til að efla rannsóknir Rf á Sauðárkróki.  Samstarfið og þessi nýi samningur verður liður í að styrkja rekstur og uppbyggingu rannsókna og kennslu fiskeldis- og fiskalíffræðileildar Hólaskóla. Hin nýja aðstaða skapar möguleika til enn frekari þróunar á samstarfi ofnagreindra aðila. Það eru sameiginlegir hagsmunir þeirra að samnýta aðstöðuna til að efla sértæka starfsemi sína og stuðla þannig m.a. að aukinni þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni. Með samstarfinu styrkir Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins aðstöðu sína og tækifæri til fiskeldis- og matvælarannsókna og rannsókna á vinnslu sjávarafurða.

Aukin þekking er lykilatriði til að tryggja uppbyggingu og arðsemi sjávarútvegs og fiskeldis hérlendis. Farsæl þróun þessa atvinnuvegar er augljóslega mikilvæg byggðum landsins. AVS Rannsóknasjóðurinn sem starfar á vegum Sjávarútvegsráðuneytisins styður við hana með því að veita styrki til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna, þróunar- og háskólastofnunum.

Dagskrá fundarins:

1.  Ávarp – Einar K. Guðfinnsson, Sjávarútvegsráðherra

2.  AVS Rannsóknasjóðurinn – Friðrik Friðriksson

3.  Rf á Norðurlandi – Sjöfn Sigurgísladóttir Rf

4.  Samstarf  FISK hf. við skóla og rannsóknastofnanir – Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri

5.  Fiskeldi og rannsóknir hjá Hólaskóla – Helgi Thorarensen, Hólaskóla

6.  Fóður og eldi – Rannveig Björnsdóttir Rf og Háskólinn á Akureyri

7.  Prótein úr sjávarfangi og endurnýting vatns í fiskeldi – Ragnar Jóhannsson, Rf og Hólaskóla

8.  Samstarf og uppbygging á Sauðárkróki, Skúli Skúlason – Hólaskóla

Fundarstjóri verður Skúli Skúlason