Fréttir

Gæðaúttekt á Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í vikunni fór fram gæðaúttekt Swedac og Einkaleyfastofu á rannsóknaraðferðum Matís, en slíkar úttektir voru gerðar árlega hjá Rf og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar um margra ára skeið.

Úttektin fór fram þann 15.10. 2007 á rannsóknastofu Matís að Skúlagötu 4 og þann 18.10. 2007 var gerð sambærileg úttekt í útibúi Matís í Neskaupstað. Í útibúi Matís á Akureyri fór hins vegar fram gæðaúttekt í apríl á þessu ári.

Að sögn Margrétar Geirsdóttur, gæðastjóra Matís, gekk úttektin vel og hefur rannsóknastofa Matís nú 27 faggiltar örveruaðferðir og 7 efnaaðferðir á sínum lista. Um er að ræða mismunandi örverurannsóknir á matvælum, vatni, fóðri, umhverfissýnum, lyfjum og efni til lyfjagerðar ásamt sérhæfðum efnamælingum á matvælum, vatni og umhverfissýnum og mælingar á varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Faggilding er viðurkenning á því að fyrirtæki viðhafi bestu starfsvenjur og hafi tæknilega hæfni til að tryggja að þær mælingar sem þar eru gerðar standist allar alþjóðlegar kröfur í sambandi við gæðaumhverfi, vinnureglur og strangt gæðaeftirlit. Faggildingin er unnin út frá ISO 17025 staðlinum um starfsemi rannsóknastofa, en ákvæði um faggildingu var tekið upp í íslenskri reglugerð árið 1994.

Það eru Einkaleyfastofan og Swedac, sænska faggildingarstofnunin, sem veita Matís faggildinguna. Faggildingaraðili kannar með árlegri heimsókn hvort gæðakerfið og þær mæliaðferðir sem notaðar eru við efna- og örverurannsóknir standist þær skuldbindingar sem faggilding krefst og lýst er í ISO 17025 staðlinum.

Auk þess hefur rannsóknastofa Matís faggildingu frá New York State Department of Health fyrir örverumælingar í átöppuðu vatni.

Listi yfir faggildar rannsóknaraðferðir Matís (pdf-skjal)

Á myndinni má sjá þrjá fulltrúa Swedac ásamt nokkrum starfsmönnum á Matvælaöryggissviði Matís á Skúlagötu.