Fréttir

Heimsókn í fyrirtæki á Vestfjörðum – framtíðin er björt

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tveir af sviðsstjórum Matís, þeir Guðmundur Stefánsson og Jónas R. Viðarsson, brugðu undir sig betri fætinum í síðustu viku og heimsóttu nokkur vel valin matvælaframleiðslufyrirtæki á Vestfjörðum.

Svo að sendinefndin væri nú ekki einvörðungu skipuð „sérfræðingum að sunnan“ slógust í för með þeim þau Gunnar Þórðarson svæðisstjóri Matís á Vestfjörðum og Guðrún Anna Finnbogadóttir frá Vestfjarðarstofu.

Vestfirðir tóku afskaplega vel á móti hópnum, með sól í heiði og bros í hjarta. Fyrirtækin sem voru heimsótt voru Arnarlax á Bíldudal, Oddi á Patreksfirði, Arctic Fish og Drimla í Bolungavík, Klofningur og Fisherman á Suðureyri, auk þess sem fulltrúar Vesturbyggðar áttu fund með hópnum til að kynna þá starfsemi sem fyrirhuguð er í Vatneyrarbúð á Patreksfirði.

Aðalsteinn hjá Fisherman sýnir vinnsluaðstöðu fyrirtækisins á Suðureyri, en fyrirtækið býður upp á metnaðarfullt vöruúrval sjávarfangs í neytendaumbúðum.

Þessi heimsókn á Vestfirði var einstaklega ánægjuleg og lærdómsrík, enda mikil sókn í gangi í atvinnumálum á svæðinu. Væntir Matís þess að unnt verði, á komandi mánuðum, að hlúa enn betur að því góða samstarfi sem fyrirtækið hefur átt við aðila á svæðinu. Framtíðin er björt í atvinnumálum á Vestfjörðum