Fréttir

Áherslan verði á ný á aukna verðmætasköpun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Íslendingum hefur lánast að fylgja eftir aldargamalli ákvörðun og halda hér uppi frjálsu og fullvalda ríki. Verstöðin Ísland hefur eflst á umliðinni öld, það er þróun sem hófst með vélvæðingu útgerðar í upphafi 20. aldar. Meðal þorskafli var frá 1918 til og með 2017 var rétt rúmlega 238 þúsund tonn á ári. Á sama tíma minnkaði hlutfall þorsks úr ¾ heildarafla Íslendinga í 21%, en heildarafli hefur aukist úr 98 þúsund tonnum í 1176 þúsund tonn vegna sóknar í aðra stofna samhliða auknum afköstum og bættri tækni. Að meðaltali hefur þorskur verið um 26% af lönduðum afla í hinni fullvalda verstöð. Þorskur er enn sem fyrr mikilvægasta tegundin sem við veiðum, um 44% af verðmæti landaðs afla 2017 eru til komin vegna þorskveiða. Við stofnun fullveldisins var hlutur þorsks í heildaraflaverðmæti nærri 78%. Íslenskur sjávarútvegur er fjölbreyttur og hefur þróast með sérhverju skrefi sem stigið hefur verið. Óskandi er að við fáum að læra af sögunni og getum stigið fleiri en færri heillaskref í framtíðinni.

Ný stefna – ný hugsun

Íslendingar ákváðu á þrítugsafmæli fullveldis að láta vísindalega þekkingu vera grundvöll stjórnunar fiskveiða á Íslandsmiðum. Innan við þremur áratugum síðar höfðu Íslendingar óskoruð umráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu umhverfis landið. Um líkt leyti rann smátt og smátt upp fyrir okkur að veiðigeta fiskiskipa okkar var umfram það sem fiskistofnarnir gætu borið og því þurfti að stilla saman veiðigetu skipastólsins og veiðiþol fiskistofnanna. Kröfur á mörkuðum eru að nýting fiskistofna sé með sjálfbærum hætti, að ekki sé gengið nær auðlindunum en þær þola.

Við Íslendingar mörkuðum stefnu, byggða á ríkjandi fiskveiðistjórnkerfi árið 2003 um að auka verðmæti sjávarfangs fremur en að auka magn sjávarfangs. Vaxandi kröfur, sem og vilji til að sýna ábyrgð í umgengni um auðlindir sjávar áttu þátt í ákvarðanatökunni. Við fylgdum henni eftir með aukinni áherslu á hagnýtar rannsóknir og þróunarvinnu með það að markmiði að auka verðmæti. Stórt skref í þeirri vegferð var stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Margvísleg samstarfsverkefni voru unnin til að sækja fram í þágu heildarinnar, þannig að útkoma einstakra verkefna gæti átt þátt í að bæta hag allra landsmanna.

Stöðug gæði skila verðmætari viðskiptum

Með hliðsjón af útflutningsverðmætum þess sem aflaðist á hverju ári má segja að það hafi tekist giska hratt að auka verðmæti sjávarfangs, með rannsóknum styrktum af AVS, eftir að ákvörðunin var tekin. Verðmætin ríflega tvöfölduðust frá 2003 fram til 2011, í erlendum myntum, þó lítið hafi þokast í þá átt á allra síðustu árum. 

Miðað við nálgun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til að meta verðþróun í alþjóðlegum viðskiptum með sjávarafurðir (FAO Fish Price Index) jókst verðmæti íslensks sjávarfangs hraðar en gerðist og gekk. Verðmætasköpunin hefur áhrif á rekstur og rekstrarniðurstöður fyrirtækja í virðisneti sjávarútvegsins þ.m.t. framlegð sjávarútvegsfyrirtækja.

Hvað svo sem veldur því að þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi hér á landi var ekki með sama hætti á þessum áratug og þeim sem á undan leið þá er brýnt að við tökum upp þráðinn og höldum áfram að þróa sjávarútveg með aukna verðmætasköpun að markmiði. Rétt er að taka fram að framangreindur mælikvarði er ekki eini hreini sannleikurinn sem segir hver sé staða sjávarútvegs á Íslandi, t.a.m. birtist aukin afkastageta hvers hlekks í virðiskeðju sjávarfangs ekki með beinum hætti í mælikvarðanum útflutningsverðmæti hvers aflaðs kílós af sjávarfangi. Aflasamsetning sem og heildarafli hafa sannarlega áhrif á framangreindan mælikvarða sem og það hvernig afli er höndlaður uns sjávarfang er selt úr landi, s.s. hvort siglt er með afla til löndunar í erlendri höfn, fiskur heilfrystur um borð, flakaður, flattur eða bræddur, svo eitthvað sé nefnt.  

Til að stuðla að verðmætasköpun til framtíðar í íslenskum sjávarútvegi þurfa Íslendingar að halda stöðu sinni með því að herða róðurinn, slá hvergi af gæðakröfum, jafnvel leggja meira upp úr vöruvöndun og viðbrögðum við óskum neytenda en gert hefur verið að undanförnu. Stöðug gæði geta gert verðmætari viðskipti möguleg.

Fyrir um ári síðan var hvatt til þess á Sjávarútvegsráðstefnunni að stefna að fimmföldun  þeirra verðmæta sem við vinnum úr sjávarfangi. Því miður hefur umræða um það markmið ekki undið uppá sig á spjallsvæðum nútímans.

Fjárfesting í rannsóknum skilar sér

Árið 1918 vógu útfluttar sjávarafurðir 29 þúsund tonnum sem nam um 29% af lönduðum afla. Til samanburðar fluttu Íslendingar árið 2017 út 609 þúsund tonn af sjávarafurðum sem nam tæpum 52% af lönduðum afla.

Aukin verðmætasköpun getur leitt til velsældar. Reynslan sýnir að fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skiptir máli fyrir þróun atvinnugreina. Umgjörðin um nýsköpunina verður að vera fær um að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar. Stöðugt og til langs tíma. Það veit á gott að einstök fyrirtæki séu nægjanlega burðug til að greiða góð laun fyrir vel menntað og gott fólk með reynslu en það getur komið niður á heildinni að ekki sé unnið markvisst að því að lyfta gólfinu. Það kann að koma í bakið á okkur Íslendingum ef frumkvöðlar og smærri fyrirtæki hafa ekki aðgang að hæfum, menntuðum og reyndum sérfræðingum.

AVS var lykilsjóður sem skapaði andrúmslofti hvar mikið kapp var lagt í að auka verðmæti sjávarfangs, en sá sjóður virðist vera að fjara út. Fjárheimildir hans stefna í að verða um 40% af því sem var þegar mest var árið 2011 og ríkisframlagið á næsta ári til AVS verður undir helmingi ársins 2011. AVS skipti sköpum fyrir vel flest ef ekki öll þau fyrirtæki sem hvað mest hefur borið á í tengslum við breytta ímynd sjávarútvegsins, rétt eins og þau verkefni sem unnin hafa verið í samstarfi við hefðbundnari sjávarútvegsfyrirtæki.

Styrkir AVS eru um 4% af veltu Matís, styrkir sjóða Vísinda- og Tækniráðs, í umsjón Rannís, eru um 9% af veltu Matís. Aðrar tekjur en þjónustusamningur Matís um matvælarannsóknir við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, eins og rannsóknastyrkir, standa að mestu leiti (72%) undir þeirri nýsköpun sem Matís innir af hendi.

Árið 2015 bókfærði Matís tekjur vegna verkefna í tengslum við evrópskt rannsóknasamstarf að fjárhæð 215 milljónir króna og þá var ríkisframlag til AVS 217 milljónir króna. Síðan þá hefur Matís aflað meira á þessum evrópsku miðum en lagt hefur verið í AVS.

Þráðurinn verði tekinn upp að nýju

Margt hefur áunnist á undangenginni öld en við þurfum að hafa okkur öll við til þess að geta státað okkur af því að starfa í samkeppnishæfri atvinnugrein til framtíðar. Sorgin í sjávarútvegi dagsins í dag er sú að við virðumst hafa horfið frá hinu víðtæka samstarfi og hinum einlæga ásetningi sem tókst um það að auka verðmætasköpun við veiðar, vinnslu og sölu sjávarfangs. Vissulega verða til verðmæti við sölu þekkingar eða búnaðar sem þróaður hefur verið með þekkingu á eðli og inntaki íslensk sjávarútvegs í samstarfi sem oft á tíðum hefur verið stutt af innlendum rannsókna- og þróunarsjóðum.

Ég vonast til að við berum gæfu til að fylgja eftir ákvörðunum sem bera árangur inn í framtíðina, innleiða þær í daglegt atvinnulíf til að stuðla að bættum hag okkar allra, en hætta ekki í miðju kafi.

Grein þessi sem Arnljótur Bjarki Bergsson skrifaði birtist fyrst á blaðsíðum 48 og 49 í 7.-8. tölublaði 111. árgangs Ægis í tilefni af aldarafmæli fullveldisins í lok nóvember.