Fréttir

Athyglisverð skynmatsráðstefna í Osló í byrjun maí

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur sem fjalla að mestu um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Rf tekið þátt í undirbúningi þeirra. Næsta ráðstefna verður haldin í Osló dagana 3.-5. maí og ber hún yfirskriftina Focus on the Nordic Consumer.

Áhugi og þátttaka fólks úr matvælaiðnaði á að sækja þessar ráðstefnur hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, enda um kjörinn vettvang að ræða fyrir iðnaðinn og vísindamenn til að hittast. Hafa að jafnaði meira en 100 manns, frá fjölmörgum löndum, sótt ráðstefnurnar á undanförnum árum og má geta þess að fólk frá a.m.k. 12 löndum, fyrir utan Íslendinga, tók þátt í slíkri ráðstefnu sem Rf stóð að í Reykjavík árið 1999.

Helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar að þessu sinni verða nýjungar og eftirspurn á sviði “hefðbundinna” matvæla, máltíðin sjálf og einnig verður fjallað um heilsu og mataræði, þ.á.m. markfæði. Rf hefur, sem fyrr tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og á ráðstefnunni í Osló munu tveir starfsmenn Rf flytja erindi. Emilía Martinsdóttir mun fjalla um Evrópuverkefnið “SeafoodSense” Aukin skynmatsgæði fyrir neytandann, sem er hluti af SEAFOODplus verkefninu og Kolbrún Sveinsdóttir sem mun segja frá AVS-verkefninu um Viðhorf og fiskneyslu ungra neytenda.

Fólk í matvælaiðnaði hér á landi og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst.  Tekið verður á móti skráningum næstu tvær vikurnar a.m.k.  Nánari lýsing og dagskrá

Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Rf og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Rf hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum varðandi skynmat og gæði matvæla og haldið margvísleg námskeið í skynmati fyrir starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og annarra matvælafyrirtækja á undanförnum árum. Starfsfólk Rf hefur einnig annast bóklega og verklega kennslu í skynmati við matvælafræðiskor Háskóla Íslands og við sjávarútvegsbraut auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Einnig hefur kennir starfsfólk Rf skynmat við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

Skynmat á Rf

IS