Fréttir

Aukið samstarf Matís við Garðyrkjuskóla Íslands

Föstudaginn 19. mars síðastliðinn tók Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís ohf. á móti Gunnari Þorgeirssyni, formanni stjórnar Garðyrkjuskóla Íslands, í húsakynnum Matís að Vínlandsleið. Tilefni heimsóknarinnar var að ræða framhald á samstarfsverkefnum aðilanna tveggja á vettvangi garðyrkju og tengdum sviðum og þá fjölmörgu möguleika sem felast í samstarfinu.

Matís hefur í gegnum árin unnið að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að ræktun og landyrkju í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Með aukinni áherslu á umhverfismál, lýðheilsu og sjálfbærni í samfélaginu hefur þörfin fyrir frekari þekkingu og fjölbreyttari starfsemi á þessu sviði aukist jafnt og þétt. Því standa vonir til þess að aukið samstarf Matís og Garðyrkjuskóla Íslands muni leiða til enn meiri grósku þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun á þessum vettvangi. 

Á fundinum undirrituðu Oddur Már og Gunnar eftirfarandi viljayfirlýsingu:

,,Matís ohf. Kt. 670906-0190 staðfestir hér með vilja sinn til að auka samstarf um rannsóknar- og þróunarverkefni í garðyrkju í samstarfi við forsvarsaðila Garðyrkjuskóla Íslands kt. 560720-0410 og tengdra aðila.

Á undanförnum árum hefur Matís átt samstarf við fjölda aðila á vettvangi íslenskrar garðyrkju og hefur það samstarf einkennst af faglegum metnaði, gagnkvæmu trausti og virðingu í samskiptum.“

Gunnar Þorgeirsson væntir góðs af samstarfinu og í viðtali við Bændablaðið sem kom út í vikunni segir hann:. ,,Það bíða fjölmörg verkefni úrlausnar og við höfum þá reynslu að innan Matís sé bæði að finna faglega getu og samstarfsgetu. Við hlökkum því til framhaldsins“.

Umfjöllun Bændablaðsins um aukið samstarf Matís við Garðyrkjuskóla Íslands má lesa hér.