Fréttir

Breytileiki á eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Makríll hefur á síðustu árum gengið í vaxandi mæli inn í íslenskra lögsögu en hingað kemur fiskurinn í ætisleit yfir sumarið.

Eiginleikar makríls eftir árstíma
Á þeim tíma sem makríllinn veiðist hér við land frá byrjun júní og fram á haust eiga sér stað umtalsverðar breytingar á efnasamsetningu og eiginleikum makríls. Við upphaf vertíðar er fituinnihald í vöðva um 7-10% en um miðjan ágúst er hlutfall nálægt 30%. Á sama tíma fer vatnsinnihald lækkandi á meðan próteininnihald er tiltölulega stöðugt.  Eftir miðjan ágúst fer fituinnihald að lækka aftur.  Breytileiki í hráefnisgæðum og afurðum er því mikill á þeim tíma sem fiskurinn veiðist hér við land sem aftur hefur áhrif á inn á hvaða markaði afurðir fara.

Til að byrja með var makríll nýttur í miklum mæli til mjöl- og lýsisvinnslu en hlutur þess afla sem frystur er til manneldis hefur farið vaxandi.  Því er mikilvægt að þekkja vel þær breytur sem áhrif hafa á hráefnisgæði og vinnslueiginleika aflans.  Á síðasta ári hófst verkefni þar sem aflað er upplýsinga um breytileika í makrílafla sem veiddur er í íslenskri lögsögu.  Sýnum var safnað í samvinnu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og mælingar gerðar á efnasamsetningu og gæðum makrílsins eftir árstíma og veiðisvæðum.  Fiskurinn er viðkvæmt hráefni yfir sumartímann, einkum í júlí þegar áta er mikil í fiskinum.  Hröð kæling á aflanum eftir veiði og lágt hitastig (0 til -2°C) við geymslu aflans er forsenda þess að hægja á þeim skemmdarferlum sem hefjast strax eftir dauða fisksins.  Þær breytingar sem verða á efnainnihaldi fisksins eru líklegar til að hafa áhrif á vinnslueiginleika hans og auka los.

Á komandi vertíð verður ráðist í frekar mælingar til að fá heilstæðari mynd af sveiflum í eiginleikum aflans.  Árstíðabundnar sveiflur er nokkuð auðvelt að meta en öðru máli gegnir um áhrif mismunandi veiðisvæða þar sem fiskurinn færir sig ört úr stað vegna fæðuleitar.  Auk þess sem veðurfar og aðrir þættir geta haft valdið breytileika á milli ára. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, HB Grandi hf, Vinnslustöðin hf, Eskja hf, Skinney–Þinganes hf, Samherji hf, Gjögur hf, Loðnuvinnslan hf, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs. Nánari upplýsingar veita Sigurjón ArasonÁsbjörn Jónsson og Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Matís.