Fréttir

Búa til fiskisósu úr roði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á Seyðisfirði eru nú gerðar tilraunir með að búa til fisksósu úr roði sem annars er urðað. Sósan er mikilvægur próteingjafi fólks í Suðaustur-Asíu. Eftirfarandi frétt birtist í Sjónvarpinu nú fyrir stuttu.

Í fiskivinnslu Brimbergs á Seyðisfriði er verið að flaka Ufsa. Roðið sem inniheldur mikla næringu og prótein rennur í burt og nýtist ekki. En það kann að breytast. Matís og Brimberg að gera tilraunir. Þeir eru búnir að saxa roð og hita það upp. Svo er hvarfefnum bætt út í. Það er í raun ekkert annað en hrísgrjón og bygg. Þetta kemur af stað gerjun og markmiðið er að búa til afurð sem mikið er notuð í asískri matargerð; fisksósu. Tegundirnar eru nokkrar allt eftir því hvað er notað, makríll, síld eða roð af ufsa, þorski og ýsu. Fyrsta gerjunin frá því í vetur hefur verið smökkuð og lofar góðu. 

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís segir að fisksósa sé mikilvæg próteinuppspretta einkum í suðaustur-Asíu. ,,Það er metið að fisksósumarkaðurinn í heiminum hafi verið eitthvað í kringum milljón tonn; einn milljarður lítra af fisksósu var framleiddur í heiminum árið 2005. Það má segja að það sé töluverður markaður og vonandi getum við Íslendingar gert okkur mat úr því,“ segir Arnljótur Bjarki.

Fréttin á RÚV má finna hér.