Marel hefur lengi verið lykilaðili í fiskvinnslukeðjunni á Íslandi með sinn tæknibúnað þar sem lögð er áhersla á hráefnisgæði og vinnsluhraða. Samstarf Matís við Marel er mikið og báðir aðilar hafa verulegan hag af því.
“Innan Marel hefur byggst upp mikil og dýrmæt þekking á vinnslutækni í matvælaiðnaði, ekki síst í sjávarútvegi,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands.
Samstarf hefur verið milli Matís og Marel um margra ára skeið og til að mynda eru nú tveir af nemendum Sigurjóns í starfi hjá fyrirtækinu en voru áður starfsmenn Matís. Báðir störfuðu þeir að verkefnum tengdum fiskvinnslufyrirtækjum í vinnu sinni hjá Matís og segir Sigurjón að dýrmætt sé að þekking þeirra nýtist í tækniþróun innan Marel.
„Samstarf milli okkar er fyrst og fremst verkefnatengt og frá Matís leggjum við inn í þróunina rannsóknagetu okkar og þekkingu á hráefni og áhrifum vinnslunnar á það. Grundvallaratriði er að litið sé á fiskvinnsluferilinn allan, allt frá veiðum til neytandans enda er ekki hægt að búa til góðar fiskafurðir ef gæði hráefnisins er ekki til staðar. Tæknin getur aldrei bætt upp slakt hráefni,“ segir Sigurjón.
„Á undanförnum árum hefur rannsóknarfólkið æ meira komið að þróuninni, bæði þróun tæknilausnanna líkt og hjá Marel og rannsóknum inni á gólfi hjá vinnslufyrirtækjunum. Enda segjum við stundum að þar séu okkar bestu tilraunasalir í rannsóknarvinnunni. Þar getum við prófað okkur áfram, gert okkar mælingar og nýtt okkur niðurstöðurnar jafnóðum og þær verða til. Matís er því mjög mikilvægt að geta unnið við hlið fyrirtækja á borð við Marel og aukið um leið tengsl okkar og samvinnu við fiskvinnslufyrirtækin. Það er íslenskum fiskiðnaði til framdráttar.
Rannsóknarvinnan snýst í dag æ meira um þróun á vinnsluferlunum í heild og þar af leiðandi horfum við til hráefnismeðferðarinnar úti á sjó, jafnt sem þátta sem snerta flutning afurða á markað, pökkun afurða og svo framvegis. Í vinnslunni sjálfri er horft til samþættingar tæknibúnaðarins og þegar frá líður getur sú þróun leitt af sér breytingar sem í framtíðinni verður talað um sem byltingu. Markmiðið er að búa til enn betri afurðir – ennþá meira verðmæti úr því sem auðlindin gefur,“ segir Sigurjón Arason.