Fréttir

Til mikils að vinna í líftæknirannsóknum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

“Líftæknismiðja Matís á Sauðárkróki gegnir mikilvægu hlutverki í líftæknirannsóknum. Hugtakinu líftækni bregður æ oftar fyrir í umræðu um nýsköpun í atvinnulífinu og nú þegar hefur verið sýnt fram á árangur í rannsóknaverkefnum á líftæknisviði sem skilað hafa verðmætum lífvirkum efnum, bæði til vöruframleiðslu hér innanlands og útflutnings,“ segir dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís.

Dæmi um þetta eru húðvörurnar UNA sem byggjast á lífvirkni efna úr bóluþangi sem á uppruna sinn m.a. í Breiðafirði. Hluti rannsókna á bóluþanginu fór fram í Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki en vörurnar eru framleiddar í Reykjavík og því má segja að allt þróunar- og framleiðsluferlið sé með snertifleti á stórum hluta landsins.

Líftæknismiðja Matís er staðsett í einu af öflugustu matvælavinnsluhéruðum landsins, Skagafirði. Þar starfar hún við hlið fyrirtækja í sjávarafurðaframleiðslu, kjöt- og mjólkuriðnaði sem hafa nýtt sér nálægðina í samstarfi um rannsóknarverkefni. Sem dæmi þar um má nefna verkefni fyrir FISK Seafood sem miðar að auknum rekjanleika sjávarafurða fyrirtækisins. Matís á Sauðárkróki hefur einnig umtalsvert samstarf við Háskólann á Hólum og þannig fæst betri nýting á bæði rannsóknaraðstöðu og aukinn sameiginlegur þekkingargrunnur á svæðinu.

“Mikil verðmæti eru fólgin í lífvirkni efna. Í rannsóknum í Líftæknismiðjunni er kastljósinu meðal annars beint að jákvæðum áhrifum fiskpróteina á blóðþrýsting og jákvæðum áhrifum efna unnum úr þangi og sæbjúgum á blóðsykur. Þegar sýnt hefur verið fram á þessa lífvirkni með rannsóknum margfaldast verðmæti lífvirku efnanna. Til mikils er því að vinna,” segir Hólmfríður.