Fréttir

Ekki sama hvenær og hvar fiskur er veiddur – Sveinn Margeirsson deildarstjóri Matís um doktorsverkefni sitt

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú er unnið að því að kortleggja hvernig best sé að haga veiðum með tilliti til vinnslu. Hvernig hámarka megi afrakstur bæði útgerðar og fiskvinnslu með því að nýta upplýsingar um gæði fisks eftir veiðisvæðum og árstíma og beina sókninni eftir því. Þannig fæst betra hráefni til vinnslunnar, sem leiðir svo til arðbærari vinnslu og betri og dýrari afurða. Það er alls ekki sama hvar og hvenær fiskurinn er veiddur, segir í Morgunblaðinu um doktorsverkefni Sveins Margeirssonar.

Markmið verkefnisins (Vinnsluspá þorskafla) hjá Sveini, sem er deildarstjóri hjá Matís, var að safna gögnum um þorskveiðar og vinnslu fjögurra íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, greina þau á tölfræðilegan hátt og setja upp beztunarlíkön til að auðvelda stjórnun á veiðum og vinnslu þorsks á Íslandsmiðum, segir í grein Hjartar Gíslasonar blaðamanns á Morgunblaðinu. “Gögnum um flakanýtingu, los og hringorma í þorski var safnað frá 2002 til 2006. Allar þessar breytur hafa veruleg áhrif á hagnað af þorskveiðum og vinnslu.

Talsverður munur á flakanýtingu eftir svæðum

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að afrakstur virðiskeðju þorsks geti verið aukinn með því að sækja þorskinn á ákveðin veiðisvæði og á ákveðnum tíma árs en niðurstöðurnar sýndu að flakanýting, los og hringormar í þorski eru m.a. háð veiðistaðsetningu og árstíma,” segir í grein Morgunblaðsins. Sveinn segir í greininni að niðurstöðurnar séu í raun og veru þær að það sé talsverður munur á flakanýtingu eftir svæðum og árstíma.

“Bein tengsl voru á milli loss í fiskinum og aldurs hráefnisins svo og á hvaða tíma fiskurinn var veiddur. Þá voru einnig tengsl milli orma í fiskinum og stærðar hans og einnig fór fjöldi orma nokkuð eftir því hvar fiskurinn var veiddur. Næsta skrefið var síðan að byggja aðgerðargreiningar- eða beztunarlíkan á þessum upplýsingum öllum. Það tók þessar niðurstöður, vann þær áfram og setti í samhengi við olíuverð, fjarlægð á miðin og fleira í þeim dúr. Þannig var hægt að fá mat á því hvert væri hagkvæmast að sækja fiskinn.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu miðvikudaginn 30. janúar 2008.