Fréttir

Endurhönnun blæðingar-búnaðar fyrir fiskiskip

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Sæmundur Elíasson

Verkefnastjóri

saemundur.eliasson@matis.is

Fjallað var um samstarfsverkefni Micro ryðfrí smíði ehf., Skinney-Þinganes og Matís um þróun á lóðréttum Dreka fyrir fiskiskip í Sjómannadagsútgáfu Sóknarfæri.

Blæðingar- og kælingarbúnaðinn Drekann er að finna í mörgum skipum hér á landi en endurbætt lóðrétt útfærsla hans verður algjör nýjung í fiskiskipum.

Í lok síðasta árs styrkti Tækniþróunarsjóður tveggja ára verkefni til endurhönnunar Drekans, sem er blæðingar- og kælingarbúnaður í skipum en að verkefninu standa fyrirtækið Micro ryðfrí smíði, sem framleiðir búnaðinn, sjávarútvegsfyrirtækið Skinney-Þinganes og Matís. Drekinn er vel þekktur búnaður og hefur verið notaður um borð í fjölda skipa í flotanum til blæðingar á fiski, sem er fyrsti áfangi vinnsluferils afla um borð. Micro hefur framleitt búnaðinn frá árinu 2012 en nú er komið að endurhönnun hans og um leið algjörlega nýrri hugsun í útfærslu því næsta kynslóð Drekans verður lóðrétt. Slík útfærsla hefur aldrei áður sést í skipum en ætlunin er að lóðréttur Dreki verði í fjórum nýjum togskipum sem nú eru í smíðum í Noregi en Skinney-Þinganes og Gjögur fá tvö skip hvort fyrirtæki.

Einsleitni í hráefnismeðhöndluninni
Matís kemur að rannsóknarþætti verkefnisins og þann verkhluta annast Sæmundur Elíasson hjá Matís á Akureyri. „Að okkur snýr til dæmis að bera saman mismunandi leiðir og útfærslur, bera saman gæði á fiski og leggja þannig mat á ávinninginn af búnaðinum. Drekabúnaðurinn er bæði blæðingar- og kælibúnaður fyrir fisk strax eftir blóðgun og markmiðið er að endurhanna búnaðinn frá grunni. Nýja útfærslan verður lóðrétt í skipunum í stað þess að vera lárétt á vinnsluþilfari, líkt og fram að þessu hefur tíðkast,“ segir Sæmundur en jafnframt breytingu á útfærslunni sjálfri er markmiðið að sjálfvirkni verði meiri en áður og skili auknum gæðum hráefnisins. Sæmundur segir að Drekabúnaðurinn sem nú er í skipum hafi reynst afar vel og hafi þann kost að rúmmálsnýting á vinnsludekkinu verði góð en þar skiptir miklu máli að fullnýta plássið. Í stuttu máli er um að ræða hólfaskipt færiband í lokuðu keri, fylltu af sjó eða kælimiðli. Nafnið Drekinn er einfaldlega sótt til samlíkingarinnar við hjólabelti skriðdreka.
„Hugsunin að baki búnaðinum er að allur fiskur fái nákvæmlega jafn langa meðhöndlun sem tryggir einsleitni í hráefnismeðhöndluninni. Fiskur sem kemur í Drekann fer í hólf sem myndast milli tveggja spyrna á bandinu og fer síðan heilan hring í skriðdrekabeltinu og er allan tímann á kafi í sjó eða kælimiðli. Með hraðanum á beltinu er hægt að stjórna hve lengi fiskurinn er í blæðingunni en eitt af markmiðum þessa nýja verkefnis er að auka sjálfvirknina í tímastýringunni og innmötun á fiski í Drekann,“ segir Sæmundur en lengd Drekans er mismunandi eftir stærð skipa og rými á vinnsluþilfari.

Nýstárleg hugsun
Lóðrétt útfærsla nýja Drekans í skipum Skinneyjar-Þinganess og Gjögurs er athyglisverð þar sem mikið gólfrými sparast á vinnsluþilfarinu. Drekinn kemur til með að ná frá vinnsluþilfari og niður í lest skipsins og verður rýmið lokað.
„Þetta þýðir að fiskurinn kemur úr blóðguninni, fer inn í Drekann og ferðast svo í honum niður í lestina og kemur síðan upp aftur þaðan sem hann heldur svo áfram í kælingu og í kör. Hugmyndafræðilega er þetta mjög einfalt en í verkefninu er verið að leysa ýmsa tæknilega þætti á borð við þrif, viðhald búnaðarins og fleira. Grunnhugmyndin um að fiskurinn fái jafna meðferð í sjóbaði meðan honum blæðir er sú sama og áður en hugmyndin um lóðréttan búnað sem gengur niður í lestina er hins vegar ný af nálinni og mjög áhugaverð,“ segir Sæmundur en smíði togskipanna fjögurra er langt komin í Noregi og verður þessi búnaður settur um borð í þau síðar á árinu.

Blóðgun sérstaklega mikilvæg í saltfiskvinnslu
Mikið kastljós er og hefur verið á undanförnum árum á aflameðferð allt frá fyrsta stigi úti á sjó og sér í lagi hafa breytingar orðið hvað kælingu hráefnisins varðar. Lögð er áhersla á að kæla fiskinn sem allra fyrst eftir að hann kemur um borð. Sæmundur segir að innan Matís sé orðin til mikil þekking á þessum ferlum enda hefur fyrirtækið verið virkur þátttakandi í þessari þróun með sjávarútvegsfyrirtækjum og framleiðendum tæknibúnaðar fyrir fiskiskip og fiskvinnslur. Hann segir blæðingarþáttinn ekki síður mikilvægan en kælinguna, sér í lagi þegar um er að ræða fisk sem fer í söltun.
„Í upphafi þessa verkefnis förum við yfir árangurinn af notkun Drekabúnaðar í skipum Skinneyjar-Þinganess og þær niðurstöður voru mjög góðar, þ.e. að 10 til 15% hærra hlutfall fisks með þessari aðferð skilaði sér í verðhærri gæðaflokka afurða í saltfiskvinnslu. Blæðingin er sérstaklega mikilvæg hvað saltfiskvinnsluna varðar. Illa blóðgaður fiskur sem fer í salt verður lakari vara eftir verkunarferli og lendir því í verðminni afurðaflokka. Þess vegna skiptir blóðgunin ekki síður máli en kælingin sjálf,“ segir Sæmundur.