Fréttir

Er sjálfbær aukning í fiskveiðum möguleg í ljósi loftlagsbreytinga?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Loftlagsbreytingar eru raunverulegar og viðvarandi. Meðal þess sem veldur áhyggjum í tengslum við loftlagsbreytingar er ógn við sjálfbæran vöxt fiskeldis og fiskveiða á heimsvísu. Jarðarbúum fjölgar ört, kröfur um næringarríkan og hollan mat aukast og framtíðarspár benda til samdráttar í matvælaframleiðslu vegna loftlagsbreytinga

ClimeFish – Nýtt verkefni

ClimeFish er evrópskt rannsóknaverkefni styrkt af Rannsóknaáætlun Evrópu, Horizon 2020, og hófst vinna í verkefninu 1. apríl sl. Markmið með verkefninu er að tryggja að framleiðsla sjávarafurða geti aukist, bæði á tegundum og á svæðum þar sem sjálfbær aukning er möguleg að teknu tilliti til væntanlegra loftlagsbreytinga. Verkefnið verður þáttur í því að tryggja öruggt framboð matvæla, atvinnuöryggi og sjálfbæra þróun dreifbýlla strandsvæða.

Í ClimeFish verkefninu verða þróuð fráviksdæmi og gerð félagshagfræðileg greining til að bera kennsl áhættu og tækifæri fyrir fiskeldi í ljósi loftslagsbreytinga. Einnig verða þróaðar aðferðir til að draga úr áhættu og greina tækifæri í samstarfi við hagsmunaaðila. Þetta mun þjóna þeim tilgangi að styrkja vísindalega ráðgjöf og bæta langtíma framleiðsluáætlanir og stefnumótun. Í ClimeFish verkefninu verður framleiðsla skoðuð á þremur sviðum, í fiskveiðum, fiskeldi í sjó og fiskeldi í vötnum og tjörnum. Sextán ferlisathuganir (e. case study) verða framkvæmdar á meira en 25 fisktegundum víðsvegar í Evrópu. Hagsmunaaðilar í verkefninu eru 21 frá 16 löndum og eru frá háskólum, rannsóknastofnunum og meðalstórum fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.