Tengiliður
Anna Kristín Daníelsdóttir
Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri
annak@matis.is
Þegar matvælavá og/eða matvælasvindl kemur upp þá getur Matís notað erfðagreiningu til að greina uppruna sýkinga eða matvæla.
Mikilvægt er að tryggja að nýjasta þekking, færni og tækni sé til á Íslandi, að virk viðbragðsþjónusta sé við lýði og viðbrögð lögaðila séu hröð og rétt. Þá er mikilvægt að á sem skemmstum tíma sé hægt að greina tegundir sýkinga og uppruna þeirra til að koma í veg fyrir frekara smit og þannig lágmarka skaðann.
Matís fær sýni til að rekja til uppruna þegar búið er að staðfesta að um matarsýkingu eða matareitrun er að ræða í sjúklingum. Sýnin eru úr sjúklingum, matvælum og umhverfi og notar Matís m.a. erfðagreiningar til að sannreyna uppruna sýkinga og eitrana.
Erfðagreiningar eru líka eitt af verkfærunum sem nýtast í baráttunni gegn matvælasvindli og hægt er að greina bæði til tegunda og uppruna.
Ferlið þegar hópsýking kemur upp byggir á samstarfi margra innlendra eftirlitsaðila og rannsóknastofa: Sóttvarnalæknir, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga, Landspítalinn og Matís.
Alþjóðlegt samstarf er mikilvægt, bæði til að byggja upp leiðandi tækni og vísindi og til að tryggja rétt viðbrögð við faraldri.
Sjá nánar viðtöl við sérfræðinga Matís, þær Hrönn Ólínu Jörundsdóttur og Önnu Kristínu Daníelsdóttur, í Tíufréttum RÚV (fréttin hefst á 6:40 mín) og morgunútvarp RÚV Rás.