Fréttir

Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani

Nýverið birti tímaritið Icelandic Agricultural Science greinina Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani eftir þau Jón H. Eiríksson, Ágúst Sigurðsson, Guðmund Jóhannesson og Emmu Eyþórsdóttur.

Þar er greint frá viðamikilli rannsókn þar sem alls 480.495 mælingar á daglegri nyt 33.052 íslenskra kúa voru notaðar til að meta erfðastuðla fyrir mjólkurmagn, fitumagn, próteinmagn og frumutölu á fyrstu þremur mjaltaskeiðum með slembiaðhvarfslíkani. Í ljós kom að arfgengi allra eiginleika reyndist lægst í upphafi mjaltaskeiðs en hæst um eða eftir mitt mjaltaskeið. Þá var arfgengi afurðaeiginleika metið hærra í þessari rannsókn en í eldri rannsóknum á stofninum. Athyglisverð niðurstaða var ennfremur að erfðabreytileiki á mjólkurúthaldi í stofninum gerir kleift að breyta lögun mjaltakúrfunnar fyrir íslenskar kýr með úrvali.

Greinina má nálgast hér.