Fréttir

FAO gefur út rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg í samstarfi við Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) býður nú upp á rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg og viðbrögð við þeim, bæði í formi aðlögunar- og mótvægisaðgerða. Námskeiðið, sem er nú öllum opið í gegnum vefsíðu FAO, var unnið í tengslum við rannsóknarverkefnið ClimeFish sem lauk nú á dögunum. Matís hafði þar yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins sem sneri að aðlögun gegn áhrifum loftslagsbreytinga og gerð aðlögunaráætlana fyrir fiskeldi og fiskveiðar, og átti því stóran þátt í gerð námsefnisins.

Umrætt námskeið byggir á umfangsmikilli vinnu FAO á sviði loftslagsmála innan sjávarútvegsins, auk þess sem helstu niðurstöður ClimeFish verkefnisins eru nýttar. FAO hefur verið leiðandi á þessu sviði og birt fjölmargar skýrslur og samantektir um áhrif loftslagbreytinga á sjávarútveg á heimsvísu og þær áskoranir sem því fylgja. Má þar nefna stóra úttekt frá árinu 2018, sem Matís fjallaði einnig um á vefsíðu sinni. Námskeiðið veitir innsýn inn í áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og fiskveiðar, aðlögunar- og mótvægisaðgerðir, sem og þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til að setja upp aðlögunaraðgerðir til að bregðast við. Allir þeir sem hafa áhuga á að auka skilning sinn á umræddu viðfangsefni geta einfaldlega búið sér til notendaaðgang í gegnum vefsíðu FAO og í framhaldinu tekið námskeiðið, sem tekur um 2 klukkustundir. Námskeiðið er því aðgengilegt öllum en var þó hannað með ákveðna hópa í huga, þ.e. stjórnmálaleiðtoga og aðila innan stjórnsýslunnar, námsmenn, sérfræðinga, verkefnastjóra og fræðslufulltrúa innan sjávarútvegsins.

Uppbygging námskeiðsins er á þá leið að eftir ítarlegun inngang er námsefninu skipt upp í þrjár einingar, þar sem þeirri fyrstu er ætlað að auka almennan skilning á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra innan fiskeldis og fiskveiða, önnur einingin fjallar aðlögun, aðlögunaraðgerðir og gerð aðlögunaráætlana og sú þriðja ræðir mótvægisaðgerðir og hvernig þær geta dregið úr útblæstri innan geirans.

Hægt er að nálgast námskeiðið í rafrænni útgáfu í gegnum heimasíðu FAO, þar sem einnig er hægt að hlaða því niður, endurgjaldslaust. Að námskeiðinu loknu er hægt að nálgast sérstakt viðurkenningarskjal, gegn því að standast stutt lokapróf.

Aðkoma Matís að mati á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi, þróun aðgerðaáætlana, sem og þróun leiðbeininga og kennsluefnis á þeim sviðum, er gott dæmi um hvernig alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar byggir upp þekkingu og innviði sem nýtist íslensku samfélagi.

Nálgast má námskeiðið hér.

IS