Fréttir

Farsælt samstarf Trackwell og Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Trackwell og Matís eiga að baki langt og farsælt samstarf og eru verkefni eins og FramlegðarstjórinnAfurðastjórinn og FisHmark dæmi um farsæl samstarfsverkefni fyrirtækjanna tveggja. Á Nýsköpunartorgi Samtaka Iðnaðarins, sem haldið var 23. og 24. maí sl., skrifuðu Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri Trackwell og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, undir viljayfirlýsingu um enn nánara samstarf. 

Í ofangreindum verkefnum, og fleirum til, hefur Tækniþróunarsjóður Rannís komið að fjármögnun og veitt verkefnunum fjárhagslegt brautargengi ásamt AVS sjóðnum.

Lykilafurð samstarfs fyrirtækjanna er og hefur verið aflaskráningarkerfi sem íslensk og erlend sjávarútvegsfyrirtæki nýta sér til aukinnar verðmætasköpunar, bættrar nýtingar og lágmörkunar umhverfisáhrifa af veiðum.

Ljóst er að þau verkefni sem TrackWell og Matís hafa unnið í sameiningu hafa skilað sjávarútvegsfyrirtækjum auknu gagnagegnsæi og þar með auðveldað stýringu veiða og vinnslu. Mikilvægt er að nýta þau gögn sem verða til í virðiskeðjunni á kerfisbundinn hátt til að hámarka framlegð og arðsemi greinarinnar í heild sinni.

Trackwell og Matís eru ánægð með núverandi samstarf, afurðir þess og tækifærin sem skapast hafa þegar tveir öflugir aðilar vinna saman. Ætlunin er að auka enn frekar samstarfið og mun aukin áhersla verða lögð á markaðsmál þar sem báðir aðilar tryggja að mikilvægi hvors annars í sameiginlegum verkefnum sé sýnilegt. 

Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri Trackwell og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifa undir viljayfirlýsinguna.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.