Fréttir

Fölsuð heilbrigðisvottorð fyrir lax hjá rússneskum embættismönnum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Systurstofnun Matvælastofnunar (MAST) í Rússlandi hefur undanfarnar tvær vikur verið í úttekt á Íslandi. Starfsmenn hennar voru hér á landi fyrir hönd Tollabandalags Rússlands, Hvíta Rússlands og Kasakstan eins og greint er frá á heimasíðu MAST.

Í fréttinni frá MAST kemur m.a. fram að heilbrigðisvottorð hafi verið fölsuð í nafni stofnunarinnar og nokkurra íslenskra fyrirtækja vegna innflutnings á laxi til bandalagsþjóðanna en MAST hefur undir höndum afrit af nokkrum fjölda slíkra vottorða. Útgáfa falsaðra vottorða er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir íslenskan matvælaiðnað og mikilvægt að róið sé öllum árum að koma í veg fyrir slíkt hvort sem þessi eða önnur lönd eiga hlut að máli.

Niðurstaða heimsóknarinnar var á þá leið að íslenskur matvælaiðnaður og MAST njóta trausts frá systurstofnun MAST í umræddu tollabandalagi og að mikilvægt væri að koma á fót rafrænum samskiptum á milli stofnananna.

Matís tekur þátt í evrópsku verkefni sem snýr að fölsunum og heilindum í matvælaiðnaði en þessu verkefni er ætlað að stuðla að nýtingu rannsókna og þróunar til að tryggja falsleysi evrópskra matvæla. Verkefnið miðar að því að þróa aðferðir til að greina og hindra svik í evrópskum matvælaiðnaði og má í því samhengi nefna mikilvægi t.d. erfðarannsókna á tegundauppruna og innihaldi matvæla.

Í matvælaiðnaði líkt og annarstaðar eru heilindi forsenda þess að neytandinn treysti vörunni, en matvælaframleiðendur hafa fundið fyrir áhrifum þess þegar traust viðskiptavina er laskað vegna hneyksla, en margir muna eflaust eftir fárinu sem fylgdi þegar uppkomst að hrossakjöt hafði verið notað í stað nautakjöts í fjölmörgum tilbúnum réttum.

Nánar um verkefnið MatarHeilindi (FoodIntegrity).