Fréttir

Forvarnir í þorskeldi – Hélène Liette Lauzon frá Matís ver doktorsritgerð sína

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Föstudaginn 17. desember nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands.

Þá ver Hélène L. Lauzon, matvælafræðingur, doktorsritgerð sína „Forvarnir í þorskeldi: Einangrun, notkun og áhrif bætibaktería á fyrstu stigum þorskeldis“ (Preventive Measures in Aquaculture: Isolation, Application and Effects of Probiotics on Atlantic Cod (Gadus morhua L.) Rearing at Early Stages).

Andmælendur eru dr. Einar Ringø, prófessor við Norwegian College of Fishery Science, Faculty of Bioscience, University of Tromsø, og dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Sigríður Guðmundsdóttir M.Sc., sérfræðingur við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, dr. Ragnar Jóhannsson, sérfræðingur hjá Matís ohf, dr. Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Seppo Salminen, prófessor og forstöðumaður “Functional Foods Forum” við háskólann í Turku í Finnlandi.

Dr. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 132 í Öskju og hefst klukkan 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Léleg afkoma á fyrstu stigum þorskeldis er vandamál og notkun sýklalyfja hefur verið helsta úrræðið. Notkun bætibaktería er talin vera mögulegur valkostur sem fyrirbyggjandi aðferð til að stuðla að stöðugleika í eldisumhverfi og bættri heilsu eldisdýra. Markmið doktorsverkefnisins var að auka lifun og stuðla að þroskun þorsklirfa á fyrstu eldisstigum. Áhersla var lögð á einangrun og greiningu ræktanlegra baktería auk þróunar forvarnaraðferða. Niðurstöður rannsóknanna eru kynntar í 5 vísindagreinum.

Áhrif mismunandi meðhöndlunar á ræktanlega og ríkjandi örveruflóru í þorskeldi voru skoðuð á tveimur klaktímabilum og einnig eiginleikar tengdir sýkingarmætti baktería í eldisumhverfinu. Niðurstöðurnar sýna að bæði fóðrun og mismunandi meðferðir höfðu áhrif á gerð örveruflóru og að samsetning örveruflórunnar tengist velgengni í lirfueldi. Einnig var hannað skimunarferli til að velja bætibakteríur úr eldisumhverfi þorsks. Tvær bætibakteríur, Arthrobacter bergerei og Enterococcus thailandicus, voru einangraðar og eiginleikum þeirra lýst. Rannsóknir á lirfu- og seiðastigi staðfestu getu þessara bætibaktería til að efla forvarnir á fyrstu stigum þorskeldis.

Verkefnið var unnið hjá Matís ohf. Samstarfsaðilar voru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík.

Um doktorsefnið
Hélène L. Lauzon er fædd í Montreal í Kanada árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi frá Collège Saint-Maurice árið 1983 og var AFS skiptinemi á Íslandi á árunum 1983-1984. Hún lauk BS prófi í matvælafræði við Macdonald Campus við McGill-háskóla í Kanada árið 1991 og MS prófi í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 1997. Hélène hóf störf hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins við örverurannsóknir árið 1992 og varð síðar sérfræðingur hjá Matís ohf. Hún hóf doktorsnám við Læknadeild árið 2005.

Foreldrar Hélène eru Gilles Lauzon, kjötiðnaðarmaður, og Suzanne Éthier, húsfreyja. Hún er gift Þorfinni Sigurgeirssyni, grafískum hönnuði og myndlistarmanni, og saman eiga þau tvö börn, Díu og Dag.