Fréttir

Framleiðsla nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum

NextGenProteins er verkefni til 4ja ára og standa að því 21 samstarfsaðilar frá 10 Evrópulöndum, þar af fjórir þátttakendur frá Íslandi.

Matís ohf. leiðir nýtt evrópskt rannsóknaverkefni, NextGenProteins, þar sem þróa á næstu kynslóðir af matvæla- og fóðurpróteinum með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Verkefnið er liður í þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum á komandi árum til að fullnægja aukinni próteinþörf heimsins á sem umhverfisvænstan máta. Verkefnið hlaut yfir milljarð íslenskra króna í styrk úr evrópsku rannsóknaáætluninni Horizon 2020 fyrr á þessu ári og er nú að hefjast.

Aðgengi að hágæða, sjálfbært framleiddum próteinum verður sífellt takmarkaðra vegna fólksfjölgunar, aukins þrýstings á náttúruauðlindir og loftslagsbreytinga. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir próteini á heimsvísu aldrei verið meiri. Til að mæta aukinni eftirspurn verður núverandi próteinframleiðsla að tvöfaldast fyrir árið 2050. Evrópa er ekki sjálfbær þegar kemur að próteinframleiðslu, en 70-80% af fóðurpróteinum álfunnar er innflutt, að mestu frá Suður-Ameríku. Þessi staðreynd hefur beint sjónum að fæðuöryggi og almennri samkeppnishæfni Evrópu.

Mikil þörf á sjálfbærum próteingjöfum

Neikvæð áhrif próteinframleiðslu nútímans eru að mestu leyti tengd verksmiðjubúskap sem orsakar víðtæka losun gróðurhúsalofttegunda, óhóflegri notkun lands og vatns, sem og tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Til þess að mæta áætlaðri framtíðareftirspurn eftir próteini munu núverandi framleiðsluaðferðir setja aukinn þrýsting á auðlindir heimsins og leiða til frekari losunar gróðurhúsalofttegunda. Það er því afar mikilvægt að finna og þróa sjálfbæra próteingjafa sem hægt er að framleiða í magni sem mætir vaxandi eftirspurn matvæla- og fóðuriðnaðarins.

NextGenProteins mun þróa framleiðslu þriggja nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum og sannreyna notagildi þeirra í ýmsum matvælum og dýrafóðri. Mikilvægur þáttur við prófanir er að mæta þörfum viðskiptavina og efla traust þeirra á nýjum próteinum. Með því að sýna fram á notagildi næstu kynslóðar próteina – sem framleidd eru með minna álagi á náttúruauðlindir og minni umhverfisáhrifum – í matvæli og fóður og efnahagslega hagkvæmni þeirra, mun verkefnið verða liður í að styrkja matvælaöryggi og sjálfbærni próteinframleiðslu í Evrópu.

IS