Fréttir

Fundur í nýju fjölþjóðaverkefni ESB – Matís leiðir samstarfið

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís gegnir forystuhlutverki í  nýju og umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, AMYLOMICS. Fyrsti fundurinn í verkefninu var haldinn mánudaginn 28. mars síðastliðinn í höfuðstöðvum Matís í Reykjavík.

Upphæð styrksins er alls að jafnvirði um 390 milljónir króna og þar fer af til Matís 72 milljónir króna og samanlagt 58 milljónir króna til tveggja annarra íslenskra fyrirtækja. Auk þess munu meistara- og doktorsnemendur munu starfa að verkefnunum sem tengjast Amylomics.  

AMYLOMICS verkefnið mun hagnýta fjölbreytt lífríki jarðhitasvæða á Íslandi við að þróa hitaþolin ensím til notkunar í sterkju- og sykruiðnaði. Hita- og sýruþol eru nauðsynlegir eiginleikar í slíkum iðnaðarferlum en þá má finna í ensímum lífvera á hverasvæðum.

Meðal þátttakenda í AMYLOMICS er franska fyrirtækið Roquette Frères, sem er eitt hið stærsta í Evrópu í framleiðslu sterkju og afleiddra afurða, með ársveltu upp á um 7 milljarða evra. Roquette Frères mun geta nýtt ensím, sem þróuð verða í verkefninu til endurbóta á ferlum og nýsköpunar í framleiðslu sinni. Hluti ensímanna verður markaðssettur af sprotafyrirtækinu Prokazyme til notkunar í margvíslegum sykruiðnaði.

  • Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri hjá Matís, verður verkefnisstjóri. Tvö önnur íslensk fyrirtæki, taka beinan þátt í verkefninu, Roche Nimblegen og Prokazyme.

Verkefnið og stuðningur ESB við það eru góð tíðindi fyrir íslenskt vísindasamfélag og viðurkenning fyrir Matís. Rannsóknarstyrkir ESB eru afar eftirsóttir og mikil samkeppni er um þá. Með þessu festir Matís sig enn frekar í sessi í alþjóðlegu vísindasamstarfi og svo er auðvitað sérstakur fengur að því fyrir Íslendinga að fá nú verulega fjármuni inn í samfélagið erlendis frá á þessum samdráttar- og niðurskurðartímum.

Nánari upplýsingar veitir dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson.