Fréttir

Gæðastjórnunarnám fyrir nemendur frá þróunarlöndunum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Frá því Sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna var settur á laggirnar hér á landi fyrir hartnær 11 árum hefur Matís annast kennslu á gæðastjórnunarsviði  skólans. Margeir Gissurarson, verkefnastjóri Matís, hefur umsjón með kennslunni en að henni koma fjölmargir starfsmenn fyrirtækisins og af mismunandi sviðum þess.

„Það eru alla jafna um 20 manna hópar sem koma til okkar í gæðastjórnunarnám og hluti þeirra heldur síðan áfram vinnu sinni hjá okkur að sínum lokaverkefnum sem þá tengjast gæðastjórnun og vinnslu á fiski,“ segir Margeir.

Gæðastjórnunarnámið hjá Matís stendur í um fimm mánuði. Fyrsti hlutinn er kynning á gæðum,  öryggi og vinnslu sjávarafurða en þar á eftir tekur við val nemenda á sérsviðum og verkefnum. Leiðbeinendur í þeim koma síðan frá Matís.

„Þeir nemendur sem hafa staðið sig vel hjá okkur fara gjarnan áfram í masters- og doktorsnám við Háskóla Íslands eða háskóla í öðrum löndum, en allt eru þetta nemendur sem koma frá þróunarlöndunum. Þau tengsl sem hafa orðið til í gegnum vinnu okkar fyrir Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna skipta bæði Ísland máli til framtíðar sem og okkar fyrirtæki. Enda hefur Matís fengið verkefni í þessum löndum beinlínis í gegnum tengingar við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna sem og fyrrum nemendur okkar. Þar má til dæmis nefna námskeiðahald í Úganda og Kenía. Það er ekki vafamál að fyrir Ísland er mikill ávinningur að tengjast þróunarlöndunum á þennan hátt á sjávarútvegssviðinu því undantekningalítið hverfa þessir nemendur til opinberra stjórnunarstarfa í sínum heimalöndum,” segir Margeir.

Nánari upplýsingar: Margeir Gissurarson