Fréttir

Getum við betrumbætt öll matvæli með hráefnum úr sjónum?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú fyrir stuttu var haldinn hér á landi „kick-off” fundur í nýju verkefni, EnRichMar, sem stýrt er af Matís og er styrkt til tveggja ára í gegnum 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu taka þátt, auk Matís, íslensku fyrirtækin Grímur kokkur sem framleiðir tilbúna sjávarrétti og Marinox sem framleiðir lífvirk efni úr sjávarþörungum.

Nú fyrir stuttu var haldinn hér á landi „kick-off” fundur í nýju verkefni, EnRichMar, sem stýrt er af Matís og er styrkt til tveggja ára í gegnum 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu taka þátt, auk Matís, íslensku fyrirtækin Grímur kokkur sem framleiðir tilbúna sjávarrétti og Marinox sem framleiðir lífvirk efni úr sjávarþörungum. Í verkefninu eru  einnig matvælafyrirtækin Ruislandia í Finnlandi og  Den Eelder í Hollandi, og síðan BioActive Foods í Noregi sem framleiðir omega-duft og olíur, og rannsóknastofnanirnar VTT í Finnlandi, TNO í Hollandi og Háskólinn í Milano á Ítalíu.

Hugmyndin að EnRichMar verkefninu hefur þróast í gegnum samvinnu Matís og Gríms kokks í Vestmannaeyjum frá árinu 2008. Þá hófst verkefni sem miðaði að því að þróa vörur sem bættar voru með lífefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungum, fiskpróteinum og ómega-3 fitusýrum og var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í kjölfarið fékkst styrkur frá Nordic Innovation sjóðnum um vinnu á sama sviði. Almennt mátti álykta út frá þeim verkefnum að auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki og með því að nýta hráefni úr hafinu í fullunnar neytendavörur eykst verðmæti þeirra. Gengið hefur verið skrefi lengra í vöruþróun með íslensk efni úr hafinu til íblöndunar í matvæli og hér hafa skapast markaðstækifæri, bæði fyrir innanlandsmarkað og útflutning við að nýta vannýtt sjávarfang í verðmætari afurðir.

Notkun ómega-3 og lífvirkra efna úr þörungum í matvælum gæti stuðlað að jákvæðum heilsufarslegum áhrifum við neyslu og stöðugleika matvælanna. Meginmarkmið EnRichMar er í raun tvíþætt. Annars vegar að þróa sjávarrétti, mjólkur- og kornvörur auðgaðar með ómega-3 og rannsaka áhrif neyslu slíkra afurða á geð- og heilastarfsemi og hinsvegar slíkar vörur auðgaðar með lífvirku efni úr þörungum og rannsaka áhrif neyslu þeirra matvara á bólgu- og oxunarálag sem og sykursýki.

Þróun tilbúinna matvæla með lífvirkum efnum er mikilvægt viðfangsefni fyrir matvælaiðnaðinn bæði hér heima og annars staðar í Evrópu. Tilgangur verkefnisins er að styrkja samkeppnisstöðu og auka markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem eru í verkefninu og skapa ný tækifæri á mörkuðum.

Nánari upplýsinga veitir Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís