Fréttir

Getur áhættumat stuðlað að beinum viðskiptum bænda með kjöt og kjötafurðir?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dreifing og sala heimaslátraðra afurða er ekki leyfileg í dag en hver er raunverulega áhættan? Í Þýskalandi er eftirliti með slátrun bænda á lömbum undir þriggja mánaða aldri haldið í lágmarki þar sem áhættan fyrir neytendur er metin lítil. Bein viðskipti með afurðir af þeim lömbum eru ekki takmörkunum háð umfram hefðbundnar afurðir, en þetta kom fram í fyrirlestri Andreasar Hensel, forstjóra þýsku áhættumatsstofnuninni BfR á fundi Matís í Miðgarði, Varmahlíð, 5. júlí síðastliðinn.

Til þess að hægt sé að gera breytingar á reglugerðum og lögum varðandi matvælaframleiðslu þá verður að vera öruggt að þær breytingar ógni ekki öryggi og heilsu neytenda. Hins vegar felast fjölmörg tækifæri í að leyfa sölu heimaslátraðra afurða til að efla nýsköpun og vöruþróun landbúnaðarafurða. En við verðum að vita hver áhættan er, hversu mikil hún sé og hvað við getum gert til að lágmarka hana. Áhættumat sem er byggt á vísindalegum greiningum og útreikningum er tól sem veitir opinberum eftirlitsaðilum yfirlit yfir raunverulegar áhættur svo hægt sé að takmarka þær en einnig sveigjanleika til að leyfa bændum að framleiða afurðir í heima á bæ í viðurkenndri aðstöðu sem uppfyllir kröfur um hreinlæti og aðbúnað til matvælaframleiðslu. Áhættumat er því fyrsta skrefið til að sníða kerfi sem leyfir sölu vara og afurða frá heimaslátruðu sem byggir á raunhæfu eftirliti opinberra aðila, rekjanleika ásamt góðri þjálfun bænda til að tryggja gæði og öryggi afurða.

Í dag geta bændur sett upp litlar kjötvinnslur þar sem hægt er að vinna afurðir frá eigin búfénaði, en einn þáttur framleiðslukeðjunnar, þ.e. aflífun dýrana, verður að eiga sér stað í sláturhúsum. Áhugi neytandans á afurðum beint frá býli er sífellt að aukast ásamt því sem viðskipti með matvæli gegnum netið er orðinn veruleiki í dag. Erlendis er mögulegt að kaupa afurðir beint frá býli þar sem öll stig framleiðslunnar eiga sér raunverulega stað á býlinu. Til þess er vissulega nauðsynlegt að efla innviði býlanna til þess að tryggja að framleiðslan sé örugg. Innleiðing áhættumats með skipun áhættumatsnefndar er því löngu tímabært þar sem áhættumat á vegum hennar getur veitt bændum tækifæri til að stunda bein viðskipti með kjöt og kjötafurðir til íslenskra neytenda og ferðamanna beint frá býli, þar sem virðisaukinn og hagnaðurinn af framleiðslunni rennur beint til bóndans milliliðalaust.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn Jörundsdóttir, 858-5112.

Hér er hægt að sjá brot úr upptöku frá fundinum
IS